Bændablaðið - 12.07.2012, Side 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012
Blómlegt æðarvarp á hlaðinu
Sigríður H. Sigurðardóttir,
æðarbóndi í Norðurkoti, við
Sandgerði á Reykjanesi og maður
hennar Páll Þórðarson smiður hafa
nytjað jörðina sem afi hennar og
amma byggðu upp í tólf ár. Þar
er fuglalífið blómlegt allt í kring
og tegundirnar sem sveima um
landareignina eru í tugatali. Hér er
gósenland fiðraðra dýra sem hafa
hér viðkomu á vorin áður en þau
hefja flugið að hausti yfir Norður-
Atlantshafið.
Sigríður er í fullu starfi sem
stuðningsfulltrúi í Grunnskólanum í
Sandgerði en Páll starfar sem smiður
í Reykjavík og því fer mestallur
aukatími þeirra hjóna í vinnu við
æðarvarpið.
„Við bjuggum inni í Keflavík
áður og það þurfti ekki að toga hann
Pál minn hingað, enda hafði hann
verið hér öllum stundum á máva- og
tófuveiðum. Við keyptum af föður
mínum, Sigurði K. Eiríkssyni, sem
hafði nytjað jörðina um árabil en
það voru föðuramma og -afi sem
bjuggu hér upphaflega. Afi kom af
stað æðarvarpinu hér árið 1936 en þá
voru hér nokkrar kollur. Hann fór að
hlúa að þeim og svo urðu fleiri næsta
ár. Síðan jókst þetta alltaf en svo voru
það faðir minn og bróðir sem keyptu
jörðina af ömmu,“ útskýrir Sigríður.
Gott dúntekjuár
Þegar Sigríður var að alast upp bjó
fjölskyldan í Keflavík og síðan
Garðabæ en á sumrin dvöldu þau
í Norðurkoti í gamla húsi ömmu
hennar og afa, þannig að Sigríður
á góðar minningar frá æskuárunum
við æðardúntínslu.
„Ég og bróðir minn unnum við
dúntekjuna þegar við vorum ung-
lingar, svo þetta er orðin góð venja.
Þetta eru á bilinu 25-30 kíló sem
við erum að fá hér árlega af dún og
um 1600-1900 hreiður. Mest hefur
þetta farið í 1980 hreiður hjá okkur.
Lægð var í fyrra og árið þar á undan
en núna er þetta að koma aftur upp,
ætið skiptir miklu máli fyrir afkomu
varpsins. Það var gott æti núna í vor,
enda byrjaði varpið fyrr en oft áður,
þá nær kollan að fita sig upp snemma
en hún sveltir sig meðan hún liggur
á. Þær eru 28 daga á hreiðrinu og
margar koma á sama hreiðrið ár eftir
ár,“ segir Sigríður.
Ungarnir stoppa stutt við í hreiðr-
inu, eða um sólahring. Oft þvælast
ungarnir svo í aðra ungahópa og geta
verið frá einum og upp í 30-40 ungar
með sumum kollunum.
„Við höfum verið með dekk til
að skýla þeim en annars eru þær
mjög hrifnar af því að fara inn í lága
runna. Það tekur okkur tvo daga að
fara rólega en vel yfir allt varpið í
dúntekjunni. Það skiptir miklu máli
að hugsa um fuglana og ég vil meina
að rólegur umgangur hafi bara góð
áhrif. Það spekir þá og gerir þá
þægilegri í umgengni. Við höfum
það fram yfir flesta aðra æðarbændur
að þetta er við dyrnar hjá okkur og
við höfum gott útsýni út úr húsinu
hjá okkur yfir varpið.“
Tófan veldur usla
Tímabil friðlýsingar er frá 15. apríl
til 14. júlí og á þeim tíma er mikil
vinna fólgin í því að vakta landar-
eignina.
„Þetta er ofboðsleg vinna, því við
vöktum hér allan sólarhringinn fyrir
vargnum ásamt eigendum jarðarinnar
við hliðina á okkur, Fuglavík. Það eru
mikil læti í fuglinum þegar vargurinn
nálgast svo það fer ekkert á milli
mála, yfirleitt hópast þeir saman út
á tjörnina hérna hjá okkur og þá fer
Páll minn og pabbi oft með honum,
af stað til að veiða rándýrið. Við
höfum svo þrjá minkahunda til
aðstoðar þegar það á við.
Við erum búin að setja nót
meðfram veginum til að varna því
að refurinn komist í varpið, en enn
er leið fyrir hann niður við fjöruna.
Hann kemur oftast á nóttunni en
lætur líka sjá sig á daginn. Við
vöktum frá því í byrjun maí og
framundir seinnipart júlímánaðar.
Þetta myndi ekki ganga öðruvísi en
með vaktaskiptum og að við séum
hér nokkrir aðilar sem hjálpumst að.
Tófan veldur rosalegum usla og það
er sérstaklega vondur tími þegar hluti
af ungunum er kominn úr eggjum
og aðrir að klekjast út. Þá yfirgefur
kollan oft hreiðrið með þá unga sem
eru tilbúnir en hinir verða eftir og
drepast,“ útskýrir Sigríður.
Vinna við varpið allt árið
„Við höldum áfram þegar friðlýsing-
in er búin, alveg þangað til ungarnir
eru komnir niður í fjöru og orðnir vel
fleygir. Frá því í vor höfum við veitt
ellefu tófur hér í kringum okkur. Við
erum allan veturinn að undirbúa
varpið með því að halda minkunum
niðri en Palli minn er með minkaleit-
ina fyrir bæjarfélagið og er á ferðinni
allt árið með minkahundana. Þannig
að þetta er stöðug vinna og þegar
varpinu sleppir hefjumst við handa
í samstarfi við Suðurlandsskóga að
planta trjám hér á landareigninni,
en síðastliðin sjö ár höfum við
plantað um 600 plöntum á ári og er
þar mest af víðinum sem við setjum
niður,“ segir Sigríður. Aðspurð um
kríugerið sem sveimar allt í kring á
landareigninni og ónæðið af fugl-
inum svarar hún: „Krían er alltaf
að aukast, á kvöldin og nóttunni er
rosalega mikið af henni hér en hún
jókst eftir að við girtum fyrir ofan
með nótinni. En það er svo skrýtið
að það hefur ekki komist upp einn
einasti kríuungi hér í fjögur ár. Hún
verpir hér og ungar út en síðan liggja
ungarnir eins og hráviði um allt og
það stafar líklega af ætisleysi. Það
er ekkert slæmt að hafa kríuna, hún
djöflast í tófunni sem sækir mikið í
egg hennar og lætur okkur vita að
eitthvað sé að.“
Seldur til Japans og Þýskalands
Sigríður og Páll maður hennar senda
mestallan dún frá sér og hafa ekki
framleitt sjálf úr honum vegna tíma-
skorts, nema að óverulegu leyti fyrir
vini og vandamenn.
„Við þurrkum dúninn og
grófhreinsum hann en síðan sendum
við hann til Rúnars í RR Dúnhreinsun
í Borgarnesi, sem fullhreinsar hann.
Fjaðratínsla fer fram í gegnum
hann hjá öðrum aðila í Vogum á
Vatnsleysuströnd. Síðan er dúnninn
seldur út, aðallega til Japans og
Þýskalands,“ segir Sigríður.
„Við byrjum að taka dúninn
þegar útunguninn hefst. Þegar líður
á varpið förum við að hreinsa allan
dúninn úr hreiðrunum og setjum
þurrt hey í staðinn. Það er mikill
dúnn í ár og vegna veðurfars er hann
búinn að vera skraufaþurr og fínn.
Um miðjan júní erum við búin að
taka allan dún inn. Í lok júní geng
ég síðan aftur svæðið til að kanna
hvort eitthvað hafi bæst við. Það
er ekki gott að tína dúninn þegar er
rigning eða mikið rok en við höfum
ekki þurft að taka inn blautan dún
undanfarin ár þar sem tíðarfarið hefur
verið gott hér. Það er mikilvægt að
nýta vel veðrið og þurrkinn. Þannig
er þessu að vissu leyti öfugt farið hjá
okkur en öðrum bændum með það
að við viljum þurrkinn en þeir vilja
bleytu fyrir sprettuna.“
Fimmta kynslóðin í dúntekju
Ljóst er á samtali við Sigríði að hún
hefur mjög gaman af öllum fugla-
tegundunum sem tekið hafa sér ból-
stað í nágrenninu og gefa staðnum
sérstakt yfirbragð. Á hlaðinu setur
hún brauðafganga í hól og eitt sinn
taldi Palli 160 fugla í og við hólinn,
sem virðast líka brauðmolarnir vel.
„Það er svo gaman að þessu þegar
fuglarnir byrja að koma inn á vorin
og oft eru þetta sömu fuglarnir sem
maður þekkir. Ein kollan hér er til
dæmis mjög sniðug en fyrsta árið lá
hún eingöngu á dún og ekkert egg
kom hjá henni, síðan var það sama
næsta ár á eftir hjá henni þannig að
ég setti egg úr öðru hreiðri til hennar
sem klaktist út og hún fór með ung-
ann. Næsta ár á eftir setti ég síðan
þrjú egg hjá henni og það er alltaf
sama sagan, það eru engin egg en
fullt af dún hjá henni þannig að við
grínumst með að þetta sé afbragðs
staðgöngumóðir.
Það er algengt að séu á bilinu 4-6
egg í hverju hreiðri en í ár voru oft
6-8 egg í hreiðri,“ útskýrir Sigríður
og segir jafnframt:
„Það er heilmikill umgangur um
varpið, við göngum hér mikið um
og það hefur góð áhrif á kollurnar,
þessi rólega umferð. Þetta er rosalega
gefandi og skemmtilegt og börnum
finnst sérlega gaman að fá að taka
þátt í þessu með manni. Núna eru
ömmustelpurnar mínar, Sólveig
Hanna og Amelía Björk, sex og níu
ára gamlar farnar að skottast með
mér og þær eru ótrúlega drjúgar og
gott að hafa þær með sér. Þær eru
fimmta kynslóðin hér sem er alin upp
í dúntekjunni svo ætli við höldum
þessu ekki eitthvað áfram, ég reikna
með því.“ /ehg
Ömmustelpurnar Sólveig Hanna og Amelía Björk, sex og níu ára, horfa á
tjaldsunga í hreiðri síðastliðið vor. (Myndir: GHJ, TB og úr einkasafni.)
Eiginmaður Sigríðar, Páll Þórðarson,
starfar sem smiður en mestallur
frítíminn fer í að vakta varpið og að
halda vargnum frá því.
Sigríður Hanna Sigurðardóttir, æðarbóndi í Norðurkoti við Sandgerði, heldur
hér á tveimur efnilegum ungum.
Sigríður sýnir hér Emblu Ísól Ívarsdóttur hvernig bera skuli sig að við dúntekjuna.
Fuglalífið við Norðurkot er mikið og fjölmargar tegundir sem fljúga þar um
þó að æðarfuglinn sé á ákveðnum stalli.