Bændablaðið - 12.07.2012, Side 17

Bændablaðið - 12.07.2012, Side 17
17Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012 Frumvarp um framleiðslu innlendra léttvína fær seint brautargengi Lögbrot sem ekki þykja tiltökumál - Karl Pálsson bruggari óttast ekki að komast í kast við lögin Út um allar jarðir má finna lög- brjóta sem sjá ekkert athugavert við iðju sína. Sumir laumupúkast en aðrir ekki, margir gera sér far um að bjóða gestum og gangandi afrakstur ólöglegs heimilisiðnaðar síns. Hér er átt við öl- og víngerðarfólk sem bruggar veigar fyrir sig og sína. Heiðvirðir borgarar ættu ekki að brjóta lögin en nú til dags virðist heimabruggun almennt ekki vera álitin tiltökumál. Lögreglan eltist ekki við þá sem brugga léttar veigar og enginn klagar þá heldur. Til eru jafnvel þeir sem mæla fyrir breyttum tímum í þessum efnum á hinu háa Alþingi: „Ég held að slík þekking [til vín- gerðar] sé víða til í sveitum landsins og muni verða eftirsóknarverð síðar, þegar fólk þarf ekki að fela fram- leiðsluna á flöskum í efstu hillunum í búrinu í sveitinni. Fólk fengi þar með að sýna sérþekkingu sína og kunn- áttu og bera ljúffeng matarvín á borð með íslenskri villibráð. Ég held að það mundi auka gildi þess sem við kunnum í íslenskri matargerð.“ Þannig hljómuðu lokaorð ræðu sem Guðjón A. Kristjánsson flutti á Alþingi í nóvember 2005, er hann mælti fyrir lagabreytingum sem gerðu Íslendingum heimilt að ,,framleiða án leyfis vín úr inn- lendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.“ Frumvarpinu var vísað til annarrar umræðu og allir fimmtíu þingmenn sem viðstaddir voru atkvæðagreiðsl- una greiddu því atkvæði sitt. Breyttur tíðarandi Frumvarp Guðjóns Arnars var í allt öðrum anda en tilmæli fjármálaráðu- neytisins til viðskiptaráðuneytisins árið 1978 þar sem farið var fram á það bréflega við viðskiptaráðuneytið að sala gersveppa yrði færð í það horf sem hún var í allt fram til ársins 1970, að gersveppir yrðu aftur teknir af frílista og forræði á innflutningi þeirra afhent Áfengis- og tóbaks- verslun ríkisins. Upphaflega höfðu gersveppirnir verið settir á frílistann því gerbakstur brauða varð sífellt algengari. Með því að takmarka sölu á gersveppum vildi ríkið torvelda fólki að brjóta áfengislögin, fyrir utan það að ÁTVR var og er með einkasölu á áfengi og kærði sig ekki um samkeppni heimabruggsins. En breytingin fór ekki í gegn, enda hefði hún hvort eð er ekki bundið enda á ólöglega bruggun og húsmæður hefðu þurft að fara í Ríkið til að nálgast gerið sitt. Tilgangur íslenskra áfengislaga er að vinna gegn misnotkun áfengis, en skilgreiningin á áfengi í lögunum er hver sá vökvi sem hefur meira en 2,25% af hreinum vínanda. Þetta ákvæði veitir verslunum með vín- gerðarefni skálkaskjól og bruggurum yfirvarp. En hvað sem tautar og raul- ar, þá segir skýrt í áfengislögunum að brot við þeim varði sektum eða fangelsi allt að sex árum. Er þetta eitt af hinum frægu „gráu svæðum“ sem fólk talar stundum um? Bændablaðið ákvað að taka hús á einum glæponi og bjórsvelg. Fór að brugga vegna lítils framboðs og dýrtíðar í Ríkinu Karl Pálsson er hálf-íslenskur raf- magnsverkfræðingur sem uppalinn er í Ástralíu. Hann flutti hingað til lands fyrir sjö árum og er nú giftur Katrínu Brynju Valdimarsdóttur. Hann hafði lært að brugga áður en hann kom til landsins en fór ekki að nýta sér það fyrr en hann settist að á Fróni. ,,Þegar ég kom hingað fyrir sjö árum voru ekki til þær bjórtegundir sem mér fannst góðar. Í dag er hinsvegar farið að selja mun betri bjór og úrvalið hefur aukist, en hann er brjálæðislega dýr.“ Eiginkona Karls er ekki sérlega hrifin af bjórnum sem hann bruggar, en að hans sögn er það ekki af því bjórinn sé vondur heldur hafi hann ekki nennt að brugga annan bjór en þann sem fellur að hans eigin smekk. Konunni líki annarskonar bjór. ,,Ég vil helst ekki drekka neitt annað en ,,pale ale“ eða fölöl eins og mætti þýða það. Það öl bragðast dálítið eins og grænn Gæðingur í vínbúðunum.“ Nú er bannað að brugga upp fyrir 2,25% áfengismagn. Finnst Karli ekki óþægilegt að áhugamál hans sé brot á landslögum? ,,Þetta er tæknilega ólöglegt. En ég og aðrir félagar í Fágun, Félagi áhugafólks um gerjun, höfum sent lögreglunni póst og hringt og fengið staðfestingu á því að lögreglan ætli sér ekki að ákæra neinn eða elta uppi þá sem brugga létt áfengi fyrir sig og sína, en þeir segjast munu taka hart á öllum sem eima. Við í Fágun viljum fá þessum lögum breytt svo það verði sannarlega löglegt að brugga. En ég óttast það alls ekki að vera gripinn, ég vil ekki fela neitt. Þegar þú byrjar að fela hlutina byrjar fólk fyrst að halda að þú sért að gera eitthvað annað og vafasamara. Það eru 500 skráðir með- limir á spjallborði Fágunar á netinu, 70 manns tóku þátt í síðustu heima- bruggskeppninni sem var haldin á KEX Hostel í Reykjavík og verðlaun voru veitt fyrir besta bruggið. Þrátt fyrir þetta veit ég ekki um neinn sem hefur komist í kast við lögin.“ Karl segist þó stundum hitta fólk sem átelur hann fyrir að brjóta lögin. Það angrar hann þó ekki mikið, það sem angrar hann meira er mikill fjöldi fólks sem álítur heimabrugg vera eitt- hvað ógeðslegt. ,,Sumir segja: ,,Við brugguðum heima þegar við vorum sextán ára og það var vont.“ Já, segi ég, ef þú kaupir ódýrt „kitt“, setur kíló af sykri, bíður í viku og heldur að þú sért með bjór, þá er það auðvitað bölvað skólp. Til að brugga ljúffengan gæðabjór þarftu gott hráefni, rétt áhöld og mikla kunnáttu og tíma og síðast en ekki síst áhuga.“ En ýtir heimabruggun ekki undir misnotkun áfengis? „Kannski er ekki verra að vera dálítill alki með þetta áhugamál. En ég gæti sennilega unnið þá tíma sem ég nota í bruggunina og keypt mér jafn mikinn bjór fyrir peningana. Það eru örugglega margir alkar sem brugga, en þú verður ekki bruggari af því þú sért alki. Þetta er heilmikil vinna ef þú vilt gott efni. Þú getur búið til vont alkóhól á stuttum tíma, til dæmis gambra úr sykri og vatni. En hann er virkilega vondur á bragðið.“ Karl lætur því lögin, sem ekki er framfylgt, ekki stöðva sig og situr sáttur við ilm úr gullnu glasi. Löndin sem Ísland miðar sig við Í flestum löndum Evrópu er heima- bruggun leyfð svo lengi sem afurðin er ekki seld, en sumsstaðar eru því takmörk sett hve mikið má brugga árlega og sumsstaðar þarf að til- kynna skattayfirvöldum um heim- ilisiðnaðinn. Hið sama má segja um Bandaríkin og Kanada. Á hinum Norðurlöndunum er heimabruggið leyft. Í Noregi, sem er eitt af fáum löndum í heiminum sem skattleggur áfengi álíka hátt og Ísland, eru lög um heimabrugg nokkuð frjálsleg. Þar má brugga ótakmarkað magn heima fyrir svo lengi sem veigarnar eru ekki seldar. En hvað verður þá um hina fögru framtíðarsýn Guðjóns Arnars Kristjánssonar sem hann lýsti er hann mælti fyrir frumvarpi sínu um lögleiðingu heimagerðs víns? Hvað verður um frumvarpið sem hann mælti fjórum sinnum fyrir á fjórum mismunandi löggjafarþingum og var nú síðast samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum? Það veit aðeins Allsherjarnefnd Alþingis. Fjórum sinnum hefur Allsherjarnefnd gleypt frumvarpið með húð og hári, frumvarpið lent inni á borði hjá nefndinni en aldrei snúið aftur til annarrar umræðu. En nú er svo ástatt að eini flutningsmaður frumvarps- ins sem enn situr á þingi er Birkir J. Jónsson í Framsóknarflokki. Ætli honum sé málefnið jafn hugleikið og Guðjóni Arnari? Heimildir: www.althingi.is ‒ 50. mál laga- frumvarp 132. löggjafarþingi & Áfengislög 1998 nr. 75 15. júní Þjóðviljinn, 4. október 1978 http://en.wikipedia.org/wiki/ Homebrewing#Legality http://is.wikipedia.org/wiki/Germálið Myndir og texti: Níels Rúnar Gíslason Karl með suðupottinn sinn og sekk af korni sem hann pantar af brew.is. Öll bjórframleiðslan fer fram í litlu og þröngu eldhúsi, og þarf ekki meira til. Karl með heimabruggið við bjórdæluna sína. Í ísskápnum geymir hann bjórkútana og kolsýruna og getur því alltaf fengið sér ískaldan bjór af krana. Þess má til gamans geta að hitastigi bjórsins í ísskápnum er stjórnað þráðlaust úr heimilistölvunni. STÓÐHESTUR Á LITLALANDI IS1998187140 Ægir frá Litlalandi Litur: Brúnn Ræktendur: Jenný Dagbjört Erlingsdóttir Sveinn Samúel Steinarsson Eigandi: Hrafntinna ehf F.: IS1986186055 Orri frá Þúfu í Landeyjum Ff.: IS1982151001 Otur frá Sauðárkróki Fm.: IS1983284555 Dama frá Þúfu í Landeyjum M.: IS1992287205 Hrafntinna frá Sæfelli Mf.: IS1989188560 Kolskeggur frá Kjarnholtum I Mm.: IS1981287206 Perla frá Hvoli Sköpulag: 8,5 - 8,5 - 9,0 - 9,0 - 8,5 - 8,0 - 9,0 - 9,5 = 8,71 Hæfileikar: 8,5 - 8,5 - 7,5 - 8,0 - 8,5 - 9,0 - 7,5 = 8,37 Aðaleinkunn: 8,51 - Kynbótamat 116 Upplýsingar um notkun gefa: Jenný s. 893-5757 og Sveinn s. 892-1661. Netfang: litlaland@simnet.is

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.