Bændablaðið - 12.07.2012, Qupperneq 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012
Friðjón Hallgrímsson hefur selt bændum málningu í aldarfjórðung:
Reglulegt viðhald og vönduð
vinnubrögð skipta mestu máli
- Grár litur var nær óþekktur fyrir 20 árum
Friðjón Hallgrímsson, sölumaður
hjá Slippfélaginu, hefur starfað
við að selja málningu frá árinu
1986 með stuttu hléi. Hann man
tímana tvenna en um árabil
ferðaðist hann um landið og seldi
bændum málningu. Hann hefur
komið á ótal sveitabæi, mælt
upp byggingar, gefið góð ráð og
selt viðeigandi málningarefni.
Friðjón segir margt hafa breyst
á þessum aldarfjórðungi og mest
muni þar um fólksfækkunina til
sveita. Bændablaðið hitti Friðjón
að máli, ræddi við hann um
málningarframkvæmdir og þáði
nokkur heilræði.
Eru menn þá hættir að nota gömlu
olíumálninguna á járn?
„Það er mjög lítið um það. Við
eigum hana þó til en ráðleggjum frek-
ar vatnsþynnanlega akrýlmálningu.
Akrýlmálningin hefur meiri teygju,
gulnar ekkert, hefur meira litaþol og
hefur flest framyfir olíumálninguna.
En menn þurfa að hafa í huga að það
er engin ryðvörn í málningunni og
þess vegna er nauðsynlegt að grunna
járnfleti. Ef gömul málning er föst á
undirlaginu nægir að nota hana sem
grunn í flestum tilfellum.“
Hvað ráðleggur sölumaðurinn þegar
bændur hyggjast fara í málningar-
framkvæmdir?
„Það veltur á því sem er búið
að gera. Eru húsin ný eða eru
þetta eldri byggingar sem þarf
að mála? Vel þarf að huga að
grunn- og undirbúningsvinnunni.
Nauðsynlegt er að grunna með
terpentínuþynnanlegri málningu ef
fletirnir eru orðnir slitnir til þess að
tryggja viðloðun. Svo er algengast að
menn máli yfir með akrýlmálningu í
dag. Járnþök og járnklæðningar þarf
að ryðverja vel og skafa burtu lausa
málningu. Það borgar sig að grunna
með oxíðmenju og mála svo. Í
kringum 1989 byrjuðum við að bjóða
upp á akrýlmálningu á járnið, sem
hefur skilað alveg framúrskarandi
árangri.“
Hvernig horfir viðhald á sveitabæjum
við sölumanninum?
„Það er mjög misjafnt. Sumir hafa
aldrei haft tíma til að sinna þessu
en aðrir alltaf – ég held að það
hafi ekkert með fjárhag að gera,
eða sáralítið að minnsta kosti. En
það hefur orðið ótrúlega mikil
fólksfækkun í sveitum síðan ég fór
fyrstu sölutúrana. Fyrir 25 árum ók
maður um sveitir þar sem búið var
á hverjum bæ. Nú er varla búskapur
á stórum svæðum en aftur á móti er
algengara en áður að sjá fólk sem
er hluta úr ári á jörðunum. Búseta
kallar að sjálfsögðu á viðhald. Jafnt
og þétt viðhald ásamt vönduðum
vinnubrögðum skiptir mestu máli –
að vera alltaf með eitthvað í gangi.
Ég man eftir því að hafa hitt bændur,
stikað með þeim um hlaðið og mælt
upp útihúsin hjá þeim og loks gefið
þeim tilboð. Þeir komu svo kannski
eftir 2-3 ár þegar þeir voru tilbúnir að
hefja verkið. Ég hef vissulega komið
á bæi þar sem ekkert hefur verið
málað um árabil. Menn eru misjafnir
og það hafa alltaf verið til búskussar,
eins og í öðrum atvinnugreinum.“
Hvað með vinnubrögðin, hafa þau
breyst?
Friðjón segir mjög lítið um að bændur
nýti sér verktaka í málningarvinnu
þó það þekkist vissulega. „Vinnandi
höndum hefur fækkað í sveitum og
stundum kemur maður á bæi þar sem
enginn er heima og fólkið í vinnu
annars staðar. Minni mannskapur
kallar á breytt vinnubrögð en
t.d. er algengara að menn noti
málningarsprautur nú til dags en
málningarrúllur eða kústa. Það er
þekkt að bændur taki sig saman og
kaupi sér málningarsprautu, jafnvel
hafa búnaðarfélög staðið í slíku.
Svo fer saman heyskapartími og
málningartími sem einfaldar hlutina
ekki. Góðar málningarsprautur kosta
um 400 þúsund krónur og það er ekki
vitlaust að leggja í slíka fjárfestingu.
Þær skila mjög fínu verki og eru
vinnusparandi. Það sem menn eru
jafnvel upp undir viku að handmála
með rúllu geta þeir verið 2-3 daga
að sprauta.“
Kostnaður hleypur á
hundruðum þúsunda
Þó svo að Friðjón geri ekki lítið úr
kostnaðinum við málningarvinnu
þá er mikið til í því að jafnt og
reglulegt viðhald er ódýrara þegar
til lengdar lætur. Hins vegar getur
tekið í pyngjuna að mála öll
útihúsin í einum rykk. „Það geta til
dæmis verið um 2000 fermetrar að
mála útihús og aðrar byggingar á
meðalbúi. Þetta er stór flötur og áætla
má efniskostnað í kringum 600-700
þúsund krónur. Þumalfingursreglan
er að lítrinn dugar á 5 fermetra í
tveimur umferðum. Þá þarf um
400 lítra á 2000 fermetra. Hér hjá
Slippfélaginu bjóðum við upp á
sérstakt „bændaverð“ sem á rætur
sínar að rekja til þess tíma þegar
átakið „Fegurri sveitir“ var upp á
sitt besta. Það var mjög fínt verð,
kannski ekki eins lágt og málaraverð
en gott verð engu að síður. Þá máluðu
bændur mjög mikið.“ Friðjón segir
lítið um að bændur taki sig saman
um pantanir en það hafi verið meira
áberandi áður fyrr. „Þá pöntuðu
menn sama litinn og allir bæirnir
voru eins!“
Hefur litavalið breyst undanfarna
áratugi?
„Nei, það hefur ekki breyst mikið.
Algengast er að menn taki rautt,
hvítt, blátt, grænt og svolítið er um
brúnt. Það mætti þó segja að grár litur
hafi sótt mikið á síðustu ár. Hann
var nær óþekktur fyrir um 20 árum.“
Friðjón segir að þó margar
byggingar séu með innbrennt lakk
á járnklæðningum þá dugi það
mislengi. „Það þarf að mála þetta
klæðningaefni eftir um 10-15 ár. Ég
hef séð endingu upp í 20 ár en líka
mjög skamma endingu, 3-4 ár.“
Leita bændur sér ráðgjafar?
„Já, þeir eru duglegir við það og
það var mjög vel þegið þegar maður
var að ferðast um sveitirnar. Það er
ekki hægt að ætlast til þess að menn
fylgist með öllum nýjungum og þá er
um að gera að leita ráða. Við gáfum
út sérstaka málningarhandbók fyrir
bændur sem var þýdd úr sænsku efni.
Heftinu var mjög vel tekið og við
dreifðum því til sveita. Í kjölfarið
bjuggum við til málningarhandbók
heimilanna og málningarhandbók
matvælafyrirtækja.“
Málningarpenslar á lofti í
aðdraganda bæjarhátíða
Aðspurður um hvað þurfi til svo
menn snyrti betur til í kringum sína
bæi og haldi húsakostinum við með
reglulegu viðhaldi telur Friðjón að
fólk þurfi hvatningu. „Gott dæmi um
það eru bæjarhátíðirnar, sem eru um
allt land. Þá drífur fólk í því að mála
og huga að umhverfinu. Allt þetta
hefur áhrif. Þetta sama á við um
sveitirnar, tala nú ekki um ef menn
fá verðlaun sem gefa gott fordæmi
fyrir aðra.“
Bændur eru skilvísir viðskiptavinir!
Að lokum segir Friðjón það hafa
verið ánægjulegt að vera í viðskiptum
við bændur í gegnum tíðina. „Ég get
sagt lesendum til marks um það hvað
bændur eru skilvísir viðskiptavinir að
þegar ég fór um sveitirnar hafði ég
heimild yfirboðara minna til að lofa
öllum bændum lánsviðskiptum. Það
var óþekkt í bænum. Hér var „ sía“
fyrir þá sem komu inn í húsið til að
kaupa málningu og ekki fengu allir
jafn góð greiðslukjör. En ég mátti
fara um sveitirnar og bjóða Pétri og
Páli í lánsviðskipti, enda klikkaði
það aldrei! Það er ennþá svona
í dag að bændur teljast afar góðir
viðskiptamenn – ég veit ekki til þess
að það hafi breyst!“ segir Friðjón
Hallgrímsson. /TB
Undirvinnan
gerir gæfumuninn
Til að ná góðum árangri er
undirvinnan mjög mikilvæg.
Flöturinn þarf að vera hreinn,
þurr og fastur viðkomu til að
viðloðun náist. Steypta fleti er
best að háþrýstiþvo. Þegar um
járn er að ræða er nauðsynlegt
að skrapa allt laust ryð og bursta
með vírbursta en sandblástur er
mjög áhrifaríkur. Við ný steingólf
næst ekki viðloðun nema með
vélslípun eða saltsýruþvotti.
Nokkur almenn heilræði
1. Byrjið aldrei að mála án þess að lesa dósamiðann fyrst.
2. Við val á litum er gott að hafa í huga að skærir litir eru mun við-
kvæmari fyrir sólargeislum en mildir.
3. Við málun á gluggum má ganga út frá því sem vísu að þá þurfi að
grunna. Sérstaklega á þetta við þegar notuð er vatnsþynnanleg akrýl-
málning.
4. Við málun á gömlum, olíumettuðum gólfum getur reynst erfitt að
tryggja viðloðun. Dýrasta málningarkerfið er ekki alltaf trygging fyrir
viðloðun. Besta tryggingin getur verið fólgin í því að hafa samband
við sérfræðinga.
5. Ef málning flagnar af steinveggjum utanhúss er ástæðan oftast raki
í veggjum. Þó geta aðrar ástæður legið til grundvallar en sjaldnast
er málningin sökudólgurinn.
6. Aðstæður geta verið mjög mismunandi. Þess vegna er oft nauðsynlegt
að velja dýrari málningarkerfi utanhúss, t.d. þar sem sjávarseltu gætir.
7. Tvíþátta málning er yfirleitt mun vandmeðfarnari en einþátta. Um
leið og þáttunum (grunnefni og herði) hefur verið hellt saman hefst
hörðnun, sem veldur því að mála þarf úr efninu innan tveggja til
fjögurra tíma frá blöndun. Blandið herði og stofni ætíð mjög vel
saman. Þynnið aldrei tveggja þátta málningu fyrr en eftir fullkomna
blöndun.
Heimild: Málningarhandbók bænda.
Friðjón var áður í bóksölu í sveitum og segir það hafa verið góðan undir-
búning fyrir málningarbransann. „Ég þekkti marga bændur og á að auki
rætur í sveitinni. Ég ferðaðist mikið um Snæfellsnesið, Vesturlandið og
Norðvesturlandið. Einnig fór ég austur í sveitir, mikið í kringum Klaustur og
jafnvel austur í Hornafjörð.“ Myndir: TB