Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 19

Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 19
19Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012 Ragnhildur Sigurðardóttir var verkefnisstjóri Fegurri sveita: „Mikilvægt að horfa á okkar nánasta umhverfi“ Árið 1999 skipaði þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, fimm manna framkvæmdanefnd yfir verkefnið „Fegurri sveitir“. Tilgangurinn var að standa að átaksverkefni um hreinsun á landi og fegrun mannvirkja með áherslu á sveitir landsins. Verkefnið var á vegum landbúnaðarráðuneytisins og tilgangur þess að koma í veg fyrir mengun og slysahættu, auk þess að bæta ásýnd dreifbýlisins og ímynd þess. Mikill meirihluti sveitarfélaga í landinu tók þátt auk fjölmargra félagasamtaka og auðvitað bænda. Ragnhildur Sigurðardóttir, umhverfisfræðingur, kennari og bóndi á Álftavatni, var verkefnisstjóri „Fegurri sveita“. Hún rifjar upp verkefnið sem þótti heppnast vel og varð ýmsum hvatning til að huga að umhverfismálunum. Hvert var markmiðið með verkefninu og hvernig var þátttakan? „Átaksverkefninu Fegurri sveitir var ætlað að bæta ásýnd íslenskra sveita og auka fræðslu um umhverfismál í dreifbýli. Þátttakan var góð, flest sveitarfélög tóku þátt og við náðum með einum eða öðrum hætti til meirihluta bænda og sveitarstjórnarmanna á Íslandi,“ segir Ragnhildur. Hvernig var framkvæmdinni háttað og gekk þetta eins og til var ætlast? „Að verkefninu vann fólk sem veit hvernig það er að búa í sveit. Það var lykillinn að því að ná til bænda. Við vorum að fást við spurningarnar hvað? (er viðfangsefnið/vandamálið sem þarf að vanda sig við að leysa), hvers vegna? (ætti að gera eitthvað í því) og síðast en ekki síst hvernig? (er hægt að bæta ásýnd og koma umhverfismálum í gott horf). Allir voru sammála um að það skipti mestu máli að koma með lausnir. Við buðum fyrst og fremst upp á fræðslu en einnig varð til árangursríkt samstarf sveitarfélaga, stofnana og einkafyrirtækja sem buðu fram vörur og þjónustu á sviði umhverfismála. Verkefnið stóð í þrjú sumur og síðasta sumarið vorum við þrjár sem ferðuðumst um landið og heimsóttum bændur, og/eða héldum fundi eftir því hvað um var beðið.“ Var árangurinn mælanlegur og varðst þú vör við hugarfarsbreytingu? „Verkefnið skilaði árangri og það er mörgum að þakka. Mikil áhersla var t.d. lögð á frágang frárennslis og vatnsbóla. Það sem tókst best var samvinna margra aðila og áherslan á að gera gott betra. Oftast var mjög gaman að vinna að þessu verkefni. Sveitarfélögin voru byrjuð að stækka og stundum skorti skilning á aðstæðum. Hvað þurfa eða vilja bændur? Hvernig á að útbúa járnagám þannig að hann geti tekið við stórum tækjum? Hversu oft þurfa bændur að losna við landbúnaðarplast? Hvernig er hægt að auðvelda söfnun á rafgeymum án þess að hætta skapist fyrir menn eða dýr? Bændur þurftu líka að átta sig á því að þessi þjónusta kostar sveitarfélögin þannig að það er öllum í hag að þeir fjármunir nýtist sem best.“ Mætti að þínu mati endurvekja verkefnið eða er þessum málaflokki nógu vel sinnt af hálfu sveitarfélaga? „Það er misjafnt hversu vel umhverfismálum er sinnt af sveitarfélögum en víðast hvar er þjónustustigið orðið nokkuð gott. Við vitum að það fellur t.d. til járn, plast og timbur í sveitum landsins. Við þurfum að endurvinna sem mest af því. Eins ættu allir bændur að vera með heimajarðgerð í stað þess að lífrænum úrgangi sé ekið langar leiðir til urðunar. Spilliefni þarf að meðhöndla sem slík og áfram má telja. Það er mikilvægt að sveitarstjórnir séu meðvitaðar um þarfir og vilja íbúa í dreifbýli á þessu sviði. Reynslan hefur sýnt að oft þarf ekki að kosta mikið að bæta þjónustuna verulega. Mörg sveitarfélög eru með hreinsunarátak á hverju ári, veita hvatningarverðlaun fyrir heimili og fyrirtæki o.s.frv. Vonandi er dreifbýlið tekið með í þessi verkefni. Það er mikilvægt fyrir okkur öll, hvar sem við búum, að horfa öðru hverju á okkar nánasta umhverfi með gestsaugum; er eitthvað sem betur má fara? (oftast er það svo), hvernig er best að bæta úr því? Svo þarf að forgangsraða tíma og fjármagni.“ Hver er þín skoðun á umgengni og ásýnd sveitanna nú á þessu herrans ári 2012? „Það er gaman að keyra um íslensk- ar sveitir og ég vil gjarnan sjá merki um að búið sé á bæjum. Sums staðar má gera gott betra og við einstaka bú þarf virkilega að taka til. Það er sameiginleg ábyrgð okkar að passa fjöreggið: traust neytenda á íslenskum landbúnaðarafurðum. Til þess að vera traustsins verð þurfum við að vera í fararbroddi í umhverfismálum,“ segir Ragnhildur Sigurðardóttir. /TB Voðmúlastaðir í Austur-Landeyjum: Viðhaldsverkefni eru sjálfsagður hluti af búskapnum Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir og Hlynur Snær Theódórsson búa á Voðmúlastöðum í Landeyjum en þar hefur húsakosti verið haldið vel við í gegnum tíðina. Þau hjónin segja að mikilvægast sé að setja sér markmið og taka ákveðin verkefni fyrir á hverju ári. Til lengri tíma litið segja þau að viðhaldið borgi sig og sé sjálfsagður hluti af búskapnum. Hvernig hafið þið hagað viðhaldi á býlinu? „Við höfum reynt að taka alltaf eitthvað á hverju ári, hvort sem það eru útihús eða girðingar. Í málningarvinnunni höfum við tekið 1-2 hús á hverju sumri en það er mismunandi hvað við gerum mikið. Það eru þök, veggir, gluggar og saman er þetta töluverður flötur. Við höfum unnið þetta sjálf að mestu leyti. Krakkarnir okkar hafa verið heima á sumrin og létt undir í viðhaldsverkum,“ segir Hlynur. Málningarsprautan auðveldar verkin til muna Í fyrra var keypt málningarsprauta að Voðmúlastöðum og hefur hún gjörbylt vinnubrögðunum, að sögn Guðlaugar og Hlyns. „Maður var alltaf svolítið ragur að byrja í málningarvinnunni á vorin, þetta er seinleg vinna og ekki alltaf hlaupið að því að klifra upp á brött þök. Málningarsprautan hefur breytt miklu. Hér áður fyrr voru kannski 2-3 unglingar með pensla og sköfur á lofti í 2-3 vikur á hverju sumri. Nú er ég einn á sprautunni og mála kannski eina umferð á fjósþakið á einni klukkustund,“ segir Hlynur. Hvernig standið þið að málningar­ vinnunni? „Það er nauðsynlegt að þvo fletina vel. Við eigum mjög öfluga vatnsdælu sem rífur alla lausa málningu af. Ef eitthvað er farið að ryðga þarf að skrapa það, bletta í skemmdir og grunna. Ég heilgrunna járnþök með málningarsprautu og set svo tvær umferðir af málningu. Svona er ferlið,“ segir Hlynur. Guðlaug Björk segir að endingin sé þeim mun betri eftir því sem meira er vandað til verka. „Ég myndi segja að eðlileg ending væri 15-20 ár á þeim flötum sem eru háþrýstiþvegnir og málaðir vel. En það á eftir að koma í ljós – við höfum ekki búið svo lengi að við höfum reynslu af því.“ Ódýrara en að skipta um járn Hlynur Snær segir kostnaðinn við málningarvinnuna ráðast af því hvað mikið sé tekið fyrir í einu. „Í fyrra keyptum við málningu fyrir um 300-400 þúsund krónur en það var á vélageymsluna og á hluta af fjósinu.“ Guðlaug bendir á að þetta sé e.t.v. ekki svo mikill kostnaður sé honum deilt niður á 15 ár, sem er endingartími málningarinnar. „Það er mun ódýrara að gera þetta en að þurfa að skipta um járn reglulega, það er alveg klárt,“ segir Guðlaug. Þau hjónin segjast ekki gera nákvæmar áætlanir um viðhald húsanna en að þau viti nokkurn veginn hvað þurfi að gera 1-2 ár fram í tímann. Aðspurð um hvort þau hafi fengið ráðgjöf í viðhaldsverkefnunum segjast þau hafa leitað í reynslubanka eldri kynslóðarinnar á býlinu. „Við tókum við góðu búi á sínum tíma og búum að reynslu foreldra minna, sem sinntu viðhaldinu vel,“ segir Guðlaug Björk að lokum. /TB Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir og Hlynur Snær Theódórsson ásamt dótturinni Sæbjörgu Evu og hundinum Kappa. Það er óneitanlega glæsilegt heim að líta að Voðmúlastöðum, þar sem um- gengnin er til mikillar fyrirmyndar. Mörk á Síðu. Dæmi um bæ sem fellur vel að umhvefinu. Á síðasta ári voru bæjarhúsin máluð í grænleitum lit sem kallast á við byggingarnar á næsta bæ sem er ferðaþjónustubýlið Geirland. Teigur í Eyjafirði. Snyrtimennskan er í hávegum höfð á Teigi í Eyjafjarðarsveit. Ábúendur þar fengu umhverfis- verðlaun Eyjafjarðarsveitar árið 2002.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.