Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012 Á bænum Sandhóli í Meðallandi í Skaftárhreppi er mikið um að vera þessa dagana. Í byggingu er þurrkstöð fyrir korn og repju auk þess sem endurrækt er í fullum gangi. Það er Örn Karlsson á Sandhóli sem reisir þurrkstöðina á sinni landareign en með honum í framkvæmdunum eru feðgarnir á Hunkubökkum, þeir Björgvin Harðarson og Hörður Daði Björgvinsson, ásamt Pálmari Harðarsyni á Grund. Þeir félagar eru með áætlanir um að framleiða repju og korn á u.þ.b. 200 hekturum lands og útbúa m.a. matarolíu til manneldis. Þeir tóku á leigu ríkisjörðina Lágu-Kotey þar sem umfangsmiklar jarðabætur hafa staðið yfir síðustu mánuði. Einnig er hópurinn að prófa sig áfram með aðrar tegundir eins og hafra og hveiti. Uppbyggingin á Sandhóli er talsverð fjárfesting en það sem háir bændunum mest er að ekki er þriggja fasa rafmagn í Meðallandinu sem þeir gagnrýna harðlega. Bændablaðið heimsótti þá Björgvin og Hörð á dögunum, fékk leiðsögn um ræktunina og fræddist um framtíðarplönin í Meðallandinu. Olíujurtir á 20 hekturum Í vor var sáð í um 60 hektara á Sandhóli og í Lágu-Kotey. „Við sáðum repju í tæpa 20 hektara og byggi í 38 hektara auk eins hektara af höfrum. Við horfum til þess að vera með virka skiptiræktun, byrja á repjunni, koma svo með byggið og hafrana á eftir og svo koll af kolli. Síðan ætlum við að prófa vetrarhveiti en því sáum við um miðjan júlí. Svo er bara að bíða og sjá hvernig það kemur út næsta sumar,“ segir Björgvin. En hvernig skyldu olíujurtirnar gera sig í Meðallandinu? „Við höfum prófað okkur áfram síðustu þrjú árin með ýmis yrki af tvíærri og einærri repju og nepju. Tvíæru yrkin virðast ekki gera sig sem skyldi því hér er of blautt því grunnvatnsstaðan er svo há seinnipart vetrar. Við bindum meiri vonir við að vera með einærar plöntur í þessu landi en tvíærar. Hitt er of mikil áhætta. Það er meiri uppskera af tvíæru repjunni en á móti kemur að maður fær uppskeru á hverju ári af þeim einæru þannig að niðurstaðan á að verða svipuð. Við höfum smám saman verið að færa okkur yfir í einæra nepju sem þarf aðeins lengri vaxtartíma en bygg. Einær repja þarf enn lengri vaxtartíma og er því áhættusamari. Í vor sáðum við yrkjunum Juliet, Cordelia og Valo. Í fyrra fengum við 1.200 kg af Valo af hektaranum og vorum bærilega sáttir við það. Norðmenn fá í kringum 1.500 kg af fræi á hektarann en við höfum borið okkur saman við þá og viðað að okkur fróðleik þaðan, m.a. með ferðum til Noregs.“ Repjuræktendur hér á landi halda hópinn og miðla reynslu hver til annars. Búið er að stofna félags- skapinn „Ræktunarfélag Íslands“ sem í er nokkur hópur bænda en Finnbogi Magnússon í Jötunn Vélum er for- maður félagsins. 9 km af nýjum skurðum Nýtt land var brotið í landi Lágu- Koteyjar í fyrrahaust og í vor. Þar var grafið ofan í gamla skurði, land jafnað og nýir skurðir upp á eina 9 km grafnir undir leiðsögn Kristjáns Bj. Jónssonar, ráðunauts hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Alls eru 50 metrar á milli skurða og spildurnar eru um kílómeters langar. Spildurnar eru 11 talsins og áætlanir eru uppi um að brjóta meira land á næstunni. „Við byrjuðum jarðvinnu 10. mars í vetur og vorum búnir að sá í alla akra 26. apríl. En það sem gildir í þessu er að koma fræinu ofan í jörðina sem fyrst og treysta svo á hitann,“ segir Björgvin. Þurfum að framleiða meiri mat Á næsta ári er ætlunin að vera komnir yfir 100 hektara af ökrum en hópurinn stefnir að því að vera kominn í u.þ.b. 200 hektara ræktun á næstu árum. „Við tökum eitt ár í einu,“ segir Hörður Daði. „Hérna í Meðallandinu eru möguleikarnir alveg óþrjótandi. Það er alveg sama í hvaða átt þú lítur, það er allt slétt og 50 hektarar eru eins og lítið frímerki! Það þarf að framleiða meiri mat. Ræktunarland er af skornum skammti í heiminum og fólki er að fjölga. Hlýnun jarðar gerir það líka að verkum að ræktunarbært land liggur norðar en áður var,“ segir Björgvin. 450 tonna korngeymsla Í þurrkstöðinni, sem verður fullkláruð í haust, verður geymsluaðstaða fyrir um 450 tonn af þurrkaðri uppskeru. Byggingin er rúmlega 300 fermetrar að grunnfleti og tækjabúnaður verður að mestu sjálfvirkur. Repjufræið og byggið verður geymt í 21 nýjum gámum sem er raðað í kringum verksmiðjuna. Bygging þurrkstövarinnar er í höndum RR-tréverks á Klaustri. Matvælastofnun hefur verið bændunum innan handar en afar ströng skilyrði eru sett þar sem framleiða á vörur til manneldis. Þurrkarinn verður keyrður á dísilrafstöð en því miður er ekki þriggja fasa rafmagn í sveitinni þar sem þessi mikla ræktun er í burðarliðnum. „Það er náttúrlega ekkert í lagi að hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni. Þetta er svo úrelt þetta kerfi sem við búum við hérna, út frá öryggissjónarmiðum er þetta ekki heldur boðlegt,“ segir Björgvin. Olíupressun og átöppun Ekki eru áætlanir um að hafa olíupressunina í Meðallandi, kemur þar tvennt til. „Í fyrsta lagi þá þurfum við að hafa mannskap í það og í öðru lagi þurfum við þriggja fasa rafmagn sem vantar í Meðallandið. Kannski verður pressun sett upp á Klaustri,“ segir Björgvin. Búnaður til olíupressunar er ekki ýkja flókinn að sögn þeirra feðga en átöppun yrði væntanlega á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum harðir á því að koma þessari vöru okkar til neytenda sem fyrst – vonandi verður eitthvað á boðstólum næsta vetur!“ /TB Nákvæmt ræktunarbókhald tryggir rekjanleika vörunnar. Allt er fært í í stílabók og svo inn í tölvu. Þriggja fasa rafmagn er ekki í boði í Meðallandinu sem er bagalegt. Verksmiðjan verður keyrð á dísilrafstöð sem hefur umtalsverðan kostnað í för með sér. Þeir eru stórir repjuakrarnir sem eru þessa dagana í fullum blóma. Hér eru feðgarnir Hörður Daði og Björgvin við einæra yrkið Juliet sem sáð var snemma í vor. Á Sandhóli var gömlum fjárhúsum breytt í vélaskemmu. Hurðin er af stærri gerðinni og eins gott að hafa rafmagnshurðaopnara! Nýir skurðir og spildur sem eru 50 m á breidd og rúmlega kílómetra langar. Repjufræ frá því í fyrra. Tvíæra repjan gerði sig ekki nógu vel vegna bleytu en þarna er þónokkuð óþroskað fræ saman við. Meðalland í Skaftárhreppi - Repja, bygg, hafrar og hveiti framleitt til manneldis Stórfelld ræktun og þurrkstöð í byggingu Fræin á repjunni eru á stönglum sem verða ámóta langir og litlifingur. Það er hlutfallslega mikið fræmagn á hverri plöntu því stönglarnir ná niður allan stilkinn.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.