Bændablaðið - 12.07.2012, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012
Sigríður Klingenberg, rithöfundur,
skemmtikraftur, fyrirlesari og spákona
Hvar varstu í sveit og hvenær?
Ég ólst upp í Akurholti í Eyjahreppi
á Snæfellsnesi en flutti svo til
Hafnarfjarðar 11 ára gömul. Sumarið
eftir, sem hefur verið 1972, var ég svo
send í sveit að Bjargi í Borgarfirði.
Ég var þá tólf ára.
Ábúendur og tegund bús?
Aðalheiður og Jón hétu ábúendur
þess tíma á Bjargi sem var burstabær
úr steini. Búskapur var svona sitt
lítið af hverju. Í dag býr barnabarn
þeirra hjóna, Heiður Hörn, ásamt
sinni fjölskyldu á Bjargi og rekur
þar ferðaþjónustu.
Hvað var skemmtilegast?
Það sem mér fannst skemmti-
legast við dvölina var að ég þekkti
svo marga í Borgarnesi og þangað
var stutt að fara svo ég gat farið
fótgangandi. Sömuleiðis var alltaf
gestkvæmt á Bjargi og því líf og
fjör. Mörg bernskubrekin framdi ég
á Bjargi, meðal annars byrjaði ég að
fikta við að reykja þar en sem betur
fer hætti ég því nú.
Hvað var erfiðast?
Í sjálfu sér var ekkert erfitt við
dvölina en auðvitað nennti ég ekki
alltaf að gera alla þá hluti sem mér
var úthlutað að gera. Það var alveg
makalaust að þegar ég nennti ekki
að vinna einhver verk sem frúin bað
mig um faldi ég mig stundum, en
alltaf skyldi frú Aðalheiður finna
mig. „Hvað ertu að gera hérna,“
hrópaði hún þá yfirleitt, afar hátt.
Ég hins vegar svaraði ofurlágt: „Ég
er bara að tala við guð, Aðalheiður
mín.“ Þá klappaði hún mér á kollinn
og gaf mér eitthvað gott. Jafnvel
fór svo að ég þurfti ekki að vinna
verkin.
Hvaða verk voru á þinni könnu?
Það voru ýmis verk sem unnin eru
á flestum bæjum og heimilum. Auk
þess var mér úthlutað að vitja um net
í Hvítá rétt við ósa hennar.
Geturðu nefnt eftirminnileg atvik?
Já, af því ég minntist hér að ofan á að
ég hefði verið látin vitja netanna, þá er
ein saga því tengd. Það var auðvitað
mikil búbót fyrir ábúendur á Bjargi að
fá lax í soðið. Hins vegar var kannski
ekki vænlegt til árangurs að láta mig
vitja um netin. Ég nefnilega gat með
engu móti horft í augun á löxunum
og drepið þá þegar ég hafði vitjað
netanna. Mér fannst sem þeir segðu
við mig, „Sigga, ég á konu og börn út
í sjó. Gerðu það, slepptu mér.“ Hjónin
skildu ekkert í að aflinn, sem fram til
þessa hafði verið með besta móti öll
sumur, skyldi enginn vera. Það var
svo þegar nokkuð var liðið á sumar
að Hafsteinn Björnsson miðill kom
í heimsókn en hann var kær vinur
hjónanna. Það var heitið á Hafstein
að ef það kæmi nú lax í netin skyldi
hann njóta góðs af. Daginn eftir voru
allir svo forvitnir að allir heimamenn
fóru til að vitja netanna. Þá voru í
þeim sjö vænir laxar og í sveitinni
var þetta kallað kraftaverkið mikla.
Ég hef ekki fyrir mitt litla líf þorað
að segja frá þessu fyrr en nú. Nú
eru gömlu hjónin farin til himna og
vonandi búin að fyrirgefa mér þessi
bernskubrek.
Skildi dvölin í sveitinni eitthvað sér-
stakt eftir sig?
Dvölin í sveitinni skildi eftir sig
góðar minningar um skemmtilegt
fólk og fallegan stað. Mér þykir mjög
vænt um þessa dvöl.
LesendabásSend í sveit
Bjarg í Borgarfirði.
Sigríður Klingenberg
Hestar í vegköntum
Í síðasta mánuði fóru fjórir mexíkóskir
ferðamenn hringinn í kringum landið
á íslenskum leigumótorhjólum ásamt
undirrituðum sem leiðsögumanni.
Þeir báðu um að ekið yrði sem mest
á malarvegum í gegnum sveitir
landsins, ef það lengdi ekki mikið
ferðina (skiljanleg ósk enda íslenskar
sveitir almennt fallegar). Þegar við
ókum í gegnum eina sveitina sáum við
að við nokkra sveitabæi var hestum
beitt í vegkantinn, en girðingin
sem átti að halda hrossunum frá
því að fara upp á veginn var oftast
einn rafmagnsstrengur. Þrátt fyrir
að hjólin væru hljóðlát og allir
læddust varlega fram hjá hestunum,
þá gerðist það þegar síðasta hjólið
ók hjá einum bænum að tveir hestar
tóku sig út úr stóðinu og ruku á
eftir hjólinu og allt stóðið á eftir.
Mexíkóski ferðamaðurinn varð að
vonum hræddur, gaf í til að forða
sér og stoppaði ekki fyrr en hann
var kominn fram hjá mér, en þá
steig ég af hjólinu, rak hestana til
baka og beið eftir heimilisfólkinu
sem kom til að sækja hesta sína.
Svona vegkantabeit var á nokkrum
stöðum í fleiri en einni sveit í þessari
ferð og eina sem hélt þeim frá
veginum var oftast grannur hvítur
spotti (rafmagnsstrengur). Í samtali
við bóndann þar sem hestarnir
fældust hjólin sagði hann að þetta
væri gert til að losna við grasið í
vegköntunum, því Vegagerðin slái
ekki vegkantana eins og að hann telji
að þeir eigi að gera. Sé ekki slegið
með sláttuvél eða beitt með hestum
myndist oft skaflar á veturna, sem
geri veginn illfæran og þetta sé hans
leið til að losna við að snjór safnist
á veginn. Ólafur R. Dýrmundsson
hjá Bændasamtökunum telur að
Vegagerðin ætti að sjá um að slá
vegkanta þar sem þess er þörf og sé
vegurinn girtur af á báða vegu eigi
engar skepnur að vera þar á milli,
vegsvæðið sé land Vegagerðarinnar.
Einnig var þetta borið undir Elías
Blöndal Guðjónsson, lögfræðing
Bændasamtakanna, og vildi hann
beina þeim tilmælum til bænda að
athuga tryggingastöðu sína vegna
skaðabótaskyldu sem gæti hlotist
af vegkantabeit. Hins vegar er það
alltaf spurning hver á að vara við
hættum en auðvitað verða allir að
hjálpast að til að hægt sé að koma í
veg fyrir slys.
Hjörtur L. Jónsson
Sundlaugin að Borg í Grímsnes-
og Grafningshreppi var tekin
í notkun árið 2007 og er því
nýleg viðbót við sundlaugaflóru
Suðurlands. Laugin er hefð-
bundin útilaug en auk hennar
eru vaðlaug, heitur pottur,
nuddpottur, rennibraut og
gufubað á staðnum.
Laugin er virkilega barnvæn og
skemmtileg fyrir alla fjölskylduna.
Gríðarleg aðsókn hefur verið í
laugina en á síðasta ári voru gestir
40.821 talsins.
Fram til 26. ágúst er laugin
opin frá tíu á morgnana til tíu á
kvöldin á virkum dögum en frá tíu
til níu um helgar. Frekari upplýs-
ingar má fá í síma 486-4402 eða
á netfanginu sundlaug@gogg.is.
Laugar landsins
Sundlaugin að Borg í Grímsnesi
Ráð til að koma plöntum á legg í grösugu landi:
Jarðvinnsla, eitrun og bæling best
Góð ráð til að koma plöntum á legg
í grösugu landi eru jarðvinnsla
með herfi og eitrun. Nú stendur
yfir tilraun í reit á bænum Saurbæ
í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu
þar sem verið er að kanna hvaða
ráð gagnist best við að koma upp
trjáplöntum í grasgefnu landi.
Skógrækt er í Saurbæ og þar var
á árinu 2009 plantað í tilraunareit til
að kanna hvernig koma megi upp
trjáplöntum í grösugu landi, en birki,
ösp og sitkagreni var plantað í þannig
landsvæði. Að því er fram kemur á
heimasíðu Norðurlandsskóga voru
reyndar níu mismunandi meðferðir
reyndar, m.a. mismunandi tilbrigði
með TTS-herfingu, eiturnotkun og
bælingu. Búist er við að lokaniður-
stöður úr tilrauninni fáist að liðnum
fimm árum frá gróðursetningu eða
árið 2014.
Tilraunin hefur verið mæld á
hverju ári og nú þegar eru komnar
fram vísbendingar um hvaða ráðum
má beita til að koma plöntum á legg
í grösugu landi. Í stuttu máli virðist
sem jarðvinnsla með TTS-herfi
ásamt því að eitra með Roundup
gefi góða raun. Einnig virðist sem
tilraunarliður þar sem var jarðunnið
og gras svo bælt frá plöntum einu
sinni á sumri fyrstu þrjú árin skili
líka góðum árangri.
Mismikil lifun eftir aðgerðum
Lifun í tilraunarlið þar sem plantað
var beint í grasið án allra aðgerða er
áberandi verst. Þar er lifun komin
niður í 50% og á trúlega enn eftir
að versna þar sem plöntur eru að
kafna í grasi. Í meðferðarliðum
þar sem jarðvinnslu ásamt eitrun
eða bælingu var beitt er lifun um
90%. Verður fróðlegt að sjá hvað
gerist á næstu tveimur árum því nú
má heita að landið sé orðið algróið
aftur með grasi og spurning hvort
trjáplönturnar eru orðnar svo kröft-
ugar að þær lendi ekki undir grasinu
og drepist.
Mynd tekin að hausti 2009. Hér sjást skilin milli eitraða svæðisins og hins
óeitraða vel. Sigrún Grímsdóttir skógarbóndi eitrar yfir sitkagreni í grasinu.
Þessi mynd er tekin haustið 2011. Hér er horft yfir svæði sem var eitrað, en
það var orðið algróið þremur árum eftir eitrun.