Bændablaðið - 12.07.2012, Síða 29

Bændablaðið - 12.07.2012, Síða 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 2012 Lesendabás Grisjun skóga eykst ár frá ári Grisjun og sala á timburafurðum íslenskra skóga hefur þróast ört undanfarin misserí. Vel á annan tug manna hér á landi hefur skógarhögg sem sitt aðalstarf og margir tugir í viðbót vinna við grisjun hluta úr ári. Í skógum sem náð hafa nægum þroska stendur sala afurða undir grisjunarkostnaði og grisjun betri reita skilar hagnaði til skógareigandans. Af sögulegum ástæðum er Skógrækt ríkisins leiðandi í þess- ari þróun. Hún var fyrst aðila hér á landi til að gróðursetja í stór svæði á tiltölulega skömmum tíma auk þess sem hún hefur yfir að ráða einu náttúrlegu birkiskógunum sem nýttir eru til timburframleiðslu. Skógræktarfélög hófu gróðursetn- ingu um svipað leyti og Skógræktin (um 1950), en oftast með minni hraða og því eru eldri skógar þeirra minni um sig. Þau eiga hins vegar meira af yngri skógum og skógarbændur eiga mest af yngstu skógunum. Síðastliðinn vetur var hjá Skógrækt ríkisins mest grisjað af sitkagreni og stafafuru í Þjórsárdal, Haukadal, Þingvöllum, Stálpastöðum og Hvammi í Skorradal. Mest var grisjað af lerki á Hallormsstað, en einnig í Vaglaskógi. Hvítgreni var grisjað á Hallormsstað og alaska- ösp á Tumastöðum. Birki var fellt í Vaglaskógi, Þórðarstaðaskógi og Hallormsstaðaskógi eins og verið hefur í rúma öld. Rjóðurfelling lerkireitar á Hallormsstað Sérstöðu hafði rjóðurfelling lerkireitar á Hallormsstað sem aðeins var um fimmtíu ára gamall. Um var að ræða lélegt kvæmi af síberíulerki sem óx hægt og hefði ekki skilað verðmætu timbri þótt trén hefðu fengið að vaxa lengur. Í slíkum tilfellum er betra að stytta lotuna, nýta viðinn í lífmassa og endurnýja skóginn. Í vor var lindifura svo gróðursett í rjóðurfellda svæðið, en talsvert var fyrir af reyniviði undir lerkinu. Skógarþröstum þykir gott að nota lundi barrtrjáa sem náttstaði á haustin og því finnst oft mikið af reyniviðarplöntum í skógarbotninum, sem taka síðan að vaxa þegar skógurinn er grisjaður eða felldur. Upp mun því vaxa blandskógur af reyniviði og lindifuru í stað lerkisins. Mikil eftirspurn eftir kurli Á Íslandi sem annarsstaðar í heiminum er langmest eftirspurn eftir viði í formi kurls, hefilspóna eða annarskonar hakks sem almennt gengur undir nafninu lífmassi. Megnið af grisjunarviðnum mun nýtast ýmist sem undirburður undir búpening, orkugjafi til húshitunar eða kolefnisgjafi í málmiðnaði. Af öðrum afurðum má nefna arinvið, fiskihjallaspírur, girðingarstaura og borð og planka. Þegar þetta er skrifað er t.d. verið að fletta stóra planka úr sitkagreni frá Stálpastaðaskógi í nýja göngubrú á Þingvöllum. Nú er svo komið að umtalsverðar timburnytjar eru af ræktuðum skógum á Íslandi. Árlega nemur sala afurða um 100 milljónum króna, með tilheyrandi atvinnusköpun og gjaldeyrissparnaði. Á næstu árum og áratugum eykst grisjun í skógum skógræktarfélaga og skógarbænda og lokafelling og endurnýjun skóga kemur til í auknum mæli í þjóðskógunum. Framtíð íslenskrar skógræktar er björt en hlutirnir gerast ekki af sjálfum sér. Þróa þarf áfram umhirðu og nýtingu skóga og úrvinnslu og markaðssetningu afurða. Umfram allt þarf íslenska skógarauðlindin að halda áfram að stækka því magn timburs er ein helsta forsenda fyrir skilvirkni í vinnu í skógi og úrvinnslu afurða. Árleg gróðursetning er nú aðeins helmingur þess sem var fyrir hrun. Hana verður að auka á ný og sem fyrst. Framleiðslumiklir skógar eru meðal þess besta sem núlifandi Íslendingar geta gefið komandi kynslóðum. Þröstur Eysteinsson sviðsstjóri Þjóðskóganna Skógrækt ríkisins Skógrækt og landgræðsla styðja við hefðbundinn búskap Eitt af markmiðum landshluta- bundnu skógræktarverkefnanna er að stuðla að landbótum. Með landbótaskógrækt er átt við „rækt- un skógar á illa förnu eða eyddu landi með það að meginmark- miði að auka gróðurþekju, bæta jarðveg og vatnsbúskap og auka þannig gildi landsins til margvís- legra nytja“ (Lög um landshluta- bundin skógræktarverkefni 2006 nr. 95). Beitarskógrækt er gott dæmi um hvernig þessu markmiði er náð. Með gróðursetningu rússalerkis er hægt að breyta snauðum, uppblásnum melum í gróskumikið beitiland á 20-30 árum. Það sanna dæmin hjá sauðfjár- og skógarbændum víða um land. Lerkið fellir barrið á haustin og til fellur lífrænt efni sem hjálpar til við að græða melana. Skjólið eykst einnig með trjánum ásamt því að tímabundin friðun hjálpar til. Skógurinn er ekki orðinn hávaxinn þegar hann fer að safna í sig meiri snjó, sem stuðlar að betri vatnsbú- skap á þurrum melum lengra fram á vorið og sumarið og skapar þannig fljótlega betri skilyrði til þess að mynda grasi vaxinn skógarbotn. Móar geta einnig gefið meira af sér til beitar ef stuðlað er að útbreiðslu birkis í þeim. Þegar birkið kemur inn í móana verða þeir skjólmeiri og frjósamari og botngróðurinn í þeim breytist. Blágresi og grastegundir verða ríkjandi og beitargróður eykst. Botngróður í skógum er líka fyrri til á vorin vegna skjólsins. Það reyndu bændur í N-Þingeyjarsýslu snjóa- vorið 2011, en þá kom sér vel að hafa birkiskóginn til beitar fyrir lambfé, auk þess sem féð naut skjólsins af skóginum í hretum. Beitarskógrækt hefur fylgt Norðurlandsskógum frá upphafi og er stækkandi hluti skógræktar innan verkefnisins vegna frumkvæðis bænda. Sú þörf er m.a. sprottin af því að með uppgræðslu verður land betur fallið til skógræktar. Það gleymist nefnilega oft í umræðunni um beitarálag vegna sauðfjár hve bændur á Íslandi eru duglegir að hlúa að landi sínu. Það sýna tölur frá Landgræðslu ríkisins um þátttöku í verkefninu Bændur græða landið (BGL). Alls voru 656 bændur skráðir í verkefnið sumarið 2011. Samtals dreifðu þessir aðilar um 1160 tonnum af tilbúnum áburði á síðastliðnu ári og um 8,5 tonnum af fræi. Gróðurhulan sem myndast við uppgræðsluna stuðlar að bættum vatnsbúskap en dregur líka úr frosthreyfingum í jarðvegi, sem er hagstætt ungum gróðursettum eða sjálfsánum trjáplöntum. Þessi gróðurhula getur þó verið viðkvæm fyrir þurrki og beit og því að dregið sé úr áburðarnotkun á hana. Með því að koma trjágróðri af stað í uppgræddu landi er stuðlað að meira flæði næringarefna inn á svæðið með lauffalli sem leiðir af sér aukna grósku og bættan vatnsbúskap. Allt þetta hjálpar til við að gera uppgræðsluna varanlega og sjálfbæra. BGL hefur verið í gangi í 22 ár eða síðan 1990. Sumarið 2011 var búið að kortleggja 85% lands innan verkefnisins, sem voru þá alls um 26.000 ha. Ljóst er að þessi vinna skilar af sér víðfeðmum svæðum sem gefa tækifæri til enn frekari gróðurframvindu með skógrækt. Með tímanum skilar skógræktin af sér uppskerumeira beitilandi ásamt hraðari endurheimt birkiskóga auk nytjaskógræktar með öðrum tegund- um. Þannig geta aukin skógrækt og landgræðsla stutt við hefðbundinn búskap og stuðlað að frekari sjálf- bærni gróðurlendna, jarðvegsvernd, uppbyggingu auðlindar til viðarnytja og kolefnisbindingar. Höf: Rakel J. Jónsdóttir, skógfræðingur, Norðurlandsskógum Rússalerkið hefur undraverða hæfileika til að vaxa og dafna í þurru og rýru landi. Með tímanum myndast hér grasivaxinn skógarbotn. Skógarbotn í 50 ára gömlum lerkiskógi.Birkiskógarbotn, Daðastaðir í N-Þingeyjarsýslu.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.