Fréttablaðið - 15.03.2012, Side 47
FIMMTUDAGUR 15. mars 2012 35
Dans ★★★ ★★
Discomfort in comfort
Dansflokkurinn Spírall
Sýnt í Norðurpólnum 8. - 10. mars
Það er kærkomin tilbreyting fyrir dansgagnrýnanda að fá að sjá
þrjár danssýningar á rétt rúmum mánuði því venjulega líða mánuðir
á milli sýninga. Ánægjan verður ekki minni þegar í boði eru þrjár
áhugaverðar en mjög ólíkar sýningar. Íslenski dansflokkurinn reið á
vaðið með Mínus 16, kröftugu dansverki þar sem dansinn var í fyrir-
rúmi. Hreyfiþróunarsamsteypan var næst með beinskeytt dansleik-
hús og nú síðast sýndi dansflokkurinn Spírall verk sem minnti ekki
síður á myndlist á hreyfingu heldur en dans.
Verkið Discomfort in Comfort eftir Karen Eide Bøen er sýnt í
Norðurpólnum í einhverju bakrými. Áhorfendur eru leiddir út um
hliðardyr á miðsalnum, út í snjómugguna og aftur inn í rými þar sem
búið var að koma fyrir áhorfendapöllum og dansgólfi. Það var kalt
í salnum og gagnrýnandinn þakkaði fyrir að vera í lopapeysunni.
Sviðið var afmarkað af þrem veggjum sem hafa einhvern tímann
verið hvítir en voru nú snjáðir og þaktir rauðum og bláum málningar-
slettum. Þrettán dansarar stóðu dreift um gólfið í mismunandi
stellingum, allir í marglitum og glaðlegum búningum.
Smám saman fór myndin á sviðinu að lifna við með litlum
hreyfingum hér og þar. Þegar lengra leið á verkið bættust kröftug
hlaup inn í kóreógrafíuna sem enduðu í áhrifamiklum myndum
sköpuðum af hópnum sem heild. Allt sem gerðist á sviðinu krafðist
þeirrar líkamlegu nákvæmni sem aðeins vel þjálfaðir dansarar
geta sýnt í hreyfingu en það reyndi minna á líkamlegan styrk og
snerpu. Framvinda verksins var hæg en skemmtileg, sérstaklega
þegar líða tók á. Einsleit hljóðmynd verksins undirstrikaði hlutlausa
stemningu sem birtist einnig í svipbrigðalausum andlitum dansar-
anna. Nöfn Cunninghams og Cage flögruðu um hugann þegar fylgst
var með öllu því smáa sem gerðist víðsvegar um sviðið. Í síðasta
hluta sýningarinnar varð nokkur breyting á anda verksins, tónlistin
varð ljóðrænni og taktfastari og andlit dansaranna létu í ljós örlitla
tjáningu. Heildin var samt skýr; verkið rann frá upphafi til enda,
hægt en örugglega.
Dansflokkurinn Spírall er mitt á milli þess að vera atvinnu- og
amatör-flokkur. Hann er hugsaður sem „platform“ fyrir þá dansara
sem eru að klára framhaldsskólanám í dansi og eru að ákveða
hvert skal halda. Hann gefur einnig þeim sem hafa grunnmenntun
í dansi og langar að halda áfram að dansa þó að þeir hafi ákveðið
að velja sér annan atvinnuvettvang tækifæri til að halda sig innan
listarinnar.
Flokkur eins og Spírall er mjög mikilvægur hluti af íslenskri
dansflóru því innan hans fá ungir dansarar að spreyta sig á dans-
verkefni undir handleiðslu atvinnu-danshöfundar. Sýningin á
fimmtudaginn sýndi að það eru margir efnilegir dansarar að
útskrifast með framhaldsskólamenntun í dansi og það verður
spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni. Sesselja G. Magnúsdóttir
Niðurstaða: Sýningin bauð upp á sjónræna upplifun í anda abstraktlistar
nema að listaverkið var á hreyfingu.
Mynd á hreyfingu