Verktækni - 01.06.2012, Síða 7
VERKTÆKNI / 7
allar plötur og innveggir sem ná út fyrir
einangrunina kuldabrýr. Mjög oft fundum
við myglu tengda þessum kuldabrúm, til
dæmis dökka bletti upp í hornunum við
útveggina.
Það lá því hjá þeim sem teikna og ákveða
legu einangrunar að laga þetta vandamál
og að hluta var það gert en það var engan
veginn algilt og enn í dag er byggt mikið af
steyptum húsum með einangrunina innan
á veggjunum. Það er til mikið af húsum þar
sem engin sýnileg vandamál eru til staðar
en það breytir því ekki að kerfislægir gallar
eru alltof tíðir.
Ég veit um ný hús sem eru steypt,
einangruð að innan með steinull,
rakavarnarlag er þar fyrir innan og engar
lagnir sem rjúfa rakavörnina. Hvað er
þá að. Jú, kuldabrúin er enn til staðar og
þvingunarkraftarnir raunar líka. Mörg
húsanna hafa gólfhita og útloftun virðist
ekki vera eins sterk þar eins og þegar ofnar
eru undir gluggum. Nútíma íbúðir eru svo
með opnum eldhúsum svo þessar íbúðir ná
aldrei rakastiginu niður í það horf sem þarf
til að verjast vandamálum. Þessi hús eru
með bullandi móðu á gluggum og myglu í
öllum hornum.
Sérfræðingar í glerkerfum og fúguþétt-
ingum vita að það er algjör nauðsyn að
hafa tvöfalda þéttingu gegn slagregni:
Regnvörn-loftbil-þétting. Allt annað
bilar. Þetta er orðið hefðbundið í nútíma
gluggakerfum og fúgum og það sem betra
er, þetta hefur verið svona í bárujárns-
klæddum timburhúsum frá upphafi. En
steypti útveggurinn einangraður að innan
fer á skjön við þessa vitneskju.
Þeir sem selja rakatæki mæla með
rakastigi 40-60% og sama gera margir
læknar. Það er mjög líklegt að þar skapist
vítahringur. Fólki verður ráðlagt að hækka
rakastig inni vegna ertingar í öndunar-
færum. Húsin sem eru einangruð að innan
eru engan veginn hönnuð fyrir það og það
fellur út raki sem myndar gróðrarstíu fyrir
myglu og aðra sveppi sem margir eru við-
kvæmir fyrir.
Á síðasta áratug síðustu aldar var gerður
nýr staðall og krafa sett í byggingarreglu-
gerð um aukna hljóðeinangrun, m.a. milli
hæða í fjölbýlishúsum. Það kemur síðan
í ljós að hús sem eru steypt og einangruð
að innan með plasteinangrun og pússuð
geta ekki uppfyllt reglugerðina. Hver sem
teiknar slík hús brýtur reglugerð og bakar
sér skaðabótaskyldu.
Þetta fór þó ekki hátt og það var ekki
blásið í lúðra þegar þetta ákvæði var sett í
reglugerð. Meiri hluti hönnuða hefur ekki
hugmynd um þetta og þegar ég skrifaði
umhverfisráðuneytinu bréf um málið fór
það beint í skúffu gleymskunnar á þeim
bæ og liggur þar ásamt öllum bréfum sem
ég hef skrifað því ágæta ráðuneyti um
reglugerðarmál.
Ég tel að þeir sem teikna steypt hús
einangruð að innan geti átt á hættu að
lenda í miklum vandræðum fyrir rétti í
náinni framtíð því lögmenn og dómarar
túlka reglugerðina strangt og frávik frá
henni og stöðlum, sem í henni eru nefndir,
eru túlkuð sem lagabrot og þá dugar ekki
að segja eins og fjármálamennirnir, „En
það gera þetta allir og þetta hefur ekki verið
bannað“.
Menn geta spurt sig hvort hönnuðir
muni ekki bráðum skilja að hefðbundinn
steyptur útveggur einangraður að innan sé
hættuspil. Ég er vondaufur um það. Menn
hafa þegar fengið frest í hundrað ár.
Ég tel það sé kominn tími til að taka á
vandanum á öllum vígstöðum svo við séum
undir það búin að farið verði að byggja hús
á Íslandi aftur.
Dr. Ríkharður Kristjánsson, sviðsstjóri tækni og
þróunarsviðs ÍAV.