Bændablaðið - 19.09.2013, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 19.09.2013, Blaðsíða 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 19. september 2013 Bækur Hemmi Gunn í viðtali sem Hallgrímur Sveinsson tók við hann á ættarslóðum: Var gjörsamlega meðvitundarlaus eftir fyrsta kossinn í Haukadal Eitt sinn sagði húsfreyja nokkur að í íslenskum sveitum væri stærsta barnaheimili í heimi. Síðan þessi orð féllu er all nokkurt vatn til sjávar runnið. Nú heyrir það til undantekninga að börn og unglingar séu send í sveit á Íslandi. Varla var gefin út sú ævisaga fólks á 20. öldinni að þar kæmi ekki fram þakklátssemi þeirra sem fengu að dveljast á góðu sveitaheimili á sumrum. Hitt var auðvitað einnig til að mönnum líkaði ekki sveitadvölin, en það heyrði bara til undantekninga. Einn þeirra sem telur sig hafa orðið mikillar gæfu aðnjótandi af því að kynnast sveitinni, er æringinn, fjölmiðla-, íþrótta- og alvörumaðurinn Hemmi Gunn, sem er Dýrfirðingur í bak og fyrir. Við tókum hann tali um þessa reynslu hans og fleira. – Jæja, Hemmi minn. Þú varst einn af þessum lukkunnar pamfílum í gamla daga, ekki satt? Hvernig gastu slitið þig frá boltanum í Reykjavík? – Það var erfitt. En ég var ekkert sendur í sveit. Ég bjó á Bárugötunni, Mekka KR hverfisins í Vesturbænum og fæddist þar. Afi var skipstjóri, ættaður frá Höfn hér í Dýrafirði, bróðir Kristjáns Guðmundssonar sem bjó á Arnarnúpi. Afi byggði mikið stórhýsi á Bárugötunni og þar ólst ég upp. Ég gat bara hlaupið Svo er frá því að segja, að þá voru að slá sér upp Valdimar Þórarinsson, sá mikli höfðingi, ættaður úr Keldudal sem var þá að vinna á skurðgröfu í Reykjavík og Unnur Hjörleifsdóttir, ættuð af Snæfellsnesi og hún leigði skáhallt á móti okkur á Bárugötunni. Svo ákváðu þau að hefja búskap hér fyrir vestan og keyptu Húsatún í Haukadal, af frænku minni reyndar. Unni þekkti ég ekki neitt, en hún tók hins vegar eftir því að mér var alveg fyrirmunað að geta gengið á þeim árum, var þó orðinn 6-7 ára. Ég gat bara hlaupið. Þetta er reyndar orðið öfugt í dag! En hvað um það. Þarna þóttist hún sko sjá alveg ekta smaladreng. Pjakkurinn væri góður í ærnar í Haukadal. Unnur bauð foreldrum mínum að taka mig vestur, en treystu sér ekki til að taka mig fyrsta búskaparsumarið af því þau töldu að ég myndi drekka svo mikla mjólk, þannig að þau voru strák- laus þarna fyrsta sumarið. Svo fór ég til þeirra sumarið eftir með sjóflugvél og lenti á úfnum Dýrafirði. Það var ekki eins lygnt eins og í dag. Ég býst við að það ferðalag hafi minnt um margt á Vesturfarana. Ég var með stórt koffort sem ég hafði fengið í arf frá afa mínum úr Hjarðardal, Hermanni Hermannssyni, bróður Guðmundar sem þar var lengst af við búskap. Ég kom í Haukadalinn og skemmst er frá því að segja að mér fannst ég hafa verið þarna oft áður, svo vel þekkti ég hverja einustu þúfu, hæð og hóla í landslaginu. Það er alveg ljóst að ég hef verið þar áður, hvenær svo sem það hefur verið. Þarna leið mér sem sagt mjög vel. Ég var fyrsti strákurinn þarna í sveit hjá þeim hjónum ásamt strák frá Ísafirði sem er nú látinn. Þarna var mikið fjölmenni á þeim árum, búið á fimm bæjum og mikið líf í dalnum. Þetta iðaði allt saman. Það var hvað mest fjörið í Miðbæ, þar sem barnafjöldi var mikill. Þeir sem ég hafði mest samskipti við þar voru Einar, svo Siggi hreppstjóri og Stjáni sem var svona litli púkinn í hópnum, en fékk samt að vera með út af sinni miklu baráttugleði. Svo voru strákar í Höllinni, Sæbóli og Vésteinsholti og svo var alltaf töluvert um sveitastráka á Húsatúni hjá Unni og Valda. Það var mjög veðursælt á þessum árum og kannski hef ég haft áhrif á hópinn hvað það snerti að við færum í íþróttaleiki og strax farið að setja upp einhverskonar mót. En Guðfaðir okkar var Valdimar bóndi á Húsatúni því hann leyfði okkur að vera á grasspildunum sem hann var að rækta upp. Það hefðu ekki allir bændur samþykkt það. Fyrsti kossinn – Var ekki eitthvað af fallegum stelpum þarna í dalnum? – Jú, jú að sjálfsögðu. Það voru fallegar stelpur í Höllinni svo eftir var tekið. Þar kviknaði til dæmis fyrsti ástarblossinn hjá mér. Það var stelpa sem þar var í sveit. – Hvað hét hún? – Hún hét Margrét. Leiðir okkar lágu síðar saman hjá Útvarpinu. Hún hefur unnið þar nánast allt sitt líf. Hún var ári eldri en ég. Þetta var alveg skelfing að vera svona ástfanginn og þora ekkert að gera! Það minnti um margt á afa minn, Hermann, sem vann við að slá sefið í Haukadal upp úr aldamótunum 1900, með sitt gulllitaða hár, eins og Gunnar á Hlíðarenda og þeir kappar. Hann stóð í Seftjörninni og sló og horfði á allar heimasæturnar en þorði ekkert að gera af því hann átti engan pening! Ég var alveg máttvana frammi fyrir þessari miklu fegurð í Möggu 10 ára. Ég þorði náttúrlega aldrei að tjá henni ást mína. Svo var það sem gerði illt verra, að undir lokin, skömmu áður en við fórum suður, þá smellti hún á mig kossi! Alveg á nákvæmlega sama hátt og amma mín hafði smellt kossi á Hermann afa minn, þá kostgangara í Reykjavík, að læra. Þá brast stífla hjá honum og þau urðu síðar hjón. Hún var úr Garðinum. Ég var gjörsamlega meðvitundar- laus eftir þennan koss og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að finna út hvar hún byggi í Reykjavík og hafði upp á því. Hún bjó á Laugavegi. Ég var kominn með símanúmerið og allt hvað eina, en þorði aldrei að hringja og var ekki mönnum sinnandi allan veturinn, en beið spenntur eftir að komast í sveitina til að hitta hana og láta þá af þessari feimni minni. Þá brá svo við að ég varð sennilega fyrir mesta áfalli mínu á lífsleiðinni. Í fyrsta lagi var það tík sem hét Lubba, eins og Lubba á Húsatúni í dag og ég hafði bundið miklum tryggða- böndum við. Hún hafði hlaupið fyrir bíl tveimur dögum áður en ég kom í sveitina það vorið. Og svo gerðist það hrikalega: Frú Margrét kom alls ekki í sveitina! Ég var niðurbrotinn maður fyrsta mánuðinn. Landsleikur í Svalvogum Þá var að bæta þetta upp einhvern- veginn og ég reyndi að koma kynn- um mínum af íþróttunum til stráka- hópsins. Það gekk mjög vel og við vorum endalaust í fótbolta og síðan í frjálsum íþróttum inn á grundinni á þúfunum þar sem Ungmennafélagið Gísli Súrsson, sem stofnað var eftir stríðið, hafði haft aðstöðu sína, meira að segja var þarna langstökksgryfja og kúluvarpshringur. Þarna stofn- uðum við til okkar Haukadalsmóta. Við vildum gjarnan etja kappi við Þingeyringa, en skorti kjark þó við teldum okkur eiga fullt erindi í þá. En við byrjuðum samt á landsleikjum. Þegar við töldum okkur vera orðna nógu sterka, skoruðum við á alla bæina frá Haukadal og út í Svalvoga í landsleik í knattspyrnu. Það var semsagt landsliðið á móti úrvalsliðinu. Þá var fullt af krökkum þar á bæjunum. Við gengum alla leið út í Keldudal og áðum þar eins og sagt er. Fengum þar mjólkursopa hjá Ella og Jönu. Síðan var haldið áfram og gengið alla leið út í Svalvoga. Þá var vegurinn hans Ella Kjaran ekki kominn, þannig að við þurftum að sæta sjávarföllum og allt eftir því. Við kölluðum ekki allt ömmu okkar, landsliðsmennirnir í Haukadal í þá daga og úrvalsliðsmennirnir á bæjunum í kring! Landsleikurinn fór fram á þýfðu túninu í Svalvogum og við sigruðum auðvitað! Fengum svo að leik loknum eina jólakökusneið og volga mjólk með rjómakekkjum sem ekki allir voru vanir. Svo var bara gengið til baka og komið heim síðla kvölds. Svo komu úrvalsliðsmennirnir inn í Haukadal síðar um sumarið, því það var leikið heima og heiman. Þetta var alvörukeppni. Gunnar Huseby og nýja kasttæknin Það var svo mikill íþróttaáhuginn, að við vildum ekki bara etja kappi við Þingeyringa í frjálsum heldur vildum við einnig reyna að komast á héraðsmótin á Núpi. Við töldum okkur eiga fullt erindi þangað. Fyrir þriðja sumarið mitt í Haukadal, hafði ég séð Gunnar Huseby kasta kúlu út á Melavelli, svo ég kom með alveg nýja kasttækni með mér Haukadalinn, þó ég væri nú sjálfur ekki alveg með hana á hreinu! Þarna á frjálsíþróttavellinum á grundinni í Haukadal fundum við heljarmikið grjót og hófst nú sýning Hermanns á nýjustu tækni í kúlu- varpi. Ég hrifsaði stóra steininn, tók mjög góðan snúning og kastaði grjótinu beint í höfuðið á Jóhanni Hafstein, Habba sem kallaður var, sonur Jóhanns fyrrum ráðherra, svo sprakk fyrir og kom stór skurður og hann hljóp grenjandi heim í Höll. Menn höfðu á orði að hann hefði nú lagast við þetta, en við erum miklir mátar í dag, þannig að hann hlær bara að þessu. Svo á þessu má sjá að við vorum með mjög frumstæðar aðferð- ir við þetta þarna í Haukadalnum, en engu að síður var áhuginn alveg ódrepandi sem áður segir. Þegar hér var komið sögu var ég genginn í Val og orðinn fyrirliði í 5. flokki og svo 4. flokki. Það þótti nú ekki heppilegt að ég væri að þvælast í einhverja sveit vestur á fjörðum og það endaði með því á seinna ári mínu í fjórða flokki að þeim tókst að plata mig til að fara ekki vestur og útveguðu mér fína vinnu sem sendill. Þá var ég búinn að vera í fimm sumur hér í Haukadalnum. Og það má eigin- lega segja að þó svo við höfum orðið Íslandsmeistarar fyrir sunnan, þá sá maður bara alltaf eftir því að hafa ekki verið áfram á Húsatúni og ég væri hér sennilega ennþá ef þessi fótbolti hefði ekki komið til! Dýrfirsku íþróttagenin – Þú heldur því alltaf fram, Hermann, að Dýrfirðingar séu með einhver sérstök íþróttagen framyfir aðra landsmenn! Hvaða kappar eru það til dæmis? – Ég held því ekkert fram. Ég bara veit þetta! Ef ég byrja bara á afa mínum, Hermanni, þá þótti hann einn mesti glímukappi sem hafði bara komið til Reykjavíkur, en hann var svo hógvær, að það hálfa hefði verið nóg. Svo er til dæmis hann Siggi Þói, sem varð hreppstjóri og síðar rafmagnssérfræðingur og kartöflubóndi, hann hefði orðið íþróttamaður á landsmælikvarða, svo góður var hann og keppnismaður mikill. En svo skildi leiðir. Ég hætti að koma í sveitina og endaði svo á kafi í íþróttunum og í landsliðum, en Sigurður varð hér eftir, varð innlyksa hér og tók að sér hreppstjórn í staðinn! Svo getum við haldið áfram bara af handahófi með Haukadalinn. Ragnar bróðir minn var mjög snjall markmaður í handbolta, Júlíus Jónasson frá Árholti, margfaldur landsliðsmaður í handbolta, þarna eru Sæbólskapparnir Pétur og Andrés, sem stökk alskapaður út úr Íslendingasögunum. Svo skulum við fara út í Keldudal. Þar finnum við fyrir einn mesta íþróttamann Íslandssögunnar, Ólaf Stefánsson, sem nokkrum sinnum hefur verið valinn í heimslið, bróðir hans Jón Arnór, sem er í Evrópuúrvali í körfubolta og bróðir þeirra Eggert sem er í fótboltaliði Fram. Síðan má nefna baráttujaxla eins og Viggó Sigurðsson, sem var náskyldur íþróttakennaranum Viggó Nathanaelssyni frá Þingeyri. Svo er það Matthías, aðal markahrókur Valsliðsins í dag í fótbolta. Honum er nánast ungað út úr Smiðjunni á Þingeyri. Síðan gæti ég haldið áfram alveg linnulaust. Það er bara hver kappinn af öðrum! Vestfirska forlagið með 2. hefti í nýjum flokki „Mannlíf og saga fyrir vestan“ Hermann Gunnarsson er aðal- söguhetjan í nýju hefti af Mannlífi og sögu sem Vestfirska forlagið gefur út. Hemmi dvaldi mikið vestur á fjörðum eins og mörgum er kunnugt enda átti hann vinum að mæta á ættarslóðum, með fóstru sína í fararbroddi. Að öðru leyti er þetta hefti stútfullt af alls konar efni, bæði af léttara og alvarlegra tagi. Sem sagt: Vestfirðingar í blíðu og stríðu, lífs og liðnir. Í þessu Mannlífshefti, sem og í bókunum að vestan almennt, má lesa margt um skapgerð Vestfirðinga, bæði í blíðu og stríðu. Sem dæmi má nefna kraft þeirra, seiglu og áræði, að ógleymdu stoltinu og hjálpseminni. Manngildið metið í dugnaði. Jákvæðir og ósérhlífnir. Handaverkin traust. Alltaf tilbúnir að veita öðrum lið. Gárungarnir segja að þegar Vestfirðingar hætti að geta rifið kjaft, þá séu þeir steindauðir, en fyrr ekki. Og komið geti fyrir að þeir vilji bæði sleppa og halda. Gálgahúmor og kaldlyndi nokkuð áberandi. Að gera grín að sjálfum sér og náunganum þykir sjálfsagt. Auðunn hinn vestfirski færði Sveini Danakonungi hvítabjörn að gjöf. Þótt hann kæmi fyrst til Haraldar konungs hins harðráða, sem átti í stríði við Svein, lét hann ekki bjarndýrið af hendi og komst upp með það. Það hefur gert vestfirska þrjóskan! Eftirfarandi er hluti af viðtali við Hemma Gunn í nýjasta hefti Mannlífi og sögu að vestan: Á léttum nótum. Hemmi með fóstru sinni Unni á Húsatúni í Haukadal í Dýrafirði ásamt tíkinni Lubbu. Milli þeirra þriggja var sterkt samband. Mynd / Hallgrímur Sveinsson Hemmi Gunn við fræðistörf hjá Vestfirska forlaginu á Þingeyri.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.