Bændablaðið - 21.03.2013, Qupperneq 4

Bændablaðið - 21.03.2013, Qupperneq 4
Bændablaðið | Fimmtudagur 21. mars 20134 Fréttir Leiðrétting Kálfar fæðast dauðir í 14 prósentum tilfella Samkvæmt skýrsluhaldi í nautgriparækt fæddust 14 prósent allra kálfa frá árinu 2004 og fram á mitt ár 2012 dauð. Hlutfallið er enn hærra sé eingöngu horft til fyrsta kálfs kvígna, eða 21,6 prósent, á meðan hlutfallið er 10,8 prósent hjá eldri kúm. Á þessum átta og hálfu ári fæddust 32.105 kálfar dauðir. Það er geysilega hátt hlutfall og til mikils að vinna ef draga mætti úr dauðfæddum kálfum. Þetta er eitt af því sem kom fram í erindi Grétars Hrafns Harðarsonar á Vísindaþingi land- búnaðarins – Landsýn, í erindi sem bar yfirskriftina Kálfadauði II – niðurstöður framhaldsrannsóknar. Í erindinu kom einnig fram að alls eru 37,5 prósent allra kálfa sem fæðast á landinu undan heimanautum. Verulegur meirihluti kvíga fær fang með heimanautum, eða 70,4 prósent. Ekki síður er sláandi niðurstaða að 24 prósentum eldri kúa er haldið við heimanaut. Að mati Grétars er þetta alvarlegt varðandi ræktunarstarfsemi íslenska kúakynsins. Hins vegar er ekki að sjá neinn meginmun á kálfadauða eftir því hvort kýr eru sæddar eða þeim haldið við heimanaut. Alþjóðlegur samanburður óhagstæður Í alþjóðlegum samanburði standa íslenskir kúabændur líka höllum fæti varðandi samanburð á dauð- fæddum kálfum. Áberandi hæst hlutfall kvíga ber dauðum kálfum hér á landi en Holstein-Friesen kynið í Bandaríkjunum kemur næst með 12,1 prósent dauðra kálfa. Munurinn er minna áberandi með eldri kýr en er þó til staðar. Á árunum 2006-2008 var unnið að stóru rannsóknarverkefni sem náði til almennrar þekkingaröflunar um þætti sem hugsanlega gætu skýrt orsakir hárrar tíðni dauðfæddra kálfa og/eða veitt innsýn í lífeðlisfræðilega röskun sem valdið getur því að kálfurinn deyr við burð. Í framhaldi af niðurstöðum þess verkefnis var ráðist í verkefnið sem var til umfjöllunar í erindi Grétars Hrafns á þinginu. Meginmarkmið þess var að skoða þroska kvígna sem báru dauðum kálfum og var hann borinn saman við þroska kvígna sem báru eðlilega, enda var þetta eitt af þeim atriðum sem fyrri rannsókn gaf tilefni til að rannsaka betur. Jafnframt var markmið verkefnisins að efla tengsl við erlenda sérfræðinga á þessu sviði, en kálfadauði er alþjóðlegt vandamál. Valin voru 38 kúabú í Árnes- og Rangárvallasýslum og kvígur metnar sem ýmist voru nýlega bornar eða áttu stutt í burð. Fjórar breytur fengust við þessa skoðun; holdastig, brjóstmál, breidd milli mjaðmarhorna og aldur við burð. Alls voru skoðaðar 479 kvígur og reyndust dauðfæddir kálfar vera 131, eða um 27 prósent. Hvorki var munur á stærð og þroska kvígna né á aldri við burð hjá kvígum sem báru dauðum kálfum og hinum sem báru lifandi kálfum. Ljóst virðist vera að umhverfis- áhrif og arfgerðaráhrif hafi bæði mikið að segja. Nýlegar rannsóknir í Hollandi sýna að aukning kálfadauða sé af völdum umhverfisáhrifa að hálfu og ætternisáhrifa að hálfu. Ljóst er að inngrip í burð, burðarhjálp, eykur tíðni kálfadauða. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að burðarhjálp er veitt í um helmingi burða hjá kvígum, enda þótt burðarvandamál hafi ekki sérstaklega verið greind nema í 28 prósentum tilfella. Þá virðist ljóst að mismunandi áhætta er á kálfadauða tengd við feður kúnna. /fr Í síðasta Bændablaði birtist tafla með yfirliti um áburðartegundir á markaði. Í upplýsingum um verð og skilmála Áburðarverksmiðjunnar voru villur. Hið rétta er að Áburðarverksmiðjan býður viðskiptavinum 6 prósenta staðgreiðsluafslátt og uppgefið verð er ekki háð gengi. Tollar og íslenskur landbúnaður – Hver er ástæðan fyrir því að tollur er lagður á erlendar búvörur? » Stjórnvöld leggja tolla á innfluttar búvörur sem eru sambærilegar þeim sem framleiddar eru hér á landi. Einkum er um að ræða mjólkurvörur, kjötvörur og blóm. Einnig nýtur útiræktað grænmeti eins og gul rætur, gulrófur og kartöflur tollverndar þegar íslenska framleiðslan annar eftir spurn. Þegar íslenskar vörur eru ekki til eru erlendu vörurnar fluttar til landsins án tolla. Einnig er lagður magntollur á sveppi en gúrkur, tómatar, salöt og paprikur, sem flutt eru inn allt árið, eru án tolla. » Aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu heimsins eru seld á milli ríkja. Hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði. » Reynsla annarra þjóða af því að opna fyrir innflutning og á sama tíma að draga úr hvatningu til innlendra framleiðenda er að slíkt hefur leitt til mikilla verðhækkana á mat. » Langflestar landbúnaðarvörur eru fluttar inn án tolla. Þetta á til dæmis við um allt hveiti og kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávexti og grænmeti. Í fyrrasumar gáfu Bændasamtökin út fræðslubækling um tolla og íslenskan landbúnað. Markmiðið með útgáfunni var að fara með skipulögðum hætti yfir tolla- umhverfi íslensks landbúnaðar og landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Tollamálin eru sífellt á dagskrá, en fyrir nokkru boðuðu Samtök verslunar og þjónustu tillögur sem miða að auknum innflutningi á búvörum. Bændasamtökin hafa um árabil bent á að Ísland er ekki frábrugðið öðrum þjóðum sem slá skjaldborg um innlenda búvöruframleiðslu með tollvernd. Rökin eru einkum þau að hagsmunir neytenda séu ekki fólgnir í því að veikja innlenda matvælaframleiðslu með auknum innflutningi á mat sem hægt er að framleiða á Íslandi. Það kosti mikinn gjaldeyri og veikir atvinnulíf, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Í fræðslubæklingnum er dregin upp mynd af alþjóðasamningum um viðskipti með landbúnaðarvörur, svo sem við Evrópusambandið og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Sýnt er fram á samhengi launa og verðlags 20 landa og sýndur samanburður á útgjöldum til matvörukaupa milli nokkurra Evrópulanda. Einnig er þeirri spurningu velt upp hvað myndi gerast hérlendis ef tollar væru afnumdir og bent á mikilvægi hugtakanna fæðu- og matvælaöryggis í því sambandi að vernda innlenda matvælaframleiðslu. Bæklingurinn er fáanlegur hjá Bændasamtökunum og á vefsíðu samtakanna á bondi.is Ítölunefnd heimilar væga beit á Almenningum Nefnd sem skipuð var á liðnu sumri til að meta beitarþol afréttarlandsins Almenninga í Rangárþingi eystra hefur skilað úrskurði sínum. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni, en meirihluti hennar úrskurðaði að heimila væga beit á afréttinum. Minnihlutinn vildi að afrétturinn yrði friðaður fyrir beit. Mikill styr stóð síðastliðið vor vegna fyrirætlana bænda um upprekstur á Almenninga eftir langt hlé. Árið 2007 staðfesti Hæstiréttur úrskurð Óbyggðanefndar um að Almenningar væru þjóðlenda en bændur ættu þar áfram heimild til afréttanota. Bændur á svæðinu boðuðu árið 2009 að þeir hygðust hefja upprekstur á svæðið en það frestaðist, fyrst vegna gossins í Eyjafjallajökli en síðar vegna beiðni Landgræðslu ríkisins. Á síðasta ári ráku nokkrir bændur svo fé á Almenninga, sem olli töluverðum deilum. Í framhaldi af því var umrædd nefnd svo skipuð sem ætlað var að finna svokallaða ítölu fyrir svæðið, þ.e. hversu mikla beit afrétturinn þyldi. Ítölunefndina skipuðu dr. Guðni Þorvaldsson, tilnefndur af sýslumanni Rangárvallasýslu,dr. Ólafur R. Dýrmundsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, og Sveinn Runólfsson, tilnefndur af Landgræðslu ríkisins. Nú hefur nefndin, sem áður segir, lokið störfum og skilað úrskurði. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni á þann hátt að meirihlutinn sem Guðni og Ólafur mynduðu úrskurðaði um væga beit á Almenningum, 50 tvílembdar ær, með ákveðnum skilyrðum. Sveinn skilaði hins vegar séráliti sem felur í sér algera beitarfriðun afréttarins. Nefndin var skipuð samkvæmt heimild í afréttarlögum og er úrskurður hennar bindandi, þó að heimilt sé að kæra hann til yfirmatsnefndar. Að sögn Landgræðslustjóra má búast við að slík kæra verði lögð fram. /fr Nokkur atriði um tollvernd Vísindaþing landbúnaðarins: Mikil ánægja með Landsýn Landsýn – vísindaþing land- búnaðarins fór fram föstudaginn 8. mars síðastliðinn á Hvanneyri. Yfir 130 manns tóku þátt í þinginu og þótti það heppnast afar vel. Fjórar málstofur voru á dagskrá þingsins og voru flutt 33 erindi. Málstofurnar fjórar höfðu yfirskriftirnar Áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi, lífríki og ræktun; Fóður og fé; Ástand og nýting afrétta og Sjálfbær ferðaþjónusta og heimaframleiðsla matvæla. Þá voru kynnt 20 veggspjöld sem innihéldu fræðsluefni um aðskiljanlegustu hluti. Blásið var til kosninga um bestu veggspjöldin og hlutu eftirfarandi veggspjöld viðurkenningar: Endurheimt staðargróðurs í aflögðum slóðum eftir Önnu Sigríði Valdimarsdóttir, Kristínu Svavarsdóttur og Ásu L. Aradóttur var valið besta veggspjaldið, með tilliti til upplýsingagildis og framsetningar. Íslenska jarðarberið – svip- og arfgerðir eftir Hrannar Smára Hilmarsson, Magnus Göransson og Jón Hallstein Hallsson var valið sem það veggspjald sem var áhugaverðast eða með bestu framsetninguna. Fræðsluefni fyrir fjárbændur eftir Ragnhildi Sigurðardóttur var valið frumlegasta veggspjaldið. Að Landsýn standa Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins, Matís, Matvælastofnun, Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun. Sjá frekari umfjöllun um erindi þingsins á bls. 24 og 26. /fr Mynd / fr Mynd / fr

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.