Sveitarstjórnarmál - 01.05.2002, Page 13
Fjarðabyggð
Sameiningin í Fjarðabyggð hefur nokkra sérstöðu meðal þeirra
sameininga sem skoðaðar voru. Um var að ræða þrjú þéttbýlis-
sveitarfélög, þar af tvo kaupstaði, sem öll höfðu fyrir sameining-
una byggt upp eigin stjórnsýslu og þjónustukerfi. Því þarf ekki að
koma á óvart að meirihluti íbúa Fjarðabyggðar telur sambærilega
þjónustu ríkja í öllum þremur bæjunum þótt sjónarmið íbúa Eski-
fjarðar og Reyðarfjarðar séu ekki eins afdráttarlaus og Norðfirð-
inga.
Finna má það viðhorf á meðal sveitarstjórnarmanna að óæski-
legt sé að dreifa stjórnsýslunni með þeim hætti sem gert er því
dreifð stjórnsýsla sé mun kostnaðarsamari en samþjöppuð. íbú-
arnir eru aftur á móti fremur sáttir við núverandi stjórnkerfi og
stjórnsýslufyrirkomulag og telja að allgóður jöfnuður ríki á meðal
íbúa bæjanna um aðgang að stjórnsýslunni. Meirihluti íbúa á
Eskifirði og Reyðarfirði telur þó að vald hafi þjappast saman í
Neskaupstað, sem stafar ef til vill af því að bæjarstjórinn og for-
seti bæjarstjórnar eru búsettir þar. Formaður bæjarráðs er þó bú-
settur á Eskifirði og þar er einnig lögheimili sveitarfélagsins.
Betur horfir nú um fjármál Fjarðabyggðar eftir erfið fjárhagsár
1998 og 1999. Útgjöld til félagsþjónustu og skólamála hafa ekki
hækkað að raunvirði frá sameiningunni. Skýr tengsl eru á milli
byggðaþróunar og atvinnulífs í hugum íbúa Fjarðabyggðar sem
líta til mikilvægis sameiningarinnar fyrir atvinnulíf á svæðinu.
Fjarðabyggð var sameinuð úr þremur bæjarfélögum árið 1998.
Snæfellsbær
Sameiningin í Snæfellsbæ tók gildi árið 1994 en þar sameinuðust
fjögur sveitarfélög. Var þetta eina sameiningartillagan sem sam-
þykkt var af öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum í sameiningar-
átakinu 1993.
íbúar Snæfellsbæjar eru nokkuð sáttir við félagsþjónustu og
skólamál en skólar voru ekki sameinaðir heldur aukið við starf-
semi skóla á Lýsuhóli. Flestir íbúanna telja sambærilega þjónustu
í sveitarfélaginu en undantekningar er helst að finna á meðal
íbúa þess svæðis er áður var Breiðavíkurhreppur.
Tekjur Snæfellsbæjar hafa farið stighækkandi frá sameining-
unni og skýrist mikið stökk á milli áranna 1995 til 1997 af aukn-
um tekjum við yfirtöku grunnskólans en einnig af nokkurri upp-
sveiflu í atvinnulífinu. Félagsþjónusta jókst verulega enda var
hún vart til staðar í dreifbýlinu fyrir sameiningu. Sameiningin
hefur styrkt þróun atvinnulífsins og samgöngubætur innan marka
sveitarfélagsins hafa hjálpað til við eflingu atvinnu og þjónustu.
Meirihluti íbúa allra byggða Snæfellsbæjar telja að erfiðara sé
um aðgang að bæjarfulltrúum og að hafa áhrif á gang mála. Mest
ber á þessu sjónarmiði á meðal íbúa dreifbýlisins. Skrifstofa
sveitarfélagsins er staðsett á Hellissandi en Ólafsvík er langstærsti
byggðakjarninn og „tapaði" því bæjarskrifstofunum yfir í minna
byggðarlag. Sýnir það mikilvægi höfuðstöðva sveitarfélagsins og
hversu táknrænt gildi staðsetning þeirra hefur í augum íbúanna
að sú staðsetning hefur valdið nokkurri óánægju í Ólafsvík þrátt
fyrir að meirihluti bæjarfulltrúa sé þaðan og bæjarstjórinn einnig
búsettur þar.
Sveitarfélagið Árborg
íbúar Sveitarfélagsins Árborgar telja almennar forsendur fyrir fag-
legri og formfastari þjónustu hafa aukist og þjónustustig hækkað
frá því sem var fyrir sameiningu. Skoðanir eru þó nokkuð skiptar
og telja íbúar Eyrarbakka og Stokkseyrar þjónustu fremur hafa
versnað á meðan íbúar dreifbýlisins telja almennt að um betri
þjónustu sé að ræða. Breytinga sjást hins hins vegar lítil merki
hjá Selfyssingum. íbúarnir líta almennt til ákveðins hlutverks
sveitarfélagsins varðandi uppbyggingu á þjónustu. Nálægð þess
við höfuðborgarsvæðið veldur því hins vegar að það gegnir ekki
sambærilegu lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs og þegar
fjær dregur.
Tekjur sveitarfélagsins hafa hækkað eftir sameiningu þótt fram-
lög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækkuðu við hana. Skýringa á
því er að leita í hærra útsvari og hugsanlega hærri tekjum fólks.
íbúar telja sig hafa minni möguleika til þess að hafa áhrif á
gang mála en fyrir sameiningu. Á það einkum við um íbúa Eyrar-
bakka og Stokkseyrar en stjórnkerfi Selfossbæjar var lagt til
grundvallar stjórnsýslu í hinu nýja sveitarfélagi. Bæjarskrifstofurn-
ar eru á Selfossi auk þess sem sex af níu sveitarstjórnarmönnum
hafa verið búsettir þar. Sveitarfélagið Árborg var myndað við
sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 1998.
HRAÐFRYSTIHÚS
ÍC HELLISSANDS HF
Hafnarbakki 1 ■ 360 Hellissandur ■ Sími: 430 7700
13