Morgunblaðið - 23.01.2013, Side 6

Morgunblaðið - 23.01.2013, Side 6
6 | MORGUNBLAÐIÐ Þ að er oft haft á orði að sannir blaða- menn séu alltaf á vaktinni því frétta- nefið sofi aldrei. Að því kemur þó að setja þarf síðasta punktinn og búa blað til prentunar. Sá punktur var að baki og rúmlega það þegar fréttir bárust af því að eldgos væri hafið í Vestmannaeyjum fyrir 40 árum. Þegar fréttin barst var þegar búið að prenta um 10 þúsund eintök af upplagi dagsins, og aðstæður kölluðu meir en nokkurn tíma fyrr á snör handtök. Styrmir hefur frásögn sína svo: Fréttahaukur í horni „Það sem mér er minnisstætt frá þessu er fyrst og fremst tvennt; það er það að Árni Johnsen hringdi í mig um miðja nótt og sagði að það væri byrjað að gjósa í Vestmannaeyjum. Og ég hélt að hann væri að gera grín að mér og tók eiginlega ekki mark á því fyrst í samtalinu, sem hann var að segja mér. Svo allt í einu fór ég að gera mér grein fyrir því að hann var að segja satt. Hitt er annað sem mér er líka mjög minn- isstætt í þessu sambandi. Ég var búinn að vera aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins frá því í jan- úar 1971 og til hausts 1972 er ég var ráðinn rit- stjóri ásamt þeim Matthíasi og Eykon. Ég var í raun búinn að vera í fullgildu ritstjórastarfi í rúma tvo mánuði þegar þessir atburðir komu til. Matthías var í löngu fríi einmitt þá, og Ey- kon fjarverandi sömuleiðis. Þannig að rit- stjórnarleg ábyrgð á þessu hlaut að hvíla á mín- um herðum, um leið og ég kunni ekki mikið til svona verka á Morgunblaðinu. Það má segja að ég hafi verið í læri og ég hafði ekki áður staðið frammi fyrir svona stórum viðburði, og var ekki öruggur með mig að stýra starfsemi rit- sjórnarinnar undir þessum kringumstæðum. Þess vegna hvíldi framkvæmdin mjög á herð- um Björns Jóhannssonar, sem þá var frétta- stjóri. Fréttastjórnin, og ritstýringin á blaðinu sem kom út daginn eftir, hvíldi í miklu meiri mæli á Birni en mér og má segja að ég hafi fylgst með og lært þennan dag af Birni, enda var hann þrautþjálfaður í fréttamennsku og fréttastjórnun. Þetta tvennt er það sem ég minnist helst frá þessum atburðum eins og þeir horfðu við mér.“ Hugboð sem rættist og vel það Magnús Finnsson man ekki síður vel hvar hann var þegar hann fékk fregnirnar af nátt- úruhamförunum í Vestmannaeyjum. „Ég var nú háttaður og kominn upp í rúm,“ segir hann glettinn á svip, en Magnús hafði verið á inn- lendri fréttavakt til kl. 1:00 eftir miðnætti og var kominn heim í ró, til þess eins að vera ræst- ur aftur til starfa röskri klukkustund síðar. „Þá hringir Björn Jóhannsson í mig og segir: Ég skal segja þér það, og ég er ekki að gera grín því þetta er heilagur sannleikur – það er farið að gjósa í Vestmannaeyjum! Og þú verður að fara niðureftir og gera ráðstafanir því við verð- um að skipta út forsíðunni. Ég klæddi mig því aftur og var nokkuð snöggur að hafa mig til því ég hafði ekki getað sofnað, einhverra hluta vegna, og bylti mér í rúminu þangað til síminn gall. Ég hraðaði mér svo niðureftir og man að það var mikil hálka. Ford Cortinan mín var enn á sumardekkjunum og ég átti í nokkrum erf- iðleikum með að komast niður á Mogga, en það hafðist.“ Magnús rekur í framhaldinu merki- legt hugboð sem hann hafði fengið á vaktinni daginn fyrir gos. „Í kaffinu þá um daginn segi ég sem svo við Björn Vigni [Sigurpálsson, fv. fréttastjóra], að það sé nú skrýtin tilfinning sem sæki að mér; mér segi svo hugur að það gerist eitthvað stórt áður en þessari vakt lýkur. Björn Vignir gaf ekki mikið fyrir það og svaraði sem svo: Góði besti, ég er alveg hættur að taka mark á svona nokkru. Um sjöleytið lendir flug- maður á orrustuþotu frá varnarliðinu í erf- iðleikum í aðflugi að Keflavíkurvelli, og ferst – vélin fer í sjóinn. Þá segir Björn Vignir að þar sé hugboðið komið fram. En ég svaraði því neit- andi; það sem ég hefði á tilfinningunni væri miklu, miklu stærra. Hann maldar eftir sem áð- ur í móinn og finnst þetta bara vitleysa í mér.“ En annað kom á daginn, eins og tímamót þau sem minnst er í dag eru til vitnis um. Hin snöru handtök Eins og Styrmir lýsti þá tók Björn Jóhannsson mestanpartinn að sér fréttastjórnina þá um nóttina. Magnús segir svo frá Birni og hinum leifturskjótu vinnubrögðum hans: „Ég sat við ritvélina og vélritaði fréttina eins hratt og ég mögulega gat enda skipti tíminn nú öllu sem aldrei fyrr. Nema hvað Björn er þarna líka og hann rífur alltaf blaðið úr valsinum jafnóðum og ég er búinn að skrifa heila línu, og segir mér um leið að halda bara áfram. Það var svosem ekki þægilegt að hafa ekki yfirlit yfir það sem komið var, og hafa ekki þá samfellu til að styðj- ast við, en það þurfti að setja hverja setningu um leið og hún var tilbúin því það þurfti hraðar hendur til. Og á endanum varð það merkilega heilleg frétt sem kom út úr þessu,“ segir Magn- ús og kímir við. Styrmir bætir því við að árið 1973 – löngu fyrir daga internetsins og stafrænna síma- fjarskipta – hafi ferlið verið talsvert frábrugðið því sem í dag þekkist. „Eins og Magnús lýsti þá erum við í blýinu á þessum tíma. Fyrst er skrif- að, þá farið með blöðin í prentsmiðjuna og þar var textinn settur í blý. Þessi vinnubrögð voru vitaskuld seinlegri og tóku lengri tíma.“ Eins og vikið var að í inngangi var þegar búið að prenta um fjórðung upplagsins þá um nóttina, en þar sem tíðindin voru slík var það mat manna að eina leiðin í stöðunni væri að stöðva prentunina, brjóta um nýja forsíðu og prenta svo blað dagsins að nýju. Þeirri framvindu stjórnaði Björn Jóhannsson alfarið, eins og Styrmir lýsir. Nýtt blað og sérblað að auki Sjálfur rakti Björn gang mála í dálknum Fréttaspjalli í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 24. janúar. Nýtt blað var tilbúið um fimmleytið að morgni þriðjudagsins 23. janúar og í fram- haldinu gat prentun hafist. Fengu lesendur Morgunblaðsins einir fréttina um eldgosið í blaði sínu strax um morguninn. En ekki var vaktinni þar með lokið því fyrir lá mergjað efni í máli og myndum sem þau Elín Pálmadóttir blaðakona og Ólafur K. Magn- ússon ljósmyndari höfðu útvegað með flugferð til Eyja og skilað í hús strax í blábítið. Ekki þótti Birni það ganga að láta slíkt úrvalsefni eldast um heilan dag alls óbirt svo tekin var ákvörðun um að gefa út 12 síðna aukablað, aug- lýsingalaust, um hádegisbilið strax sama dag. Þar var að finna fréttir og myndir sem aflað hafði verið í Vestmannaeyjum, í Reykjavík og á hafnarbakkanum í Þorlákshöfn þar sem Vest- mannaeyingar komu í land eftir giftursamlega siglingu frá gosstöðvunum. Að blása til útgáfu 12 síðna aukablaðs var talsvert fyrirtæki með jafnskömmum fyr- irvara. Kveðja þurfti út mannskap fyrir rit- stjórn, prentsmiðju og myndamótagerð, svo fátt eitt sé nefnt, og allur tiltækur mannafli Morgunblaðsins lagðist á eitt um að færa les- endum sínum fréttirnar svo fljótt og vel sem vera mætti. Þriðjudaginn 23. janúar, daginn sem eldgosið í Heimaey hófst, kom Morg- unblaðið því út í þremur útgáfum, nokkuð sem hvorki hefur gerst fyrr né síðar. jonagnar@mbl.is Fréttavakt sem ekki gleymist Þegar þjóðsögulegir atburðir taka upp á því að eiga sér stað um miðja nótt verður starfs- umhverfi ritstjórnar á dagblaði sérstaklega krefjandi. Morg- unblaðsmennirnir Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri, og Magnús Finnsson, fv. fulltrúi ritstjóra, rifja upp aðfaranótt 23. janúar 1973. Fyrsta forsíðan: Morgunblaðið eins og fyrsta prentunin leit út. Önnur forsíða: Þannig leit síðan út þegar stórtíðindin voru komin á blað. Þriðja forsíðan: Til að gera gosinu réttileg skil kom út aukablað á hádegi. Fréttastjórinn Björn Jóhannsson (1935 - 2003) var fréttastjóri á Morgunblaðinu árið 1973 og fór fyrir Morgunblaðsfólki er eldgosið braust út í Eyjum. Útgáfan þann 23.janúar laut snarpri verkstjórn hans. Morgunblaðið/Styrmir Kári Kollegar Styrmir Gunnarsson og Magnús Finnsson muna glöggt þá viðburðaríku fréttavakt er eldgosið hófst í Heimaey fyrir 40 árum síðan. Hraðar hendur þurfti til enda tæknin allt önnur en í dag. Þegar gosið hófst var þegar búið að prenta um fjórðung upplagsins þá um nóttina, en þar sem tíðindin voru slík var það mat manna að eina leiðin í stöðunni væri að stöðva prentunina, brjóta um nýja forsíðu og prenta svo blað dagsins að nýju. Þeirri framvindu stjórnaði Björn heitinn Jóhannsson.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.