Morgunblaðið - 23.01.2013, Side 14

Morgunblaðið - 23.01.2013, Side 14
14 | MORGUNBLAÐIÐ E ldgosið er í Eyjum er eft- irminnilegur tími. Álagið var mikið og þetta reyndi á fólk. Mörgu hefur maður ýtt frá sér og reynt að gleyma eins og hægt er. Yfir annað hefur fennt,“ segir Reynir Guð- steinsson. Hann var í eldlínunni meðan á eldgosinu stóð; var skóla- stjóri Barnaskóla Vestmannaeyja og átti einnig sæti í bæjarstjórn þar sem menn stóðu andspænis stærri verkefnum en nokkurn óraði fyrir að til henn- ar kasta gæti nokkru sinni komið. Vaknaði við sírenur Þegar eldgosið í Eyjum hófst bjó Reynir með fjölskyldu sinni við Ill- ugagötu, ofarlega í vesturhluta Vest- mannaeyjabæjar. „Ég vaknaði við sírenur slökkviliðsbíla. Fór út á stétt til að kanna hverju þetta sætti og taldi mig sjá eld í húsi upp við Helgafell. En fljótlega fór ég að heyra drunur og sá eldbjarma á himni svo ekkert fór á milli mála.“ Reynir bjó sitt fólk til brottfarar, konu og fjögur börn, og kom þeim um borð í fiskibát sem tók stímið til Þorlákshafnar. Sjálfur gekk hann hins vegar til skyldustarfa. Strax um nóttina kom bæjarstjórn saman til neyðarfundar. Þaðan var aðgerðum svo stýrt, í samvinnu við stjórnstöð Almannavarna í Reykjavík. Innbú í öruggt skjól „Maður vissi ekkert hvaða stefnu mál tækju og vildi vera við öllu bú- inn,“ segir Reynir sem um nóttina fór í barnaskólann til að nálgast ým- is gögn sem hann taldi nauðsynlegt að glötuðust ekki. „Menn sáu ljós í skólanum og bönkuðu upp á. Þeir voru austan úr Kirkjubæjarhverfi, sem var bók- staflega við eldsprunguna. Þeir fóru strax um nóttina í að bjarga innbúi sínu og vildu koma því í öruggt skjól, til dæmis í barnaskólanum sem stendur ofarlega í bænum og var nokkuð fjarri eldstöðvunum. Við komum húsmunum fyrir í íþróttasal skólans og fleiri fylgdu í kjölfarið. Og með þessu fór boltinn að rúlla,“ segir Reynir. Hundrað manns eftir í Eyjum Á vettvangi bæjarstjórnar og síðar Viðlagasjóðs var þeim mönnum sem eftir urðu í Eyjum hverjum og ein- um falið hlutverk. „Í bænum bjuggu á þessum tíma ríflega 5.000 manns, en eftir fyrsta sólarhring gossins voru kannski rétt liðlega 100 manns eftir í bænum,“ segir Reynir sem á þeim mánuðum sem fóru í hönd hafði búslóða- björgun með höndum. Í því fólst að rýma hús og koma húsmunum í örugga geymslu, meðal annars í húsi Vinnslustöðvarinnar. Í sögulegu ljósi reyndist það farsæl ákvörðun, því austar í bænum voru t.d. vinnslu- hús sem fóru undir hraun eða skemmdust mikið. Þá var mikill fjöldi búslóða fluttur upp á land, bæði með skipum og flugvélum, þar á meðal flugvélum Varnarliðsins, en það kom mjög að öllu björg- unarstarfi. Skólahald skal hefjast Þegar kom fram á vorið fór heldur að hægja á eldgosinu. „Í maí töldu menn að sæi fyrir endann á þessu,“ segir Reynir, sem þá hélt til Reykja- víkur. Settist á rökstóla með Magn- úsi Torfa Ólafssyni mennta- málaráðherra og deildarstjóra hans, Braga Jósepssyni; ásamt Eiríki Guðnasyni, yfirkennara barnaskól- ans, og Eyjólfi Pálssyni, skólastjóra gagnfræðaskólans, sem nú eru báðir látnir. Einnig komu til fundar stjórnendur fræðslumálaskrifstof- unnar sem þá var. „Nemendur úr barnaskólanum höfðu eftir gosið farið í skóla víða um landið. Kennarar frá okkur höfðu til- sjón með þeim nemendum sem þar voru, auk kennslu sérstakra deilda við nokkra skóla í Reykjavík. Þá var einnig haldið uppi kennslu í húsnæði sundlaugarinnar í Hveragerði fyrir börn þeirra Vestmannaeyinga sem dvöldu í Ölfusborgum. Á þessum fundi með ráðherra var einfaldlega ákveðið að skólahald skyldi hefjast í Eyjum að hausti,“ segir Reynir. Ákvörðun þessa telur Reynir hafa verið mjög þýðingarmikla. Stundum er sagt að æskan og framtíðin séu eitt og hið sama og ef skólastarf færi af stað með haustinu gæfi það tákn- rænt merki um að bærinn skyldi reistur úr öskustó. Ný börn á hverjum mánudegi „Undirbúningur skólastarfs var mikið púsluspil. Margir kennarar höfðu ráðið sig annað en svöruðu kalli þegar eftir því var leitað. Þá vissum við ekki hve margir nemend- urnir yrðu. Þegar gosið hófst voru nemendur barnaskólans um 900, en þegar við fórum af stað í sept- emberbyrjun voru þeir 134. Þremur vikum síðan höfðu liðlega 50 bæst við og svona fjölgaði þeim jafnt og þétt allan veturinn. Við skólalok að vori voru þeir 426,“ segir Reynir. Bætir við að veturinn 1973 til 1974 hafi verið sá erfiðasti á löngum ferli sínum sem kennari og skólastjóri. „Nánast á hverjum mánudags- morgni stóðu foreldrar í dyragætt- inni með börnin sem spurðu bros- andi í hvaða bekk þau ættu að vera. Á öllum svona málum þurfti að finna lausn. Það var rótleysi í Eyjum þennan vetur, fólk sótti mikið upp á land og þorði þá aldrei að skilja börnin ein eftir heima í Eyjum. Ótti vegna eldgossins bjó undir niðri,“ segir Reynir. Hann átti í miklum samskiptum við fræðsluyfirvöld á þessum tíma vegna stöðu mála. Skrifaði vorið 1974 bréf til menntamálaráðuneyt- isins þar sem sagði að vinnuálag starfsfólks þennan vetur hefði verið „… í algjöru hámarki og mun það ekki taka í mál að leggja upp í annan vetur þessum líkan“, segir í bréfinu. Var þessu sýndur skilningur og mál komust í betri farveg. Festast ekki í liðnum atburðum Reynir Guðsteinsson bjó í Vest- mannaeyjum til ársins 1978. Hóf þá nám í sálarfræði og uppeldisfræði við Háskóla Íslands og greip einnig í stundakennslu. „Við ætluðum bara að vera einn vetur á fastalandinu en við snerum aldrei til baka,“ segir Reynir, sem í áraraðir starfaði við Snælandsskóla í Kópavogi, lengst sem skólastjóri. Taugarnar til æsku- byggðarinnar í Eyjum eru þó sterk- ar. Fyrir nokkrum árum var byrjað að grafa upp nokkur hús við Gerð- isbraut í Eyjum og hafa þau reynst býsna heilleg eftir fjörutíu ár undir ösku. Var farið í þetta verkefni, sem kallað er Pompei norðursins, meðal annars til eflingar ferðaþjónustu í Eyjum. „Skoðanir um þetta verkefni eru skiptar. Sumum finnst sem þarna sé verið að snúa hnífnum í sári fólks sem þurfti að yfirgefa allt sitt í skyndingu. Það sjónarmið á alveg rétt á sér. Hin hliðin er síðan sú að engum er hollt að festast í liðnum at- burðum. Allir þurfa að horfa fram á veginn og það gerðu Eyjamenn svo sannarlega þegar kom að endurreisn bæjarins eftir hinar miklu hamfarir fyrir fjörutíu árum.“ sbs@mbl.is Sá eld í húsi upp við Helgafell Reynir Guðsteinsson var í Eyjum allan gostímann. Bæjarfulltrúi, skólastjóri og hafði búslóðabjörgun með höndum. Álagið mikið á erfiðum tíma. Hefur reynt að gleyma sumu. Samfélagið var rótlaust eftir gosið. Ljósm/Úr einkasafni Björgunarstörf Allir reyndu að leggja sitt af mörkum í þessum hamförum. Reynir Guðsteinsson var í forystusveit Eyjamanna meðan á eldgosinu stóð og hér sést hann á vettvangi á fyrstu dögum gossins, með hjálminn og tilbúinn í hvað sem er. Ljósm/Reynir Guðsteinsson Flug Búslóðir úr húsum í Eyjum voru fluttar upp á land með fiskibátum, frökturum og flugvélum frá Varnarliðinu sem kom raunar mjög að öllu björgunarstarfi. Undir væng flugvélarinnar sést til Smáeyja, sem eru örskammt vestan við Heimaey. Á öllum svona málum þurfti að finna lausn. Það var rótleysi í Eyjum þennan vetur, fólk sótti mikið upp á land og þorði þá aldrei að skilja börnin ein eftir heima í Eyjum. Ótti vegna eldgossins bjó undir niðri. Ljósm/Reynir Guðsteinsson Flugsýn Horft úr suðvestri yfir Vestmannaeyjabæ; reykinn leggur frá eldstöðinni og hrauninu sem um þriðjungur húsa í bænum lenti undir. Þegar komið var fram á vorið dvínaði kraftur gossins, en baráttugleði Eyjamanna jókst í staðinn. Eldkirkjan Mörgum þótti Landakirkja í Vestmannaeyjum vera tákn vonarinnar og að þetta él líkt og önnur stytti upp um síðir, þó eldkeilan og eyðingaröflin væru nærri. Reynir Guðsteinsson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.