Monitor - 05.09.2013, Blaðsíða 12

Monitor - 05.09.2013, Blaðsíða 12
J ökull Júlíusson segist alla tíð hafa verið alæta á tónlist og fór hann snemma að hlusta á klassískt rokk og ról. Hann byrjaði að spila cover-lög ásamt grunn- skólavinum úr Mosfellsbænum en það var aðeins fyrir tæpu ári síðan sem hljóm- sveitin Kaleo varð til í núverandi mynd. Nú er tiltölulega stutt síðan þið komuð fram á sjón- arsviðið, getur þú farið aðeins yfir ferilinn ykkar og hvernig þetta byrjaði allt saman? Þetta á sér í rauninni nokkuð langa sögu. Ég, Davíð og Daníel höfum spilað saman alveg frá því við vorum saman í bekk í grunnskóla. Við byrjuðum á að stofna hljómsveit sem hét „St Peter the Leader“ og vorum þá að semja okkar eigið efni. Við tókum síðan þátt í Músíktilraunum árið 2009, það gekk ekkert frábærlega en það var samt fín reynsla að fá að spila í Gamla bíó og svona. Eftir þetta fórum svo frekar fljótt út í það að taka cover-gigg, það var meiri peningur í því og auðvitað snilld að fá auka vasapen- ing á þessum árum. Við gerðum þetta í þónokkur ár, spiluðum hér og þar og tókum að okkur alls konar merkileg gigg. Hvernig tónlist voruð þið þá að spila sem cover- hljómsveit? Það var bara allur skalinn, við tókum alla flóruna. Gamalt efni í bland við nýtt, allt frá Bítlunum og upp í Rihönnu. Þannig náðum við að höfða til breiðs aldurshóps sama hvort við vorum að spila á pöbbum eða árshátíðum. Það kom samt að því að við fengum nóg af þessu og langaði að gera eitthvað frumsamið, okkar eigið. Fyrir rúmu ári síðan fórum við svo á fullt í að finna okkur aðra til að spila með. Það fór svo þannig að við vorum þrír, grunnurinn, og fengum Rubin Pollock á gítar. Hvernig varð það úr að hann slóst í hópinn? Við kynntumst honum bara í gegnum vinafólk okkar. Reyndar komst ég seinna að því að hann bjó á sama tíma og ég í Árósum í Danmörku og var með mér í árgangi í MS í 3 ár án þess að við nokkurn tímann þekktumst eða bonduðum neitt, sem er frekar fyndin tilviljun. Hver voru svo næstu skref? Við stofnum þarna hljómsveit, Kaleo, en vorum reyndar fleiri til að byrja með. Við vorum bæði með saxófónleikara og selló og vorum svolítið villtir varðandi það hvað við vildum spila. Við Rubin keyptum okkur síðan báðir okkar fyrsta rafmagnsgít- ar og magnara og þá fór þetta svolítið að rúlla og við fórum að spila meira rokk og ról. Nafnið Kaleo, hvernig kemur það til? Það var mikið rætt um nýtt nafn á hljómsveitina fyrir Airwaves í fyrra og Dabbi endaði með því að stinga upp á nafninu Kaleo. Við gerum mikið grín að honum vegna þess að hann er getinn á Hawaii og orðið Kaleo þýðir „the sound“ á hawaii-ísku. Það spilar líklega eitthvað inn í hans hugmyndaflug að hann er getinn þar. Hver voru síðan fyrstu skrefin hjá nýju bandi? Við spiluðum þarna „off venue“ á Airwaves í fyrra. Við vorum upphaflega beðnir að spila cover, en tókum drastíska ákvörðum um að það væri bara komið nóg af því og tími til að spila frumsamið. Við vorum með 30 til 40 mínútna prógramm og spiluð- um einhver fjögur off venue-gigg. Það var síðan bara skyndiákvörðun að taka þátt í Músíktilraunum, ég hafði ekki mikinn áhuga á því til að byrja með en svo sáum við ekki hvernig við gætum tapað neitt á því. Það reyndist nokkuð vel fyrir okkur og við fengum fína athygli, þó svo að Vor í Vaglaskógi hafi tvímæla- laust haft mest að segja. Nú hefur Vor í Vaglaskóli einmitt fengið frábærar viðtökur í sumar, hvernig kom það til að þið stílfærðuð þessa gömlu perlu? Pabbi hafði alltaf haldið upp á þetta lag, sýnt mér það þegar ég var lítill. Ég þróaði síðan þessa útgáfu fyrir einu og hálfu ári síðan á kassagítar í svona „fingerpicking“-stíl. Ég lék mér með melód- íuna þannig hún sveiflaðist aðeins til og lagið varð svolítið dramatískara þegar það var hægt niður í tempói. Upphaflega spilaði ég þetta og söng bara á kassagítarinn, ég gerði það meðal annars í stúdentsveislunni minni og fólk var að taka mjög vel í þetta. Við tókum þetta svo skrefinu lengra og útsettum, fengum sellóið inn, bassann og bakrödd. Síðan spilum við það fyrst þarna á Rás 2. Þannig að lagið ykkar var í sjálfu sér uppgötvað á Rás 2? Já, í rauninni, við fórum í Skúrinn á Rás 2 eftir músíktilraunir. Þeir höfðu séð okkur þar og vildu fá okkur í þáttinn. Við byrjuðum á að taka erfiðasta lagið okkar sem er frekar rokkað og þurftum að spila það sex sinnum í gegn þannig að ég var bara orðinn nokkuð hás eftir það. Við ákváðum að við þyrftum að taka eitt rólegt lag til að halda röddinni í lagi, þannig að við prófuðum bara Vor í Vaglaskógi. Þetta var þannig séð allt saman hálfgerð tilviljun. Þú talaðir um að pabbi þinn hefði sýnt þér lagið þegar þú varst yngri, hvenær byrjaðir þú að pæla í tónlist að einhverju viti? Ég æfði í tvö ár á píanó þegar ég var lítill. Ég var ekkert rosalega duglegur að æfa mig en ég var meira fyrir það að læra bara grunninn, geta pikkað upp lög sem mér fannst skemmtileg. Síðan þegar ég flutti heim til Íslands frá Danmörku, 14 ára gamall, byrjaði ég aftur að spila á píanó og fékk fyrsta gítarinn minn. Þá svona byrjaði þetta af alvöru. Ég fíla annars bara tónlist yfir höfuð, ég hlusta t.d. mikið á klassíska tónlist og alveg yfir í rokk og ról og svona. Þið hafið einmitt gefið út lag sem ber heitið Rock n’ Roller, er sá titill lýsandi fyrir það sem þið eruð að gera í tónlistinni? Ég myndi segja það, en auðvitað er leiðinlegt að vera fastur í einhverjum einum stíl. Tónlist býður upp á svo marga möguleika að það er leiðinlegt að vera einhæfur. Við förum út um allar trissur, en stefnan er klárlega rokk og ról þó svo við tökum alveg ballöður inn á milli. Eru einhverjar áhugaverðar uppákomur sem þið hafið lent í á ferlinum? Já, við höfum spilað á mörgum mjög grilluðum giggum, sérstaklega áður en Kaleo varð til. Við spiluðum t.d. í fermingu þar sem var alltaf verið að biðja okkur að lækka. Við heyrðum varla í okkur sjálfum í lokin og vorum eiginlega orðnir hálfgert skraut þarna. Svo var líklega það fyndnasta, síðasta vetur, þá spiluðum við fyrir Rússa sem komu hérna í heim- sókn. Þeir komu á einkaþotu sem var svo stór að hún fékk ekki leyfi til að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Við vorum keyrðir langt út á land á hvítum Range Rover- jeppum og máttum alls ekki vita hvert við vorum að fara, þetta var bara á leynistað. Við enduðum svo á að spila þar eitthvað pínulítið sett fyrir mjög góðan pening. Það var hins vegar frekar óþægilegt andrúmsloft þarna. Við vorum að spila bara það sem við héldum að þeir myndu vilja heyra en svo stóð „aðal-Rússinn“ reglulega upp til þess að halda ræður og þá áttum við að hætta eins og skot. Hann gaf okkur ákveðið lúkk og þá átti maður að setja allt strax á pásu. Það voru þarna DJ-ar líka sem áttu að spila á eftir okkur en þeir spiluðu á endanum ekki neitt en fengu samt helling af pening. Hvað er það skemmtilegasta sem þið hafið verið að gera hingað til? Við höfum farið svolítið út á land, við spiluðum meðal annars á nýrri hátíð á Ólafsfirði sem ber heitið „Ólæti“. Síðan spiluðum á Akureyri um verslun- armannahelgina, og erum einmitt að fara þangað aftur að spila á Græna hattinum núna 13. september. Það er alltaf gaman að spila úti á landi en það sem stendur upp úr hingað til er klárlega Menningarnótt, það var mjög súrrealískt og skemmtilegt að spila fyrir svona marga í einu. Nú eruð þið fjórir greinilega búnir að vinna mjög náið saman upp á síðkastið, hvernig hefur samstarfið gengið? Ég, Danni og Dabbi erum náttúrulega allir úr Mosó og höfum verið bestu vinir mjög lengi. Það er mjög þægilegt að vera með vinum sínum í hljómsveit því þá er enginn viðkvæmur fyrir því að ræða opinskátt það sem þarf að ræða. Það eru auðvitað oft skiptar skoðanir á ýmsu en við náum almennt mjög vel saman. Þið komið úr Mosó segirðu, er mikil tónlistar- menning þarna í Pizzabæ? Já, það er hellings tónlistarmenning þar, við höfum spilað mikið t.d. hjá Jóa á Hvíta riddaranum sem var einmitt Jói í Pizzabæ í gamla daga. Það er nóg að gerast í Mosfellsbæ, Sigurrós eru einhverjir þaðan og síðan auðvitað Gildran í gamla daga. Hvað er annars málið með þennan Pizzabæ? Pizzabær var bara pizzastaður og líka eins konar samkomustaður unglinganna í gamla daga. Þetta er Hrói Höttur í dag samt. Þetta er þarna í kjarnanum og þegar ég var í gaggó þá var alltaf farið í hádeginu upp í Pizzabæ og fengið sér brauðstangir eða kryddbrauð. Jói á Hvíta riddaranum var á þessum tíma kallaður Jói Kryddbrauð. Hefur þú búið alla tíð í Kryddbrauðsþorpinu eða voru einhverjir flutningar inni á milli? Ég bjó í Danmörku í tvö ár en þar á undan bjó ég á Hornafirði í sex ár. Á Hornafirði gerði ég ekki annað en að spila fótbolta enda kannski ekki mikið annað að gera. Það er reyndar gaman að segja frá því að síðasta laugardag vorum við heiðursgestir á bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ á leik Aftureldingar og Sindra. Sindri er einmitt frá Hornafirði þannig að maður kannaðist við marga í báðum liðum, en ég spilaði með Aftureldingu þegar ég flutti heim í Mosó. Félagar þínir í Kaleo sögðu mér frá skemmtilegu atviki sem þú lentir í með Jónasi Sig og ritvélunum, þú minntist ekkert á það hérna áðan. Já úff, ég lenti í hræðilegu atviki þegar við vorum að spila á Hressó einhverntímann, ætli það hafi ekki bara verið á Airwaves í fyrra. Staðurinn var alveg pakkaður, en við vorum búnir að spila og ég sat á borði við hliðina á sviðinu. Ég ætlaði síðan að klifra einhvernveginn yfir borðið en gerði hins vegar þau mistök að ýta í loftið þannig að borðið hvolfdist og ég steyptist á hljómborðsleikarann, nánast bara jarðaði hann þarna á sviðinu. Þeir hættu að spila í smástund og allur salurinn tók eftir þessu. Ég er síðan þarna eins og fábjáni allt kvöldið að biðja hann afsökunar. Þegar tónleikarnir eru búnir þá fer ég aftur að biðja hann afsökunar og sé að hann er bara með staf. Ég veit ekki hvort hann var að glíma við meiðsli eða eitthvað svoleiðis, en þetta var allavega ekki ákjósanlegasti meðlimurinn til þess að ýta um koll. Hann hefur ekkert erft þetta við þig? Ég vona ekki, ég allavega margbað hann afsökunar. Hann var hins vegar ekki sáttur, skiljanlega. Annað sem mér fannst áhugavert er að þú ert ekki á facebook, hvernig stendur á því? Bara eftir allt þetta Snowden-mál þá bara ... nei, nei, ég hef bara einhvernveginn aldrei verið hluti af þessari netmenningu. Hljómsveitin er auðvitað með Facebook og við erum virkir þar, enda frábær leið til að koma ýmsu á framfæri og auglýsa viðburði og þess háttar. Þetta hefur bara ekki höfðað til mín. Þetta hefur klárlega marga kosti en einnig einhverja galla. Það er ótrúlegt hvað sumir sjá sig knúna til að deila með öðrum á netinu, eins og t.d. hvað fólk fær sér í matinn! Þetta virðist á vissan hátt ýta undir hégóma og athyglisþörf. Einhverjir lifa ákveðnu lífi á Facebook en síðan allt öðru lífi í raunveruleikanum. Síðan er auðvitað gífurlegur tími sem fer í þetta og það er gott að nota tímann í annað. Ég spila heldur ekki mikið tölvuleiki nema þá að sjálfsögðu FIFA með félögunum! Átt þú einhverjar fyrirmyndir í tónlist? Íslensk tónlist í dag er auðvitað ótrúlega fram- arlega, en ég persónulega hlusta mjög mikið á tónlist svona frá 50‘s og upp í 70‘s og sæki mikinn innblástur þaðan. Ég hlusta nánast bara á Gullbylgj- una þegar ég er heima og í bílnum. Fyrirmyndirnar eru óteljandi en algjörir uppáhaldslistamenn eru m.a. Ray Charles, Otis Redding, Bítlarnir, síðan Led Zeppelin, The Who og allt þetta þar aðeins á eftir. Í rauninni bara tónlist áður en hún varð commercial- fyrirbæri, eins og hún er svolítið í dag. Í hvað fer svo veturinn hjá ykkur? Hann fer bara alfarið í tónlistina, við stefnum á að gefa út plötu fyrir jól og verðum bara að vinna á fullu í henni. Við erum með gott efni og við viljum skila því frá okkur eins vel og það á skilið. Svo er auðvitað Airwaves, við erum ON venue í ár þannig að við erum komnir aðeins lengra en í fyrra. Síðan langar okkur bara að koma sem mest fram, við teljum að góðir tónlistarmenn verði bara betri með æfingunni. Við erum svolítið Live band og hvetjum alla sem hafa heyrt í okkur til þess að koma á tónleika og vera hluti af þessu með okkur. Fá þetta beint í æð! Kemur þessi nýja plata til með að vera meira á ensku eða íslensku? Hún verður að miklu leyti á ensku, en ég hef 12 MONITOR FIMMTUDAGUR 5. SEPTEMBER 2013 Texti: Hersir Aron hersir@monitor.is Myndir: Golli golli@mbl.is Hann er getinn á Hawaii og orðið Kaleo þýðir „the sound“ á hawaii-ísku. JÖKULL Á 30 SEKÚNDUM Fyrstu sex: 200390. Fyrirmynd: Jesú. Það leiðinlegasta sem ég geri: Að taka til eða raða hlutum. Það skemmtilegasta sem ég geri: Að spila tónlist. Það sem ég geri til þess að slaka á: Ég geri vel við mig, læt kannski renna í heitt bað.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.