Akureyri - 12.12.2013, Side 16
16 12. desember 2013
Um hland kölska
og heila geðsmuni
„Það er auðvitað deginum ljósara að
manneskja sem kann ekki að njóta
náttúrufegurðar Norðurlands er ekki
heil á geðsmunum!“
Þetta segir rithöfundurinn Sindri
Heimisson sem rekur ættir til Aðal-
dals og hefur nú sent frá sér nýja bók,
Blindhríð, þar sem náttúrufegurð
Norðurlands kemur öðrum þræði
við sögu í kafla sem hér fer á eftier.
„Blindhríð er spennutryllir um
Stefán, landsþekktan veðurþul hjá
sjónvarpsstöðinni Stöðin, sem lend-
ir í gríðarlegum hremmingum eftir
skyndikynni með breskri konu, Violu,
sem hann hittir í flugvél á leið til
Íslands. Að þeim loknum á Stefán
ekki von á að sjá rekkjunaut né heyra
nokkru sinni. En annað kemur ald-
eilis á daginn,“ segir Sindri.
Viola er á leið í hópferð hringinn
í kringum Ísland og skrifar honum
fyrsta bréfið strax í Gauksmýri og
síðan á næstu áfangastöðum, þar á
meðal Mývatni. „Í stað þess að njóta
ægifagurrar náttúrunnar þar tek-
ur hún fremur þann pól í hæðina
sem Jón Árnason gerði í þjóðsögum
sínum, en hann vildi meina að Mý-
vatn hefði verið myndað úr hlandi
kölska og væri það með „eindæm-
um ljótt stöðuvatn“ og mývargur-
inn sannkallað kvalræði fyrir menn
og málleysingja umhverfis vatnið.
Bréfin berast Stefáni ótt og títt og
síðan haglél tölvupósta þegar hún
snýr aftur til London og margskon-
ar hugmyndaríkt en að sama skapi
ógnþrungið áreiti á Netinu. Stefán
gerir sér fljótlega ljóst að hann er
orðinn skotmark vægðarlausra of-
sókna, tilvera hans kollsteypist og líf
hans er í hættu. Hann þarf að velja
hvort hann sætti sig við að kikna
undan heiftarlegri atlögunni að ver-
öld sinni og einkalífi eða snúist til
varnar með róttækum aðferðum og
grípi til vopna. Rafrænar ofsóknir
eru ein helsta hættan sem stafar að
friðhelgi og einkalífi nútímamanns-
ins og ótrúlega margir verða fyrir
slíku; allir sem á annað borð nota
farsíma og tölvur eru
hugsanleg skotmörk,“
segir Sindri.
Við fengum leyfi
hjá Sindra til að birta
kafla úr bókinni þar
sem Viola, konan sem
ofsækir aðalpersónuna
Stefán, er í hringferð
um landið og skrifar
honum ótt og títt. Hún
er á Mývatni þegar
hún skrifar honum
annað bréfið og einsog
fram kemur í vangaveltum hans í
niðurlagi síðunnar, botnar hann ekk-
ert í því að hún sé ekki betri túristi
en raun ber vitni.
„Mývatn. Föstudagskvöld – birtan
er hafblá.
Elsku besti S.
Það var unaðslegt að heyra rödd
þína og fá það líka á til-
finninguna að þú bíðir í
ofvæni eftir næsta bréfi
frá mér (þú varst næst-
um klökkur þegar þú
spurðir: Hvar póstlagðir
þú þetta langa bréf?). Á
hinn bóginn særðir þú
mig AFTUR! með því
að segja mér AFTUR!
að þú sért landsfrægur.
Að allt kvenkyns á eyj-
unni elti þig á röndum.
Að margar konur vildu
vera í MÍNUM! sporum. Eru veður-
fréttamenn virkilega svona þekktir
á Íslandi?! Er öll þjóðin á bólakafi
í regnskúrum og vindstigum? Eruð
þið öll snargeggjuð?!
Kona í hópnum lét mig fá svefn-
pillu í dag. Ég hef varla sofið dúr
seinustu einmanalegu nætur. Þessar
andvökur fara illa í mig.
Til þess að þú kynnist mér betur
ætla ég að reyna að lýsa lífi mínu í
stórum dráttum:
Pabbi elskaði Ítalíu og allt ítalskt
og réð því að ég var skírð Viola. Þú
sagðir mér að ef ég væri íslensk héti
ég Fjóla og ég er alltaf að verða
ánægðari með það nafn, hljómurinn
er svo framandi og kynæsandi. Pabbi
sagði að ég hefði verið skírð eftir
fínlegu sjöstrengja hljóðfæri, viola
d’amore (fjóla ástarinnar?), formóður
fiðlunnar. Mamma sagði hins vegar
að ég hefði verið skírð eftir blóminu,
að hún hefði gert sér vonir um að
ég myndi fegra heiminn. Þeim bar
ekki saman um nafn mitt fremur
en nokkuð annað. Túlkanir þeirra á
veröldinni flutu hlið við hlið einsog
tvær segulmagnaðar málmflísar sem
er ókleift að snertast, sem hrökkva
alltaf hvor frá annarri.
Ég vissi aldrei hvoru þeirra ég átti
að trúa. Hélt jafnvel að um væri að
ræða samantekin ráð þeirra til að
hringla í hausnum á mér. En núna
veit ég að þau hefðu aldrei getað sam-
mælst um svo kvikindislega brellu;
gjáin á milli þeirra var of breið. Alla
bernsku mína bar ég því nafn hljóð-
færis og jurtar, ráðvillt en möglunar-
laust. Plöntufiðla, fiðluplanta. Spratt
nafn mitt úr náttúrunni eða iðngrein?
Alveg þangað til ég ákvað á unglings-
aldri að halla mér að plöntunni. Í því
fólst ekki nein stuðningsyfirlýsing við
mömmu, hún var bara feit og ráðrík
og heimsk kona. Nei, ég veðjaði á
blómið því lykt hefur alltaf skipt mig
meiru en tónlist. Ég hefði samt helst
af öllu viljað vera skírð eftir Víólu
í Jónsmessunótt Shakespeares; hún
var fögur og klók og hreppti ástina
sem hún þráði.
Þessar viðbjóðslegu mýflugur
sækja svo í augun á mér að ég verð
að hætta að skrifa núna. Vona að
ég finni frímerki. Fiðlublómið þitt,
Fjóla.
Ég las bréfið steini lostinn. Hvar
í ósköpunum fann konan tíma og
ráðrúm til að skrifa þessar langlokur
og raunarollur? Hossaðist hún ekki í
rútuskrjóð á vegaslóðum sem líktust
skriðdrekatorfærum? Var hún ekki
umkringd síkjaftandi túrhestum og
myndavélasmellum öllum stundum?
Hafði hún ekki greitt fúlgur fjár og
afsalað sér þægindum, einkalífi og
kyrrð til að geta barið hrikafögur
öræfi Íslands augum frá morgni til
kvölds? Var hún ekki hugfangin af
klungri, köldum fossúða, hrjúfum
bergtegundum og þúsund og einu
mismunandi litbrigðum mosa? Af
hverju eyddi hún lengri tíma í að
þefa uppi pósthús á afskekktum
krummaskuðum en að dást að fágæt-
um klettamyndunum? Hvenær fór
hringferð hennar að snúast um mig?
Af hverju hafði hún meiri áhuga á
mér en landinu fagra?
Átti ég að vera upp með mér að
hafa meira aðdráttarafl en Goða-
foss eða Dimmuborgir? Djöfull hlaut
ég að hafa staðið mig vel þarna um
nóttina! Eða hvað?
Ég tíndi síður bréfsins af gólfinu,
raðaði þeim saman og smokraði ofan
í umslagið. Daufur ilmur gaus upp
úr því og kitlaði nef mitt. Ilmurinn
af Violu Fillmore." a
Sindri Heimisson