Morgunblaðið - 04.10.2013, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 04.10.2013, Blaðsíða 29
ganga að rækjusalati vísu í ís- skápnum og lambalærið góða eða kjötsúpan var alltaf á boð- stólum. „Amma gerir bestu kjötsúpu í heimi,“ voru krakk- arnir mínir vanir að segja. Guð- finna og Júlíus eiga stóran hóp afkomenda sem þau hafa ávallt fylgst vel með. Besta gjöfin sem hægt var að koma með til Guðfinnu voru myndir af barna- börnum til að skoða. Hún vildi alltaf fá fréttir af öllu sem þau gerðu og eins segja okkur frá því sem hin barnabörnin voru að gera. Guðfinna fylgdist mjög vel með því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Hún las blöðin og fylgdist vel með fréttum alla tíð og las líka mikið um menn og málefni líðandi stundar. Það var því alltaf nóg að spjalla um og hún hafði sterkar skoðanir á öllum málum. Það kom stund- um á óvart hve dugleg hún var að fylgjast með og stundum fannst manni hún vita allt. Nú þegar Guðfinna kveður okkur er hún svo sannarlega búin að skila sínu. Hún var alltaf hrein og bein, sá vel um sitt fólk og sína hluti. Ég þakka henni sam- fylgdina og leiðsögnina gegnum árin. Ég átti þó ennþá eftir að læra að hekla borðtuskur eins og hún var nýlega farin að gera en ég er viss um að hún mun stýra mér í gegnum það. Ég sendi tengdaföður mínum, hon- um Júlíusi, mínar innilegustu samúðarkveðjur sem og fjöl- skyldunni allri. Minning Guð- finnu mun lifa í öllum hennar afkomendum. Blessuð sé minning hennar. Jónína Salóme. Það var snemma árs árið 1975, að ég fór í mína fyrstu ferð til Siglufjarðar að heim- sækja tilvonandi tengdaforeldra mína. Ég var að vinna við end- urskoðun á Sauðárkróki, og Sólveig komin norður til for- eldra sinna á Siglufirði. Ég tók rútuna til Siglufjarðar. Þetta var seint um kvöld og snjór yfir öllu. Þetta var í þá daga sem stoppað var í Haganesvík, og síðan ekið um skriður til Siglu- fjarðar. Mér fannst fjörðurinn vera fullur af snjó. Það var þó eitthvað fallegt við þennan stað. Sólveig mín, sem var komin til að taka á móti mér dró mig síð- an eftir snjósköflunum upp á Háveg, þar sem tengdafólk mitt bjó. Þar biðu mín hlýjar og góð- ar móttökur, eins og ávallt síð- an. Nú hefur Guðfinna tengda- móðir mín lokið sinni jarðvist eftir langvarandi veikindi, en aðeins viku dvöl á dvalarheimili aldraðra, Hlíð á Akureyri. Þeg- ar ég lít til baka hvarflar hugur minn til góðra minninga með tengdaforeldrum mínum. Ber þar hæst heimsóknir okkar hjóna og barna okkar til Siglu- fjarðar. Þar var ætíð gott að koma og vel tekið á móti börn- um og barnabörnum. Ég held að öll börnin okkar Sólveigar hafi dvalið hjá ömmu og afa á Siglufirði í lengri eða skemmri tíma á sumrin. Við Sólveig fórum nokkrar utanlandsferðir með þeim Júl- íusi og Guðfinnu. Þar er minn- isstæð ferð til Ítalíu sem var okkar fyrsta sólarlandaferð. Þar var Guðfinna með í för. Hún nýtti allar sólarstundir eins og hverja aðra vinnu og var búin að finna leið upp á þak hótelsins sem við bjuggum á, og var oft komin þar upp, þegar við hin vöknuðum á morgnana. Þá voru ekki síðri ferðir til Þýskalands og Danmerkur með þeim hjónum, svo og önnur samvera með þeim hér heima. Guðfinna var fædd í Ólafs- firði og átti sterkar taugar til þess staðar. Í Auðnum var heimili hennar í æsku og þar fæddist frumburðinn, konan mín Sólveig. Lengst af var þó heimili hennar á Siglufirði. Þar bjó hún með fjölskyldu sinni allt til ársins 2002, þegar hún og Júlíus fluttu til Akureyrar. Það eru viss forréttindi í líf- inu að hafa kynnst konu eins og Guðfinnu. Hún var ákveðin í skoðunum og gjörðum, en þó ávallt sanngjörn. Baráttan var hörð og vinnan var númer eitt. Hún átti fallegt heimili, bæði á Siglufirði og á Akureyri. Og ef gest bar að garði var ekki langt að bíða eftir vöfflum með sultu og rjóma. Á undanförnum árum hefur Guðfinna átt við veikindi að stríða, en þó ávallt viljað vera heima og bjarga sér sjálf með dyggri aðstoð eiginmanns síns Júlíusar, enda taldi hún þetta ekki veikindi, heldur aðeins eitthvert slen, eða jafnvel leti. Það er þó öllum ljóst, sem til þekkja, að Guðfinna tengda- móðir mín var ekki löt kona. Ég þakka samfylgdina og alla aðstoð, og votta öllum að- standendum samúð. Björn Ó. Björgvinsson. Í dag fylgi ég til grafar Guð- finnu ömmu minni, sterkustu konu sem ég hef kynnst. Það er með söknuði og trega að ég rita þessi orð enda er mér orðavant að lýsa því góða vináttusam- bandi sem við höfum alltaf átt. Guffa amma var kona sem hafði bein í nefinu, ákveðin, á köflum óþægilega hreinskilin en á sama tíma ein ástríkasta mann- eskja sem ég hef kynnst. Hún var vinkona mín, vinkona sem ég mun aldrei gleyma, vinátta sem býr með mér alla tíð. Amma var sannkölluð kjarnakona og vék sér ekki undan verkunum. Við deildum stundum um mikilvægi hús- verkanna en hún hafði alltaf lagt mikinn metnað í að halda uppi góðu, fallegu og hreinu heimili. Þegar ég kom í heim- sókn á unglingsárunum átti hún það til að reka mig úr fötunum og draga fram strauborðið því það væri ekki sjón að sjá mig í svona krumpuðum fötum. Ekki það að hún hafi straujað fyrir mig heldur átti ég að gera það sjálf. Alltaf var hægt að treysta því að hún myndi segja sína skoðun án þess að fara í kring- um hlutina sem mér finnst aðdáunarvert og merki um sterkan persónuleika. Það var oft ekki að heyra að mikill aldursmunur var á milli okkar þegar við sátum yfir kaffibolla og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar. Mér þótti ákaflega gaman að heyra sögurnar um uppvöxt hennar í Ólafsfirði, lífið á Siglufirði á hernámsárunum, Grænlands- ferðina og auðvitað sögur af mömmu og systkinum hennar. Hún var mikil fjölskyldukona enda er fjölskyldan stór og fer ört stækkandi. Hún sagði mér oft að ef það væri ekki fyrir forvitni sína að vita hvernig öll- um vegnaði á lífsleiðinni, fyrir viljann til að fylgjast með börn- um sínum, barna- og barna- barnabörnum vaxa úr grasi, þá hefði hún fyrir löngu farið í frí- ið. Amma stóð með sínu fólki og studdi í bæði sigrum og ósigr- um og hvatti til dáða þegar á reyndi. Margar minningar standa upp úr þegar ég lít til baka, sér í lagi baksturinn á mömmu- kossunum fyrir jólin sem mér þóttu svo góðir. Við rifjuðum oft upp þá minningu í seinni tíð enda áttum við svo notarlega og hlýja stund saman. Ég mun aldrei gleyma þegar ég sagði henni frá því að ég ætti von á barni þar sem við féllumst í faðma, báðar hrærðar yfir fréttunum og þurrkuðum síðan tárin í burtu í laumi. Ég er glöð að þú fékkst að kynnast Dag- björtu minni, hún mun búa að þeim góðu gildum, styrk og ást sem þú innrættir mér. Þegar ég lít til baka er þakk- læti efst í huga mér. Þakklæti fyrir allan þann tíma sem við áttum saman, þakklæti fyrir ógleymanlega vináttu, þakklæti fyrir allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur og þakklæti fyrir þá stóru og sam- heldnu fjölskyldu sem eftir stendur sem er ef til vill skýr- asti vitnisburðurinn um það mikla og góða ævistarf sem amma og afi skilja eftir sig. Njóttu frísins, amma mín, þú átt það skilið. Þín Eva. Elsku besta amma. Takk fyrir allar stundirnar sem við sátum og spiluðum saman. Takk fyrir allar samveru- stundirnar á Háveginum og í Skessugili og alls staðar annars staðar. Takk fyrir að taka á móti okkur í hvert sinn með opinn faðminn. Takk fyrir alla gleðina og hláturinn. Takk fyrir skyrið með rjóm- anum og bestu kjötsúpu í heimi. Takk fyrir allt, elsku besta amma okkar. Elsku afi, sendum þér inni- legar samúðarkveðjur sem og fjölskyldunni allri. Við þökkum fyrir ástúð alla, indæl minning lifir kær. Nú mátt þú vina höfði halla, við herrans brjóst er hvíldin vær. Í sölum himins sólin skín við sendum kveðju upp til þín. (H.J.) Þín barnabörn, Davíð, Björk og Andri. Nú er komið að kveðjustund hjá okkur ömmu. Minningarnar um heimsóknirnar til ömmu og afa á Sigló eru mér ljóslifandi. Þar upplifði ég ýmis ævintýri sem ekki gerðust í höfuðborg- inni. Við vorum ekki há í loft- inu, barnabörnin að sunnan, þegar við fórum einsömul með flugi norður, oftast að sumri eða um páska. Páskaferðirnar eru sérstaklega minnisstæðar þar sem veturinn þar var æv- intýri líkastur fyrir borgar- barnið. Allar götur fullar af snjó og skíðasvæðið aðeins örfáar mínútur frá ömmu og afa. Við amma rifjuðum páska- heimsóknirnar upp nú um síð- ustu páska. Þá kom ég við í Skessugilinu á leiðinni norður þar sem við fjölskyldan ætluð- um að njóta siglfirsku alpanna yfir páskahátíðina. Ég hafði það á orði að ég ætlaði að kanna hvort raunveruleikinn væri jafn sætur og minningar sem ég á frá æskuárunum í firðinum fagra, sem varð raunin. Amma hafði gaman af að heyra ferða- söguna en líklega þótti okkur ekki síst gaman að því að rifja upp ljúfar minningar frá fyrri árum. Fjarlægðin milli okkar gerði það að verkum að samveru- stundirnar voru ekki eins margar og ég hefði kosið. En minningarnar eru bæði ljúfar og dýrmætar og ekki síst minn- ingar um spjall um alla heima og geima. Elsku amma, takk fyrir stundirnar okkar. Hvíl í friði. Íris. Þegar kemur að kveðjustund er margs að minnast og margt að þakka. Elsku amma mín leggur nú af stað í fríið mikla eins og hún var vön að kalla það. Er hún nú komin í faðm barnanna sinna sem hún og afi misstu, Brynjars og Brynju. Þegar ég hugsa til baka þá ber helst að minnast dekursins í Háveginum. Þegar ég fékk að gista hjá ömmu pakkaði hún mér inn í dúnsæng sem var bú- in að viðrast úti með nýstrauj- uðum rúmfötum. Þegar gat kom á sokkana fór maður til ömmu í sérstakt saumadekur. Þá fékk ég að sitja uppi á eld- húsborðinu og hún stoppaði í sokkana. Svo góð meðferð fékkst líka þegar maður fékk flís. Best var að láta ömmu fjar- lægja hana. Bestu stundirnar voru samt alltaf á jólunum. Við höfum eytt hátt í 30 aðfangadagskvöldum saman. Fyrst hjá ömmu og afa á Sigló og svo komu þau til okkar eftir að þau fluttu hingað til Akureyrar. Hefðirnar hafa haldist næstum óbreyttar í gegnum tíðina þrátt fyrir að það bætist alltaf í hópinn nýir fjölskyldumeðlimir. Amma mín var gift afa mín- um í tæp 60 ár og eru afkom- endur orðnir rúmlega 60. Amma var með risastórt hjarta og elskaði okkur hvert eitt og einasta og talaði ætíð um börn- in, barnabörnin og barnabarna- börnin af miklu stolti. Amma kær, ert horfin okkur hér, en hlýjar bjartar minningar streyma um hjörtu þau er heitast unnu þér, og hafa mest að þakka, muna og geyma. Þú varst amma yndisleg og góð, og allt hið besta gafst þú hverju sinni, þinn trausti faðmur okkur opinn stóð, og ungar sálir vafðir elsku þinni. Þú gættir okkar, glöð við undum hjá, þær góðu stundir blessun, amma kæra. Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá í hljóðri sorg og ástarþakkir færa. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Með þessum fáu orðum vil ég þakka þér, amma mín, fyrir all- ar okkar stundir, fyrir alla þína visku, kærleik og hlýju. Elsku amma, takk fyrir allt og allt. Freydís. MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. OKTÓBER 2013 barnanna eða bara til mín per- sónulega, ég man það svo vel, takk fyrir það. Þegar ég var lítil gerðum við svo margt saman sem lifir í minningunni, eins og þegar þú tókst mig með þér í sveitina þar sem þú gerðist kaupakona. Það voru æðislegar minningar sem ég gleymi seint, þar kynntist ég t.d. Bjössa sem ég fór svo í sveit til seinna og naut þess út í ystu æsar. Svo kynntist þú stjúp- föður mínum, Eyjólfi Jónssyni, sem ég kallaði og kalla alltaf pabba, enda hefur hann alltaf tek- ið mér sem sinni eigin dóttur þó svo að minn blóðfaðir hafi sinnt mér mjög vel og öll mín föðurfjöl- skylda. Elsku mamma, þú átt svo stórt pláss í mínu hjarta. Við vor- um ekki bara mæðgur, við vorum bestu vinkonur. Mamma, þú sagðir alltaf Linda, þú átt svo góðar vinkonur. Já, ég er sam- mála því að ég á góðar vinkonur en að þeim ólöstuðum varst þú mín besta vinkona og það kemur engin í þinn stað, elskan mín. Núna þessa daga er ég að reyna að sefa sorg barnabarna þinna en læt sjálfa mig sitja á hakanum. En ég á eftir að taka það út. Elsku mamma, við vorum búin að gera plan um að sitja hjá þér á meðan þú varst veikust. Ég og Íris áttum að vera hjá þér klukkan átta um kvöldið en okkur fannst það alltof langur tími frá því að við sáum þig síðast þannig að við ákváðum að koma til þín fyrr eða nákvæmlega klukkan hálftvö. Stuttu eftir að Íris var búin að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir hana þá kvaddir þú þennan heim með virðingu eins og þú hefðir viljað. Elsku mamma, farðu í friði. Þín elskandi dóttir, Linda. Við kveðjustund rifjast upp fyrir mér saga sem þú sagðir mér, þegar ég var lítill strákur. Sagðir þú mér að þú værir handviss um að þú hefðir lifað áður, að þú vær- ir með skýra mynd í huganum af sjálfri þér sitjandi í hestvagni í fjarlægu landi. Það er gott að geta nú leitað til baka í þessa frá- sögn og óskað þess að þú sért nú á góðum stað, elsku mamma mín. Ég fyllist hlýjum tilfinningum þegar ég horfi til baka á bernsku- árin, ég var svo heppinn að eiga mömmu eins og þig sem var alltaf til staðar og var besti vinur minn. Ein af þessum ljúfu minningum frá barnsárunum var að vakna á sunnudagsmorgnum við lyktina af lambalærinu sem var að grill- ast í ofninum og þú að hlusta á út- varpsmessuna á meðan þú töfr- aðir fram þennan ótrúlega góða mat. Þú ert sú manneskja sem hefur alltaf verið miðdepillinn í mínu lífi, sú sem ég hef getað leitað til með sorgir mínar og gleði, sú manneskja sem elskaði mig skil- yrðislaust, sama hvað. Það er erf- itt að hugsa sér lífið án þín, elsku mamma. Þú verður alltaf nr. 1 í mínu hjarta. Ó, blessuð vertu, sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. Nú fossar, lækir, unnir, ár sér una við þitt gyllta hár, nú fellur heitur haddur þinn á hvíta jökulkinn. (Páll Ólafsson) Bless, elsku mamma, og takk fyrir allt. Jón Eyjólfsson. Elsku besta amma mín, ég trúi því ekki ennþá að þú sért farin. Það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa til þín er ást og þakklæti. Ég er svo þakklát fyrir allt sem við áttum saman og mun varðveita þær minningar að eilífu. Þú varst svo miklu meira en bara amma mín, við vorum líka svo góðar vinkonur og ég gat allt- af leitað til þín. Ég man bara hvað það var gaman að fá að koma og gista hjá ykkur afa sem ég fékk svo oft að gera. Það var svo margt sem ég fékk að upplifa með ykk- ur, eins og að ferðast um allt land auk þess sem oft var farið í leik- hús og bíó. Það var alltaf dekrað við mann fram í fingurgóma þeg- ar maður kom til þín, þú keyptir allt það sem mér fannst best að borða og laumaðir svo oft að mér gjöfum upp úr þurru. Ég hef allt- af fundið það og vitað það svo vel hvað þú elskaðir mig. Ég hugsa um allar þær yndislegu stundir sem við áttum saman og fæ bara hlýju í hjartað. Þín síðustu ár hafa einkennst af miklum heilsubresti og það hefur verið mjög sárt að horfa upp á það. En við hittumst samt alltaf reglulega og spjölluð- um. Ég litaði oft á þér hárið því þú hugsaðir alltaf vel um útlitið og varst alltaf svo falleg. Ég er svo þakklát fyrir þessa rúmu tvo mánuði sem við áttum saman þeg- ar þú varst á spítalanum. Við mamma komum á hverjum degi til þín og áttum yndislegar stund- ir með þér þegar við áttum kósí- kvöldin okkar um helgar. Þú sagðir mér hvað þér þætti vænt um okkur Viktor í hvert skipti sem ég var hjá þér. Ég á svo fal- lega minningu þegar þú kvaddir okkur þó það hafi verið ólýsan- lega sárt. Ég tók utan um þig, hvíslaði að þér hvað ég elskaði þig óendanlega mikið og væri þakklát fyrir allt sem við áttum saman, stuttu seinna varstu farin, falleg og friðsæl. Hvíl í friði, elsku amma mín. Þín Íris Hildur Kærnested. Enn er höggvið í systkinahóp- inn, það þriðja á þremur árum. Hún Bogga, eins og við kölluðum hana, kveður nú eftir stutta sjúkrahúslegu, en undanfarin ár hafa oft verið erfið. Hún vissi að komið var að leiðarlokum, sýndi hún mikið æðruleysi, var bæði kát og skemmtileg. Í einni heimsókn- inni stakk hún upp á því að við systurnar kæmum með súkku- laðiköku næst þegar við kæmum (enda var súkkulaðikaka eitt af því betra sem hún smakkaði) en hún skyldi sjá um að við fengjum kaffi. Auðvitað gerðum við það og var þetta yndisleg stund sem við áttum saman. Hún, þessi elska, var þeim eiginleikum gædd að alltaf vorum við glaðari þegar við fórum frá henni en þegar við komum. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Eyjólfi og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur, megi elskuleg systir okkar hvíla í friði. Kristín, Ágústa og Hrefna. HINSTA KVEÐJA Til kærrar vinkonu. Sárt er vinar að sakna. Sorgin er djúp og hljóð. Minningar mætar vakna. Margar úr gleymsku rakna. Svo var þín samfylgd góð. Daprast hugur og hjarta. Húmskuggi féll á brá. Lifir þó ljósið bjarta, lýsir upp myrkrið svarta. Vinur þó félli frá. Góða minning að geyma gefur syrgjendum fró. Til þín munu þakkir streyma. Þér munum við ei gleyma. Sofðu í sælli ró. (Höf. ók.) Kristín og Ármann. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, ZOPHONÍAS ÁSGEIRSSON vélstjóri, lést á Hrafnistu Hafnarfirði föstudaginn 27. september. Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Sérstakar þakkir fær hjúkrunarfólk á 2-B Hrafnistu. Ingibjörg Pálsdóttir Kolka, Ingibjörg Sólveig Kolka Bergsteinsdóttir, Jón Bjarnason, Hólmfríður Kolka Zophoníasdóttir, Böðvar Guðmundsson, Guðmundur Kolka Zophoníasson, Guðríður Kolka Zophoníasdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.