Monitor

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Monitor - 09.01.2014, Qupperneq 12

Monitor - 09.01.2014, Qupperneq 12
Í alvöru,“ hrópar Saga Garðarsdóttir spennt upp yfir sig þegar barþjónninn á Bunk Bar segir henni að hún megi eiga Jesú- líkneskið sem fær þann heiður að prýða forsíðu Monitor með leikkonunni. Seinna laumar hún því að undirritaðri að hún sé að láta sauma á sig Jesú-bikiní auk þess sem hún bíði spennt eftir Miley Cyrus-peysunni sinni sem á að vera löngu komin í póstinum. Milli þess sem Saga hoppar upp og niður af borðum í myndatökunni og gerir látlaust grín að klaufalegum mismælum blaðamanns tjáir hún sig hispurslaust um menn og málefni en segist samt aldrei vera alvarlegri en þegar hún er að grínast. Þú hefur komið víða við frá því að þú útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2012, leikið í sjónvarpsþátt- um, í Þjóðleikhúsinu og komið að skrifum áramóta- skaupsins. Hvaða verkefni stendur upp úr þegar þú lítur yfir farinn veg? Ég myndi segja að það að leika í Englum alheimsins sé eitt af því sem stendur upp úr og einnig að skrifa Bakþanka, mér finnst frábært að fá að segja hvað mér finnst um allt (hlær). Svo finnst mér uppistand náttúrlega svo frábært, af því þá er maður að tala beint við fólk. Þá er enginn veggur og ekkert leikrit í gangi heldur beint samtal. Þú hefur einmitt verið virkur uppistandari um nokkurt skeið, ekki satt? Jú, ég byrjaði þegar ég var í Listaháskólanum. Þá byrjaði Mið-Ísland og þegar þeir voru fyrst að flytja sitt uppistand hituðum við Ugla (Egilsdóttir) upp með mjög absúrd ljóðagríni þar sem við snerum út úr frægum ljóðum. Þetta tengdist ekkert uppistandi heldur var þetta bara eitthvað skrítið sem okkur datt í hug. Mið-Ísland varð til sem svona stráka-uppistands- hópur en svo stofnaði Þórdís Nadia uppistandshóp stelpna. Ég ætlaði aldrei að taka þátt í því, ég dáðist að þeim úr fjarska en fannst ég ekki hafa tíma út af skólanum auk þess þorði ég því ekki. Mér fannst eins og að ég yrði að segja bestu brandara í heimi og ég var ekki búin að láta mér detta þá í hug og hef ekki gert enn. Ugla var samt alltaf að segja mér að ég yrði að gera þetta og einn daginn segir hún við mig: „Heyrðu, Saga, ég er búin að bóka þig á Næsta bar á fimmtudag- inn svo þú bara verður að mæta“. Ég settist niður og reyndi að búa til eitthvað sem einhverjum gæti mögu- lega þótt fyndið og svo gekk þetta bara svona ótrúlega vel. Í kjölfarið fór ég að troða upp meðfram náminu og hef verið að gera það aðeins eftir útskrift líka. Þú hefur ef til vill einna helst látið til þín taka, eða verið sýnilegust, sem grínisti eða gamanleikkona. Grínið virðist hinsvegar vera mikill strákaklúbbur. Hvernig er að vera fyndin kona á Íslandi? Það er náttúrlega mjög mikið af strákum en þær konur sem eru í þessu eru auðvitað stórkostlegar eins og t.d. Helga Braga, Ólafía Hrönn og Edda Björgvinsdóttir sem ég hef getað leitað ráða hjá. Stundum þegar ég er að skemmta þar sem konur eru í meirihluta finn ég fyrir ákveðnu þakklæti og opnun, eins og að þeim finnist að hér sé komin einhver sem talar meira við þær eða að þær geti tengt sig betur við umfjöllunarefnið. Þar sem karlar eru í meirihluta mæti ég stundum mönnum með krosslagðar hendur og viðmótið „Ókei, sýndu mér hvað þú getur, sannaðu þig“. Svo hefur oft verið talað um að stelpur megi vera dónalegri en strákar í uppistandi. Ég held að það sé rétt. En það er ekki af því að stelpur geta ekki verið dónalegar heldur af því að hefðbundin birtingarmynd af því hvernig stelpur eiga að vera er svo kurteis og prúð. Þegar farið er á skjön við hana verður það óhjákvæmilega fyndið eða áhugavert. En er þá til einhver sérstök stelpnufyndni, eru stelpur öðruvísi fyndnar en strákar? Mig langar að segja nei og ég ætla bara að segja nei en ég hef svo sem ekkert rannsakað þetta undir formerkjum vísindanna þannig að það getur bara vel verið að ég hafi rangt fyrir mér. Mér finnst fleiri stelpur fyndnar en strákar af því fólki sem ég þekki og þó þekki ég mjög fyndna stráka. Ég held að stelpur nálgist hlutina óhjákvæmilega af meiri auðmýkt en strákar og það getur gert það að verkum að þeirra grín verði fyndnara og ágengara. Mér finnst auðmýkt svo falleg og mér finnst fallegt grín svo fyndið svo það verkar saman. Ég er ekki að segja að allir strákar séu hrokafullir þó strákar undir þrítugu séu í raun í áhættuhópi fyrir að verða hræðilega hrokafullir. Við búum í samfélagi sem elskar ungt fólk og elskar stráka svo ef þú ert ungur strákur þá eru allir að segja þér að þú sért fokking frábær. Svo ef þú ert ekki búinn að eignast barn eða fara í sjálfsterapíu er bara mjög líklegt að þú trúir því og verðir rosalega „cocky“ og óþolandi. Margar stelpur hafa aftur á móti auðmýkt- ina. Það er svo mikill kraftur í auðmýktinni og margir möguleikar á fyndni og gríni. Hvaðan færð þú innblástur? Mínir helstu áhrifavaldar í listum og gríni myndi ég segja að væru Jesús Kristur og Miley Cyrus. Þau eru náttúrlega bæði svo falleg á sinn hátt en líka svo hræðileg. Eins og allar svona Jesúmyndir, þær eru mjög fallegar en það er líka alltaf eitthvað svo ógeðslega ógeðslegt við þær. Þessar öfgar í sína hvora áttina er það sem gerir hlutina svo áhugaverða. Þess vegna er tragikómík fyndnasta fyndnin af því að hún geymir svo mikið af ólíkum tilfinningum og Jesús hann geymir fullt af fegurð og ógeði í senn. Hann er eitthvað svo rosalega stór og Miley Cyrus er einhvern veginn að verða það líka. Fyrir um það bil ári gerðuð þið Steindi allt vitlaust þegar þið duttuð í hörkusleik fyrir aftan verðlauna- hafa á Eddu-verðlaununum. Geturðu sagt okkur aðeins frá því gríni. Við Steindi vorum búin að leggja upp með það að við ætluðum að vinna með óhóflega kynferðislega spennu í alltof dönnuðu umhverfi, sem er mjög fyndið konsept. Svo eru þetta þrenn verðlaun sem við afhendum, og spennan bara stigmagnast. Við vorum búin að ákveða einn sleik en svo var fólk svo lengi að þakka fyrir sig og við vorum bara í svo miklum spuna að við eiginlega bara misstum okkur í einhverjum kynusla og gleði, sem er hræðilega fyndið en auðvitað tók það fókus. Síðan höfum við nú rætt við alla sem að þessu komu. Ekkert af því fólki var jafn sárt og reitt og fólkið sem horfði á og varð reitt fyrir hönd einhverra eða vildi verða reitt og notaði þetta sem tækifæri til þess að hella úr skálum reiði sinnar. Ég held að fólkið sem var sárast og reiðast hafi bara verið fólkið heima í stofu. En ég vona einlæglega að ég og Steindi verðum aftur beðin um að kynna aftur. Kannski verðum við hvort í sínu lagi, verðum kannski skilin í sundur eins og krakkar í grunnskóla og megum aldrei vera á sviðinu á sama tíma (hlær). Þetta var sennilega erótískasta Eddan frá upphafi og mér finnst mikill heiður að hafa verið hluti af því. Þið fenguð þó tækifæri til að vinna saman aftur í Áramótaskaupinu, hvaða atriði var í uppáhaldi hjá þér? Það var flugvallardramað sem ég held að Ari hafi skrifað. Svo var það gatnamótaatriðið og upphafsat- riðið, mér fannst þessi þrjú langskemmtilegust. Skaupið er einn umdeildasti dagskrárliður í sjónvarpi ár hvert, var ekkert stressandi að þurfa að reyna að standa undir þeim kröfum sem almenningur gerir? Það sem var mest stressandi var þegar ég komst að því að það að vera einn sjöundi af handritsteymi þýðir að maður ræður bókstaflega engu eða voða litlu allavega. Eins og ég segi er ég með mikla fullkomn- unaráráttu og það sem ég skrifa sé ég mjög skýrt fyrir mér svo mér finnst stundum erfitt að ráða ekki öllu. Að afsala mér ábyrgð á efninu mínu var eiginlega erfiðast. Það mun hafa hallað talsvert á konur í skaupinu, bæði þegar kom að fjölda höfunda og fjölda hlutverka, ekki satt? Ég man að ég var að hugsa þetta, af því að sú eina sem við vorum búin að ákveða að gera grín að var Vigdís Hauksdóttir, en mér duttu bara ekki í hug fleiri konur. Það verður að segjast, á síðasta ári voru einfaldlega fleiri karlar að gera heimskulega eða hlægilega hluti. Konur ársins voru einfaldlega meira töff. Þær voru að vinna heimsmeistaratitla, ganga á norðurpólinn og afreka flotta hluti sem eru ekkert fyndnir í eðli sínu heldur bara töff. Svo eru svona hlutlausir brandarar, eins og við- skiptamennirnir sem voru að ræða saman, það er alveg hægt að skrifa konur inn í svoleiðis atriði. Það er rosalega óhugnanlegt hvað maður er forritaður til að vera fordómafullur. Ef þú lokar augunum og hugsar „bankastjóri“ færðu ósjálfrátt upp í höfuðið mynd af feitum karli með vindil. Það er vinna að vera femínisti, það er vinna að stuðla að jafnrétti og það er vinna að vera meðvitaður. Maður þarf alltaf að vera að vinna gegn undirmeðvit- und sinni og leiðrétta hana og við hefðum bara átt að gera betur í því. Skaupið stenst þó allavega Bechel- prófið. En mér finnst mjög gott að fjölmiðlar og aðrir poti í okkur fyrir þetta. Maður á aldrei að hætta að pota, bæði í sjálfan sig og aðra. Pókaðu sjálfan þig eins og þú pókar náunga þinn. Þrátt fyrir að vera uppistandari og leikkona hefur þú ef til vill vakið einna mesta athygli fyrir skrif þín í Fréttablaðið. Það er mjög fyndið að vera menntuð leikkona og grínisti og verða svo allt í einu pistlahöfundur. Ég hef heyrt mikið um það hvað ég er pólitísk sem er fyndið af því að ég fylgist ekki mikið með pólitík. Það sem ég hef verið að segja finnst mér almennt vera „common sense“. Verum góð hvert við annað, ekki skera niður til sveltandi barna, verum hreinskilin og gerum það sem við segjumst ætla að gera. Mér finnst þetta allt vera svo beisikk hlutir og miklu meira mannlegir en nokkurn tíma pólitískir. Vinsælustu pistlarnir þínir eru bréfaskrif þín til Sigmundar Davíðs, hvernig kom sú hugmynd til? Það kom þarna einhver tímapunktur þar sem ég var orðin svo pirruð. Mér fannst ég vera ósammála svo mörgum. Það er svo skrítið að upplifa að manns eigin þjóð hafi kosið eitthvað yfir mann sem maður er alls ekki sammála og finnst algjörlega út í bláinn, manni finnst engar ákvarðanir vera teknar til hins betra og maður er eitthvað svo gáttaður að maður verður næstum því reiður. Þá fór ég að hugsa hvernig ég gæti fundið þessum pirringi farveg og datt í hug að tala bara við fólk. Af hverju ekki að tala saman í staðinn fyrir að allt sé einhverskonar þref og málþóf? Sleppa öllum þessum leikjum og varpa bara fram einlægum spurningum og fá svör sem væru laus við útúrsnún- inga eða flóknar orðasúpur sem afvegaleiða. Svo hef ég náttúrlega ekki fengið neitt svar. En það væri svo fallegt og heilbrigt ef við Sigmundur yrðum pennavinir í alvörunni og það væri opinbert. Ég er enginn talsmaður þjóðarinnar en ég held ég endur- spegli marga og spyrji spurninga sem margir spyrja sig að og því væri þá bara svarað í einlægu bréfi. Það hefði verið svo gott „múv“ hjá honum að svara. Mér líður eins og ég sé valdalaus. Stödd á einhverju skipi sem er að fara að sigla á ísjakann og get ekkert gert. Ég er á þriðja farrými og get ekki haft samband við skipstjórann en ég veit af þessum ísjaka þó enginn hlusti. Við búum í landi þar sem við erum svo fá að tækifærin til að bæta samskipti eru eitthvað sem við ættum að nýta okkur. Með einni greininni fylgdi myndband þar sem þú ferð með bréfið á lögheimili Sigmundar en það er talsvert langt frá Reykjavík, ekki satt? Það var reyndar ekki heimili hans, ég fór húsavillt (hlær). Þessi eyðibýli líta öll eins út. Ég var þarna með Kristínu Tómasdóttur sem var að halda námskeið fyrir unglingsstúlkur austur á landi og þá mundi ég að Sigmundur lét breyta lögheimili sínu. Lögheimilið hans er í einskismanns- landi þar sem einhverjir bændur hafa í gamni sínu sett upp pappaspjald af honum. Mér fannst þetta kjörið tækifæri til að banka upp á hjá honum og spyrja hvort hann vildi koma út að leika, spjalla við mig eða bjóða mér í kaffi. En þarna var hann víst bara staddur á einhverri snekkju í Karabíska hafinu. Það var nú ekki eins og við hefðum keyrt 700 kílómetra bara fyrir þetta en það er samt svekkj- andi að hafa farið húsavillt (hlær). Það kórónar þennan brandara alveg. Hefurðu fengið mikil viðbrögð við skrifunum annars staðar frá? Það renndi upp að mér svartur jeppi um daginn, hægði á sér, skrúfaði niður rúðuna og rétti mér svona Framsóknarlímmiða. Hann sagði: „Þetta er frá vini þínum,“ en þar held ég að hafi bara verið einhver góður húmoristi á ferðinni. Mér fannst það mjög fyndið. Ég hef annars fengið mjög góð viðbrögð en þau bestu væru klárlega ef Sigmundur myndi svara mér. Skrifin leiddu af sér einskonar sjálfstætt framhald í 12 Monitor fimmtudagur 9. janúar 2014 Texti: Anna Marsibil Clausen annamarsy@monitor.is Myndir: Þórður Arnar Þórðarson thordur@mbl.is „Mínir helstu áhrifa- valdar í listum og gríni myndi ég segja að væru Jesús Kristur og Miley Cyrus. Þau eru náttúrlega bæði svo falleg á sinn hátt en líka svo hræðileg. Saga garðarS á 30 sekúnduM Fyrstu sex: 060887. Versti ótti: Banvænir sjúkdómar. Æskuátrúnaðargoð: simbi, konungur ljónanna. Það sem fékk mig fram úr í morgun: Ég átti pantaðan tíma í strætó. Draumahæfileiki: Óbrigðult ónæmiskerfi sem vinnur bug á öllum banvænum sjúkdómum. Ég hef aldrei: skilið nútímalist. Ó hve ég syrgi endurreisnina. nú eru til feitar konur og óraunsæ málverk. Hvílíkt ógeðslegt rugl.

x

Monitor

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.