Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 19.06.2008, Blaðsíða 15

Fréttir - Eyjafréttir - 19.06.2008, Blaðsíða 15
Fréttir / Fimmtudagur 19. júní 2008 15 Frágangur komu út og hlutu mikið lof gagnrýnenda. Um miðjan júlí er síðan að vænta þriðju plötu þeirra félaga og mun hún bera nafnið Á morgun.“ Megas segir samstarfið ganga ákaflega vel. „Það er kannski betra að orða það þannig að samstarfið fljóti áfram og streymi og verði þannig áreynslulaust. Samstarf mitt og Senuþjófanna er því í raun eins og sjálfsagður hlutur, enda komast þeir inn í kjarna hvers lags. Það er óhætt að segja að samstarfið við strákana sé þannig draumur hvers tónlistarmanns enda eru Senuþjóf- arnir algerir snillingar - hver á sínu sviði. Ég held að þeir magnist upp við að vera Senuþjófar og að hópurinn sé þannig sterkari heldur en summan af einstaklingunum," segir Megas. I gengum tíðina hefur Megas unnið með mörgum af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar eins og Spilverki þjóðanna, Bubba Morthens, Ný danskri og Súkkat. En hvernig er samstarfið við Senuþjófana samanborið við fyrrnefnda tónlistarmenn ? „Það er erfitt að hafa orð á því. Eitt einkenni á þessari grúbbu er að það er ekkert sest niður og velt sér upp úr hlutunum. Þeir hafa ekki þennan íslenska sið að þegar búið er að ná grunni að lagi, sem menn geta samþykkt, að þá er ekkert verið að setjast niður og velta sér upp úr eigin dýrð, heldur farið af stað með næsta lag. Það er á vissan hátt erfiðara en um leið mikið skemmtilegra," segir Megas og heldur áfram: „Annars er ekki hægt að að bera saman epli og appel- sínur, heldur eru þetta allt góðir ávextir, bara hver með sínu bragði. Ég kann vel við mig í þessu fjöl- menningarsamstarfi sem Senu- þjófamir á vissan hátt eru, enda tveir Svíar þar innanborðs sem leika inn á plötumar og hafa tekið við Islensku tónlistarverðlaununum fyrir mína hönd,“ segir Megas og glottir við tönn. Mikilvægt að vinna heimavinnuna sína vel Þó reglan í lífsmynstri Megasar hafi kannski mátt vera meiri í gegnum tíðina hafa samstarfsmenn hans haft á orði að ekki sé til skipu- lagðari maður til að vinna með er kemur að tónlistinni. „Ég hélt að ég væri nú ekki svona skipulagður, en það sýnir þá kannski hvað aðrir eru óskipulagðir. Þegar maður er ekki snillingur eins og ónefndur stór- söngvari úr Hafnarfirðinum og fleiri góðir menn þá verður maður að vinna heimavinnuna sína vel og vera skipulagður,“ segir Megas sem alla tíð hefur handskrifað öll sín lög og útsett fyrir þá hljóðfæraleikara sem hann hefur unnið með - eitt- hvað sem vart þekkist í dag. „Það er margt djúsí að gerast í íslenskri tónlist í dag þó að ég nái ekki alveg safanum úr því öllu,“ segir Megas spurður um strauma og stefnur í tónlistinni á Islandi í dag. „Hljómsveitir eins og Hjaltalín, Sigur Rós, Benni Hemm Hemm og fleiri eru mjög merkilegar grúbbur og eru að gera góða músík. Ég er hins vegar af allt öðrum tíma og hef ekki alveg fylgst með þróuninni í laglínumeðferð og þvíumlíku. Annars kann ég mjög vel við Olöfu Arnalds sem er alger meistari og eins Lay Low sem er virkilega flottur listamaður. Hins vegar sakna ég þess að Mugison syngi ekki á íslensku, hann býr til svo bræt músíkfrasa," segir Megas sem sjálf- ur er þó sekur um að hafa sungið upp á engilsaxnesku. „Ég prufaði nú að gera nokkur lög á enska tungu, bara til þess að sjá hvort það þyrfti endilega að vera eitthvert bull sem kæmi út úr því. Það virtist reyndar ekki vera. Það þarf bara að liggja yfir því og hafa einhverja hugmynd að texta. Ég sé hins vegar oft að þeir sem eru að gera enska texta við lögin sín hafa einfaldlega engar hugmyndir. Ég man að ég söng eitt lag á ensku með hræði- legum framburði. Lagið hét Edge and over og var í kvikmyndinni Fálkar sem Friðrik Þór Friðriksson gerði á sínum tíma.“ Prósaskrif og María mey Megas hefur fengist við margt í gegnum tíðina samhliða tónlistinni. Hann hefur alla tíð fengist við prósaskrif og birtust fyrst smásögur eftir hann í skólablaði Mennta- skólans í Reykjavík. Á sjöunda áratugnum hóf hann síðan að rita smásögur í sagnaflokki sem heitir Plaisir d'amour. „Ég á von á að 20 smásögur eftir mig úr Plaisir d'amour sagnaflokkinum komi út á prenti á næstunni. Sögurnar lýsa hinum hörmulegustu afleiðingum ástarinnar og mannsins alls,“ segir Megas. Eftir að tvöfalda hljómleikaplatan Drög að sjálfsmorði var hljóðrituð haustið 1978 var óreglusamlegt lífemi farið að há Megasi þannig að hann ákvað að venda kvæði sínu í kross og breyta um lífsstíl. „Ég byrjaði fljótlega að vinna hjá Haf- skipum við höfnina í Reykjavík, en leiddist svo kuldinn í vinnunni að ég ákvað að betra væri að fara í skóla. Myndlistar- og handíðaskóli Islands varð fyrir valinu og ég var þar í ein sex ár. I skólanum var ég iðnari en andskotinn og afkastaði miklu því ég var svo hræddur um að falla og það vildi ég alls ekki,“ segir Megas sem málar ekki í dag þar sem aðstöðuna hefur hann ekki. „I skólanum hafði ég hins vegar aðstöðuna og málaði myrkranna á milli. Ég ætlaði mér reyndar að gera myndröð um Maríu mey, frá því hún er smástelpa og þar til hún stígur til himna - allan tímann með sígarettu í munnvikinu. Ég var búinn að finna módel en það bjó í Danmörku þannig að það varð ekkert af myndröðinni," segir myndlistarmaðurinn Megas. „Það er afskaplega mikil regla og nákvæmni hjá mér í dag,“ segir Megas, spurður um hvort skipulag- ið á lífsmynstrinu hjá honum í dag sé jafngott og í hljóðverinu. „Eigum við ekki að orða það þann- ig að það er ekki liðið langt á árið þegar ég er búinn að átta mig á ártalinu, en ég veit að árið er 365 dagar og það eru 24 klukkutímar í sólarhringnum. Ég skipulegg sólarhringinn kannski öðruvísi en meðaljóninn. Menn sem sjá eða túlka hlutina út frá praktík eru gæddir skynfærum eins og t.d. kettir sem sjá tilveruna eins og þeim hentar,“ segir Megas. Að losna við krabba- mein úr huga og sál Textar Megasar hafa í gegnum tíð- ina vakið mikla athygli. Textarnir hafa verið blanda af beittum ádeil- um á þjóðfélagsmálin, húmor af bestu gerð og einhverjum þeim allra fallegustu ljóðlínum sem samdar hafa verið á íslenska tungu. „Ég geri texta til að losna við að fá krabþamein í hugann og sálina. Ef maður er böggaður þá losar maður sig við það með því að gera texta, þannig næ ég hlutunum úr koll- inum. Núna er ég búinn að gera tvær böggplötur með Senuþjóf- unum og get því leyft mér að syngja halelúja á nýjustu plötunni okkar,“ segir hann. Hvað sérðu fyrir þér að syngja og spila lengi? „Ég á ekki annan kost en að spila þangað til ég dett niður dauður á sviði. Ég hef ekki í eftirlaunasjóði að sækja heldur verð að hrúga upp sem mestu af stefgjöldum og vinna síðan þangað til yfir lýkur. Það bíða mín ekki verklokasamningar eða hvað það nú heitir né þjónustu- íbúðir í nágrenni við Útvarpshúsið og engin eru eftirlaunin. Ég er reyndar á heiðurslaunum en 120 þúsund krónur á mánuði eru ekki mikið til að byggja á,“ segir Megas sem hefur engan áhuga á setjast í stól og horfa út í loftið. „írska leikritaskáldið Samuel Beckett stundaði einmitt þá iðju. Hann horfði á íþróttir í sjónvarpinu síð- ustu æviárin þegar hann var ekki að skrifa. Bubbi er svolítið premature með boxið sitt en ég hef engan áhuga á íþróttum og á ekki einu sinni sjónvarp,“ segir hann. Dylan eins og MDMA Á dögunum sótti kollegi Megasar - Bob Dylan - ísland heim og lék á tónleikum í Laugardalshöll. Megas var að sjálfsögðu á staðnum og hefur ákveðnar skoðanir á kollega sínum og tónleikunum. „I raun og veru var Dylan eins og MDMA - það voru aíveg sömu einkennin. Þetta var mikill konsert og ég held að þeir sem lifðu sig inn í hann hafi ekki getað verið inni allan tímann. Áhrifin og áreitið varði þó maður hafi farið út af konsertinum. Áreitið virkaði svona hvimandi, þegar það stoppar hverfur það. En bylan lifði af sígarettusmókpásu hjá mér,“ segir Megas. „Annars var hann rosalega flottur og pró og naut þess að hafa næstum því orðið dauður um árið og áttað sig á að hann er ekki eilífur. I kjöl- farið fór hann að vanda sig meira enda var konsertinn eftir því - mjög vandaður og vel skipulagður. Síðan var hann með úrvalshljóðfæra- leikara með sér,“ segir hann. I Islandsreisum sínum hefur Bob Dylan haldið sig alveg til hlés og ekki eytt tfma í að hafa samskipti við neinn heldur hefur öll orkan farið í tónlistina. Megas segist skilja kollega sinn vel. „Því þegar maður fer á einhvern stað sem maður þekkir ekki þá er alltaf sama sagan - þorpsfíflunum er sigað á mann. Ég hef hitt ótal aðdáendur mína og það hefur enginn gripið í taumana. Þegar maður á í glímu við þorpsfíflið þá veit maður ekki hvort það er heilagt eða vanheilagt þannig að til þess að vera on the safe side þá aðhefst maður ekki og þorpsfíflið kemst upp með áreitið. Þess vegna er betra að afhafast og hafa her af mönnum í kringum sig og tala ekki við nokkum einasta mann. Þannig að ég skil Dylan vel að hafa ekki viljað tala við Islendinga. Hann neitaði t.d. boði hjá frú Vigdísi þegar hann kom á sínum tfma. Það er reyndar mjög skiljanlegt að neita boði frá forseta íslands," segir hann sposkur á svip Eyjamenn annálaðir gleðipinnar og fagur- kerar á tónlist Ætlar þú að gefa þig á tal við þorpsfíflin í Vestmannaeyjum ? „Ég þekki vel til í Vestmanna- eyjum, en ég man hins vegar eftir einu skipti þegar ég kom til Eyja þegar þorpsfíflinu var sigað á mig. Þá hafði sá hinn sami skömmu áður fengið að vaða uppi á tónleikum hjá Bubba Morthens, en Bubbi gerir sér bara mat úr |rannig hlutum og sýnir engar tilfinningar. Þessi náungi vildi gera það sama á tón- leikurn hjá mér og ég man að það var töluvert erfitt fyrir ntig, þar sem maður vill ekki móðga neinn, enda veit maður ekki hvort menn eru raunverulega fífl eða eru hafnir upp til skýjanna. Síðan voru það aðdá- cndurnir sem datt ekki í hug að aðskilja mig frá þessum óþæg- indum,“ segir Megas sem býst hins vegar ekki við þorpsfíflum í Eyjum - þvert á móti. „Ég hlakka alveg óskaplega til að koma til Vest- mannaeyja með Senuþjófunum, enda eru Eyjamenn annálaðir gleðipinnar og fagurkerar á tónlist." Aðspurður hvort tónleikagestir megi búast við að lag þeirra Oddgeirs og Ása í Bæ - Ég veit þú kemur - verði flutt á tónleikunum segir Megas að sú geti allt eins orðið raunin. „Ekki síst ef það verður til þess að við getum sprangað um í tíkarspenunum heimasætanna,“ segir meistarinn að lokum. Eftir að hafa setið góða stund með Megasi í Norræna húsinu við spjall var ekki laust við að töluverðrar tilhökkunar gætti hjá blaðamanni eftir næsta fundi við skáldið - sjálfum tónleikunum með Senu- þjófunum í Eyjum á Goslokahátíð. Tónleikar Megasar og Senuþjóf- anna fara fram í Höllinni við upphaf Goslokahátíðar, fimmtu- daginn 3. júlí nk., og hefjast klukkan 21:00. Miðaverð er 2500 krónur. Forsala aðgöngumiða er hafin í Sparisjóði Vestmannaeyja og er hægt að tryggja sér miða þar á 2000 krónur. Sparisjóður Vestmannaeyja og TORO eru bak- hjarlar tónleikanna. „Ég þekki vel til í Vestmannaeyjum, en ég man hins vegar eftir einu skipti þegar ég kom til Eyja þegar þorpsfíflinu var sigað á mig. Þá hafði sá hinn sami skömmu áður fengið að vaða uppi á tónleikum hjá Bubba Morthens, en Bubbi gerir sér bara mat úr þannig hlutum og sýnir engar tilfinningar."

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.