Fréttablaðið - 11.02.2014, Blaðsíða 21
ÞRIÐJUDAGUR 11. FEBRÚAR 2014 5112 Ekki hika – hringdu til öryggis ●
Björgunarskóli Slysavarnafélagsins
Landsbjargar leggur mikla áherslu á að
björgunarsveitarmenn séu menntaðir í
fyrstu hjálp.
Námskeiðin Fyrsta hjálp 1 og Fyrsta hjálp 2
eru hluti af þjálfun björgunarsveitarmanna.
„Á þessum námskeiðum er lögð áhersla á að
kunna að koma að slysi og að notuð sé kerfisbundin nálg-
un við mat á ástandi slasaðra,“ segir Sigrún Guðný Péturs-
dóttir yfirleiðbeinandi í Fyrstu hjálp hjá Slysavarnafélag-
inu Landsbjörg.
Á Fyrstu hjálp 2 er að sögn Sigrúnar meðal annars farið
í hópslysaviðbúnað og annað skipulag sem fellur undir
almannavarnakerfið en björgunarsveitarmenn gegna mikil-
vægu hlutverki í því.
„Í námsefni björgunarskólans er talað um fyrstu hjálp
en ekki skyndihjálp og er ástæðan sú að skyndihjálp miðar
við mat og meðferð fyrstu mínútur eftir slys en námsefn-
ið í fyrstu hjálp miðar við að björgunarsveitarmenn geta
þurft að sinna slösuðum sem eru lengra frá sérhæfðri að-
stoð,“ segir Sigrún.
Björgunarskólinn býður einnig upp á námskeiðið Vett-
vangshjálp í óbyggðum. „Það er 72 klukkutíma námskeið sem
kennt er í samvinnu við Wilderness Medical Associates, fyr-
irtæki sem hefur byggt upp námsefni og kennslufræði með
áherslu á að geta sinnt slösuðum og veikum í óbyggðum.“
Hjá Björgunarskólanum eru einnig ýmsar útfærslur á þess-
um námskeiðum. Námskrá björgunarskólans er aðgengileg á
heimasíðu skólans, www.landsbjorg.is/bjorgunarskolinn.
Fyrsta hjálp og vettvangshjálp í óbyggðum
Sigrún Guðný
Pétursdóttir
Rauði krossinn býður upp á
bæði lengri og styttri námskeið í
skyndihjálp, fyrir einstaklinga og
fyrirtæki út um allt land.
„Vinsælustu námskeiðin eru stutt eða fjór-
ir tímar og á þeim er farið yfir viðbrögð
við helstu bráðatilfellum svo sem endurlífgun, stöðvun
blæðinga og viðbrögð við of lágum blóðsykri,“ segir Gunn-
hildur Sveinsdóttir verkefnisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða
krossinum á Íslandi. Hún bendir á að þeir sem vilji öðlast
dýpri þekkingu og meiri þjálfun geti tekið allt að 12 klukku-
stunda námskeið.
„Það skiptir sköpum að fólk kunni eitthvað fyrir sér í
skyndihjálp og jafnvel þó þekkingin risti ekki djúpt getur
fólk þá fylgt eftir leiðbeiningum neyðarvarða 112 á meðan
beðið er eftir aðstoð,“ segir Gunnhildur.
ÞJÁLFUN Í SKYNDIHJÁLP ER FJÁRFESTING TIL FRAMTÍÐAR
„Fólk getur bjargað lífi með því að beita endurlífgun ef ein-
staklingur fer í hjartastopp, eða stöðva miklar blæðingar
eftir slys en skyndihjálpin felst líka í því að lágmarka skað-
ann eftir lítil slys eða smávægileg veikindi,“ lýsir Gunn-
hildur og bætir við að þjálfun í skyndihjálp sé fjárfesting
til framtíðar. „Til dæmis getur fólk brugðist rétt við bruna
og skilið á milli góðs bata og alvarlegri áverka.“
Allar upplýsingar um námskeið í boði má finna á vef
Rauða krossins, raudikrossinn.is og á skyndihjalp.is.
Fjárfesting til frambúðar
Gunnhildur
Sveinsdóttir
Miklar breytingar hafa átt sér
stað í umferðinni á síðustu
árum sem kallar á nýja nálgun
á ýmsum sviðum. Umferð,
og þá sérstaklega umferð
ferðamanna, innlendra sem
erlendra, hefur aukist mikið.
Það sem menn áttu kannski ekki
von á er svo verulega aukin um-
ferð erlendra ferðamanna á eigin
vegum að vetri til. Þessu til viðbót-
ar hafa vetrarveður verið nokkuð
hörð undanfarna tvo til þrjá vetur
eftir nokkuð mörg ár með skap-
legra veðri.
Þetta kallar á nýja hugsun. Nú
er svo komið að nauðsynlegt getur
verið í auknum mæli að loka vegum
vegna veðurs. Dugir þá ekki að til-
kynna lokun og merkja veginn lok-
aðan á færðarkorti Vegagerðar-
innar því ýmist ná upplýsingarn-
ar ekki til ferðafólks, til dæmis
þess erlenda, og hins vegar fer
fólk í auknum mæli gegn þessu og
leggur á vegi sem eru ófærir. Því
hefur Vegagerðin í samráði við lög-
reglu og björgunarsveitir ákveðið
að setja upp lokunarslár á nokkr-
um stöðum. Um er að ræða svoköll-
uð sveifluhlið. Þegar vegi er lokað,
vegna veðurs eða vegna slyss, er
slánum komið fyrir en þær ná yfir
aðra akreinina. Þannig komast
bílar sem eru að koma af fjallvegi,
sem búið er að loka, niður af fjall-
inu en þeir sem hyggjast leggja á
lokaðan veg koma þá að slánni og
skiltinu sem er merkt allur akst-
ur bannaður. Vegfarendum er bent
á að fari þeir framhjá lokun gæti
komið til þess að af því hlytist mik-
ill kostnaður þurfi að fá aðstoð.
Lokun vegar fer síðan eftir
fyrir fram ákveðnu verklagi og
miðast til dæmis við ófærð þar
sem snjómoksturstæki hefur ekki
undan veðrinu, skyggni er óvið-
unandi eða veðurhæð þannig að
um hættuástand er að ræða, eða
vegna slyss. Vegagerðin og björg-
unarsveitir vinna saman að lokun.
Þegar hefur lokunarslá verið
sett upp á Dettifossvegi, en í
fyrsta áfanga verða settar upp
slár á Hellisheiði, í Þrengslum,
á Mosfellsheiði, Holtavörðu-
heiði, Bröttubrekku, Fróðárheiði,
Þröskuldum, Steingrímsfjarðar-
heiði, Hrafnseyrarheiði, Dynjand-
isheiði, Þverárfjallsvegi, Vatns-
skarði, Siglufjarðarvegi, Lág-
heiði, Öxnadalsheiði, Víkurskarði,
Mývatnsöræfum, Fjarðarheiði,
Breiðadalsheiði, Fagradal, Öxi og
Skeiðarársandi. Fleiri munu síðan
bætast við í kjölfarið.
Það er von Vegagerðarinnar
og björgunaraðila að vegfarend-
ur taki þessari nýbreytni vel og
geri sér grein fyrir að þetta er
gert til að auka og tryggja öryggi
þeirra. Þetta flýtir einnig fyrir því
að vegir opnist á ný því nú á Vega-
gerðin stundum í erfiðleikum með
að opna vegi vegna bíla sem sitja
fastir og mannlausir á heiðum.
Lokun vega með slá – eykur öryggi og flýtir fyrir
Ýmsar
gagnlegar
upplýsingar
má nálgast á
vef Vega-
gerðarinnar
vegagerdin.is.
Ekki dugir að tilkynna lokun og merkja vegi lokaða á færðarkorti Vegagerðarinnar því þannig ná upplýsingarnar ekki til ferðafólks.