Fréttablaðið - 06.09.2014, Side 26
6. september 2014 LAUGARDAGUR| HELGIN | 26
Afglæpavæðing einkaneyslu
gæti orðið íslenskur veruleiki
Það vakti athygli í vikunni þegar borgarstjóri Kaupmannahafnar, Frank Jensen, sagðist opinberlega styðja
afglæpavæðingu einkaneyslu fíkniefna, sem sagt að það eitt að neyta fíkniefna sé ekki glæpsamlegt. Dönsk
fíkniefnalöggjöf gæti verið endurskoðuð í vetur með tilliti til þessa. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagði til
ekki alls fyrir löngu að afglæpavæða einkaneyslu á fíkniefnum. Fréttablaðið tók púlsinn á heilbrigðisráðherra, sem sjálfur er hallur undir
afglæpavæðingu einkaneyslu, og stjórnmálamönnum, fagaðila, sálfræðingi og fyrrverandi lögreglumanni. Ekki eru allir á eitt sáttir.
Björt Ólafsdóttir
þingmaður Bjartrar framtíðar
„Sú þingsályktunartillaga sem Píratar lögðu til lýtur að því að
einkaneysla fíkniefna sé heilbrigðisvandamál, en ekki vanda-
mál dómstólanna. Við í Bjartri framtíð studdum
þessa tillögu, en það er ekki sama umræða
og lögleiðing einkaneyslu fíkniefna, því þar
erum við komin skrefinu lengra og þessu
tvennu er ekki saman að jafna.
Helgi Hrafn, fyrsti flutningsmaður til-
lögunnar, gerir það mjög skýrt í allri sinni
vinnu í velferðarnefnd að hann er ekki
endilega að tala um lögleiðingu, heldur
hvernig við eigum að takast á við þann
veruleika að fíklar eru til staðar og
þeir eru að miklu leyti meðhöndl-
aðir í dómskerfinu– er það að hjálpa
þessum fíklum? Er það að hjálpa
samfélaginu? Skilar það árangri? Eða
er betra að huga að fleiri leiðum í
því og þá að skoða málið út frá heil-
brigðisvinkli? Þessu játum við. Þetta
er mikilvæg umræða og mikilvægt
skref og við viljum tala um þetta.
Ég er hins vegar ekki sann-
færð um að afglæpavæðing
einkaneyslu sé rétta leiðin. Ég hef
í mínum störfum á geðdeildum
Landspítalans og í mínu námi séð að
neysla á kannabisefnum– svo dæmi
sé tekið og rannsóknir styðja það– er
gríðarlega ávanabindandi og getur haft
rosalegar afleiðingar. Neysla þessara
efna getur leitt til þess að fólk verður
alvarlega veikt og varanlega. Mikil neysla
getur leitt til geðklofa og hefur gert það
í mörgum tilvikum og það er alvarlegasti
geðsjúkdómur sem við erum að fást við
því hann er svo varanlegur. Það er erfitt
að vinna sig til baka– við erum að tala
um lífeðlisfræðilegar breytingar sem eru
varanlegar og það er hættan sem ég held
að Íslendingar geri sér ekki nógu vel grein
fyrir, eða við í þessari umræðu. Kannski
vegna þess að í öðrum löndum sjáum við að
kannabisneysla er svo viðurkennd félagslega.
En það breytir því ekki hvað rannsóknir sýna
okkur. Margir nefna þau rök að áfengi og önnur
efni séu líka skaðleg en það gerir kannabis-
neyslu ekkert betri. Þau rök eru út úr kú. Það
er ekki á allra vitorði, því við erum enn
feimin að tala um geðsjúkdóma, hvaða
áhrif kannabisneysla getur haft.“
EKKI SANNFÆRÐ
Kristín Soffía Jónsdóttir
borgarfulltrúi Samfylkingarinnar
„Það sem mér finnst kannski einna helst
vera gallinn við umræðuna um afglæpa-
væðingu er skortur á skýru markmiði og
í því samhengi bind ég miklar vonir við
störf nefndarinnar. Mér finnst einkenni-
legt að ræða afstöðu til stakra aðgerða
án þess að ræða hvaða áhrifum við erum
að reyna að ná fram.
Erum við að fara í afglæpavæðingu til
að fækka glæpamönnum? Erum við að
reyna að minnka neyslu eða breyta neyslumynstri? Eru þetta bein
viðbrögð við því að kannabis er að verða félagslega viðurkenndari?
Það er óásættanlegt að neysla meðal barna og ungmenna sé
orðin föst stærð og ég er til í að skoða allar aðgerðir sem miða að
því markmiði. Ég tel þörf á meiri umræðu um hvert við stefnum
áður en við ræðum hvernig við ætlum að komast þangað. Erum við
viss um að allir aðilar sem nú beita sér í umræðunni deili fram-
tíðarsýn og stefnu í þessum málaflokki?
Á sama tíma og við tölum mjög frjálslega um afglæpavæðingu
einkaneyslu fíkniefna þá treystum við þjóðinni ekki til að geta
keypt bjór úti í búð. Ég held að við þurfum að stíga varlega til
jarðar. “
ÞURFUM AÐ STÍGA VARLEGA TIL JARÐAR
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðis-
ráðherra, skipaði nefnd sem hefur
það hlutverk að móta stefnu til að
draga úr skaðlegum afleiðingum og
hliðarverkunum vímuefnaneyslu.
Nefndin, leidd af Borgari Þór Einars-
syni, byggir á þingsályktun sem
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata,
flutti á Alþingi. Nefndarmenn hittust
í fyrsta skipti á miðvikudaginn var og
ræddu meðal annars þessa hugmynd.
Búist er við niðurstöðu nefndarinnar
í byrjun næsta árs.
Borgar Þór Einarsson
héraðsdómslögmaður er
formaður nefndarinnar en
auk hans skipaði Kristján
Þór þau Helga Hrafn
Gunnarsson, þingmann
Pírata, og Bryndísi Björk
Ásgeirsdóttur, dósent í
sálfræði við Háskólann í
Reykjavík. Auk þeirra eiga
landlæknir, stjórn SÁÁ, ríkis-
lögreglustjóri, framkvæmda-
stjóri geðsviðs Landspítalans,
Rauði kross Íslands og vel-
ferðarsvið Reykjavíkurborgar
einn fulltrúa hvert.
NEFNDIN
Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra
„Ég er enn þá hallur undir þá skoðun að afglæpavæða fíkniefni. Ástæðan fyrir því er
einföld– núverandi ástand er eitthvað sem enginn vill búa við. Við sjáum
það víða að fólk og stjórnvöld eru orðin langþreytt. Þá hlýtur það að
vera skylda okkar að skoða allar leiðir sem við teljum að gætu leitt til
breytinga til batnaðar í þessum efnum. Ef afglæpavæðing einka-
neyslu gefur okkur færi til þess, og það mun vonandi koma í ljós í
þessu starfi nefndarinnar, þá finnst mér líklegt að það horfi til þess að
það myndist einhver samstaða í þessari glímu við þetta vandamál.
Það er eðlilegt að hugmyndir í þessa veru séu gagn-
rýndar. Við erum alin upp við annað viðhorf og við erum
að stíga skref inn á ókunnar lendur. En ég vænti þess og
til þess er stofnað til þessa starfs nefndarinnar að leita
svara við flestum af þessum spurningum, um meiri
upplýsingar og mat á áhrifum á því að breyta um
stefnu sem við höfum rekið í langan tíma á Íslandi.
Við megum heldur ekki gleyma því að stjórnvöld
settu sér það markmið að Ísland yrði vímuefnalaust
árið 2000. Svo er ekki í dag, árið 2014, en við höfum
ekki tekið neina grundvallarumræðu um hvort við
eigum að breyta í meginatriðum áherslum okkar frá
því sem áður var.
Ég er ekki viss um að allt verði óbreytt, eftir að
starfi nefndarinnar lýkur. Það er engin fyrirframgefin
niðurstaða í þessu en bara umræðan sem þetta hefur
vakið leiðir það af sér að það verður ekki allt eins og
það var. Niðurstaðan af þessu nefndarstarfi, hver sem
svo hún verður, kallar á dýpri umræðu um þessi mál.“
NÚVERANDI ÁSTAND VILL ENGINN BÚA VIÐ
Vilhjálmur Árnason
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
og fyrrverandi lögreglumaður
„Mér finnst að eigi að afglæpavæða
einkaneyslu fíkniefna. Að það eigi að færa
þetta inn í heilbrigðisgeirann í stað þess
að færa fólk til refsingar. Þannig að við
erum að treysta á fagaðila. Á meðan þetta
er í refsivörslukerfinu þá er þetta ekki
uppi á borðum. Fólk er í felum með þetta
og þorir ekki að leita sér hjálpar. Ég þekki
dæmi þess að foreldrar vilja ekki segja frá
því að barnið þeirra sé í óreglu, því það fer
á sakaskrá og fær ekki vinnuna sem það
vill næstu fimm árin. Ég held að liður í því að ná sér á strik eftir að
hafa verið í óreglu sé að hafa eitthvað að gera. Ef þú getur það ekki í
fimm ár er meiri hætta á því að þú leitir aftur í efni.
Ég hef séð þetta með eigin augum. Ríkjandi stefna gengur ekki.
Þegar ég starfaði sem lögreglumaður fannst mér við oft vera að eltast
við menn með einhverja smáskammta, í stað þess að ráðast á rót
vandans, sem eru þeir sem selja og dreifa efnunum.
Maður var líka oft að lenda í því að spyrja fólk: Ertu búinn að
neyta fíkniefna? Og svarið var: Nei, bara reykja gras. Ég held ekki að
það sé rétt nálgun að löggan segi fólki að það sé hættulegt að reykja
gras, heldur læknirinn. Hann er sá sem veit eitthvað um líkamann.“
HLYNNTUR AFGLÆPAVÆÐINGU
Þórarinn Hjaltason
forstöðumaður Stuðla
„Ég hef áhyggjur af því að afglæpavæðing einkaneyslu auki
við þá flóru fíkniefna sem fyrir er og að það verði meira um
vímuefni á markaði. Þá eru þeim mun meiri
líkur á að krakkar leiðist út í neyslu. Ég held
líka að afglæpavæðingin breyti viðhorfum
í samfélaginu og það er mikið áhyggjuefni
– að neysla fari að verða samþykktari og
þar af leiðandi algengari á meðal barna.
Mér finnst ekki á það bætandi. Margir
krakkar sem koma inn til okkar hafa þau
viðhorf að til að mynda kannabis sé
allt að því að vera hollt og eru föst
í einhverjum mýtum af ein-
hverjum síðum á netinu þar sem
verið er að lofa kannabis.
Að sama skapi er maður
á því að við séum komin í
ógöngur varðandi dóma í
fíkniefnamálum og verið
sé að glæpavæða þá sem á
ekki að vera að glæpavæða.
Ef einkaneysla verður gerð
lögleg þá verður fræðsla
og forvörn að fylgja með
í pakkanum, sem ég vil
reyndar að fari að mestu
leyti fram í gegnum foreldra
og uppeldi. Við vitum að það
verða alltaf einhverjir sem lenda
í vanda með neysluna, ákveðið
prósentuhlutfall, og því fleiri sem
nota fíkniefni, þeim mun fleiri
lenda í vanda þótt prósentan sé
hin sama. En svo er spurningin
þessi: Eigum við að láta þessa lágu
prósentu skemma fyrir hinum?
Ég er hlynntur starfi þess-
arar nefndar, því á þessu máli eru
tvær hliðar. Það er að mínu mati
alveg ljóst að það er stórt skref
að lögleiða einkaneysluna og við
þurfum að vera mjög meðvituð
um það að hafa eins mikla þekk-
ingu og við getum á afleiðingum
þess og hvernig við getum tæklað
afleiðingarnar áður en ákvörðunin
er tekin. Þetta hefur galla eins
og þetta er, ég hugsa að það hafi
trúlegast líka galla að afglæpavæða
einkaneyslu.“
FRÆÐSLA OG FORVÖRN VERÐA AÐ FYLGJA
Borgar Þór Einarsson
héraðsdómslögmaður og formaður nefndar
„Verkefnið er skýrt frá löggjafarvaldinu. Nefndin á að móta nýja stefnu til að draga
úr þeim skaða af völdum vímuefnaneyslu sem er staðreynd.
Hópurinn er að skoða þetta með opnum huga án þess að
nein fyrirframgefin niðurstaða liggi fyrir og við vinnum
þetta mjög mikið á forsendum meðferðaraðila og félags-
þjónustunnar. Í starfi hópsins erum við ekki að fjalla um
mismun á tegundum ólöglegra vímuefna, það er horft til
þeirra allra í sama tilliti.
Þegar nefndin hittist fyrst á miðvikudaginn ræddum við
hvað myndi gerast ef við myndum afglæpavæða neyslu
og vörslu fíkniefna, eins og hefur verið í umræðunni.
Það liggur fyrir að umönnun fíkla og þeirra aðbúnaður
verður betri. En hvað gerist í stóra samhenginu? Það
að flytja inn, selja og dreifa fíkniefnum verður áfram í
höndum glæpamanna og allt það fjárstreymi sem þar
fer í gegn verður hjá þeim.
Þegar þú afglæpavæðir vörsluna og neysluna, ertu
að stækka markaðinn fyrir þá sem selja og dreifa
fíkniefnum? Þetta er til dæmis gagnrýnin á hina
svokölluðu „portúgölsku leið“.
Þá er einnig hægt að líta til þess sem þeir gerðu í
Colorado í BNA, en þar er skrefið stigið til fulls og sala
og dreifing er líka í verkahring ríkisins. Er það kannski
eitthvað sem ætti að skoða?
Það er ljóst að það er margt að ræða, og við mun-
um nota fyrstu vikurnar til að ræða þetta opinskátt og
horfa til þess sem aðrir eru að gera í heiminum.“
ENGIN FYRIRFRAMGEFIN NIÐURSTAÐA
Ólöf
Skaftadóttir
olof@frettabladid.is