Reykjavík - 01.12.2012, Qupperneq 6
6 1.DESEMBER 2012
Miðborgin er 300 milljarða króna hagkerfi
Jakob Frímann Magnússon Miðborgarstjóri segir að unnið sé að því
að fá ferðamenn úr skemmtiferðaskipunum í miðborgina og að auð
verslunarrými við Laugaveg séu með allra fæsta móti. Hann segir
að verði hótel byggt við Austurvöll sé áætlað að velta fyrirtækja í
nágrenninu muni minnka um 30% á byggingartímanum og að meira
en helmingur fyrirtækja á svæðinu muni fara á hausinn.
Miðborgarstjórinn er kom-inn í jólaskap og segir að miðborgin verði fallegri
og jólalegri á aðventunni en nokkru
sinni fyrr.
Miðborgin okkar er samstarfs og
samráðsvettvangur hasgmunaaðila
miðborgarinnar og Reykjavíkurborgar
o.fl. Miðborgin okkar tók við forystu-
hlutverki sínu af Miðborg Reykjavíkur
en forysta hennar var til skamms tíma
pólitísk en í dag eru það hagsmuna-
aðilarnir sem veita forystuna og hefur
það gefist vel að sögn Jakobs Frímanns
Magnússonar framkvæmdastjóra Mið-
borgarinnar okkar eða Miðborgarstjóra
eins hann er yfirleitt kallaður. „Fimm
pólitískir meirihlutar á fimm árum
trufluðu ansi mikið taktinn í mið-
borgarmálunum og því var þessi leið
valin hvað sem verður til frambúðar.
Þannig að starfið og samfellan í því er
ekki lengur alfarið háð því að pólitíkin
sé í lagi, sem hún hefur þó verið sem
betur fer, síðustu þrjú árin.“
Miðborgin er risahagkerfi
Jakob Frímann telur að miðborg
Reykjavíkur sé ekki bara andlit Reykja-
víkur, heldur Íslands alls og að auki
langfjölsóttasti staður landsins sem og
langstærsta hagkerfi eins póstnúmers
á Íslandi. „Þó bæði borgarsjóði og
ríkissjóði sleppti væri hagkerfi mið-
borgarinnar engu að síður upp á liðlega
300 milljarða króna skv. upplýsingum
Ríkisskattstjóra sem annast hefur
mælingar af ýmsu tagi fyrir okkur á
undanförnum árum.“ Því sé ekki hægt
að horfa framhjá mikilvægi svæðisins,
hagsmunum þess og þörfum.
Hann upplýsir að Miðborginni
okkar hafi árið 2009 verið skipt upp í
sjö deildir til að tryggja að raddir allra
heyrist og jafnræði ríki. Hann upplýsir
jafnframt að samstarf hagsmunaaðila
og borgarinnar gangi almennt prýði-
lega.
Gamla höfnin og svæðið
við Hlemm í forgangi
Að sögn Jakobs njóta tvö svæði
ákveðins forgangs um þessar mundir.
Annars vegar er það svæðið frá Hlemmi
að Vitastíg og hins vegar Kvosin, gamla
höfnin og Grandagarður. „Sem betur
fer hlusta borgaryfirvöld eftir þessum
áherslum. Nú grillir í að Hlemmur fái
að njóta sannmælis og viðeigandi að-
hlynningar og gamla höfnin og Grandi
eru í brennidepli núna, sérstaklega í
tengslum við jólin.“
Sem kunnugt er hefur gamla hafnar-
svæðið snarbreyst frá því sem áður var.
Þar er nú margs konar rekstur og mikið
líf. Jakob segir það vera eina af mörgum
góðum fréttum úr miðborginni.
Hafnarsvæðið sem nái frá Hörpu og
út á Granda sé gríðarlega spennandi
svæði sem njóti mikilla vinsælda, ekki
síst á sumrin.
„Gullnir þríhyrningar“
í Reykjavík
Komum skemmtiferðaskipa til Reykja-
víkur fjölgar ár frá ári og koma nú
tugþúsundir erlendra ferðamanna til
borgarinnar með þeim hætti, en færri
þeirra leggja þó leið sína í miðborgina
en Jakob teldi æskilegt. „Túrisminn sem
við vildum svo gjarnan sjá koma beint
úr skemmtiferðaskipunum er því miður
enn í þeim álögum að af 40 rútum sem
bíða á Skarfabakka þar ákveðið hefur
verið að „landa“ þessu fólki , fara 39
rútur alla jafna eitthvað út á land og
ein hingað niður í bæ. Við erum mark-
visst að reyna að jafna þennan leik og
það gerist helst með því að bjóða upp
á glæsilegar upplifunarfléttur og borg-
arferðir sem markaðssetja þarf og selja
um borð í skemmtiferðaskipunum. Það
ferli er nú hafið af fullri alvöru.“
Jakob segir auðvitað mikla upplifun
að sjá Geysi, Þingvelli og Gullfoss, en
Reykjavíkurborg eigi líka sína „gullnu
þríhyrninga“ og telur upp fjölda val-
kosta s.s. útsýnisstaðinn í Perlunni með
sígjósandi hver í hlaðinu,alla fjölbreytni
safna, sundlauga, veitingahúsa og ekki
síst frábærra verslana í miðborginni.
„Miðborgin býður upp á eftirminnilega
upplifun í svo ótal myndum“.
Auð verslunarrými við
Laugaveg með
allra fæsta móti
Laugavegurinn er aðalverslunargata
landsins og þar eru verslanir sem hafa
verið reknar í áratugi og jafnvel í allt
að öld, en jafnframt umtalsverð endur-
nýjun þó sumir rekstraraðilar eigi það
til að staldra stutt við. Miðborgarstjór-
inn segir málið einfalt. Vilji menn vera
með verslunarrekstur í Reykjavík á stað
þar sem er straumur fólks, standi þeir
andspænis því að fara inn í verslunar-
miðstöð með miklum föstum kostn-
aði sem sé oft og tíðum erfitt eða lítt
fýsilegt fyrir ungt fólk sem er að hefja
rekstur. Margir kjósi því miðborgina
sem ekki gerir sömu kröfur um framlög
til markaðssetningar, þrifa, öryggis o.fl.
En því miður lifir ekki allur rekstur af.
„Auð verslunarrými við t.a.m. Laugaveg
eru þó með allra fæsta móti um þessar
mundir,“ segir Jakob Frímann og bætir
við: „Það sem kannski gerir miðborgina
sérstaka er að þar er mikið um einyrkja
sem standa vaktina sjálfir, hanna jafnvel
vöruna sjálfir og geta veitt ráðgjöf og
persónulega þjónustu sem erfiðara er
að finna í verslunarmiðstöðvunum. Þá
hugnast mörgum nándin, notalegheitin
og huggulegheitin sem fylgja mörgum
af þessum gömlu byggingum sem hafa
fengið að ganga í endurnýjun lífdaga
eða standa óbreyttar um áratuga- eða
aldaskeið.“
Miðborgarstjórinn segir marga hafa
áhyggjur af því að svokölluð „high
street“ verslun fari víða halloka fyrir
verslunarmiðstöðvum, til dæmis í
Bretlandi. Í verslunarmiðstöðvunum sé
boðið upp á ókeypis bílastæði, þak yfir
höfuðið og fleira, auk þess sem netvæð-
ing í verslun fari vaxandi. Að hans mati
skiptir þó staðsetning rekstrareiningar
ekki höfuðmáli heldur frekar hvaða vöru
og þjónustu sé boðið upp á og hvernig.
Hugkvæmnin og sköpunargleðin séu
sterkustu vopn miðborgarkaupmanna.
Gengið til góðs með
göngugötum?
Aðspurður um tilraunir með
göngugötur undanfarin sumur segir
Jakob að þar beri að mörgu að hyggja.
Skv. könnun Capacent virðast margir
vegfarendur og miðborgargestir hafa
kunnað vel að meta þá nýjung.
Það megi þó ekki skella skolla-
eyrum við viðvörunum kaupmanna
með áratugareynslu sem allmargir
hafi lýst efasemdum um göngugötu-
væðinguna, sem yngri rekstraraðilar,
einkum veitingamenn virðist kunna
betur að meta. Hann segir að innan
samtaka Miðborgarinnar séu mjög
skiptar skoðanir á því hvort breyta eigi
götum í göngugötur og þar sé reynt að
sætta ólík sjónarmið sem og að hvetja
borgaryfirvöld til að fara gætilega í allar
slíkar breytingar. „Þetta er dæmi um mál
sem erfitt er að leysa svo öllum líki.“
Framkvæmdir vegna
hótels við Austurvöll
munu draga úr veltu
sumra fyrirtækja og
setja önnur á hausinn
Eitt umdeildasta mál miðborgarinnar
nú um stundir, fyrir utan takmörkun
bílaumferðar, er fyrirhuguð hótel-
bygging við Ingólfstorg og Austurvöll
og hefur hópur andstæðinga fyrirhug-
aðrar byggingar verið áberandi og talið
það mikið skaðræði að heimila þetta.
Miðborgarstjórinn segir að þarna tak-
ist á eignarréttur eiganda og svo vilji
þeirra sem fyrir eru á svæðinu og telja
fyrirhugaðar framkvæmdir svæðinu
lítt til framdráttar. Byggingarfram-
kvæmdir myndu standa í eitt til tvö ár
og áætluð velta fyrirtækja í nágrenninu
minnka um 30% á meðan. Liðlega
helmingur þeirra sem nú eru starfandi
á svæðinu mundu við slíkar aðstæður
neyðast til að bregða búi. Rekstraraðil-
arnir spyrja sig margir: „Til hvers að
reisa einhverjar steinhallir inni á miðju
Ingólfstorgi, til hvers? Hver bað um
það?“, spyr Jakob.
„Þetta er a.m.k. mjög gegn vilja
margra þeirra sem hér stunda rekstur
um þesar mundir. Þetta er jú eitt við-
kvæmasta svæði borgarinnar. Við Að-
alstræti eru nú þegar þrjú hótel sem
þegar valda umtalsverðum umferð-
artruflunum. Að bæta við 300- 500
hótelherbergjum án þess að skýrar
samgöngulausnir séu í sjónmáli veldur
ýmsum áhyggjum. Það er ennþá talað
um þetta af fullri alvöru, en andstaðan
er það sterk og öflug að hún gæti hæg-
lega skipt sköpum.“
Góður borgarbragur
að helgarnóttum
undanskildum
Aðspurður telur Jakob Frímann Magn-
ússon miðborgarbraginn almennt
góðan fyrir utan mesta galskapinn síðla
um nætur á helgunum þegar hnefa-
rétturinn tekur gildi og hlutirnir eiga til
að fara úr böndunum. Velta á veitinga-
stöðum hafi vissulega snaraukist, um
allt 40% á milli ára. Eitthvað af því megi
skrifa á fjölgun ferðamanna.
„Mér hefur lengi fundist Reykja-
víkurborg og miðborgin með allra
skemmtilegustu borgum og hún hefur
að mínu viti aldrei verið eins aðlaðandi
og hún er akkúrat núna. Í batnandi borg
er vissulega best að vera.“
Miðborgin fallegri og jóla-
legri en nokkru sinni fyrr
Aðventan gekk í garð í dag og segir
Miðborgarstjórinn að miðborg Reykja-
víkur muni skarta sínu fegursta.
„Hún verður betur og meira skreytt
en nokkru sinni. Miðborginni okkar
var falið á sl. ári að leggja línurnar í
skreytingum og völdum við tvær af
okkar smekkvísustu dætrum til þeirrar
leiðsagnar, þær Báru Hólmgeirsdóttur
í Aftur og Matthildi Leifsdóttur í 38
þrepum. Þær stallsystur leystu verk-
efnið af stakri prýði“ Að sögn Jakobs var
ákveðið að smíða gamaldags jólabjöllur
yfir margar af götum miðborgarinnar
og nýta þar með íslenskt handverk, í
stað þess að kaupa alfarið skreytingar
frá Kína. Ljósaþemað byggir einkum á
hvítum ljósum og gulum. Einnig segir
hann lifandi tónlist og margs konar
jólaviðburði verða áberandi víða um
miðborgina.
„Aðventan er mörkuð einkum
þremur viðburðasviðum; á Ingólfstorgi
þar sem jólabærinn verður, á Skólatorgi á
mörkum Laugavegar og Skólavörðustígs
og svo Laugatorgi framan við Kjörgarð.
Síðan verða á vappi kórar og lúðrasveitir
og ýmislegt annað alveg til jóla. Við
leggjum áherslu á að jólabærinn sem
verður opnaður föstudaginn 14. desem-
ber hafi breidd í hátíðatengdu lostæti,
matvöru, gjafavöru og jólatengdri vöru
og við teljum að hann verði fallegri og
fýsilegri en oftast áður.“ Þá segir hann
hefðbundna jólasveina verða áberandi,
en einnig þjóðlegu rammíslensku jóla-
sveinana sem tilheyra hugmyndinni
um jólavættirnar sem listateiknarinn
Gunnar Karlsson hafi dregið upp í svo
skýrum og skemmtilegum myndum.
Ein þeirra er splunkuný af nálinni og
verður kynnt í næstu viku og segir Jakob
að hún eigi eftir að koma skemmtilega
á óvart. Hann fullyrðir að aðventan í
miðborginni verði fallegri og jólalegri
en nokkru sinni fyrr.
„Á undanförnum árum vantaði
stundum dálítið upp á alvöru samstöðu
um myndarlegt jólahald í miðborginn
en nú er öldin aldeilis önnur og í fyrra
fór af stað alvöru samstarf allra lykilsviða
borgarinnar í þessum efnum og má segja
að það hafi verið CNN að þakka, en þeir
gáfu okkur ómeðvitað spark í rassinn
þegar þeir völdu okkur eftirsóknarverð-
ustu jólaborg heims árið 2010.“
Jakob Frímann segir menn nokkuð
hafa undrast valið því ekki hafi verið
margt í boði, en í framhaldinu hafi
allir lagst á eitt og lagt mikla vinnu í
að standa undir nafni sem nú skili sér
í þeim afrakstri sem við blasi. Og hann
bætir við að verslunarmiðstöðvarnar
geti ekki keppt við miðborgina hvað
þetta varðar.
„Þær keppa ekki við okkur í kósý-
heitunum.Það er órjúfanlegur hluti af
upplifun jólanna að dúða sig upp, fara
í bæinn, fá helst smá snjó og hitta jóla-
sveinana, heyra lifandi músik og finna
ilminn af hnetum og jólaglöggi og
njóta alls þess séríslenska sem tengist
jólunum. Það er í rauninni miklu blæ-
brigðaríkari hátíðarbragur en ég hef
kynnst í öðrum þeim löndum sem
ég hef búið, Bretlandi, Danmörku og
Bandaríkjunum,“ segir Jakob Frímann
Magnússon Miðborgarstjóri og ljómar,
enda augljóslega kominn í jólaskap.
Jakob Frímann Magnússon Miðborgarstjóri er kominn í jólaskap og segir að miðborgin verði jólalegri en nokkru sinni.