Skessuhorn


Skessuhorn - 14.04.2010, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 14.04.2010, Blaðsíða 19
19ÞRIÐJUDAGUR 14. APRÍL Þó allt orki tvímælis sem gert er þá er hugmynd Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um sameiningu ríkisstofnana athyglisverð. Að sjálfsögðu þarf hugmynd sem þessi vandaðan undirbúning svo tilgangnum um sparnað í ríkisrekstri verði náð og að ekki sé verið að framlengja vandamálið í auknu atvinnuleysi. Þegar slíkar hugmyndir eru ræddar verða neikvæðu viðbrögðin oftast fyrirferðarmest. Þeir sem hins vegar líta á tækifærin sem þessar fyrirhuguðu breytingar gætu haft í för með sér, geta nýtt sér það fyrir sveitarfélag eins og Akranes. Það á ekki síst við um þá sveitarstjórnarmenn sem eru á verðinum og vinna markvisst að undirbúningi mála. Þann 17. mars síðastliðinn skrifaði ég grein í Skessuhorn, þar sem ég sagði meðal annars: „Bæjarfulltrúar þurfa einnig að standa vaktina er kemur að störfum og stofnunum á vegum ríkisins. Verja það sem fyrir er og skoða möguleika á frekari verkefnum. Við Skagamenn eigum nægar byggingalóðir og atvinnuhúsnæði til að taka að okkur aukin verkefni í þá veru.“ Fyrir rúmum 11 árum var starfsemi Landmælinga Íslands flutt frá Reykjavík til Akraness. Rekstur stofnunarinnar hefur gengið vel á Akranesi og er einn af mörgum burðarásum byggðar hér. Vera hennar hér sannar að það er ekki náttúrulögmál að allar opinberar stofnanir þurfi að staðsetja í Reykjavík, heldur þvert á móti. Samkvæmt fréttum síðustu daga gæti komið til álita að þessi ágæta stofnun verði sameinuð rekstri annarrar ríkisstofnunar og þar liggja tækifæri. Bæjarstjórn Akraness verður strax í samstarfi við stjórnendur stofnana á Akranesi að sækjast eftir því að rekstur opinberra stofnana færist til Akraness við þá endurskipulagningu sem framundan er og kynna þá möguleika sem til staðar eru hér. Á Akranesi er nægt húsnæði sem auðveldlega getur hýst starfsemi sem þessa. Sem dæmi má nefna eitt hús sem áður hýsti Landsbankann og stendur við Akratorg. Skjót og skipulögð viðbrögð geta veitt Skagamönnum forskot. Nýtum tækifærin og sækjum fram í þessu máli sem öðrum. Ég hvet því bæjarstjórn Akraness að skora á ríkisstjórn Íslands að verja og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og að bæjarstjórn Akraness hafi nú frumkvæði að viðræðum þess efnis sem allra fyrst. Ingibjörg Valdimarsdóttir viðskiptafræðingur Höfundur er frambjóðandi Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnakosningarnar 29. maí næstkomandi Dagana 17. ­ 19. apríl mun kór Menntaskólans við Hamrahlíð verða á tónleikaferðalagi í Borgarfirði. Kórinn heldur tónleika í Reykholtskirkju laugardaginn 17. apríl kl. 16. Sunnudaginn 18. apríl syngur kórinn við messu í Borgarneskirkju kl. 14 og um kvöldið klukkan 20 verða almennir tónleikar í Hriflu, sal Háskólans á Bifröst. Mánudaginn 19. apríl heldur kórinn ferna skólatónleika; í Varmalandi (fyrir nemendur Varmalandsskóla og nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar) klukkan 9:00, tvenna tónleika í Mennta­ og menningarhúsinu í Borgarnesi (fyrir nemendur Grunnskólans í Borgarnesi klukkan 11:10 og fyrir nemendur MB kl. 13:00) og í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi klukkan 15. Mánudagskvöldið 19. apríl heldur kórinn tónleika í Hallgrímskirkju í Saurbæ kl. 20.30. Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana. Á efnisskrá kórsins í tónleikaferðinni um Borgarfjörð eru íslensk og erlend tónverk m. a. eftir J. S. Bach, W.A. Mozart, Carl Orff, Emil Thoroddsen, Gunnar Reyni Sveinsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson auk þjóðlaga frá ýmsum löndum. Efnisskráin er svo fjölbreytt að kórinn flytur ólík verk eftir því hvort um er að ræða t. d. kirkjutónleika eða skólatónleika. Margir hljóðfæraleikarar eru meðal kórfélaga. Á þessari vorönn er Kór Menntaskólans við Hamrahlíð skipaður 104 nemendum á aldrinum 16 ­ 20 ára. Stjórnandi kórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir. Kórinn hélt tónleika í Reykholtskirkju 2005 en hann heimsótti Reykholt í fyrsta sinn árið 1970. Kórinn hefur áður heimsótt Borgarnes (1977, 1984 og 1991). Fararstjóri í ferð kórsins um Borgarfjörð er rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Lárus H. Bjarnason. mm Tveir af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar, KK og Maggi Eiríks, skemmta á tveimur stöðum vestanlands í næstu viku. Þeir verða í Logalandi föstudagskvöldið 23. apríl og í Grundarfirði kvöldið eftir. Tónleikar KK og Magga hafa löngum þótt sérstök upplifun. Skotið er litlum sögum inn á milli laga sem oft vekja kátínu og gleði og skapa afslappað andrúmsloft milli áheyrenda og listamannanna. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og er miðasalan við innganginn. Miða í Logaland er einnig hægt að panta í forsölu hjá brennistadir@emax. is og í síma 696 1544. Forsala í Grundarfirði er hjá k59@simnet.is og í síma 846­4828. (fréttatilkynning) Borgarnesi 12. apríl 2010. Hæ unga fólk! Mig langar að senda ykkur nokkrar línur. Tilefnið er að 30. júlí ­ 1. ágúst næstkomandi verður haldið 13. Unglingalandsmót UMFÍ hér í Borgarnesi. Þetta er einstakt tækifæri fyrir okkur og mikill heiður að við skulum fá tækifæri til að halda þetta mót. Í fyrra voru um 1500 keppendur og yfir 10.000 gestir á Unglingalandsmótinu, vinsældir mótsins stigvaxa ár frá ári og er engin ástæða til að efast um að enn eigi þetta mót eftir að vaxa og dafna. Mörg ykkar þekkja ULM af eigin reynslu og hafið farið á eitt eða fleiri mót, þið hin kynnist þessu nú í fyrsta sinn. Þær greinar sem keppt verður í eru: Dans, frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, motorcross, skák og sund. Auk þess verður fjölbreytt dagskrá fyrir þau ykkar sem ekki hafið áhuga á hefðbundnum keppnisgreinum. Smiðjur, hljómsveitir, flugeldasýning, rathlaup og margt, margt fleira. Þarna getið þið komið sterk inn. Ein af ástæðum þess að ég er að skrifa þetta bréf til ykkar er að ég veit að mörg ykkar eruð með frábærar hugmyndir að dagskrárliðum þessa helgi. Ég skora á ykkur að senda annaðhvort mér eða UMSB bréf og koma með ábendingu um unglingahljómsveitir, söng, sýningargreinar og hvað þið viljið að verði gert í smiðjunum! Ég lofa ykkur að ég skoða allt. Kannski er ekki hægt að framkvæma þær allar en örugglega einhverjar. Hlakka til að verja verslunar­ mannahelginni 2010 með ykkur! Bless, bless, Veronika G. Sigurvinsdóttir veronika@menntaborg.is eða umsb@umsb.is Við landnám þakti gróður landið allt að þremur fjórðu hluta þess, þar af var skógur um 40% af gróðurþekjunni. Nú þekur gróður landið sem nemur fjórðungi af stærð þess, reyndar gatslitið, þar af skógur um 2%. Stærsta manngerða eyðimörk í heimi. Landgræðslan hefur barist við gróðureyðinguna í heila öld og hefur tekist að bæta við einu til tveimur prósentum, trúlega. Ein af þeim landgræðsluplöntum sem dugað hafa best er lúpínan. Þar sem hún nemur land myndast mjög frjósamur jarðvegur og þegar fram líða stundir nema aðrar plöntur þar land og lúpínan hörfar. Þar sem fjárbeit er, þrífst ekki lúpína, þar sem kindur eru sólgnar í hana og éta hana upp til agna ef hún stingur upp kollinum. Lúpínan er því góð til beitar. Nú hefur umhverfismálaráðherra, flokkssystir frægs lúpínuandstæðings, ákveðið að eyða þessari frábæru plöntu með kjafti og klóm. Jafnvel nota til þess eitur. Og hvers vegna? Jú, hún endurgerir rýra, gatslitna móa þar sem aðeins lyng vex. Lyngið er jú ein af þremur algengustu jurtum þessa lands og vex helst í næringarsnauðum jarðvegi þar sem aðrar tegundir eiga erfitt uppdráttar. Það er sem sagt lyngið sem hverfur í sumum tilfellum og hvað með það? Ég hefði nú frekar viljað sjá ráðherrann huga að öðru í sveitum landsins en að eyða gróðri, svo sem eins og að banna lausagöngu búfjár og koma því öllu í beitarhólf. Leyfa engar undanþágur á sinubruna, friða allt kjarr, fylla alla skurði sem eru eins og skotgrafir um allt land og banna þessar plastrúllubyggingar sem eru eins og risavaxin æxli út um allar grundir. Koma þeim í hús, reisa veggi í kring, setja háar tyrfðar moldarmanir eða gróðursetja í kring. Þá væri það verðugt verkefni fyrir hann að sjá til þess að láta hreinsa ruslið af landinu oftar en einu sinni á ári. Þvílík ruslakista sem allt landið okkar er orðið. Það eru reyndar fleiri plöntur sem fara í taugarnar á þessum svokölluðu „umhverfissinnum,“ nefnilega kjörvell, hvönn og ösp. Allt jurtir sem vaxa vel hér á landi og gætu hugsanlega grætt það upp. Ekki má svo gleyma því að þær má borða og nota í lyf allskonar og síðast en ekki síst nýta asparviðinn. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þessa fáránlegu frétt, að eyða eigi lúpínunni úr lífríkinu, þeirri frábæru jurt sem bætt getur jarðveginn og grætt upp eyðimörkina okkar. Og það uppi á hálendinu! Ég hélt að ekki veitti nú af að græða einmitt upp þar, þar sem mestallur gróður er fokinn, ásamt moldinni, út í veður og vind. Ég hélt líka að við hefðum eitthvað þarfara með peningana og tímann að gera, heldur en að eyða því sem getur vaxið hér í eyðimörkinni. En ég bið til Guðs, ef endilega á að fara út í þennan dapra stríðsleik, að nota ekki til þess eitur. Nýtið lúpínuna heldur til beitar og lyfjagerðar. Nýtið svo hinn holla og góða kjörvel til manneldis. Margrét Jónsdóttir, eftirlaunaþegi Pennagrein Pennagrein Pennagrein Sendibréf til ungmenna 11 ­ 20 ára í Borgarbyggð Fleiri opinber störf á Akranes Lumar þú á frétt, áhugaverðu efni eða mynd? Sendu okkur línu á: skessuhorn@skessuhorn.is eða hringdu í síma 894 8998 Herferð gegn lúpínu KK & Maggi Eiríks í Logalandi og Grundarfirði Kór Menntaskólans við Hamrahlíð í tónleikaferð í Borgarfirði

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.