Frjáls verslun


Frjáls verslun - 01.09.2012, Page 84

Frjáls verslun - 01.09.2012, Page 84
84 FRJÁLS VERSLUN 10. 2012 Gunn ar Thoroddsen, sem varð iðnaðarráðherra, beið færis, þótt þess sæjust lítil sem engin merki framan af. Sumir þingmenn Sjálfstæðis- flokksins litu reyndar svo á að það hefði verið veikleikamerki hjá Geir Hallgrímssyni að láta kjósa um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hverjir skyldu verða ráðherrar flokksins. Hann hefði átt að ákveða það sjálfur og tilkynna þingflokknum eins og alltaf hefði verið gert. Það er óneitanlega athyglisvert að það skuli vera lagt formanni stjórn málaflokks í lýðræðisríki til lasts og talið veikleikamerki að hann vilji fylgja leikreglum lýðræðisins. Sama gagnrýni kom upp á Geir við stjórnarmyndunina 1983, þegar hann lét aftur kjósa um hverjir skyldu verða ráðherrar flokksins og hvort forystan í þeirri ríkisstjórn skyldi vera í höndum Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar- flokks eins og síðar verður vikið að... ...Davíð Oddsson bryddaði svo upp á því nýmæli við stjórnar­ myndun sína 1991, að hann talaði einslega við alla þingmenn Sjálf stæðisflokksins, hvern um sig, áður en hann gerði tillögur um ráð herraefni. Allt var þetta auðvitað tóm vitleysa en það má segja ríkis­stjórn inni til varnar að eftir gerð sólstöðusamninganna (Innsk. FV haustið 1977) var hún ekki í stöðu til þess að neita opinberum starfsmönn um um áþekkar kjarabætur. Þessi vandamál öll áttu áreiðanlega þátt í að veikja pólitíska stöðu Geirs Hallgrímssonar í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík í nóv­ ember 1977. Í því prófkjöri varð Albert Guðmundsson efstur með 7.475 atkvæði en Geir fékk 7.053 atkvæði. Hér varð hann að una því, sem Jóhann Hafstein hafði orðið að þola í prófkjörinu 1970, að formaður Sjálfstæðisflokksins varð ekki efstur í prófkjöri, þótt árang­ ur hans væri að öðru leyti vel viðunandi með nær 72% atkvæða... ...Stjórnmálamenn hugsa stundum sitt en segja annað og eiga ekki annarra kosta völ. Veruleikinn var sá að Geir Hallgrímsson varð ævareiður yfir þessum úrslitum um nóttina, þegar ljóst var í hvað stefndi og dembdi sér yfir okkur Matthías Johannessen og sagði okkur bera ábyrgð á þessum úrslitum, vegna þess að við hefðum hlaupið á eftir Albert á síðum blaðsins og hafið hann til vegs. Mér varð svo mikið um með símann í höndunum og Matthías við hliðina á mér að áður en ég vissi af var ég kominn með einhverj­ um hætti upp á skrifborðið hjá mér og vissi ekki mitt rjúkandi ráð. Þetta var snögg og algerlega óvænt árás og við töldum okkur ekki vita upp á okkur neina sök. Ég gerði einhverja tilraun til andsvara en símtalinu lauk snögglega. Svo vildi til að morguninn eftir vorum við að fara í dálítið ferðalag með stjórn Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, og fórum saman í litlum langferðabíl. Það var ekið frá Morgunblaðinu í Aðalstræti að Dyngjuvegi til að ná í stjórnarformanninn. Hann kom inn í bílinn, við biðum þess, hvort hann mundi tala við okkur, hann brosti sínu blíðasta um leið og hann kinkaði kolli, settist og sagði ekki orð um samtalið nóttina áð ur. Á þetta samtal minntist Geir Hallgrímsson ekki við okkur Matthías í 12 ár, ekki fyrr en 1. desember 1989, eins og síðar verður sagt frá. Vinstri stjórnin sem sat frá sumri 1978 til hausts 1979 er sennilega misheppnaðasta ríkisstjórn lýðveldisins. Frá upphafi var mikil sund rung innan hennar og ágreiningur mikill, ekki sízt á milli Alþýðu flokks og Alþýðubandalags. Andrúmsloft- inu, sem ríkti á milli stjórn arfl okk anna, má bezt lýsa með orðum Lúðvíks Jósepssonar, sem þá var orðinn formaður Alþýðubanda- lagsins, á opnum fundi flokksins hinn 19. febrúar 1979 þegar hann sagði: Að mínum dómi er það merki um þann illa anda, sem svifið hefur yfir Ólafi Jóhann essyni … Lengra er varla hægt að ganga í ummælum um formann samstarfsflokks í ríkisstjórn. Hvers vegna gekk hvorki né rak í tilraunum Geirs Hallgríms-sonar til stjórnarmyndunar í kjölfar desemberkosninganna 1979? Sverrir Hermannsson skýrir það mjög vel í minnis- blaði sínu. Hann segir: Það er staðreynd, að formaður Sjálfstæðisflokksins náði aldrei eyrum foringja annarra stjórnmálaflokka til alvarlegrar umræðu um stjórnarmyndun vegna þess að neðanjarðar stundaði varafor- maðurinn (innsk. FV Gunnar Thoroddsen) iðju sína af þeirri kost- gæfni, sem honum er lagin umfram flesta menn. Það er og mála sannast að formaður flokksins hafði ekki erindi sem erfiði við tilraun sína til myndunar þjóðstjórnar og spillti þráhyggja hans í því efni einnig fyrir, þótt aðgerðir varaformannsins réðu úrslitum. Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 28.–29. nóvember árið 1982 nóvember urðu mikið áfall fyrir Geir Hallgrímsson. Hann féll niður í 7. sæti en Albert Guðmunds­ son varð efstur. Í aðdrag anda prófkjörsins var lagt mjög að Geir Hallgrímssyni að breyta próf kjörsaðferðinni á þann veg að í stað þess að setja kross fyrir framan nöfn þeirra frambjóðenda, sem kjósandi vildi kjósa, skyldi setja tölustafi þannig að kjósandi til­ greindi hvern hann vildi í efsta sæti listans og svo koll af kolli. Geir hafnaði þeim tillögum, þótt meiri líkur en minni væru á því að sú framkvæmd prófkjörsins hefði tryggt honum efsta sæti listans. Hann hefur vafalaust talið það veikleikamerki fyrir sig að breyta prófkjörsreglunum á þann veg. Skömmu áður en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynd uð vorið 1983 var Geir Hallgrímsson farinn að gefa það nokkuð almennt til kynna í viðtölum við þingmenn Sjálf- stæðisflokksins að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs á landsfundi haustið 1983. Vitneskja um þessi samtöl breiddist fljótt út meðal flokksmanna og þegar komið var fram í júní það ár voru menn farnir að ræða sín í milli um eftirmann Geirs. Athygli flestra stuðningsmanna Geirs Hallgrímssonar beindist að þeim Þorsteini Pálssyni og Davíð Oddssyni. Þó voru nokkrir sem töldu Birgi Ísleif Gunnarsson betri kost. Friðrik Sophusson átti sér sterka stuðningsmenn, sem margir hverjir höfðu verið í hópi gagn­ rýnenda Geirs Hallgrímssonar seinni árin. stjórnmáL

x

Frjáls verslun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Frjáls verslun
https://timarit.is/publication/282

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.