Ægir - 01.06.2012, Blaðsíða 6
6
R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L
Sannkallað brothljóð heyrðist úr Vestmannaeyjum nú í lok júní
þegar Vinnslustöðin boðaði uppsagnir 41 starfsmanns félags-
ins og sölu togarans Gandís. Ástæðurnar segja forsvarsmenn
fyrirtækisins fyrirséðar skerðingar aflaheimilda og stóraukna
skattheimtu með nýsamþykktum lögum um veiðileyfagjald.
Þetta má kalla fyrstu raunverulegu viðbrögðin úr sjávarútveg-
inum í kjölfar lagasetningarinnar. Eins og allir vita voru lögin
samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli útvegsmanna, sveitar-
stjórnarmanna og fleiri sem hagsmuna eiga að gæta, þrátt fyr-
ir býsna skuggalegar niðurstöður útreikninga endurskoðunar-
fyrirtækja um afleiðingar lagasetningarinnar og þrátt fyrir
alvarlegar athugasemdir sérfræðinga sem stjórnarmeirihlutinn
á Alþingi fékk til að fjalla um áform sín.
Eyjamenn hafa ætíð í umræðunni um sjávarútvegsmálin tal-
að á gulltærri íslensku um málefni sjávarúvegsins - enda einn
mesti útvegsbær landsins og sjávarútvegur er eins konar
kransæð hvers heimilis í Eyjum. Stjórnarformaður Vinnslu-
stöðvarinnar, Guðmundur Örn Gunnarsson, skýrði aðgerðirnar
svo í skýrslu stjórnar til aðalfundar Vinnslustöðvarinnar:
„Það er búið að kippa rekstrargrundvellinum undan Gandí.
Skerðing veiðiheimilda, sem nemur 700 þorskígildistonnum á
næsta fiskveiðiári og sem samþykkt var á árinu 2011, kallar á
fækkun fólks sem vinnur úr aflanum í landi. Við horfumst í
augu við óhjákvæmilegar afleiðingar skerðingar og skattlagn-
ingar í sjávarútvegi. Ýmsir hafa kosið að segja sem svo að
þetta sé væl og hræðsluáróður útvegsmanna en hér tala stað-
reyndir. Og því miður erum við bara að horfa á upphaf þess
sem koma skal. Vinnslustöðin greiðir um 190 milljónir króna í
veiðigjöld á yfirstandandi fiskveiðiári og sú upphæð verður
meira en fjórfalt hærri á næsta ári, 820 milljónir króna. Eftir
þrjú til fjögur ár verður Vinnslustöðinni gert að greiða veiði-
gjöld upp á einn og hálfan milljarð króna til ríkisins.“
Vert er að draga athygli að tölunni sem stjórnarformaðurinn
nefnir hér síðast, þ.e. að Vinnslustöðin greiði 1,5 milljarða
króna á ári þegar veiðigjöldin leggjast á af fullum þunga. Til-
kynnt var á sama fundi að félagið hefði hagnast um sem svar-
ar til 1,8 milljarða króna á árinu 2011 þegar það skilaði bestu
afkomu í sögu sinni. Megnið af þessum methagnaði hefði
þannig runnið til ríkisins ef veiðigjaldalögin hefðu verið komin
að fullu til framkvæmda nú. Það er vel í lagt!
Veiðigjaldalögunum var fylgt úr hlaði með þeim orðum á
Alþingi að flest fyrirtæki í sjávarútvegi gætu borið skattheimt-
una. Hér í blaðinu má finna lýsingu Halldórs Ármannssonar,
smábátasjómanns í Reykjanesbæ á því hvernig lögin snúa að
hans fyrirtæki:
„Þegar við höfum greitt laun og rekstrarkostnað eigum við
38% eftir af tekjunum. Það er þessi fræga EBITDA, þ.e. hagn-
aður fyrir vexti, skatta og afskriftir, sem stjórnarþingmenn
hafa séð ofsjónum yfir. Ef tekið er 40% veiðigjald af EBITDA-
upphæðinni, hvað þá heldur 70% eins og stefnt er að, gefur
auga leið að við eigum ekki einu sinni fyrir afborgunum af lán-
um, sem hafa verið 36-38% af tekjum ársins. Eigum við þá að
fá lán til þess að geta greitt veiðigjöldin?“ spyr Halldór.
Þessi ummæli sýna bæði í hnotskurn að sjávarútveginum er
fyllilega nægjanlegt að takast á við náttúrulegu sveiflurnar í
fiskistofnunum þó vandinn sé ekki magnaður upp með mikilli
skattlagningu. Og það er í hæsta máta vafasamur leikur sem
stjórnmálamenn leika frammi fyrir almenningi að láta sífellt í
það skína að skattlagningin snerti enga nema stóru fyrirtækin.
Úr þeirri áttinni gætu vissulega komið fleiri vond vélarhljóð
eins og frá Vestmannaeyjum á dögunum en sú óþægilega til-
finning sækir á að brothljóðin verði ekki minni hjá minnstu fyr-
irtækjunum og einyrkjunum í útgerð. Gangi það eftir kynni
tunnlokaslátturinn á Austurvelli um árið að verða næst hljóð-
laus í samanburðinum.
Skattlagningin eins og einstefnuloki
„Þegar upp rís krafan um sértæka skattlagningu á sjávarútveg,
þá hljóta íbúar landsbyggðarinnar að rísa upp. Tekjur sjávarút-
vegsins verða til í fyrirtækjunum sem eru að yfirgnæfandi hluta
staðsett á landsbyggðinni. Rannsóknir sýna hins vegar að skatt-
tekjum ríkisins er einkanlega varið á höfuðborgarsvæðinu.
Skattheimtan í landinu er sem sagt í eðli sínu stórfelldir fjár-
magnsflutningur frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðinu. Sértæk
skattlagning á sjávarútveg, sem er að svo miklu leyti á lands-
byggðinni er þá eins konar einstefnuloki, þar sem fjármagnið er
sogað frá landsbyggð og til höfuðborgarsvæðisins.
Þess vegna hafa menn krafist þess að þessar skatttekjur
verði eftir í byggðunum, í sveitarsjóðunum eða hafnarsjóðunum.
Það er eðlileg krafa í sjálfu sér, en þó dálítið sérkennileg engu
að síður. Það sem þá er verið að gera, er að skattleggja fyrst
fyrirtækin á landsbyggðinni, fara með fjármunina í hring og láta
það svo ramba inn í sveitarsjóðina, með einhverjum hætti.“
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður í grein á bb.is
Sjálfsagt að sjávarútvegurinn hlut af hendi rakna
„Þjóðin sem eigandi fiskveiðiauðlindarinnar á sjálfsagt tilkall til
þess að njóta góðs af hinni miklu og góðu afkomu af nýtingu
auðlindarinnar. Henni ber mun stærri skerfur en hún hefur feng-
ið hingað til. Við þurfum að byggja brýr, grafa jarðgöng, halda
uppi félags- og heilbrigðisþjónustu, efla menningar- og listalíf,
styrkja samfélagslega innviði, rannsóknir, vísindi og fleira. Það
er samfélagssjóðurinn – ríkissjóður – sem stendur undir þeirri
samneyslu og þjónustu við almenning. Sjávarútvegurinn er ein
arðbærasta atvinnugrein landsins um þessar mundir og ekki
nema sjálfsagt að hann láti af hendi rakna sanngjarnan hlut af
umframarði sínum. Það er íslenskt samfélag sem hefur byggt
upp þessa arðbæru atvinnugrein og fóstrað hana – því er eðli-
legt að sjávarútvegurinn greiði samfélagi sínu sanngjörn fóstur
laun.“
Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður í grein í Fréttablaðinu
U M M Æ L I
Brothljóð
úr Eyjum
HAFNARFJARÐARHÖFN
tengir flutninga um allan heim