Fjarðarpósturinn


Fjarðarpósturinn - 30.04.2015, Blaðsíða 6

Fjarðarpósturinn - 30.04.2015, Blaðsíða 6
6 www.fjardarposturinn.is FJARÐARPÓSTURINN | FIMMTUDAGUR 30. APRÍL 2015 Ávarp verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði á 1. maí 2015 Stundum er sagt að það eina sem sé ör­ uggt í mannkynssögunni sé það að sagan endur taki sig. Þegar horft er til almenna vinnumarkaðarins og þess opinbera á Íslandi þá virðist sem allt sé að stefna í stórátök og ástands sem vel var þekkt fyrir hina svonefndu „Þjóðarsátt“ árið 1990. Fyrir liggur að kjara­ samningar eru lausir og friðarskyldunni er lokið, verkalýðsfélög hafa lagt fram kröfur sínar eða eru að undirbúa kröfugerðir. Fram hafa verið settar kröfur sem í reynd eru einfaldar og sanngjarnar og snúa að því að fólk geti framfleytt sér af grunnlaunum sínum. Hefur krafan um lágmarkslaun að upphæð krónur 300 þúsund borið hvað hæst í umræðunni. Mikið ber á milli krafna verkalýðs hreyfi ng­ ar innar og samningsvilja atvinnurekenda, Samtaka atvinnulífsins eða opinberra aðila. Til þess að hella olíu á eldinn þá hafa mis­ ráðnar launahækkanir stjórnarmanna stórs útgerðarfyrirtækis hleypt illu blóði í allt rétt­ sýnt launafólk. Grímulaust hefur komið í ljós að það eru tvær þjóðir sem byggja þetta land. Allt tal um stéttlaust samfélag er ekkert annað en lýðsskrum. Andi nýrrar þjóðarsáttar svífur ekki beinlínis yfir vötnunum og ekki hefur ríkisstjórnin bætt ástandið. Bæði aðgerðir hennar og aðgerðaleysi hefur valdið óánægju innan raða samningsaðila. Verkalýðsfélög á al­ menna markaðnum hafa sumstaðar aflað sér verkfallsheimildar og á opinbera mark aðnum hafa verkfallsaðgerðir hafist. Ekkert bendir til að ný útgáfa þjóðarsáttar liggi fyrir á þessu átakavori. En hvað veldur því að komið er að lokum langlundargeðs íslensks launafólks. Ein­ mitt þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar og atvinnulífsins upplýsa þjóðina um efna ­ hagsbata og minnkað atvinnuleysi. Hús­ næðisverð sé á uppleið, sala á nýjum bílum hafi aukist, byggingaframkvæmdir séu að fara í gang á ný og ferðamannaiðnaðurinn blómstrar auk þess sem staða þorskstofnsins er í sögulegu hámarki. Forsætisráðherra hefur meira segja látið hafa eftir sér að nú sé svigrúm til bættra lífskjara án þess þó auðvitað að skýra það nánar. Í boði ríkisstjórnarinnar getum við keypt okkur raftæki og lúxusvarning á lægra verði vegna lagabreytinga sem að þeirra mati á að telja hærra í heimilisbókhaldinu heldur en stórhækkað matarverð í kjölfar matarskattsins umdeilda. Því skal haldið til haga að venjulegt launafólk er ekki að byggja sér nýjar íbúðir eða kaupa sér lúxusbíla. Alþýða þessa lands stendur í hús næðisbasli á leigu­ og kaupendamarkaði þrátt fyrir allar skuldaniðurfellingar. Lítið hefur breyst, verðtrygging er enn við lýði, mjölið er enn maðkað og enn er vitlaust viktað! Ráðamenn þessa lands verða að gera sér grein fyrir því að staðan er þannig að almennt launafólk á í daglegri baráttu við hinn eina sanna íslenska „ómöguleika“ sem er að reyna að ná endum saman. Þrátt fyrir allt teljum við okkur búa við eitt af hinum norrænu velferðarkerfum þar sem undirstöðugildin eru jöfn tækifæri, félagsleg samstaða, öryggi og réttindi fyrir alla. Þar sem allir eiga að hafa jafnan rétt á framlagi úr félags­ og heilbrigðiskerfinu og mennta­ og menningarkerfinu. Hér er líka átt við þá sem reiða sig á félagslega kerfið og hópa eins og öryrkja og aldraða. Þegar horft er til frænda okkar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, stöndum við hins vegar á ýmsum sviðum höllum fæti í samanburðarfræðinni. Við þekkjum raunhæf dæmi um bága stöðu fólks hér á landi og landar okkar sem þurft hafa að flýja landið sitt sem ekki var þeim lengur land tækifæranna heldur miklu frekar land þrenginga og glataðra tækifæra, sjá og upplifa lífsgæðamuninn. Sérfræðingarnir hafa svör á reiðum höndum um það hvers vegna laun á Íslandi eru lægri en á hinum Norðurlöndunum og kemur þar ekkert á óvart. Taldar eru upp ástæður eins og lág framleiðni á Íslandi sem verður til þess að tímakaupið verður lágt sem við svo bætum upp með lengri vinnudegi. Hag­ stjórnarmistök síðustu áratuga eru nefnd til sögunnar og mikill kostnaður við að reka umdeildu krónuna okkar sem hefur leitt til hærri fjármagnskostnaðar og óstöðugleika í efnahagskerfinu. En hvað getum við gert til þess að snúa málum okkur í hag, þannig að við getum betur náð endum saman? Á það hefur verið bent að til staðar séu tækifæri til að gjörbylta lífskjörum á Íslandi. Landsmenn búi yfir mjög verðmætum náttúruauðlindum t.d. raf orku og fiski og möguleikarnir á nýtingu auðlindanna á hvern íbúa, séu ekki síðri en í Noregi. Það séu hins vegar fjársterkir hagsmunaaðilar hér á landi sem standi í vegi fyrir þessum breytingum. Þá hefur úr ólíkum áttum heyrst sú hugmynd að mikilvægt tækifæri gæti falist í þeirri kerfisbreytingu og norrænu hugsun að hækka grunnlaun og stytta vinnutíma. Sem leiðir til minna álags og þar með aukinnar framleiðni, já það er í lagi að spyrja þeirrar spurningar hvort við lifum til að vinna eða vinnum til að lifa. Misskipting hefur aukist í þjóðfélaginu okkar sem birtist með ýmsum hætti gagn­ vart launafólki og öllum almenningi. Al­ mennt launafólk getur ekki lengur eitt bor ið ábyrgð á stöðugleika samfélagsins. Lang ir kjarasamningar byggja hins vegar á gagnkvæmu trausti sem ekki er fyrir hendi. Á meðan styttri kjarasamningar geta haft í för með sér óstöðugleika fyrir samfélagið allt. Framundan er mikil kjarabarátta sem fær okkur til að veita því sérstaka athygli sem áunnist hefur í kjara­ og réttindabaráttunni sem um leið minnir okkur á að baráttu verkalýðshreyfingarinnar er langt frá því að vera lokið. Baráttan fyrir bættum lífskjörum er samstarfsverkefni okkar allra. Jöfnuður býr til betra samfélag!

x

Fjarðarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fjarðarpósturinn
https://timarit.is/publication/945

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.