Ægir - 01.08.2013, Síða 6
6
R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L
Fiskvinnslur mikilvægar í byggðaþróuninni
Virðisaukinn frá hráefnisverðmætum í útflutningsverðmæti verður,
eins og ykkur er kunnugt um, innan fiskvinnslunnar. Þennan ábata
viljum við hámarka. Mér skilst að þróunin sé í þá átt að menn veðji
síður á sjóvinnsluna núna og með því og samhliða auknu afla-
marki, afraksturs okkar vel stýrða fiskveiðistjórnunarkerfis, má
ætla að verkefni fiskvinnslunnar fari síður minnkandi. Fiskvinnslur
eru víða um land mikilvægur vinnustaður.
Sem byggðamálaráðherra er mér það ekki síður hugleikið að
horfa til þessa þáttar. Við þurfum að horfa til leiða til að tryggja
stöðugt framboð hráefnis inn í vinnslur og að þannig séu sem flest
föst störf vinnslunnar á ársgrundvelli. Við þurfum einnig að horfa
til þess að stöðugleiki sé til staðar fyrir rekstur vinnslna. Það er
mikil blóðtaka fyrir sjávarbyggðir ef vinnsla, hugsanlega stærsti
vinnuveitandinn á staðnum, er lögð niður eða starfsemi hennar
flutt. Þó svo að eitt markmiðið sé að hámarka afrakstur auðlindar-
innar, má ekki gleyma því að annað þeirra er að treysta byggð í
landinu. Þetta samspil þarf að hafa í huga og finna leið, og helst í
sátt, fyrir það til að virka.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ræðu á aðalfundi
Samtaka fiskvinnslustöðva.
Nálægðin við sjóinn er tækifæri Vestfirðinga
Mér finnst ekki síður athyglisvert að líta til afleiddra starfa í sjávar-
útvegi en samkvæmt Shiran Þórissyni hjá Atvinnuþróunarfélagi
Vestfjarða þá eru tekjur svæðisins tengdar þeim í kringum 20% til
viðbótar. Í þessu samhengi er um að ræða sölu á vörum og þjón-
ustu til sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu. Nálægðin við gjöful fiski-
mið og hin mikla þekking og reynsla hvað varðar sjósókn, veiðar
og vinnslu sem að sjálfsögðu hefur orðið til á Vestfjörðum held ég
að sé ómetanlegur grunnur fyrir gríðarlega möguleika í ýmiss kon-
ar iðnaði, sjávar- og siglingatengdri ferðaþjónustu og nýsköpun. Á
Vestfjörðum eru glæsileg fyrirtæki á öllum þessum sviðum en við
getum örugglega fjölgað þeim enn frekar sem myndi svo skapa
fjölbreytt atvinnutækifæri. Þau störf eru þá hrein viðbót við öll þau
dýrmætu og fjölbreyttu störf sem tengjast sjávarútveginum og
beinni þjónustu við hann.
Ég hvet alla Vestfirðinga, og þá sem gætu hugsað sér að verða
Vestfirðingar, til að hugsa frekar um alla þá möguleika sem
nálægð okkar við sjóinn og þekking tengd honum gefa okkur frek-
ar en að hugsa um eitthvað sem við höfum ekki.
Jónas Þór Birgisson, lyfsali og stundakennari, í grein á vef Bæjarins Besta á Ísafirði
U M M Æ L I
Það sem af er hausti hafa stóru samtökin í sjávarútvegi kallað sitt
fólk til aðalfunda, svo sem vera ber á þessum árstíma. Litið er um
öxl, horft fram á veg, hlustað er eftir þeim línum sem sjávarútvegs-
ráðherra leggur fyrir hönd stjórnvalda. Ekki síst á það við nú þegar
ný ríkisstjórn er að sigla inn í sinn fyrsta starfsvetur. Framundan er
Sjávarútvegsráðstefna þar sem ýmis fjölbreytt sjávarútvegmálefni
verða krufin til mergjar. Fundir sem þessir eru allir af hinu góða.
Samtalið er nauðsynlegt, ekki hvað síst í grein sem er jafn fjölbreytt
og sjávarútvegurinn er.
Margnotað orðið sátt hefur á öllum fundum skotið upp kollinum. Í
umræðum og framsögum. Sem sýnir öðru fremur hversu mikil þreyta
er orðin innan greinarinnar með þá þungu umræðu sem verið hefur
undanfarin ár. Margt mætti segja um einstök ummæli og yfirlýsingar
en því verður ekki á móti mælt að sleggjudómar eru oft ekki langt
undan. Sjávarútvegurinn er ekki friðhelgur fyrir gagnrýni frekar en
nokkuð annað í samfélaginu, hvort heldur eru stjórnvöld, samtök,
atvinnugreinar eða einstök fyrirtæki. Sér í lagi þar sem greinin byggir
jú á nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar. Þegar vel gengur,
eins og nú um stundir á velflestum sviðum sjávarútvegsins, vildu all-
ir Lilju kveðið hafa en þegar harðnar á dalnum í greininni þá fækkar
yfirleitt undraskjótt í áhugamannahópnum.
Sáttin var m.a. nefnd í ræðum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjáv-
arútvegsráðherra, á áðurnefndum fundum. Vísaði hann til breytinga
sem gerðar hafa verið á veiðigjaldakerfinu nýverið og vinnu sem
stendur yfir til frekari útfærslu þess. Hér í blaðinu nefnir nýkjörinn
formaður Landssambands smábátaeiganda veiðigjöldin einnig í við-
tali sem eitt stærsta hagsmunamál þeirra samtaka. Hann segir bein-
línis að óbreyttar fyrirætlanir fyrri ríkisstjórnar hefðu sett fjölda smá-
bátaútgerða um á undraskömmum tíma. Halldór Ármannsson hefur
áralanga reynslu í útgerð og hann segir gjaldheimtu fyrir nýtingu
auðlindarinnar ekki óeðlilega. Þar er hann samhljóma mörgum öðr-
um í sjávarútvegi sem hafa tjáð sig um þessa skattheimtu og m.a.
sagði sjávarútvegsráðherra sjálfur í viðtali nýverið að hann hafi eng-
an útgerðaraðila hitt hér á landi sem hafni þessum skatti. Það sem
fyrst og síðast er bagalegt er að um svona mál geti staðið margra
ára átök án þess að nokkuð miði að marki. Sú er fyrst og fremst
ástæðan fyrir því að greinin og margir aðrir kalla eftir sátt. Mál er að
linni.
Sjávarútvegurinn er mun meira en bara kvótinn, sagði sjávarút-
vegsráðherra á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva snemma hausts og
það er laukrétt. Hann minnti þar á virðisaukann sem verður til í fisk-
vinnslunni, tækniþróun, markaðssetningu og þannig mætti áfram
telja. Við veiðum í dag 100 þúsund tonnum minna af þorski en við
gerðum skömmu áður en kvótakerfið var sett á. Framreiknað hefur
hins vegar verðmæti þorskaflans meira en tvöfaldast. Margt hefur
sannarlega tekið breytingum í umhverfi, á mörkuðum og hjá neyt-
endum. En stærsta breytingin er hins vegar líkast til hjá okkur sjálf-
um, hugsunin um að búa til verðmæti úr öllu, vanda okkur á öllum
sviðum vinnslu og veiða, vanda okkur í samskiptum við kaupendur,
vera tilbúin að sveigja okkur hratt að nýjum áherslum þeirra og
svona mætti halda nánast endalaust áfram. Við þróum tæknibúnað
til veiða og vinnslu, við rannsökum og finnum hagkvæmustu og
bestu flutningatækni. Skyldi nú ekki vera að undirrót alls þessa sé
einmitt sú að á öllum þessum sviðum er virðisauka að sækja og við
höfum sótt hann. Og segjum eins og fótboltamennirnir í viðtölum;
erum ekki saddir enn!
Á bak við þetta allt saman er sá samnefnari sem sjaldnast er
nefndur í þessari umræðu; einfaldlega fólk og hæfileikar þess. Það
er íslenskur sjávarútvegur að réttnefni. Ekki excelskráin sem gefin er
út einu sinni á ári hjá Fiskistofu með aflaheimildum fiskveiðiársins!
Jóhann Ólafur Halldórsson ritstjóri skrifar
Sjávarútvegur er ekki
bara kvótinn