Morgunblaðið - 17.12.2014, Side 25
25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. DESEMBER 2014
Héraðsdómur Reykjavíkur Dómsmálin verða að hafa sinn gang, hvernig sem viðrar, og í héraðsdómi sjá uppáklæddir menn um að sópa tröppurnar þegar á þarf að halda eins og í gær.
Ómar
Íslenski skattgreið-
andinn á fáa vini en
fjölmarga óvildarmenn
sem nýta hvert tæki-
færið sem gefst til að
sækja að honum. Þeir
stjórnmálamenn sem
reyna að taka upp
hanskann fyrir skatt-
greiðandann – gerast
talsmenn hans – eru
úthrópaðir og sumir
sakaðir um að vera „óbilgjarnir
öfgasinnar“.
Skattgreiðandinn er því í stöð-
ugri vörn. Af vanmætti reynir hann
að verjast krumlu hins opinbera
sem seilist æ dýpra í vasa hans.
Barátta skattgreiðandans fyrir að
fá að ráðstafa sjálfur sem mestu af
sjálfsaflafé sínu er hins vegar
ójöfn. Kröftugir sérhags-
munahópar hvetja skattmann
áfram og þeir eru studdir af öfl-
ugum fjölmiðlum.
Snjallir pennar, vinsælir lista-
menn, háskólakennarar og starfs-
menn fjölmiðla taka þátt í eineltinu
gegn skattgreiðandanum sem á
takmarkaða möguleika á að koma
sjónarmiðum sínum á framfæri.
Penninn leikur ekki í höndum
skattgreiðandans og ekki er hann
svo lagviss að hann geti boðað til
útitónleika til að mótmæla. Að-
gangur hans að ríkisreknum fjöl-
miðli er í besta falli takmarkaður
og eins víst að þar verði málstaður
hans skrumskældur.
Öllu snúið á hvolf
Í baráttunni gegn
skattgreiðandanum er
leyfilegt að snúa öllu á
hvolf. Jafnvel kennarar
við Háskóla Íslands –
prófessorar, lektorar
og aðjunktar – telja
réttlætanlegt að fara
fram með rangar eða
villandi fullyrðingar í
ályktun sem send var
þingmönnum. Þar er
því haldið fram að fé til
Ríkisútvarpsins hafi „verið skorið
niður um 30% á undanförnum ár-
um“.
Ég veit hreinlega ekki hvort er
verra að háskólakennarar fari vís-
vitandi fram með villandi staðhæf-
ingar eða að þeir hafi ekki haft fyrir
því að kynna sér staðreyndir, líkt og
þeir hljóta að leggja áherslu á að
nemendur þeirra geri.
Það er a.m.k. nokkur kokhreysti
af háskólakennurum að setja fram
fullyrðingu um niðurskurð á fjár-
veitingum til Ríkisútvarpsins þegar
það liggur fyrir að framlag skatt-
greiðandans verður 485 milljónum
krónum hærra á komandi ári en árið
2013. Hvernig fræðimenn við æðstu
menntastofnun landsins geta komist
að því að skattgreiðandinn sé með
því að „vega að grundvelli stofn-
unarinnar sem getur þá ekki sinnt
lögbundnum verkefnum sínum leng-
ur“ er ekki aðeins óskiljanlegt held-
ur ósvífið.
Þeir háskólakennarar sem skrif-
uðu undir ályktunina eru greinilega
sannfærðir um að flest vandamál sé
hægt að leysa með því að ausa fjár-
munum úr vasa skattgreiðandans.
Hvort vel sé farið með peningana og
þeir nýttir með hagkvæmum hætti
er spurning sem fræðimennirnir
velta ekki fyrir sér. Skattgreiðand-
inn fær auðvitað ekkert um það að
segja hvort hann vilji nota nær 3.700
milljónir króna til að styðja við list-
ir, menningu, kvikmynda- og dag-
skrárgerð með öðrum hætti en með
umfangsmiklum rekstri ríkisfjöl-
miðils.
Hugmyndir um að leysa allan
vanda í rekstri ríkisins með auknum
fjármunum eru úr sama jarðvegi og
hugmyndir um sérstakan „of-
urskatt“ á tekjur einstaklinga.
Fyrrverandi þingmaður Vinstri
grænna lagði til fyrir nokkrum ár-
um að tekið yrði upp nýtt 60-70%
skattþrep á tekjur yfir eina milljóna
á mánuði. Ekki gátu þingmenn
Samfylkingarinnar verið eftirbátar
og einn þeirra boðaði 80% skatt-
þrep.
Hættulegasti tíminn
Hættulegasti tíminn fyrir skatt-
greiðandann er undir lok hvers árs.
Á aðventunni fara sérhagsmuna-
hópar á stjá til að tryggja sína hags-
muni við afgreiðslu fjárlaga kom-
andi árs. Þar er krafan ekki um
lægri skatta, lægri útgjöld eða að-
hald og sparnað í ríkisrekstri. Ákall-
ið er alltaf á aukin útgjöld sem
skattgreiðandinn skal með góðu eða
illu standa undir.
Jafnvel stjórn opinbers fyrirtækis
telur rétt að taka þátt í leiknum og
krefjast meiri fjármuna frá skatt-
greiðandanum. Og svo hart er geng-
ið fram að talið er nauðsynlegt að
ráðast á gamlan pólitískan samherja
með dylgjum, fyrir það eitt að hafa
tekið sér stöðu með skattgreiðand-
anum.
Það er í þessu andrúmslofti sem
talsmaður sérhagsmuna boðar úti-
tónleika og segir í samtali við mbl.is:
„Þarna er í sjálfu sér bara verið
að biðja menn um að leyfa okkur að
horfast blygðunarlaust í augu við
sjálf okkur í sameiginlegum skjá
okkar allra. Það er að við fáum að
borga okkar útvarpsgjald með at-
fylgi ríkisins í stað þess að þurfa að
fara að efna til söfnunar og sam-
skota.“
Jón Magnússon, hæstarétt-
arlögmaður og fyrrverandi þing-
maður, er einn fárra vina skatt-
greiðandans. Á bloggsíðu sinni
skrifar hann:
„Mér finnst það … öfgar hjá öll-
um þeim sem telja rétt að svipta
mig og aðra frelsi til að vera áskrif-
endur að eða ekki áskrifendur að
RÚV. Þeir eru að stela peningunum
okkar til að þjóna lund sinni. Er
slíkur þjófnaður á annarra fé með
samþykki meirihluta Alþingis ekki
mun frekar brot á réttindum frjáls-
borins fólks til að ráða málum sín-
um sjálft?
Hver er þá óbilgjarn öfgasinni?
Sá sem vill frelsi eða sá sem vill
halda við helsi og frelsisskerðingu?“
Dreginn á asnaeyrunum
Engu er líkara en að í aðdrag-
anda síðustu kosninga hafi verið
reynt að hafa skattgreiðandann að
fífli. Allir stjórnmálaflokkar hétu
honum að forgangsraða í ríkisút-
gjöldum og sumir lofuðu einnig að
létta af honum byrðunum. For-
gangsröðunin var í þágu heilbrigð-
iskerfisins, menntakerfisins, al-
mannatrygginga, samgangna og
löggæslu. Enginn lofaði því að auka
ríkisútgjöld til Ríkisútvarpsins eða
flytja ríkisstofnanir hreppaflutn-
ingum fyrir hundruð milljóna.
Skattgreiðandinn minnist þess
heldur ekki að nokkur frambjóðandi
hafi haft í hótunum um að leggja á
hann sérstakan nýjan skatt svo
hann hafi „leyfi“ til að fara um land-
ið líkt og forfeður hans hafa gert í
upphafi byggðar.
Á aðventunni er íslenski skatt-
greiðandinn því fremur einmana,
hrakinn og barinn. Sérhags-
munahóparnir hafa alltaf litið á að-
ventuna sem sérstaka uppskeru-
hátíð og að eðlilegt sé að
reikningurinn sé sendur til þess
sem litlar varnir hefur.
Eftir Óla Björn
Kárason »Hættulegasti tíminn
fyrir skattgreiðand-
ann er undir lok hvers
árs. Á aðventunni fara
sérhagsmunahópar á
stjá til að tryggja sína
hagsmuni.
Óli Björn Kárason
Höfundur er varaþingmaður
Sjálfstæðisflokks.
Hann er einmana, hrakinn og barinn