Vesturbæjarblaðið - 01.10.2005, Blaðsíða 8

Vesturbæjarblaðið - 01.10.2005, Blaðsíða 8
Eitt það sem styrkir ímynd Vest- urbæjarins sem sérstaks héraðs, samfélags í samfélaginu, er Grund. Þar býr gamalt fólk, elsta kynslóð- in í Vesturbænum. Sú kynslóð sem er á efri árum og lifir haustdaga lífs síns er rík að reynslu. Bak við hvert nafn, hverja hurð á því stóra heimili er mikil saga, oft baráttu- saga og átök við aldahvörf. Elsta kynslóð landsmanna hefur séð meiri þjóðfélagsbreytingar en líkur eru á að nokkur önnur kynslóð muni verða vitni að. Og sú kynslóð hefur ekki aðeins séð breytingarn- ar verða, heldur hefur hún tekið þátt í þeim. Þetta er fólkið, sem hefur unnið að nánast samfelldu framfaraskeiði 20. aldarinnar. Stundum vill það gleymast hvað árangurinn hefur útheimt af vinnu, fyrirhyggju og útsjónarsemi. Flestir landsmenn hafa meiri tíma til að ráðstafa fyrir sjálfa sig. Við höfum meira val í flestu tilliti. Þar sem áður var aðeins einn kost- ur mögulegur eru nú margir. Og þar sem aðeins var einn kostur forðum var hann oft nauðugur kostur. Ungt fólk hefur valkosti um menntun, starf, búsetu og hvers kyns hugðarefni. Allt er þetta gott og ég er þess einnig næsta viss að fæstir hinna eldri ala með sér öf- und í brjósti til yngri kynslóða vegna þeirra góða hlutskiptis. Það er miklu frekar að gamla fólkið líti til þessa með ánægju. Vera kann að það liggi um of í þagnargildi að fyrri kynslóðir sköpuðu forsendurnar fyrir vel- ferð á Íslandi og gerðu nútímaleg ytri skilyrði að veruleika. Hin þrot- lausa vinna við erfiðar aðstæður hún skilaði okkur fram á veginn. Eldri kynslóðirnar skiluðu líka góðu vinnusiðferði. Það hefur jafn- an verið dyggð á Íslandi að leggja sig fram, vinna vel og geta litið stoltur yfir dagsverkið. Sama gildir um ævidaginn og ævistarfið. Þegar við þökkum fyrir hagsæld til sjós og lands minnumst við þess einnig að Ísland er ekki auðveldasta land veraldar til ræktunar eða sjósókn- ar á hafinu umhverfis það. Lands- menn hafa þurft að hafa fyrir líf- inu, en nýtt tækifærin og komist til velsældar í það heila tekið. Fyrir nokkrum misserum átti ég í fylgd Halldórs Ásgrímssonar fund í Kampala í Uganda með menntamálaráðherra þess Afríku- lands, en við Íslendingar sinnum þróunarstarfi þar syðra. Ráðherr- ann sagði: „Við, Ugandamenn, búum á einum gróðursælasta stað heimsins og svo koma Íslendingar af hrjóstrugri klettaeyju norður við Íshaf til að kenna okkur að nýta landið svo að við getum lifað sæmilegu lífi!‰ Þetta var alveg rétt hjá ráðherranum. Það hljómar vissulega sem þverstæða að við getum hjálpað þeim sem búa við miklu betri ytri skilyrði. Flestar þjóðir hafa betri landkosti en við ef frá eru skilin auðug fiskimið okk- ar. En okkur hefur líka tekist Ís- lendingum að nýta og virkja fleiri kosti og beita til þess tækni og hugviti. Menning er öll iðja mannsins. Hún er það að gera hlutina vel, að leggja sig fram, vera trúr skyldum sínum sem manneskja í samfélagi við annað fólk. Mikilvægt er að varðveita milli kynslóðanna það besta sem hugsun, trú og lífsvið- horf hefur mótað. Margir þeir eðliskostir ásamt ræktun góðra hæfileika munu skila okkur áfram veginn. Unga kynslóðin í dag er hæfileikaríkt og duglegt fólk. En það skiptir líka miklu máli að verið sé að keppa að verðugu markmiði. Þessar hugrenningar fóru um huga minn þegar börnin úr Vesturbæj- arskóla heimsóttu gamla fólkið á Grund á dögunum. Þeim var afar vel tekið. Um leið velti ég því fyrir mér hvernig þau sem eru börn í dag taka á móti börnunum úr Vesturbæjarskóla árið 2075. Við, fullorðna fólkið í dag, höfum nokk- uð um það að segja. Hjálmar Jónsson OKTÓBER 20058 Vesturbæjarblaðið Árlega hefur Dómkórinn efnt til Tónlistardaga í vetrarbyrjun og nú verða þeir haldnir í 24. skipti. Í ár ber hæst flutning á Þýskri sálu- messu, Ein Deutsches Requiem eftir Johannes Brahms. Kórverkið verður flutt með undirleik tveggja píanóleikara en Brahms gekk sjálfur frá píanóútgáfu verksins. Dómkórinn hefur bætt við sig söngvurum til að takast á við þetta mikilfenglega tónverk og auk þess fengið til liðs við sig frá- bæra einsöngvara og píanóleik- ara: Huldu Björk Garðarsdóttur sópran, Kristin Sigmundsson bassa og píanóleikarana Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur og Pet- er Maté. Tónleikarnir verða haldnir í Langholtskirkju. Á Tónlistardögum hefur Dóm- kórinn jafnan pantað ný verk frá tónskáldum og eru þau orðin mörg tónverkin sem hafa hljómað í fyrsta sinn í Dómkirkjunni. Á lokatónleikunum frumflytur Dómkórinn kórverkið Memento mei eftir Harald V. Sveinbjörns- son. Haraldur er yngsta tónskáld- ið sem Dómkórinn hefur leitað til en hann lauk fyrir stuttu mastersnámi í tónsmíðum og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir verk sín. Nú eru liðin 20 ár síðan nýtt orgel var vígt við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni. Orgelið var smíð- að í orgelverksmiðju Schuke í Þýskalandi og er að dómi tónlist- arunnenda og organista mjög vandað hljóðfæri. Í tilefni þessara merku tímamóta munu nokkrir af orgelleikurum landsins leika á orgelið á sérstökum afmælistón- leikum. Í Dómkirkjunni fer fram öflugt barna- og unglingakórastarf undir stjórn Kristínar Valsdóttur. Á Tónlistardögum munu þeir meðal annars frumflytja verk eftir Þóru Marteinsdóttur. Einn glæsilegasti orgelleikari landsins af ungu kynslóðinni er Guðný Einarsdóttir og mun hún leika á orgel Dómkirkjunnar. Guðný er í þann mund að ljúka námi í Kaupmannahöfn. Að venju leggjum við áherslu á vandaðan tónlistarflutning í mess- um á Tónlistardögum, sem endranær. Við viljum sérstaklega benda á flutning á Missa cum populo eftir tónskáldið Petr Eben í messu á kirkjuvígsludegi. Dagskrá Tónlistardaga Laugardagur 15. október kl.17 Kórtónleikar í Langholtskirkju. EIN DEUTSCHES REQUIEM op. 45 - Þýsk sálumessa eftir Johannes Brahms. Flytjendur: Dómkórinn, Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran, Kristinn Sigmundsson, bassi, Anna Guðný Guðmundsdóttir og Peter Máté, píanó. Stjórnandi: Marteinn H. Friðriksson. Sunnudagur 16. október kl. 11 Messa Kammerkór Dómkirkjunnar syngur. Laugardaginn 22. október kl. 17 Orgeltónleikar Guðný Einarsdóttir leikur. Sunnudagur 23. október kl. 11 Messa Kór Menntaskól- ans í Reykjavík syngur. kl.17 Kórtónleikar Barna- og unglingakór Dómkirkjunnar syng- ur. Stjórnandi: Kristín Valsdóttir. Sunnudagur 30. október kl.11 Hátíðarmessa á kirkjuvígsludegi. Flutt verður MISSA CUM POPU- LO eftir Petr Eben. Flytjendur: Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Ás- geir Steingrímsson og Eiríkur Örn Pálsson, trompet, Sigurður Þor- bergsson og Oddur Björnsson, básúna, Eggert Pálsson, slagverk og Guðný Einarsdóttir, orgel, Dómkórinn og gestir. Stjórnandi: Marteinn H. Friðriksson Sunnudagur 6. nóvember kl.17 Orgel Dómkirkjunnar 20 ára. Orgeltónleikar með íslenskum orgelleikurum. Sunnudagur 13. nóvember kl.17 Lokatónleikar. Dómkórinn frumflytur kórverkið MEMENTO MEI eftir Harald V. Sveinbjörns- son. Stjórnandi: Marteinn H. Friðriksson. Kolbeinn Bjarnason og Guðrún Óskarsdóttir leika á flautu og sembal. Jóhanna Halldórsdóttir syngur einsöng. Aðgöngumiðar á tónleikana í Langholtskirkju verða til sölu í Dómkirkjunni, í versluninni 12 tónar við Skólavörðustíg og í Tónastöðinni við Skipholt. Verð: 2000 kr. í forsölu en 2500 kr. ef keypt er við innganginn. Sjá nánar á heimasíðu Tónlistardaga: w w w 2 . d o m k i r k j a n . i s / subcategory.php?version=dom- kirkjan&id=28 Dómkórinn flytur útsetningu á Þýskri sálumessu eftir Johannes Brahms fyrir tvo píanóleikara og tvo einsöngvara: Kristin Sigmundsson og Huldu Björk Garðarsdóttur. Hinn 15. október hefjast Tónlist- ardagar Dómkirkjunnar með tón- leikum Dómkórsins í Langholts- kirkju. Þar flytur kórinn Ein Deutsches Requiem, Þýska sálu- messu eftir Johannes Brahms. Með kórnum koma fram einsöngvararnir Hulda Björk Garðarsdóttir sópran og Kristinn Sigmundsson bassi og píanóleikararnir Anna Guðný Guð- mundsdóttir og Peter Maté. Stjórn- andi á tónleikunum er Marteinn H. Friðriksson dómorganisti. Þýsk sálumessa er eitt glæsileg- asta verk Brahms og jafnframt það sem notið hefur hvað mestra vin- sælda. Það hefur verið flutt nokkrum sinnum hér á landi af söngsveitinni Fílharmóníu og Lang- holtskórnum ásamt hljómsveit. Að þessu sinni verður það í fyrsta sinn flutt í útsetningu sem tónskáldið gerði sjálft þar sem tveir píanóleik- arar koma í stað hljómsveitar. Löng meðganga Johannes Brahms vann lengi að samningu Þýsku sálumessunnar. Fyrstu drögin að verkinu voru sam- in árið 1854 og áttu að verða hluti af sinfóníu. Þegar góðvinur Brahms, Robert Schumann, reyndi að fyrir- fara sér það sama ár og lést svo tveimur árum síðar eftir vist á geðsjúkrahúsi ákvað Brahms að semja sálumessu. Hann vann að verkinu árin 1857-59 en lagði það síðan til hliðar. Um miðjan næsta áratug urðu tveir atburðir sem höfðu þau áhrif að sálumessan komst aftur á dag- skrá. Árið 1865 lést móðir Brahms og ári síðar hófst stríð Prússa og Austurríkismanna sem hann tók mjög nærri sér. Fyrstu þrír hlutar sálumessunnar voru frumfluttir í Vínarborg við takmarkaðan fögnuð árið 1867. Ári síðar voru kaflarnir orðnir sex og þá stjórnaði Brahms sjálfur flutningi þeirra í heimabæ sínum, Brimum í Norður-Þýska- landi. Það var svo í febrúar 1869 sem síðasti kaflinn (sem reyndar er 5. kafli af 7) var fullgerður og þá var verkið frumflutt í heild í Stuttgart. Verkið náði strax gríðarlegum vinsældum og áður en árið var liðið hafði það verið flutt tuttugu sinnum í Þýskalandi. Í Englandi var verkið frumflutt árið 1871 og þá í útsetn- ingunni sem Dómkórinn flytur. Í stað hljómsveitar voru komnir tveir píanóleikarar. Sú útgáfa var ekki oft á dagskrá og má raunar segja að hún hafi gleymst um alllangt skeið. Ástæðan var sú að útgáfurétturinn á nótunum var seldur til Ameríku en eigendur hans þar sinntu því ekki að gefa þær út. Það var svo ekki fyrr en eftir 1990 sem píanóút- gáfan var enduruppgötvuð en síðan hefur hún verið flutt allnokkrum sinnum. Brahms lýsti því sjálfur í bréfi til útgefanda síns að hann hefði ákveð- ið að útsetja verkið fyrir píanó í stað hljómsveitar svo það yrði auð- veldara í flutningi og því líklegra til langlífis. Með þessum orðum vildi hann gleðja útgefandann sem hafði áhyggjur af því orði sem lá á píanó- verkum Brahms að þau væru svo erfið í flutningi. Það er svo ein af þessum undarlegu tilviljunum að píanóútgáfan varð gleymskunni að bráð vestur í Bandaríkjunum. En sem betur fer er búið að endur- vekja hana, hún á það sannarlega skilið. Óvenjuleg sálumessa Það kom mörgum á óvart að Jo- hannes Brahms skyldi taka upp á því að semja sálumessu. Hann var ekki ýkja trúrækinn og gerði lítið af því um dagana að semja kirkjuleg verk. Þýska sálumessan er heldur engin venjuleg sálumessa. Þær fylgja flestar ákveðnu formi sem hefur viðgengist allt frá miðöldum og byggjast á því að söfnuðurinn biður guð almáttugan að losa hinn látna undan pínslum helvítis en taka hann til sín og veita honum miskunn og frið. Brahms lætur hinn hefðbundna texta lönd og leið en safnar saman textum héðan og þaðan úr heilagri ritningu. Kirkjunnar menn söknuðu ýmissa fastra liða í messunni enda er þar hvergi minnst á sjálfan frelsarann, svo dæmi sé tekið. Það er ekkert smámál því samkvæmt kristinni kenningu var það Jesús Kristur sem vann sigur á dauðanum og hvað er sálumessa án þess að á það sé minnst? Það var því með hálfum huga sem tónlistarstjóri dómkirkjunnar í Brimum, Karl Reinthaler, leyfði Brahms að flytja verkið þar á föstudaginn langa árið 1868. Segja má að Brahms hafi snúið upp á hlutverk sálumessunnar. Í stað þess að tilgangur hennar sé að biðja hinum látna miskunnar snýr tónskáldið sér að lifendum, mann- kyninu sjálfu sem hann vill leiða á betri vegu. Í stað þess að halda að mönnum ótta við reiði guðs á dómsdegi leggur hann áherslu á kærleika og ódauðleika. „Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða,“ eru upphafsorð verksins og því lýkur á svipuðum nótum úr Op- inberun Jóhannesar: „Sælir eru dánir, þeir sem í drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því verk þeirra fylgja þeim.“ Hann er að hugga eftirlifendur og vekja með þeim vonir um eilíft líf. Það fagra er satt Hvað sem líður vangaveltum guð- fræðinga um messutexta Brahms náði Þýsk sálumessa miklum vin- sældum og er enn á verkefnaskrá kóra og hljómsveita um allan heim. Að sjálfsögðu á tónlistin stærstan þátt í vinsældunum. Fegurð hennar verður ekki lýst með orðum en það sem er fagurt er satt. Það er Dómkórnum mikill heiður að fá til liðs við sig frábæra tónlist- armenn þar sem eru söngvararnir Hulda Björk Garðarsdóttir og Krist- inn Sigmundsson og píanóleikar- arnir Anna Guðný Guðmundsdóttir og Peter Maté. Kórinn hefur fengið liðsauka við flutninginn og er því óvenju fjölmennur á þessum tón- leikum. Að baki eru strangar æfing- ar en allir erfiðleikar gleymast þeg- ar verkið fer að renna og kórstjór- inn getur einbeitt sér að því að slípa fegurstu perlurnar. Þýsk sálumessa verður flutt í Langholtskirkju kl. 17 laugardaginn 15. október og markar upphaf Tónlistardaga sem standa fram til 13. nóvember. Þá verður frumflutt í Dómkirkjunni verk eftir ungt íslenskt tónskáld, Harald V. Svein- björnsson, sem hann samdi að beiðni Dómkórsins. Inn á milli verða svo hátíðarmessur og tónleikar sem nánar má fræðast um í dagskrá Tónlistardaganna sem birtist á heimasíðu kórsins - www.domkirkjan.is Sælir eru syrgjendur Tónlistardagar Dómkirkjunnar 15. október - 13. nóvember 2005 Farinn vegur - og ófarinn

x

Vesturbæjarblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturbæjarblaðið
https://timarit.is/publication/1114

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.