Húnavaka - 01.05.1985, Blaðsíða 203
HÚNAVAKA
201
„Þetta er auðvitað Hanni,“ sagði mamma þegar við vorum búnar
að hlusta góða stund. Hann átti heima á Ytri-Ey og átti litla harmo-
niku.
Daginn eftir fór mamma niður að Ytri-Ey og spurði þá hvort Hanni
hefði verið á ferð daginn áður. Hún fékk það svar, að hann hefði nú
annað að gera en þvælast með harmonikuna upp á Núp og var það
móðir Hanna, sem varð fyrir svörum og neitaði því algerlega, að hann
hefði verið á ferð með hljóðfæri sitt daginn áður.
Mér er sagt, að ég sé ekki músíkölsk, en ég hef þó yndi af þeirri
hljómlist sem mér finnst ég ákilja eitthvað í. Mér finnst, að sú hljómlist
sem við heyrðum á Kambakotshlaðinu og hér var sagt frá, hafi ekki
verið leikin á venjuleg hljóðfæri. Raunar veit ég það nú, að önnur og
voldugri öfl en við þekkjum, voru að verki þegar við heyrðum hljóm-
listina. En dásamlegt er að hafa orðið þess aðnjótandi, að heyra það
stutta stund sem svo óvenjulegt er að fegurð.
Huldukindur
Það var komið langt fram á haust og flestar kindur hafðar heima við
bæ. Ég man, að við mamma og amma vorum að ganga frá sláturmat í
tunnum. Eg man líka að pabbi kom til okkar og sagði, að þeir piltar
ætluðu að ganga niður á Núp, þvi að þar væru nokkrar kindur og
þyrfti að athuga hvaðan þær væru. Að því búnu fór hann.
Neðan við túnið eru melar, sem enda við Núpinn. Á melunum eru
eða voru þrír stórir steinar, líkir húsum í lögun.
Eftir nokkurn tíma komu piltar heim og höfðu ekki átt erindi sem
erfiði.
Þeim sagðist svo frá, að er þeir nálguðust kindurnar, sem hefðu verið
óeðlilega hvítar, hefðu þær þotið af stað og allar farið að einum
steininum og horfið þar, svo að mennirnir komust aldrei nærri þeim.
Um hæðir eða hóla á þessum slóðum var ekki að ræða, og því var
líkast, að jörðin hefði gleypt féð, eða sá steinn, sem það hljóp í átt til, er
mennirnir nálguðust.
Steinarnir munu standa þarna enn og mér fannst það dálítið skrýtið
þá og mér finnst það skrýtið enn, á hvern hátt kindurnar hurfu inn í
steininn, sem var, eftir því sem ég best veit, grjót í gegn.
Fólkið heima efaðist ekki um, að þarna hefðu verið huldukindur.