Húnavaka - 01.05.1985, Blaðsíða 215
HUNAVAKA
213
ekki eins auðvelt að ferðast um landið og nú er. Þá var farið á bílum,
hestum og jafnvel gangandi. Svo þetta var mikið og erfitt starf, sem
ekki má gleymast. En Sigurður var feykiduglegur og áhugasamur um
sitt starf. Og þeir sem á eftir koma, ættu ekki að gera lítið úr þvílíkum
brautryðjendastörfum, þaðan af síður reyna að gera það að engu. Þeir
verða ekki menn að meiri fyrir það.
Blönduóskirkjukór söng oft fram í sveitum, aðallega við jarðarfarir,
sérstaklega fyrstu árin og sjaldan eða aldrei held ég að hafi verið neitað
um söng, hafi um verið beðið.
í þessi 50 ár hafa verið þrír organistar. Fyrst eins og að framan getur
Karl Helgason í nokkur ár, þá fluttist hann burtu. Þá tók við Þorsteinn
Jónsson en hann lést um aldur fram og var mikil eftirsjá í honum.
Síðan tekur Solveig Benediktsdóttir við og hefir verið fram á þennan
dag, og unnið mikið og gott starf.
En þó framantalið fólk hafi unnið vel þá má ekki gleyma söngfólk-
inu. Það vann og vinnur samviskusamlega sín störf, en ég hugsa að það
verði fáir, sem syngja 50 ár í kirkjunni sinni eins og Margrét Jónsdóttir
hefur gert. Einnig langar mig til að segja smá sögu af Kristófer Krist-
jánssyni, en hann var sá eini í kórnum sem átti heima fram í sveit. Allir
aðrir bjuggu hér á staðnum. Ég man ekki lengur hvaða ár þetta var, en
það var aftansöngur á aðfangadagskvöld eins og venjulegt var. Það var
þó nokkur snjór og um kvöldið hvessti og það þarf ekki að orðlengja
það að Kristófer kom ekki heim til sín fyrr en upp úr miðnætti, og var
þá búinn að vera rúmlega fimm tíma á leiðinni, en er venjulega 15-20
mínútur. Það hefur ekki verið skemmtilegt jólakvöld, hvorki fyrir
hann né fjölskylduna, sem beið heima.
Til gamans ætla ég að setja hér nöfn þeirra, sem fyrstir voru í
kirkjukórnum.
Sópran: Jóna Kristófersdóttir, Kristín Kristmundsdóttir, Vilborg
ívarsdóttir, Lára Böðvarsdóttir og Margrét Jónsdóttir, sem er enn.
Alt: Þuríður Sæmundsen, Ingileif Sæmundsdóttir, Ásta Sighvats-
dóttir og Hulda Friðfinnsdóttir.
Tenór: Jón Einarsson, Ágúst Andrésson og Guðmann Hjálmarsson.
Bassi: Albert Jónsson, Halldór Albertsson, Kristinn Magnússon og
Halldór Leví.
Þetta er engin tæmandi saga kórsins, á heldur ekki að vera það,
aðeins nokkur orð til að minnast þeirra tímamóta, sem ég tel vera nú.
Ritað í desember 1984.