Húnavaka - 01.05.1986, Page 68
SÓLVEIG B. STEFÁNSDÓTTIR:
Svipmynd
Hann gekk eftir silfurhvítu hjarninu, rösklega, þó að hann væri
kominn hátt á sextugs aldur. Hann var á leið á beitarhúsin, sem lágu
inni í dalnum. Á undan honum trítlaði hundur, svartur með hvíta
bringu. Þeir félagar fóru þessa sömu leið á hverjum degi, hvernig sem
viðraði.
Þegar hann var kominn að fremur lágreistu torfhúsinu, sem hýsti
þessar fjörutíu ær, er hann hirti, staldraði hann við og leit til lofts.
Tunglið skein glatt á dimmbláum himninum. Stjörnurnar voru
skærar og nutu sín vel. Það var bjart í dalnum milli fjallanna, nema
dökkur skuggi teygði sig yfir hlíðar þeirra. Hvít jörðin sindraði og það
glampaði á svellin.
Þetta var snemma morguns á aðfangadag jóla. Það var andkalt, en
loftið var dásamlega tært og svalandi.
Maðurinn hét Björn. Hann var búinn að vera fjármaður á prests-
setrinu í rúm þrjátíu ár. Fyrst hjá séra Jóni, sem andaðist í fyrra. Það
var góður maður fannst Birni. í fyrravor kom svo nýi presturinn, séra
Arngrímur. Hann var álíka óþjáll sjálfur og nafnið sem hann bar. Að
vísu voru hann og gamla prestsekkjan líklega einu manneskjurnar sém
lynti ekki við nýja prestinn. Almannarómur dáði hann frá fyrsta degi.
Björn andvarpaði og dró djúpt að sér andann. Við það var eins og
hríslaðist um hann lífsánægja. Andartak gleymdi hann öllum
áhyggjum sínum og leiða. Hugarangur olli því að hann var kominn
hingað miklu fyrr en vani hans var. Þeim hafði alltaf komið vel saman,
honum og séra Jóni. Séra Jón gerði ekki aðrar kröfur til hans en hann
leysti fjármannsstarfið vel af hendi. Séra Jón var ekki með neinar
kreddur. „Bjössi minn, fáir feta betur í fótspor drottins en þú. Þú sérð
vel um hjörðina.“ Eitthvað í líkingu við þetta sagði séra Jón í hvert
skipti, sem hann kom í beitarhúsin.
Það var annað með séra Arngrím. Honum var nóg að hugsa um séra
Arngrím til að fyrirlitningargretta kæmi á andlit hans. Þetta var