Húnavaka - 01.05.1986, Page 144
Sr. ÁRNI SIGURÐSSON:
Hundrað ára minning
Ásgeir Einarsson bóndi
og alþingismaður á Þingeyrum
Þann 15. nóvember sl. voru 100 ár liðin frá dauða Ásgeirs Einars-
sonar, bónda og alþingismanns á Þingeyrum, sem lést þar, 76 ára að
aldri.
Ævi þessa merka búhöldar og framfaramanns, hefir eigi verið gerð
þau skil er vert væri og skal hans nú minnst á ártíð hans.
Ásgeir Einarsson var Strandamaður að ætt og uppruna. Hann var
fæddur 23. júlí 1809 að Kollafjarðarnesi í Strandasýslu, en foreldrar
hans voru Einar Jónsson, bóndi og dannebrogsmaður í Kollafjarðar-
nesi og síðari kona hans, Þórdís Guðmundsdóttir frá Seljum í Helga-
fellssveit. Þóttu þau hjón fyrir öðrum mönnum, sakir höfðingsskapar
og rausnar við fátæka.
Systkini Ásgeirs voru 6 og þótti mikið til þeirra koma eins og Finnur
á Kjörseyri orðar það. Ásgeir kvæntist 26. júní árið 1838 Guðlaugu
Jónsdóttur, sýslumanns á Melum Jónssonar. Hófu þau búskap sinn í
Kollafjarðarnesi vorið 1839 og bjuggu þar til vorsins 1861, en þá fluttu
þau að Þingeyrum, eftir lát Runólfs Magnúsar Ólsens, er búið hafði á
Þingeyrum um langt skeið eftir föður sinn. Þeir Ásgeir voru svilar.
Bjuggu þau hjón um tveggja ára bil á Þingeyrum, en þá tók Jón
sonur hans við jörðinni. En árið 1863 flytja þau hjón að Ásbjarnarnesi,
þar sem þau bjuggu allt til ársins 1867, er þau flytja aftur að Þing-
eyrum, en þar bjó Ásgeir allt til dauðadags.
Ásgeiri Einarssyni er lýst svo, að hann hafi verið orðlagður hug-
sjóna- og athafnamaður, eins og kirkjan á Þingeyrum ber m.a. vott
um. Hann tók virkan þátt í þjóðmálabaráttunni fyrir frelsi Islands og
skipaði sér jafnan í fremstu röð fylgismanna Jóns Sigurðssonar. Voru
þeir miklir vinir allt til dauðadags eins og bréf þau votta, sem þeir
skiptust á um langan aldur.
Hann var fyrst kosinn á þing árið 1845, sem þingmaður Stranda-