Húnavaka - 01.05.1986, Page 165
IIUNAVAKA
163
meiri menntunar, einkum á helsta áhugasviði sínu, náttúrufræði, og er
líklegt að landið hafi farið á mis við ágætan vísindamann á því sviði.
Þótt menntunina skorti kom það ekki í veg fyrir að hann helgaði sig
vísindunum fyrir sjálfan sig og sökkti sér niður í hugðarefni sín af þeim
ákafa sem oft einkennir áhugamenn umfram próflærða. Skortur á
fræðilegri skólun var bæði styrkur hans og veikleiki. Hann var ekki
eins bundinn af viðurkenndri þekkingu og fyrir bragðið var hann
líklega opnari fyrir frumlegum hugmyndum og sjálfstæðum ályktun-
um. Hins vegar varnaði það honum þess að koma hugmyndum sínum
og athugunum á framfæri sem skyldi, enda var honum eðlislæg sú
vísindalega afstaða að sannreyna allar tilgátur sem best, en fannst oft
að hann skorti þær fræðilegu forsendur, sem þyrfti til að setja fram
athuganir sínar opinberlega. Þó var hann víðlesinn og vel að sér og
sótti mikið til þeirra fræðimanna, sem honum þótti mestur slægur í, og
sat við þá á tali hvenær sem færi gafst.
Ég kynntist Birni ekki fyrr en á efri árum hans og okkur féll strax vel
saman. Við áttum nokkrar ferðir saman fram á Grímstunguheiði og
suður á Arnarvatnsheiði, oftast ríðandi. f þessum ferðum kynntist ég
landinu frá nýjum sjónarhóli auk þess að njóta samfylgdar góðs
ferðafélaga. Björn kunni svo sannarlega að meta fegurð landsins, en
hann skoðaði það með öðrum og næmari augum en flestir. Hann var
góður ljósmyndari og tók mikið af myndum, en myndefnin sem vöktu
áhuga hans voru ekki ávallt þau sömu og venjulegra ferðalanga.
Heimildargildi þeirra skipti hann mestu: snjóalög í fjöllum, grónar
götur, haglega hlaðnar vörður, uppblásnir melar. Um allt þetta hafði
hann sínar hugmyndir og kenningar, sem voru settar fram af skyn-
samlegu viti og rökfestu. Ferðir þessar voru líkari vísindaleiðöngrum
en skemmtiferðum, þótt skemmtunin hafi ekki orðið minni fyrir það.
Eina ferð þræddum við Grímstunguheiðarveginn gamla suður að
Arnarvatni, en hann var fyrst ruddur 1835 fyrir forgöngu Fjallavega-
félagsins, en síðan endurbættur og lagður 1880-81. Hann var um
áratugi þjóðleið á milli landshluta, en er nú mörgum gleymdur. Björn
hafði þá um skeið verið með hugann allan við þennan veg og ritað um
hann grein í Húnavöku. Kafla af eldri hluta vegarins hafði hann þó
enn ekki fundið og ferðin m.a. gerð til að leita að honum. Mér er
minnisstæð gleði hans þegar hann rakst á minjar hans vestur undan
Fossabrekkunum, 18-20 samhliða uppgrónar götur, sem óvönum
augum voru gersamlega huldar við fyrstu sýn. Þær enduðu síðan í