Húnavaka - 01.05.1986, Page 169
HUNAVAKA
167
band við frægarða víða um heim, enda var fjölskrúðugur gróður í
garðinum. Þar undi hann mörgum stundum.
Jón var lengi formaður Garðyrkjufélags Islands og sinnti þvi af
miklum áhuga. Ég hefi það fyrir satt að í hans formannstíð hafi það
eflst meir en nokkru sinni. Á hundrað ára afmælishátíð félagsins, 26.
maí 1985, var hann sæmdur æðsta heiðursmerki þess, en var þá fjar-
verandi sökum veikinda.
Ég veit ekki hvenær áhugi Jóns vaknaði fyrst á skógrækt. Ef til vill í
Noregi. En 1956 girti hann um tvo hektara í hlíðinni norðan við
Röðul, hann kallaði það á Kotinu, sem hann sagði stytt úr Sauðanes-
koti, sem þar hafði staðið. Þar gróðursetti hann 2600 plöntur.
Árið eftir flutti hann sig og girti nokkra hektara lands syðst í
Sauðanesinu og plantaði 1000 plöntum það ár. Þar kom hann sér upp
sumarbústað. Girðingin var stækkuð í áföngum og nú eru girtir um 50
hektarar, beggja vegna vegarins. Nú mun búið að planta í landið um
50 þúsund plöntum af ýmsum tegundum, svo sem skógarfuru, stafa-
furu, þin, sitkagreni, hvítgreni, rauðgreni, lerki og birki. Fleiri teg-
undir hafa verið settar þarna í smáum stíl. Á síðari árum fór Jón að sá
birkifræi og ala upp plöntur af því í garði sinum í Reykjavik og einnig
að ala þar skógarplöntur til meiri þroska fyrir gróðursetningu. Þetta
gafst honum mjög vel.
Þegar þess er gætt að hann var búsettur suður i Reykjavík og í fullu
starfi, er það með ólíkindum hverju hann kom þarna i verk á stopulum
stundum, þótt hann nyti oft hjálpar sonar sins og fleiri vandarpanna
og vina.
Af framanrituðu er ljóst að með Jóni Pálssyni er fallinn einn af
vormönnum Islands, sem sýndi það í verki að hann vildi og gat klætt
land sitt skógi. Verk hans „fram i Nesi“ bera þvi fagurt vitni og halda
áfram að vaxa um langa framtíð og vera honum fagur minnisvarði.
Haraldur Jónsson.