Dagblaðið Vísir - DV - 25.11.2009, Qupperneq 20
Miðvikudagur 25. nóvember 200920 Bækur
Ferðasaga
Ferðasaga á tímamótum
Ferðasaga Runólfs Ágústsson-
ar, fyrrverandi rektors á Bifröst,
til Ástralíu er augljóslega saga
manns sem stendur á ákveðn-
um tímamótum. Runólfur grein-
ir frá því í upphafi bókarinnar að
hann hafi ákveðið að halda upp
í þessa sjö vikna löngu ferð því
komið hafi verið að „skuldadög-
um“ hans.
Hann hafði þá unnið hörðum
höndum að því árum saman að
byggja upp tvo skóla, fyrst Há-
skólann á Bifröst og síðar Keili, í
herstöð varnarliðsins í Keflavík.
Auk þess sem hann hafði glímt
við ólæknandi efnaskiptasjúkdóm í 20 ár og hafði þurft að dæla í sig sterum
þrisvar á dag til að vinna gegn honum. Læknir Runólfs ráðlagði honum því
að minnka steraskammtana og byrja að lifa hollara og rólegra lífi. „Í fyrsta
skipti í tvo áratugi ætlaði ég að staldra við í lífinu og hugsa,“ segir Runólfur
í bókinni og dreif sig svo einn til Ástralíu eftir að hafa hætt hjá Keili í byrjun
mars á þessu ári.
Sjö vikna ferðasaga Runólfs, frá borginni Perth á vesturströnd Ástral-
íu og inn í mitt landið áður en hann hélt í suðuraustur til Adelaide, Mel-
bourne, Tasmaníu, Canberra og Sydney, er í sjálfu sér ekki mjög eftirminni-
leg. Bókin gefur lesandanum ágæta, en þó nokkuð yfirborðslega, mynd af
þessum stöðum. Runólfur virðist ekki hafa komist í kynni við marga Ástrali
á ferðalagi sínu og því er þekking hans að mestu bundin við eigin upplifun
og það sem hann hefur lesið í bókum um landið, en þær bækur eru tíund-
aðar í bókarlok. Runólfur greinir frá því helsta sem á daga hans dreif í ferð-
inni, lýsir einkennum staðanna sem hann heimsótti, hvað hann borðaði
og drakk, hvar hann gisti og hvað honum þótti forvitnilegast og sérstakast.
Líklega mun enginn hafa áhuga á að fara til Canberra eftir að hafa lesið bók
Runólfs en Sydney hlýtur aftur á móti að toga í flesta.
Markmið ferðarinnar var hins vegar ekki mjög afmarkað og því er mark-
mið bókarinnar það ekki heldur, líkt og nafnið á bókinni gefur til kynna.
En til þess að úr slíkri sögu verði eftirminnileg bók þurfa atburðirnir sem
ferðalangurinn lendir í að vera þeim mun áhugaverðari og bera bókina
uppi eða að stílsnilld höfundarins og sýn sé svo sérstök að hann geti gert
mikið úr litlu. Svo er ekki í þessari bók: Runólfur lendir ekki í miklum ævin-
týrum á leið sinni þó að bókin sé prýðilega vel skrifuð hjá honum og ágæt
aflestrar – aldrei kom yfir mig sú tilfinning að ég nennti ekki að klára hana
– og uppgjör hans við sjálfan sig og sitt fyrra líf fær ekki nægilega mikla at-
hygli í bókinni til að geta borið hana uppi.
Áhugaverðasti hluti bókarinnar er frásögnin af Jörgen Jörgensen, betur
þekktum sem Jörundi hundakonungi á Íslandi, og afdrifum hans í Ástralíu
og Tasmaníu. Ég þekkti ekki ólánssögu Jörundar og mér fannst gaman að
lesa um hana. Það er líka í þessari frásögn sem Runólfur gerir best í bókinni
því þar er hann drifinn áfram af samúð með ógæfumanninum Jörundi og
löngun til að komast að því hvað varð um hann, meðal annars að finna gröf
hans í Tasmaníu. Þáttur Jörundar er því sá besti í bókinni.
Runólfi hefur líklega fundist sem hann hafi allt eins getað skrifað þessa
bók fyrst hann hélt upp í ferðalagið til Ástralíu til að byrja með. Slík skrif
gefa ferðalaginu aukið vægi og gera ferðalanginum kleift að hafa eitthvert
markmið meðan á henni stendur. Kannski var bókin, líkt og ferðalagið, líka
hluti af persónulegu uppgjöri Runólfs. Bókin bætir hins vegar ekki miklu
við og hún er ekki djúp á neinn hátt þó að Runólfur virðist vera einlægur
í lýsingum sínum af eigin líðan. Ferðasaga Runólfs er ágætis afþreying og
prýðilega upplýsandi um suma af þeim stöðum sem Runólfur heimsækir
auk þess sem það gerir bókina þægilega að tónn höfundarins er persónu-
og vinalegur. IngI F. VIlhjálmsson
engInn ræður För
– reIsubók úr neðra
runólfur ÁgústssonPrýðilega
skemmtileg
ferðasaga um
Ástralíu eftir
mann á tíma-
mótum. Bókin
er þó ekki eftir-
minnileg, með
einni undan-
tekningu.
Útgefandi:
Veröld
Margir muna eflaust eftir hinni stórskemmtilegu bók
Huldars Breiðfjörð, Góðir Íslendingar, sem hann sendi
frá sér fyrir rúmum tíu árum. Ég man að ég las þá yndis-
legu bók ansi oft þar sem ég var búsettur í Venesúela og
saknaði heimahaganna. Þá var gaman að detta aftur og
aftur inn í þann alíslenska og hversdagslega heim sem
Huldar dró upp mynd af í bók sinni á hringferðinni um
landið. Eftirminnilegustu lýsingarnar í þeirri bók voru
hvernig hann stoppaði í sjoppum og ýmsum búllum
og keypti sér hamborgara eða köku og kaffi, tók þjón-
ustufólkið tali og velti fyrir sér stemningunni á áningar-
stöðunum. Bókin leið þægilega áfram: Lesandinn sat og
hlustaði á Huldar spjalla ljúflega um allt og ekkert í fari
lands og þjóðar.
Nú er Huldar mættur aftur til leiks – eftir að hafa
skrifað ferðasögu um Kína – á þessi kunnuglegu mið og
endurtekur leikinn að með sams konar bók um Færeyj-
ar og hann skrifaði um Ísland. Ástæðan fyrir því að hann
velur Færeyjar er sú að Færeyingar stóðu við bakið á Ís-
lendingum eftir efnahagshrunið í fyrrahaust og veittu
þeim lánafyrirgreiðslu þegar aðrir héldu að sér hönd-
um. Honum lék forvitni á að vita hvaða þjóð þetta væri
sem sýndi Íslendingum slíkt vinarþel.
Á fjórum vikum í byrjun ársins ætlaði Huldar sér að
kynnast Færeyjum og Færeyingum það vel að hann gæti
komist „á botninn“ eins og hann orðar það í bókinni.
En þessi botn er sú tilfinning að komast í náin tengsl við
eðli landsins, íbúa þess og menningu, ef ég skil Huld-
ar rétt. Þetta er einhvers konar andleg eða frumspeki-
leg reynsla þar sem maður finnur fyrir einhverri áður
óþekktri tengingu við eitthvað. Hann nær svo þessu
markmiði við sérstakar aðstæður á Suðurey skömmu
áður en hann heldur aftur heim til Íslands.
Í þessu augnamiði gerir Huldar sams konar hluti í
Færeyjum og hann gerði til að kynnast landanum utan
við 101 RVK í Góðum Íslendingum. Hann slæpist mik-
ið, hangir í sjoppum og kaffihúsum, spjallar við mikið af
alls konar fólki, þjórar á börum og leggur sig eftir öllu því
sem færeyskt er. Þessari ferð Huldars til Færeyja verður
ekki lýst sem ævintýralegri eða ógleymanlegri, til þess er
hún of venjuleg. En það er einmitt þetta hversdagslega
og stefnulausa ráf sem Huldar er svo góður í.
Hann kynnist ýmsum í bókinni sem fræða hann
um Færeyjar, Færeyinga, menningu landsins og meira
að segja líka malbikunina á eyjunum því meðleigjandi
hans á súra og subbulega gistiheimilinu í Þórshöfn vinn-
ur við að asfaltera. Eins kynnist hann öðrum Íslending-
um sem dveljast í Færeyjum, til að mynda múraranum
Högna sem á í nokkrum erfiðleikum í kvennamálunum
í bókinni og bölvar öðrum Íslendingum sem setjast að í
Þórshöfn því hann telur þá vera hálfgert pakk sem hegði
sér dólgslega.
Þegar Huldar er orðinn þreyttur á höfuðborginni fer
hann á flakk um eyjarnar. Líkt og í Þórshöfn hittir hann
ýmsa skemmtilega karaktera á ferð sinni til þorpanna
Götu, Klakksvíkur og Þvereyrar meðal annarra. Þar ber
hæst Íslendingavininn Martin, 75 ára sjómann sem
enn rær út á trillunni sinni til að veiða beitukóng. Lýs-
ingar Huldars á samveru sinni með Martin og konunni
hans Henny eru mjög einlægar og ljúfsárar því honum
þykir greinilega dálítið vænt um gamla manninn. Auk
þess sem Huldar fær loksins að kynnast færeyskri mat-
armenningu í þeirra húsum: skerpikjöti, söltuðu spiki
og grindhvalakjöti, eftir heldur sorglegt skyndibitafæði
– norskar örbylgjupítsur – og aðrar aumar reddingar
fram að því. Það er fyrst í Götu sem Huldar fer að nálg-
ast „botninn“ sem hann svo leitar að í ferðinni þó svo að
hann hafi, þegar þarna er komið sögu, áður verið búinn
að prófa færeyska dansinn sem bókin heitir eftir. Enn á
hann svo eftir að hitta fyrir færeysku sauðkindina.
Bók Huldars er skemmtileg og einlæg. Hann er góður
í að skrifa slíkar ferðabækur. Einn af hans stærstu kost-
um í þessum bókum er hvað hann er þægilegur, hvers-
dagslegur og opinn á sínum ferðalögum og hann miðlar
því sem hann sér og hugsar á áreynslulausan og ljúfan
hátt. Huldar er ekkert að rembast við að vera neitt merki-
legur eða háfleygur í þessari bók. Einhverjum kann að
finnast þetta slæmt og að bókin sé yfirborðsleg fyrir vik-
ið. Vissulega er það svo að bók Huldars ristir ekki mjög
djúpt en það er heldur ekki endilega það sem maður vill
fá út úr bókum Huldars.
Að lesa Huldar er dálítið eins og að fara í þægilegan
bíltúr með manni með góða nærveru og hlusta á hann
segja frá því sem fyrir augu ber. Huldar er prýðilegur
ferðafélagi og lesanda langar ekkert sérstaklega til að
hann hætti að segja frá upplifun sinni af Færeyjum.
IngI F. VIlhjálmsson
Í leit að „botni“
í Færeyjum
Ferðasaga
Færeyskur dansur
Huldar Breiðfjörð
Skemmtileg, ljúf
og hversdags-
leg ferðabók um
Færeyjar frá höf-
undi Góðra Ís-
lendinga. Huld-
ar er góður og
þægilegur ferða-
félagi.
Útgefandi:
Bjartur
HuldarBreiðfjörðFæreyskur
dansur er þriðja ferðabók Huldars.
Hinar eru Góðir Íslendingar og
Múrinn í Kína sem mæltust vel
fyrir hjá gagnrýnendum.