Dagblaðið Vísir - DV - 30.05.2011, Blaðsíða 10

Dagblaðið Vísir - DV - 30.05.2011, Blaðsíða 10
10 | Fréttir 30. maí 2011 Mánudagur „Þau heyra höggin dynja, ókvæð- isorðunum rigna yfir og hlutum fleygt, og þau heyra hvísl eða öskur með fyrirmælum um að þau skuli ekki skipta sér af. Ímyndum okkur skelfingu þessara barna, vanmátt þeirra og skömm yfir að geta ekki bjargað málunum, hræðsluna við að þolandinn standi ekki upp aftur og sektarkenndina yfir því að þykja stundum, þrátt fyrir allt, vænt um ofbeldismanninn,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og fram- kvæmdastýra Kvennaathvarfsins, um börn sem búa við ofbeldi. Allt að 4.000 börn búa við ofbeldi Árið 2011 mun fjöldi barna verður fyrir heimilisofbeldi samsvara öll- um börnum í sveitarfélaginu Árborg. Svo segir í skýrslu sem UNICEF tók saman um stöðu barna á Íslandi. Þar segir að reikna megi með því að 2.000–4.000 börn séu þolendur heimilisofbeldis eða búi við heim- ilisofbeldi á ári hverju á Íslandi ef tölurnar séu framreiknaðar úr rann- sóknum Barnaverndarstofu og Rannsóknum og greiningu. Þar segir einnig að ef 2.000 börn eru þolendur heimilisofbeldis á ári hverju sé aðeins tilkynnt um fjór- tán prósent þeirra til barnaverndar- nefnda. Gríðarleg þörf sé því á rann- sóknum á raunverulegu umfangi heimilisofbeldis á Íslandi, auk rann- sókna er varða sérstaklega börn sem þolendur. Samkvæmt rannsóknum er of- beldi innan heimilis talsvert algeng- ara en ofbeldi gegn ókunnugum en gera má ráð fyrir því að heimilisof- beldi gagnvart börnum sé verulega vanskráð. Mæður sem beita ofbeldi Í rannsóknum kemur ítrekað fram að hlutfall karla sem ofbeldismanna sé hærra en hlutfall kvenna. Í skýrslu dómsmálaráðuneytis frá árinu 1997 kemur til að mynda fram að í þeim 189 tilvikum sem skoðuð voru árið 1992 voru ofbeldismennirnir karl- menn í 88% tilvika. Það eru þó til rannsóknir sem gefa annað til kynna. Freydís Jóna Freysteinsdóttir gerði rannsókn þar sem hún bar saman tilkynningar til þriggja stofnana félagsþjónustunn- ar í Reykjavík og Hafnarfirði. Rann- sókn hennar sýndi að mæður beittu börn sín oftar ofbeldi en feður. Í heild voru skoðuð 77 mál og voru mæður ábyrgar fyrir ofbeldinu í 64% tilfella. Í rannsókninni kom einnig fram að þessar konur ættu það margar hverj- ar sameiginlegt að vera einstæð- ar, áfengissjúkar og eiga við geðræn vandamál að stríða. Önnur rannsókn var hluti af loka- verkefni við hjúkrunarfræðideild HÍ árið 2000 og fjallaði um konur sem gerendur í heimilisofbeldismálum gegn börnum og mökum. Þar kom fram að þau tilfelli þar sem konur eru gerendur séu verulega vantilkynnt og fórnarlömb kvenna tilkynni of- beldið síður, sérstaklega vegna þess að ofbeldið snýr mest að yngri börn- um, undir fimm ára aldri. Aðrar rannsóknir og skýrslur hafa sýnt staðfastlega fram á að karlmenn eru oftar gerendur en konur í ofbeld- ismálum. Engar forvarnir Allt þetta kemur fram í samantekt UNICEF sem var birt í síðustu viku. Samantektin byggir á niðurstöðum allra rannsókna sem hafa verið gerð- ar í þessum málaflokki hér á landi og öðrum er varða stöðu barna á Ís- landi. Lovísa Arnardóttir er höfund- ur skýrslunnar, auk þess sem Guðrún Ögmundsdóttir og Karl Blöndal sátu í ritstjórn ásamt Stefáni Inga Stefáns- syni framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi. Gagnrýnir UNICEF að engar reglulegar mælingar fari fram hér- lendis á tíðni ofbeldis gegn börnum og að enginn á vegum hins opinbera beri ábyrgð á forvörnum í þessum málaflokki. Að enginn opinber að- ili hafi það hlutverk að berjast gegn ofbeldi gegn börnum líkt og hef- ur lengi tíðkast varðandi áfengis- drykkju, tóbaksnotkun, umferðar- slys og annað. Segir að opinberir aðilar verði að vinna markvisst gegn heimilis- ofbeldi sem er ein helsta ógn við líf og heilsu íslenskra barna, það þurfi að vera skýrt hverjir bera ábyrgð á forvörnum og að fjármagn verði að vera tryggt. Gerendurnir eru oftast foreldrar Í langflestum tilfellum eru það foreldrar sem beita börnin ofbeldi, eða í 78,2% tilvika. Aðrir gerendur eru systkini, vinir, makar eða aðrir fjöl- skyldumeðlimir. Börn sem gerendur eru í miklum minnihluta eða 6,5%. Kemur þetta fram í skýrslu á vegum Ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010. Þar var umfang og eðli ofbeldismála milli skyldra og tengdra kannað en málin voru öll úr lögregluskýrslum frá árunum 2006–2007. UNICEF segir það umhugsunar- vert að brotaþolar og börn verði að yfirgefa heimili sín til að losna und- an síendurteknu ofbeldi en árið 2009 komu 44 konur með börn í Kvenna- athvarfið. Samtals dvöldu þar 60 börn, að meðaltali í tíu daga. Eru það svipaðar tölur og frá árinu 2006. 30% þeirra fóru aftur heim í óbreytt- ar aðstæður en fleiri konur fóru heim í óbreyttar aðstæður árið 2010 en undanfarin ár. Í skýrslu ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að brotaþolar voru 964 en ofbeldismenn 787 og komu þeir við sögu í 950 skipti. Því má reikna með því að einhverjir ofbeldismenn séu tilkynntir oftar en einu sinni. Af þeim sem grunaðir voru um heim- ilisofbeldi höfðu 284 þegar verið skráðir í kerfi lögreglunnar. Bendir UNICEF á að það þurfi að efla með- ferðir fyrir gerendur og að þær þurfi að vera til staðar um allt land. Í 45% tilfella voru brotaþoli og of- beldismaður ein á vettvangi, í 39% mála var annað barn á vettvangi og yfirleitt var aðeins um eitt barn að ræða. Í flestum tilfellum var skiln- aður eða sambandsslit ástæða heim- ilisofbeldis en í 7,8% tilfella var það forræðisdeila eða ágreiningur um börn. Börnin gleymast Þar sem heimilisofbeldi á sér stað eru 30–60% líkur á því að barnið verði sjálft annaðhvort fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Engu að síður bentu fag- aðilar á það í rannsókn Barnaheilla sem kom út snemma árs að þeim þætti of oft einblínt á konuna eina þegar talað er um heimilisofbeldi en barnið ekki tekið með í reikninginn. Til að mynda var barnavernd nánast aldrei með í för, eða aðeins í 1% tilvika, þegar lögregla var kölluð til vegna heimilisofbeldis. Samt voru brotaþolar undir 18 ára aldri í 8,9% tilvika. Gagnrýnir UNICEF þetta og segir að boðleið milli barnaverndar og lögreglu verði að vera greið. Í febrúar á þessu ári lýsti Barna- verndarstofa því yfir að stofan vildi koma á samstarfi milli lögreglu og barnaverndarnefnda á landinu sem fælist í því að sérhæfður starfsmað- ur væri á bakvakt og fylgdi lögreglu á vettvang í þeim tilvikum sem lög- regla fær tilkynningu um heimilis- ofbeldi og barn er á staðnum. Starfs- maðurinn myndi þá huga að barninu og tryggja því stuðning, til dæmis áfallahjálp. „Aðstæður þessara barna eru of flóknar og tilfinningarnar of marg- slungnar til að við getum ætlast til þess að þau segi frá ofbeldinu að fyrra bragði. Við fullorðna fólkið verðum að hafa kjark til að taka af skarið, þora að spyrja og vita hvernig við ætlum að bregðast við ef við fáum sögu um ofbeldi á heimili þeirra,“ segir Sigþrúður í hugleiðingum er hún ritar í skýrsluna. Líklegri til að fara í ofbeldissambönd Börn geta líka búið við ofbeldi án þess að verða fyrir því sjálf en þá verður að líta á ofbeldið sem andlegt ofbeldi gegn barninu og illa meðferð. Því barn sem horfir upp á foreldri sitt beita hitt ofbeldi býr við stöðug- an ótta, reiði, stjórnleysi, vanmátt og ringulreið. Það hefur engan sem það getur leitað til og getur þróað með sér áfallastreituröskun, líkt og þau börn sem verða sjálf fyrir ofbeldi. Tilfinningalegur sársauki, lít- ið sjálfsálit, lítil félagsleg færni og erfiðleikar við lausn félagslegra vandamála, átraskanir og líkam- leg óþægindi, angist, þunglyndi og svefnraskanir eru einnig algeng áhrif ofbeldis. Þá virðist sérstaklega drengjum sem búa við heimilisof- beldi vera hætt við sjálfsvígshug- myndum. Oft koma áhrifin ekki fram fyrr en á fullorðinsaldri en sýnt hefur verið fram á að börn sem búa við ofbeldi á heimilinu eru líklegri til að sætta sig við ofbeldi í framtíðinni þar sem þau hafa lært að ofbeldi sé viðurkennd aðferð til að glíma við vanda. Þau eru því líklegri til að lenda í ofbeldissam- böndum, hvort sem þau eru þolend- ur eða gerendur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að 30% barna sem verða fyrir heimilisofbeldi beita maka sína ofbeldi á fullorðinsárum. Svört skýrsla Samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF búa allt að 4.000 íslensk börn við ofbeldi. Mynd úr safni. n Allt að 4.000 börn búa við ofbeldi á Íslandi í dag n Síður tilkynnt þegar mæður beita börnin ofbeldi n Börnum þykir þrátt fyrir allt vænt um ofbeldismanninn n Líklegri til að fara í ofbeldissambönd n Úrræði fyrir gerendur vantar FORELDRAR BEITA BÖRNIN OFBELDI „ Ímyndum okkur skelfingu þessara barna, vanmátt þeirra og skömm yfir að geta ekki bjargað málunum. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður skrifar ingibjorg@dv.is Sigþrúður Guðmunds- dóttir „Þau heyra höggin dynja, ókvæðisorðunum rigna yfir og hlutum fleygt, og þau heyra hvísl eða öskur með fyrirmælum um að þau skuli ekki skipta sér af. “ Sláandi stað- reyndir 6.300 börn hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.