Dagblaðið Vísir - DV - 15.06.2012, Síða 24
24 Umræða 15.–17. júní 2012 Helgarblað
Stefán Gestsson Ein einföld spurning
hérna. Af hverju ætti ég að kjósa þig?
Andrea Ólafsdóttir Hver og einn
kjósandi velur sér þann frambjóðanda sem
best endurspeglar þau gildi sem hann hefur
trú á og vill sjá endurspeglast í forseta. Ég
hef sagt að ég er sá frambjóðandi sem hef
mjög skýra framtíðarsýn á það hvernig megi
brúa hina margumtöluðu gjá milli þings og
þjóðar og tel það mikilvægasta verkefni
næstu ára. Það verður einungis gert með því
að fólkið í landinu taki höndum saman um
að leysa ákveðin ágreiningsmál sem þinginu
hefur ekki tekist að leysa árum eða áratug-
um saman. Við sem þjóð þurfum að aðstoða
þingið núna til þess að við getum náð
samfélagslegri sátt og ég tel okkur einnig
þurfa að ná fram okkar eigin uppgjöri eftir
hrunið til þess að geta náð samfélagslegri
sátt. Ef maður á að hrósa sjálfum sér eða
draga fram kosti sína, þá bendi ég á það að
ég hef óumbeðin staðið upp fyrir hagsmuni
fólksins í kjölfar hrunsins vegna sterkrar
réttlætiskenndar minnar og vegna þess að
ég tel mikilvægt að horfa á stóru myndina
varðandi fjármálahrunið og ábyrgð. Ég hef
hugrekki, kjark og þor auk þess að hafa
reynslu af því að eiga við „kerfið“ og stjórn-
málamenn. Það mætti draga fram marga
fleiri kosti, en færi kannski of langur tími
í það :) En ég tel mig vera þannig kostum
gædd að geta verið sáttasemjari milli þings
og þjóðar til þess að við getum endurvakið
traust okkar á okkar æðstu lýðræðisstofnun,
Alþingi.
Kristensa Valdís Gunnarsdóttir Þú
segist ætla að berjast fyrir hag
heimilanna – getur þú útskýrt það
betur?
Andrea Ólafsdóttir Já, ég hef sett það
fram sem eitt af stærri málum okkar
samtíma – og ég set það fram sem að-
ferðarfræði til þess að brúa þessa gjá sem
myndast hefur milli þings og þjóðar. Ég valdi
málefni sem þinginu hefur ekki tekist að
leysa árum eða áratugum saman og ég tel
að fólkið sjálft þurfi núna að aðstoða þingið
við að leysa. Ég tel mjög mikilvægt að leysa
úr lánamálum heimilanna og leiðrétta þá
eignatilfærslu sem fólk horfir upp á vegna
hrunsins og ég tel það yrði til þess að ná
fram uppgjörinu sem fólk þráir að sjá – bæði
út frá réttlætissjónarmiðum, heilbrigðri
skynsemi vegna þess að skuldastaða fólks
bæði hér og um allan heim er ósjálfbær og
gengur einfaldlega ekki upp – fjármálakerfið
er búið að stunda of mikla peningaprentun
og ég held að fólkið sjálft þurfi að taka þessi
mál í sínar hendur – ég vil vera milliliður að
því valdi sem býr í stjórnarskránni í embætti
forseta til þess að leysa þessi mál og ná
samfélagslegri sátt … ég vona virkilega að
fólk verði tilbúið að sameinast um það. Það
er líka mikilvægt að við tökum samfélags-
lega ákvörðun um að leysa þetta með okkar
hætti til að senda skýr skilaboð til fjármála-
kerfisins um að þetta gangi ekki upp og við
munum ekki leyfa þessu að gerast án þess
að þeir séu látnir axla ábyrgð. Vitna ég þar
til orða Simon Johnsons sem er fyrrverandi
hagfræðingur hjá AGS og sagði einmitt
þetta á ráðstefnu í Hörpu í fyrra; „Þið verðið
að passa ykkur að kenna bankamönnunum
lexíu. Passa upp á það hvernig skilaboð þið
sendið þeim eftir það hvernig þeir höguðu
sér og vegna þess að þeir eru ábyrgir fyrir því
tjóni sem þið urðuð fyrir.“
Sigurvin Guðmundsson Ef þú yrðir
forseti, myndir þú nota málskotsrétt-
inn?
Andrea Ólafsdóttir Já, að sjálfsögðu. :)
Ég tel okkur vera að taka fyrstu skrefin
á áhugaverðri braut í átt að traustara
lýðræði. Málskotsrétturinn er fólksins, en
ekki forsetans. Fólkið í landinu á þann rétt
að koma að stórum ákvörðunum og þar er
málskotsrétturinn mjög mikilvægur. Ég hef
einnig sagt að ég muni beita mér fyrir því
að þjóðaratkvæðagreiðslur verði settar í
lög vegna þess að ég tel mikilvægt að fólkið
hafi þennan rétt með beinum hætti og
ekki eingöngu í gegnum forsetann. Þetta
er einmitt eitt af þeim málum sem þinginu
hefur ekki tekist að leysa áratugum saman
og þarf núna aðstoð okkar fólksins til þess.
Jónas Halldórsson Sæl. Ég vil ekki
vera dónalegur, en vil spyrja þig beint:
Hvernig er að vera í kosningabaráttu
þegar maður veit að maður á ekki séns?
Andrea Ólafsdóttir Enginn veit hvernig
kosningarnar fara, það er ómögulegt að spá
fyrir um framtíðina. En nei, ég ber ennþá
von í brjósti um að fólk fari virkilega að spá í
þá frambjóðendur sem komnir eru, aðra en
sitjandi forseta, og hugsi sig tvisvar um áður
en það setur það fordæmi að kjósa mann í
það embætti til 20 ára. Fólk horfi líka til þess
hvort við þurfum ekki á ákveðinni hreinsun að
halda og vegna þess hve stóran þátt hann lék
í að byggja spilaborgina „fjármálamiðstöð-
ina“ sem hrundi yfir okkur með miklum látum
og miklu tjóni fyrir allt samfélagið – ég verð
bara að vera hreinskilin :)
Birna Björnsdóttir Þú hefur aðeins
nefnt í viðtölum að forsetinn geti veitt
meira aðhald – hvernig getur forseti
veitt ráðherrum aðhald?
Andrea Ólafsdóttir Ég hef til dæmis nefnt
að það er áhyggjuefni þegar ráðherrar brjóta
af sér í starfi og mér finnst eðlilegt að fólkið
sem kaus þá til valda geti líka krafist þess
að þeir séu settir af, til dæmis ráðherrar sem
ganga þvert gegn vilja og anda þjóðar-
innar að vera ávallt hlutlaus hvað varðar
árásarstríð á aðrar þjóðir. Ég get séð fyrir
mér sviðsmynd þar sem fólkið sjálft myndi
krefjast lausnar ráðherra og finnst það
fullkomlega lýðræðislegt að fólk geti það.
Þá er grein í stjórnarskránni sem forsetinn
getur notað til þess sem segir „forsetinn
skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“
Þorkell Harðarson Telur þú raunhæft
að Íslendingar taki virkan þátt í beinu
lýðræði miðað við slappa kosninga-
þátttöku undanfarin áratug?
Andrea Ólafsdóttir Já, ég tel að ef við
fetum okkur áfram á þá braut þá muni fólk
fara að taka meiri ábyrgð á því að koma að
stórum ákvörðunum – eins er hægt að gera
það með þjóðfundum. Þegar fólk fer að
upplifa að það geti haft raunveruleg áhrif
þá held ég að það muni verða til þess að það
hafi meiri áhuga á að taka þátt. Eins tel ég
að slíkt gæti orðið til þess að við færum að
sjá mun vandaðri umræðu og vinnubrögð á
Alþingi.
Gylfi Helgason Hvernig ætlar þú, sem
forseti, að leysa úr lánamálum
heimilanna?
Andrea Ólafsdóttir Ég get leyst úr
lánamálunum með fleiri en einum hætti og
hef bent á nokkrar lausnir sem miðast að
því að það komi alls ekki niður á ríkissjóði.
En ég held jafnframt að það verði að koma
fram að þótt ég hafi vakið máls á 25. grein
stjórnarskrárinnar um að „forsetinn getur
látið leggja fram frumvarp til laga“ þá geti
verið nóg að fólkið kjósi sér forseta sem er
tilbúinn að beita valdheimildum sínum til að
leysa mál – og þá muni þingið taka við sér og
leysa úr þeim hratt og örugglega. Aðhaldið
er komið strax með því að kjósa slíka mann-
eskju í embættið.
Helgi Eyjólfsson Þú talar um „vilja og
anda þjóðarinnar“. Hver er hann
eiginlega?
Andrea Ólafsdóttir Í sumum málum er
það mjög augljóst og hefur verið staðfest
í könnunum margoft – stóru málin eru til
dæmis þjóðaratkvæðagreiðslur, þar er og
hefur verið ríkur almannavilji til að setja þær
í lög. 80 prósent landsmanna eru hlynnt
almennum leiðréttingum lána og afnámi
verðtryggingar, það er staðfest með fleiri en
einn könnun. Síðan hef ég nefnt að slembi-
valinn þjóðfundur sem endurspeglar alla
samfélagshópa gefur mjög góða mynd af
almannavilja og það hefur verið rannsakað
árum saman í Stanford-háskóla.
Guðrún Konný Pálmadóttir Gætir þú
hugsað þér að berjast fyrir hag heimila
landsins inni á Alþingi? Væri sú leið ekki
árangursríkari en að verða forseti?
Andrea Ólafsdóttir Nei, ég tel mig ekki
eiga heima í flokkspólitík – og vil heldur hlúa
að lýðræðinu með þessum hætti í gegnum
embætti forseta því ég tel að við þurfum á
því að halda. Eins er ég að benda á það með
framboði mínu að það eru sum stór mál sem
þinginu tekst einfaldlega ekki að leysa – og
það getur bæði verið vegna skorts á hug-
rekki og vegna tengsla við fjármálaveldið
og þess vegna tel ég að fólkið sjálft þurfi að
aðstoða þingið við þessi stóru mál sem það
vill láta leysa – til dæmis með þjóðfundum
og með því að beita valdheimildum forseta
sem er jú þjóðkjörinn fulltrúi og hluti af bæði
löggjafar- og framkvæmdavaldinu.
Aðalsteinn Kjartansson Hvern hinna
frambjóðendanna myndir þú kjósa
værir þú ekki sjálf í framboði?
Andrea Ólafsdóttir Ég vil síður svara því.
Erlingur Þorsteinsson Þú hefur verið
að standa þig vel varðandi HH. Fórst þú
ekki alveg með þetta þegar þú fórst að
ræða um lækkun launa til forseta Íslands?
Andrea Ólafsdóttir Nei – þarna er
mikill misskilningur á ferðinni og gott að fá
tækifæri til að leiðrétta hann. Ég er ekki að
mælast til að lækka laun forseta almennt
séð; ég var að leggja þetta fram sem
aðferðafræði og tímabundna ráðstöfun til
þess að ná árangri með þau mál sem ég setti
fram. Aðferðafræðin gengur út á að setja
mig í spor þeirra sem eru lægst launaðir í
samfélaginu og síðan ætlaði ég að gefa
restina af launum mínum til góðra málefna
því ég tel það einfaldlega mikilvægt. En eins
og ég segi, það verður að skiljast að ég setti
þetta fram sem aðferðafræði til árangurs og
tímabundna ráðstöfun. Og kærar þakkir fyrir
hrósið fyrir mín störf hjá HH :)
Hilmar Elíasson Mig langar til að vita
Andrea af hverju langar þig til að vera
forseti?
Andrea Ólafsdóttir Vegna þess að ég tel
mig geta orðið til þess að hér náist betri
árangur með lýðræðið og að ég geti leitt
þjóðina áfram inn í aukna samfélagslega
sátt. Mig hefur aldrei dreymt um að verða
drottning :) en hef ávallt viljað koma að
gagni fyrir samfélagið. Ég tel mig eiga
erindi við þjóðina og ég tel að mín sýn á það
hvernig megi veita stjórnvöldum og þinginu
aðhald með meiri aðkomu fólksins geti orðið
til þess að við búum í vandaðra samfélagi
í framtíðinni. Ég tel að við þurfum á því að
halda núna á þeim tímamótum sem við
stöndum á.
Heiða Heiðars Hefur þú velt fyrir þér
starfsmannahaldi utan um embættið?
Og ef svo, þarf að fjölga eða fækka?
Andrea Ólafsdóttir Mér skilst að það hafi
haldist óbreytt núna um áratugaskeið – ég
hef aðeins velt því fyrir mér hvort mætti til
dæmis sleppa bílstjóra og keyra bara sjálf
:) En ég tel þó þörf á því að forseti hafi ráð-
gjafa og aðstoð við utanumhald skrifstofu.
Vania Koleva Telur þú að fjölmiðlar
hafi mikil áhrif á forsetakosningarnar?
Andrea Ólafsdóttir Já, umfjöllun
fjölmiðla skiptir auðvitað gríðarlega miklu
máli, þeir eru fjórða valdið. Ég tel þó að þeir
hafi flestir staðið sig nokkuð vel – Stöð 2 á
kannski eftir að bæta sín vinnubrögð :)
Guðrún Konný Pálmadóttir Takk fyrir
svar þitt. Held að þín sé þörf á þingi – ef
hægt væri að kjósa þig persónukjöri til
Alþingis (ekki gegnum flokkapólitík) værir þú þá
reiðubúin að bjóða þig fram?
Andrea Ólafsdóttir Ég þakka hrósið. Ég
er að bjóða mig fram núna í þverpólitískt
persónukjör til þess að aðstoða með
lýðræðið okkar. Ég tel að við þurfum að hlúa
að því og ná fram vandaðri vinnubrögðum í
framtíðinni.
Addi Atlondres Það má segja að Kína
sé án efa næsta stórveldi heimsins og
mikil uppbygging og erlendar
fjárfestingar í gangi hjá þeim. Ertu hlynnt þeim
samskiptum og samstarfi sem Ólafur hefur lagt
mikið upp úr?
Andrea Ólafsdóttir Ég hef aðeins velt fyrir
mér að við tölum stundum um mannréttindi
og nútímaþrælahald eins og það sé aukaat-
riði og það er rætt eins og af skyldurækni. Ég
held að það verði stórt verkefni þjóðarleið-
toga á komandi áratug að beina sjónum að
því af fullri alvöru og stuðla að því að mann-
réttindi séu virt og að nútímaþrælahald verði
stöðvað. Hvers vegna ræðum við ekki fyrst
um fólkið og réttindi þeirra í ýmsum löndum
heims sem við eigum viðskipti við áður en
við skrifum undir stóra viðskiptasamninga?
En það er ekki hægt að vera eitt lítið eyland í
þessum efnum, það þarf að hvetja til þessa á
alþjóðavísu.
Þorkell Harðarson Nú varst þú virk í
baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun á
sínum tíma. Má þjóðin eiga von á
áframhaldandi náttúruverndaráherslum þegar
þú ert komin á Bessastaði? Eða ber forseta að
halda sér til hlés?
Andrea Ólafsdóttir Ég tók þátt í því og
vildi umfram allt stuðla að málefnalegri og
upplýstri umræðu og þá út frá hnattrænu
sjónarhorni líka, við þurfum alltaf að hugsa
um stóru myndina. Ég ber djúpstæða
umhyggju fyrir bæði landi og þjóð og ég
tel að við eigum að vera mjög varfærin
og hugsa um raunverulega sjálfbærni
varðandi okkar orkuauðlindir og þá líka til
hvers þær eru nýttar, hvort þær stuðla að
sjálfbærni jarðar, eða hvort nýtingin stuðlar
að aukinni sóun. Forsetinn þarf auðvitað að
vera ábyrgur og hugsa um stóru myndina
og ég tel að eðlilegt sé að hann tali fyrir
sjálfbærni þannig að við verndum jörðina
og hugum að þeirri vá sem steðjar að henni.
Ég taldi á sínum tíma ákaflega mikilvægt
að forsetinn beitti málskotsréttinum varð-
andi stærstu framkvæmd Íslandssögunnar,
Kárahnjúkavirkjun, og lagði mikla áherslu á
að þjóðin kæmi að þeirri ákvörðun.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Ert þú
hlynnt aðild Íslands að NATO?
Andrea Ólafsdóttir Ég er á því að
íslenska þjóðin eigi að fá að kjósa um það –
segja hug sinn með þjóðar atkvæðagreiðslu.
Sjálf er ég búin að átta mig á að NATO er ekki
bara varnarbandalag eins og oft er talað um
heldur stendur það beinlínis í árásarstríðum
– þá held ég að sé orðið tímabært að við
sem þjóð endurskoðum okkar ákvörðun frá
fullveldisárinu 1918 um það hvort við ætlum
ekki að heiðra þá ákvörðun og standa ávallt
utan við stríð og halda hlutleysi okkar.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir En
hvort ert þú sjálf hlynnt aðildinni að
NATO eða ekki?
Andrea Ólafsdóttir Ég er ekki hlynnt henni.
En ég legg mikla áherslu á að þjóðin sjálf hafi
sjálfsákvörðunarrétt hvað þetta mál varðar,
eins og svo mörg önnur sem við höfum ekki
fengið að segja til um allan lýðveldistímann.
Ég tel að tími sé kominn núna til að þjóðin fái
að taka afstöðu til allra þessara stóru mála.
Anna Bjarnadóttir Hvaða eftirorð
dreymir þig um að verði sögð um þig
eftir farsæla setu þínu í stóli forseta?
Andrea Ólafsdóttir Ef mér tækist nú að
ná kjöri og koma á þeim lýðræðisumbótum
og samfélagslega réttlæti sem mig dreymir
um, þá held ég að mín arfleifð yrði „sigur-
vegari“;) Arfleifðin sem ég vil sjá er að ná
fram betra og traustara lýðræði, að mér hafi
tekist að vera sáttasemjari milli þings og
þjóðar í risastórum þverpólitískum málum.
Kristján Kristjánsson Sæl Andrea, þú
ert af alþýðubergi brotin, þess vegna
kýs ég þig. Spurning: ef geimverur lentu
á Bessastöðum myndir þú a) hringja á
sérsveitina, b) ná í myndavélina eða c) panta
pítsur?
Andrea Ólafsdóttir Blessaður félagi :) Já,
ég er alþýðumanneskja í húð og hár. Ég hef
bara aldrei velt því fyrir mér að geimverur
kæmu á Bessastaði, en ég held ég myndi
grípa myndavélina og bjóða þeim inn í kaffi
því ég reikna bara með að þær séu vinveittar
ef þær eru til og ef ekki, þá gæti ég hvort
sem er ekkert flúið og því væri bara gaman
að fá kaffi og spjall með þeim :)
Kári Kárason Sæl Andrea, hvernig
hefðir þú brugðist við þegar leitað var
til ÓRG um frestun á gildistöku laga ,
svo sem fjölmiðlafrumvarpið og Icesave?
Andrea Ólafsdóttir Það er gott að hafa
orðið vitni að þessari þróun og maður
getur einmitt lært af fortíðinni til þess
að geta farið inn í framtíðina. Ég veit ekki
hvernig ég hefði brugðist við þá því ég var
ekki forseti. En núna í dag get ég hæglega
sagt að mér finnst það eðlilegt að við
mótum viðmiðunarreglur fyrir málskots-
réttinn og fleiri valdheimildir og notum
það til að ná fram traustara lýðræði. Ef ég
væri forseti núna þá fyndist mér sem sagt
alveg sjálfsagt að veita fólki aðkomu að
löggjöf þegar það vill gera það í stórum
málum. En ég tel þó að það eitt að hafa
slíkan forseta muni gera það að verkum
að við sjáum betur ígrunduð lagafrum-
vörp og við sjáum minna af því að þingið
gangi gegn vilja þjóðarinnar. Þannig að
þessi þróun gæti jafnvel orðið til þess að
við þyrftum sjaldnar að grípa inn í með
málskotinu, aðhaldið er komið með því að
hafa slíkan forseta.
Jóhannes Jensson Sæl Andrea, hver er
afstaða þín til þjóðkirkjunnar? Myndir
þú sem forseti mæta til guðþjónustu
fyrir þingsetningu eða gera líkt og sumir
þingmenn og mæta á aðra samkomu á sama
tíma?
Andrea Ólafsdóttir Ég hef reyndar ekki
hugsað um það hvort ég myndi mæta þar,
en ég hef stundum velt því fyrir mér hvers
vegna í ósköpunum þetta eigi einhverja
samleið. Þjóðkirkjan er annað mál sem mér
finnst tímabært að þjóðin fái að segja til um
– hvort hún eigi að vera hluti af ríkinu, eða
hvort eigi að aðskilja ríki og kirkju.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Ertu
femínisti? Hvaða máli finnst þér skipta
að forseti Íslands sé femínisti?
Andrea Ólafsdóttir Já, ég er femínisti. Ég
skilgreini femínista sem manneskju sem
gerir sér grein fyrir að það ríkir ekki jafnrétti
og áttar sig á að það þurfi að gera eitthvað
í því. Mér finnst það skipta máli að tala fyrir
réttlæti almennt, þar með talið jafnrétti
kynjanna og kvenfrelsi, frelsi til þátttöku á
öllum stigum samfélagsins. Eins tel ég að
forseti geti verið góð fyrirmynd sem slíkur og
talað fyrir framgangi kvenna á alþjóðavett-
vangi.
Ingveldur Þórðardóttir Sæl, Andrea.
Hversu gott vald hefur þú á erlendum
tungum?
Andrea Ólafsdóttir Ég hef búið erlendis um
langt árabil, í Bandaríkjunum, Danmörku og
Englandi. Ég tala því bæði ensku og dönsku,
en mér finnst það vera þau tungumál sem
mestu skipta fyrir forseta á erlendum
vettvangi í alþjóðasamskiptum.
Birna Björnsdóttir Hvernig er
forsetinn aðhald við Alþingi og hvernig
getur hann stuðlað að því að mál leysist
sem þinginu hefur ekki tekist að leysa?
Andrea Ólafsdóttir Hann er aðhald um leið
og hann veitir þjóðinni aðkomu að stórum
ákvörðunum. Hann er aðhald um leið og
hann er tilbúinn að beita sér fyrir stórum
meirihlutamálum sem þinginu hefur ekki
tekist að leysa. Hann er aðhald um leið og
hann er tilbúinn til þess að bera sig saman
við fólkið sjálft og halda þjóðfund.
Andrea Ólafsdóttir forsetaframbjóðandi var á Beinni línu á DV.is á miðvikudag.
Nafn: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir
Titill: Forsetaframbjóðandi
Aldur: 39 ára
Menntun: Las uppeldis- og
menntunarfræði í HÍ
„Alþýðumanneskja í húð og hár“