Dagblaðið Vísir - DV - 04.03.2013, Blaðsíða 6

Dagblaðið Vísir - DV - 04.03.2013, Blaðsíða 6
þeir óttast ekkert 6 Fréttir 4. mars 2013 Mánudagur Þ að sem hefur breyst á síðustu árum er að harkan er orðin miklu meiri en áður og það þarf minna til að menn beiti hrottalegu ofbeldi. Með er- lendum aðilum kom til sögunnar nýr hugsunarháttur, þar sem mannslífið er minna virði. Þessi gamla íslenska hugs- un um að ákveðna hluti geri maður einfaldlega ekki er að deyja.“ Svona lýsir viðmælandi okkar, sem hefur tengst undirheimum Íslands frá öllum hliðum um áratugaskeið, því hvað hafi helst breyst frá alda- mótum í Reykjavík. Við gerð þessar- ar úttektar náðum við tali af tugum manna sem ýmist hafa verið viðriðnir undirheimana, eða eru það enn. Sum- ir þeirra hafa aðallega komið að inn- flutningi og sölu fíkniefna, aðrir hafa einkum hagnast á að greiða úr óleyst- um skuldum og enn aðrir hafa kom- ið að öllum hliðum þess sem kalla má undirheima Reykjavíkur. Öllum ber þeim saman um orðin hér að ofan. Það séu engar ýkjur að á undangengnum misserum hafi hlutirnir breyst hratt. Býr sig undir að verða myrtur „Eitt af því sem fylgir þessari þróun er að byssueign hefur aukist svakalega síðustu ár og það getur ekki verið nema tímaspursmál hvenær hér eiga sér stað atburðir sem verða til þess að lögregla fari að ganga með skotvopn. Því miður. Flestir sem tengjast glæpastarfsemi á Íslandi að einhverju ráði þora ekki öðru en að vera vopnum búnir heima hjá sér. Ég er búinn að vera lengi í þessu og ég er ekki með augu í hnakkanum, þannig að ég bý mig allt eins undir að vera myrtur einn daginn,“ segir sami maður og brúnin á honum þyngist. Hann sam- þykkti að hitta okkur gegn því að vera alls ekki nafngreindur. Maðurinn hefur aldrei áður rætt við fjölmiðla. „Þeir sem ætla að endast eitthvað í þessu geta ekki verið til sýnis í fjölmiðl- um annan hvorn dag. Þá margfaldast athyglin á allt það sem þú gerir og pressan eykst líka á lögreglu að rann- saka hvert einasta skref hjá þér. Þeir menn sem mest eru til sýnis í fjölmiðl- um í tengslum við undirheimana og mest eru í umræðunni eru alls ekki þeir sem mestu ráða eða eru hættuleg- astir,“ bætir maðurinn við. Fjármálaglæpir í undirheimunum Hugtakið undirheimar getur verið býsna óljóst. Þegar talað er um undir- heima sér fólk yfirleitt fyrir sér skugga- lega náunga, með húðflúr, sem víla ekki fyrir sér að beita ofbeldi og neyta og selja sterk efni. Vissulega fellur stórt hlutfall glæpamanna inn í þá mynd, en afbrotafræðingar telja að þessi staðal- mynd sé úr sér gengin. Hvers kyns fjár- málaglæpi og aðra glæpi sem eiga sér stað af hálfu fólks sem ekki hefur yfir sér annað yfirbragð en venjulegir borg- arar, eigi að flokka með öðru sem yfir- leitt telst til undirheimastarfsemi. „Okkur vantar oft úrræði til að geta tekist á við menn sem stunda fjárglæpi á sama hátt og aðra glæpamenn, þar sem það hefur einhverra hluta vegna ekki tíðkast að flokka þá sem hefð- bundna glæpamenn. Þetta þarf að breytast, enda oft um grafalvarlega glæpi að ræða,“ segir einn yfirmanna greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem við ræddum við. Nánar verður fjallað um þessa hlið glæpastarfsemi á Íslandi síðar í vikunni en nú verður einkum fjallað um fíkni- efna- og ofbeldishluta undirheimanna á Íslandi. Ungmenni flækt í undirheima Í áraraðir virtist stór hluti Íslendinga fyrir alvöru trúa því að hér ætti sér ekki stað skipulögð glæpastarfsemi eins og í stærri löndum. Afbrot á Íslandi væru handahófskenndari og saklausari en í öðrum löndum. Með fjölmiðlaum- fjöllun, bíómyndum og bókum á undanförnum áratug hefur þetta gjör- breyst og flestir eru nú meðvitaðir um að Reykjavík er ekki saklausasta höf- uðborg heims. Þó skiptist stór hluti fólks á Íslandi enn í tvo hópa í þessum efnum. Á meðan sumir virðast telja að maður sé í mikilli lífshættu með því einu að fara í miðbæinn að kvöldlagi um helgar, telja aðrir að umfjöllun um undirheima Reykjavíkur sé einn stór stormur í vatnsglasi. Hvort tveggja er afbökun á raunveruleikanum. Hið rétta er að miðbær Reykja- víkur er ekki eitt stórt stríðssvæði um helgar og venjulegt fólk lendir yfirleitt ekki í klónum á mönnum sem tengj- ast undirheimunum. Helstu undan- tekningarnar á því eru ungmenni sem ánetjast fíkniefnum og geta ekki borg- að skuldir, sem sóttar eru til foreldra eða annarra aðstandenda, og svo ung- lingsstúlkur sem ungar álpast í ástar- sambönd með mun eldri mönnum sem tengjast undirheimunum. Í báð- um tilvikum eru fjölmörg dæmi um fólk sem farið hefur illa út úr atburða- rás sem það hafði lítið með að gera sjálft. En í yfirgnæfandi meirihluta til- vika kemst fólk sem ekki tengist undir- heimunum beint, aldrei í kast við þá sem lifa og hrærast þar. Það þýðir hins vegar alls ekki að á Íslandi sé ekki skipulögð glæpastarf- semi. Óhætt er að fullyrða að á Íslandi á sér stað mjög vel skipulögð glæpa- starfsemi, bæði af hálfu Íslendinga og erlendra aðila. Á síðustu árum hafa bæði skipulagið og harkan aukist til muna. Það sem fram yfir aldamótin 2000 var ávallt öðruvísi hér en í flest- um öðrum samfélögum var einkum tvennt. Annars vegar að mannslíf hafa verið meira virði, þannig að morð eru til að mynda mun sjaldgæfari. Hins vegar eru undirheimarnir hér ekki eins lagskiptir og erlendis. Þeir sem eru á toppnum eru miklu nær þeim sem lægst eru settir en í flestum öðr- um löndum. Hluti af þessu kann hins vegar að vera að breytast og það afar hratt. „Þetta var svona alvöru heimur“ Greinin byggir að hluta til á rann- sóknarvinnu sem greinarhöfundur lagðist í vegna gerð fréttaskýringaþátt- ar um undirheimana sem birtist 18. febrúar síðastliðinn. Í viðtali í Mál- inu staðfesti Karl Steinar Valsson að- stoðaryfirlögregluþjónn þessa þróun. „Ég vil meina það að þær breytingar sem hafi verið að eiga sér stað geri það að verkum að lögregla þurfi að skoða sig innan frá miklu, miklu tíðar en áður var og raunverulega miklu tíðar en við erum að gera í dag,“ sagði Karl Steinar og lagði jafnframt áherslu á að lögregla tæki af mikilli alvöru þá þróun sem hér hefur átt sér stað – að harkan hafi aukist til muna. „Það væri óábyrgt af okkur að hafa ekki þá sýn að ætla að mannslíf sé farið að vera minna virði á Íslandi en áður var,“ bætir hann við. „Það kom mér kannski á óvart hversu stórir undirheimarnir voru þá og hversu vel skipulagðir þeir voru og hversu vel þeir virkuðu. Þetta var svona alvöru heimur. Margir glæpa- menn, mikið af dópi, umfangsmikil viðskipti, stór innflutningur og dreifi- kerfið og pælingarnar og feluleik- urinn,“ sagði rithöfundurinn Stefán Máni sem kynnti sér undirheima Ís- lands vel við gerð bókarinnar Svartur á leik. Útlendingar með amfetamínið Öllum sem þekkja undirheimana á Íslandi vel ber saman um að harkan hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum. Ein af ástæðum þess er aðkoma erlendra aðila, sem koma úr annars konar umhverfi og hafa annars konar bakgrunn. Sögur um litháíska eða rússneska mafíu á Íslandi hafa gengið fjöllunum hærra í áraraðir og margir sem segjast þekkja vel til fullyrða að hér sé slík mafía, sem sé bæði vel skipulögð og stýri stórum hluta undir- heimanna. Við höfum borið þetta undir fjölda manna sem hafa verið viðloðandi undirheimana í áraraðir og yfirmenn innan lögreglunnar. Miðað við allar upplýsingar sem við höfum fengið er hið rétta í þessu að Litháen er ein helsta framleiðslustöð amfetamíns í Evrópu og á síðari árum hafa aðilar frá Litháen söðlað undir sig stóran hluta af amfetamínmarkaðnum á Íslandi. Á undanförnum árum hefur það einnig færst í vöxt að Pólverjar sem hér eru búsettir starfi með Litháunum og í mörgum tilvikum sjá þeir um sölu amfetamínsins, fremur en Íslendingar „Við teljum að erlendu hóparnir séu að miklu leyti að stýra amfetamín- markaðnum á Íslandi og amfetamín hefur um þó nokkuð langt skeið verið dóminerandi fíkniefni á Íslandi. Menn frá Litháen og Póllandi eru mest áber- andi og það er í takt við það sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum,“ segir Karl Steinar Valsson. Hafa reynslu af hermennsku Fólk hefur eflaust misjafnan skilning á því hvað felst í orðinu „ mafía“ en miðað við upplýsingar okkar bæði úr innstu röðum lögreglu og frá mönn- um sem hafa verið innmúraðir í undirheimana á Íslandi í áraraðir er það orðum aukið að tala um austur- evrópska mafíu hér á landi, þó að að- ilar frá þessum löndum tengist fíkni- efnaheimum Reykjavíkur mikið og beint. En þó að ekki sé um beina mafíu að ræða eru íslenskir glæpa- menn margir hverjir mjög hræddir við útlendingana. Margir þeirra hafa reynslu af hermennsku og hugarfar- ið er annað en hjá Íslendingum sem tengjast undirheimunum. Í augum þessara manna er dvöl í íslenskum fangelsum ekkert stórmál. Heimildar- menn okkar úr röðum lögreglu og fangelsismálayfirvalda segja að her- mennina sem hafa verið dæmdir hér á landi megi meðal annars þekkja á því hve gríðarlega snyrtilega þeir búa um fangaklefa sína. „Klefarnir þeirra eru yfirleitt eins og hótelberbergi sem búið er að fara vel yfir,“ sagði einn yfirmaður í lög- reglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við okkur. Réðust á lögreglumenn Allir sem við ræddum við í rann- sóknarvinnu okkar, sem tengjast undirheimunum eru sammála um að íslensku glæpamennirnir séu að ein- hverju leyti hræddir við þá menn sem hingað hafa komið frá Austur-Evrópu og stundað skipulagða glæpastarf- semi. Það sé þegjandi samkomulag um að leyfa þeim að vasast óáreittir á þeim sviðum sem þeir hafa mest ítökin. Þó að ekki hafi mikið verið fjallað um þessa menn í fjölmiðlum er ljóst að þeir svífast einskis. Eitt skýrasta dæmið um það er árás sem átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur 11. janúar 2008, þar sem þrír menn frá Austur- Evrópu börðu íslenska lögreglumenn illa þar sem þeir voru við fíkniefna- leit. Þó að mönnunum hafi verið full- kunnugt að um lögreglumenn væri að ræða létu þeir það ekki stoppa sig og spörkuðu meðal annars í höfuð eins lögreglumannsins eftir að hafa barið hann í götuna. Jafnvel íslensk- um glæpamönnum sem hafa framið mörg hrottafengin ofbeldisverk finnst þetta langt gengið, enda setja menn yfirleitt mörkin einhvers staðar. „Þarna var verið að senda lög- reglunni skýr skilaboð. Þessir menn hræðast ekki neitt,“ segir einn við- mælenda okkar. Nota 700 kíló af kókaíni á ári Eins og áður var komið inn á hefur það verið þannig um skeið að amfetamínmarkaðnum á Íslandi er nær alfarið stýrt af útlendingum. En það koma að sjálfsögðu fleiri efni við sögu og það er ekkert undarlegt við það að samkeppni ríki um að stýra fíkniefnamarkaðnum á Íslandi, þar sem fjárhæðirnar sem um ræðir eru gríðarlegar. Flest bendir til að fíkniefnamark- aðurinn á Íslandi velti tugum millj- arða á ári og í nýlegri meistararitgerð Ara Matthíassonar um þjóðfélags- lega byrði af völdum vímuefnaneyslu er niðurstaðan sú að fíkniefnamark- aðurinn velti heilum 33 milljörð- um á hverju einasta ári. Áætlað er að bara Íslendingar noti meira en sjö hundruð kílógrömm af amfetamíni á ári hverju og meira en eitt tonn af kannabis efnum. Ljóst er að neysla á kókaíni, e-töflum og lyfseðilsskyldum efnum sem geta valdið vímu er einnig mjög mikil hér á landi. Ólíkt amfetamínmarkaðnum er kannabismarkaðurinn nær einvörð- ungu í höndum Íslendinga. Nær allt kannabis sem fer í sölu á Íslandi er ræktað hér á landi. Það þýðir að ís- lenskir aðilar rækta meira en eitt þúsund kílógrömm af kannabis á ári hverju. Miðað við að grammið kosti 3.000 krónur þýðir það að út- söluverðið á öllum þessum efnum er meira en þrír milljarðar króna, þannig að það er eftir miklu að slægj- ast. n Sölvi Tryggvason Fréttaskýring Fyrri hluti „Ég bý mig allt eins undir að verða myrtur Verkaskipting Erlendir glæpamenn stýra amfetamínmarkaðnum á Íslandi meðan heima- menn sjá um að rækta kannabisefni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. MyNd ReUteRs n Harkan magnast í undirheimunum n Litháar á amfetamínmarkaði ógna Íslendingum

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.