Dagblaðið Vísir - DV - 01.07.2014, Qupperneq 11
Fréttir 11Vikublað 1.–3. júlí 2014
Þær eiga hvergi heima
Svaf í bílnum í
febrúarfrostinu
Ásbjörg fékk inni hjá Rúnari Þór
Saga Ásbjargar Margrétar Emanúelsdóttur
vakti mikla athygli í síðustu viku. Ásbjörg
hafði búið í bifreið sinni, litlum fólksbíl, frá
því í febrúar. Ásbjörg hefur verið í sambandi
við félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, en
biðlistinn er langur og ljóst að hún þyrfti að
bíða lengi. Hún missti íbúð, sem hún keypti
fyrir hrun, í maí árið 2013.
Hún mátti vera í íbúðinni fram til 1. febrúar
á þessu ári. Íbúðarleitin gekk illa og hún hafði
enga burði til þess að safna sér fyrir trygging-
um eða borga lágt leiguverð. Ásbjörg var
lengi til sjós þar sem hún slasaðist. Hún vann
í kjölfarið í landi. Þeir sem hana þekkja segja
hana „hörkuduglega“ enda vann hún mikla
erfiðisvinnu í mörg ár.
Eftir umfjöllun DV hafði Rúnar Þór Péturs-
son tónlistarmaður samband við Ásbjörgu
og bauð henni húsnæði. Hún fær að gista í
aukaherbergi í íbúð hans meðan reynt er að
leysa húsnæðisvanda hennar varanlega.
Skriður hefur komist á málið hjá Reykjavíkur-
borg. „Ég er heimilislaus þangað til að við
finnum einhverja lausn,“ segir Ásbjörg sem er
vongóð og afar þakklát Rúnari Þór.
Það var mjög erfitt að vera í bílnum og
lýsti hún því hvernig félagsleg einangrun
fylgdi í kjölfarið. Hún leitaði til vinkonu
sinnar og fékk að nota aðstöðu hjá henni,
en hún svaf nánast allar nætur í bílnum frá
því í febrúar 2014 og fram undir lok júní.
„Mér finnst skömmin eiginlega verst.
Maður skríður beint inn í skelina og það er
erfitt að rjúfa þá einangrun,“ segir Ásbjörg
sem hafðist við í Elliðaárdalnum á daginn
og svaf í Breiðholtinu um nætur. Hún
notaði bensínstöðvarsalerni til að hátta
sig á kvöldin og færði bílinn inn í hverfið
þegar líða fór á kvöldið. Hún fór svo aftur
snemma á morgnana, áður en morgun-
umferðin um hverfið hófst. „Þetta er búið
að vera mjög erfiður tími. Í haust verð ég 67
ára og þá lækka tekjurnar mínar aftur. Ég
veit bara ekki hvað ég á að gera,“ segir hún.
Komst inn hjá Félagsbú-
stöðum og fékk taugaáfall
Jóhanna Freyja var á götunni í nærri tíu mánuði
„Þetta var bara skelfilegt. Ég svaf ekki og
nærðist ekki á þessum tíma. Daginn sem
ég fékk lykilinn hérna þar sem ég er í dag
þá varð bara þvílíkur léttir. Ég var nú ekki
lengi að flytja inn. Ég fékk bara taugaáfall
eftir þetta. Ég bara skalf og skalf og grét
þegar allt dótið var komið hingað inn,“
segir Jóhanna Freyja Benediktsdóttir
sem er ein þeirra kvenna sem hafa verið
tilneyddar til að búa í bílnum sínum vegna
úrræðaleysis. Jóhanna segist hafa varið
bróðurparti ársins 2006 í bílnum sínum en
á endanum hafi hún farið inn á Konukot
og í kjölfar þess fékk hún loksins íbúð hjá
Félagsbústöðum.
Ástæðan fyrir því að Jóhanna varð
heimilislaus er að hennar sögn sú að hún
hafi verið að flýja ofbeldi af hálfu þáver-
andi sambýlismanns. Sextán ára dóttir
hennar fylgdi henni út á götuna. Meðan
Jóhanna gisti í bílnum fékk dóttir hennar
að vera hjá frænkum sínum.
Jóhanna segir að þegar hún fékk loksins
íbúð eftir níu mánaða vergang hafi hún
fengið taugaáfall. Hún var heimilislaus
í nærri tíu mánuði, frá 7. febrúar til 22.
nóvember.
Varð að flýja
Hún hafði flutti úr íbúð sinni í Hraunbæ
inn til manns sem hún segist hafa verið
ástfangin af. „Ég bjó með honum í einn og
hálfan mánuð og svo beitti hann mig og
dóttur mína andlegu ofbeldi. Við urðum
bara að flýja út. Búslóðin varð eftir hjá
honum en hann kastaði henni út á stétt
og skemmdi marga hluti. Ég tók búslóðina
og systir mín reddaði mér, að ég gæti sett
hana upp á háaloft,“ segir hún.
Jóhanna segir að fyrst hafi hún farið í
Kvennaathvarfið þar sem hún var í mánuð.
Þá fór hún í aðgerð á Landspítalanum. Hún
segist hafa upplifað mikinn kvíða vitandi
að hún hefði í engin hús að venda þegar
vist hennar á spítalanum lyki. „Ég fékk að
vera á Rauðakrossheimlinu, því þar var svo
lítið að gera. Síðar flutti hún í bílinn.
Með pottaplöntu í bílnum
Jóhanna segir þann tíma sem hún svaf í
bílnum í Heiðmörk hafa verið hrikalegan.
„Ég var með sæng og ég reyndi að hita
hann aðeins upp áður en ég fór að sofa,
svo tók ég bara svefntöflu fyrir svefninn.
Einu sinni varð ég drulluhrædd þegar ég
vaknaði hálf níu og það var lögreglubíll
akkúrat rétt hjá mér. Ég hélt að þeir færu
nú eitthvað að skipta sér af mér en svo var
ekki,“ segir hún. Þrátt fyrir allt reyndi hún
að gera bílinn heimilislegan og var með
pottaplöntur. „Ég skil nú ekki hvernig ég
hélt lífi í þeim.“
Ein edrú í Konukoti
Hún segir að þrátt fyrir að betra hafi
verið að vera í Konukoti en bílnum þá hafi
aðstæður þar ekki verið góðar. „Það var
líka skelfilegt í Konukoti. Maður fær inni
klukkan sjö og máltíðir en það var alveg
sama hvernig veðrið var, maður þurfti
að vera farinn út klukkan tíu. Þetta var
allt fólk sem var í neyslu, nema ég og
starfsfólkið. Ég svaf á dýnu niðri í kjallara
og svaf mjög illa því það var umgangur þar.
Það var þarna aðstaða til reykinga, það var
umgangur alla nóttina. Ég svaf eiginlega
ekki neitt.“
„Einfaldlega skelfilegt
tímabil“
Jóhanna telur að þau úrræði sem
heimilislausum bjóðist séu skelfileg. „Guð
minn almáttugur, ég hefði aldrei trúað
því að þetta væri svona slæmt. Það var
alltaf verið að lofa mér íbúð, hún kæmi á
næstunni. Þetta var einfaldlega skelfilegt
tímabil. Ég skil ekki hvernig ég gat haldið
sönsum í þennan tíma, að sofa í bílnum í
frosti í Heiðmörk,“ segir hún. Jóhanna segir
að þetta tímabil hafi verið dóttur hennar
mjög erfitt en þá hafi hún verið sextán
ára. Jóhanna segir að meðan hún flakkaði
á milli bílsins, ættingja og Konukots hafi
dóttir hennar búið hjá frænkum sínum.
„Hún leið náttúrulega rosalegar kvalir á
þessum tíma – að geta ekki verið hjá mér.
Hún spurði mig alltaf hvenær við fengjum
íbúð. Hún var algjörlega heimilislaus.“
n Ráða ekki við leiguverð n Óbærileg bið eftir félagslegu húsnæði n Fékk taugaáfall eftir að hafa verið á götunni í tíu mánuði: „Ég bara skalf og grét“ n Dagbjört þurfti að henda eigum sínum
Á vergangi Það reynir mjög
á fjölskyldur og einstaklinga
að hafa í engin hús að venda.
Viðmælendur DV segja félags-
lega einangrun og skömm vera
fylgifisk slíkra aðstæðna. Mynd
Sigtryggur Ari JohAnnSSon
Ásbjörg Margrét Emanúelsdóttir
Aldur: 66 ára
Fjölskyldustaða: Einhleyp
Starf: Öryrki
Jóhanna Freyja Benediktsdóttir
Aldur: 62 ára
Fjölskyldustaða: Einhleyp
Starf: Öryrki
Framhald á næstu síðu