Dagblaðið Vísir - DV - 01.07.2014, Síða 12
12 Fréttir Vikublað 1.–3. júlí 2014
Sturtusett
Verð frá kr. 66.900
Gæði fara aldrei úr tísku
Heimilislaus og
jarðar dóttur sína
Ragna Erlendsdóttir vonast til að fá húsnæði áður en skólaárið hefst
Ragna Erlendsdóttir varð heimilislaus
á mánudag. Í dag, þriðjudag, jarðar hún
dóttur sína Ellu Dís, sem náði átta ára
aldri. Ella hafði barist við veikindi frá
fimmtán mánaða aldri. „Ég er akkúrat
núna í flutningum, að flytja dótið mitt í
geymslu. Frá og með kvöldinu er ég bara
heimilislaus,“ segir Ragna í samtali við
DV á mánudag.
Fer í sumarfrí
Ragna segir að hún sé nú á leiðinni til
Englands í sumarfrí og vonist hún til að
geta fundið húsnæði fyrir sig og sín börn
áður en skólaárið hefst næstkomandi
haust. „Ég ætla að skreppa í sumarfrí,
ferð til útlanda með fjölskyldunni, til
Englands í mánuð allavega. Ég verð
bara hjá fjölskyldunni og vinum þegar ég
kem til baka, bara á flakki. Þetta er ekki
skemmtilegt, að fara að jarða dóttur
mína á morgun og vera heimilislaus.
Manni fallast bara hendur og maður
biður til guðs að þetta lagist fljótlega
áður en börnin mín fara í skólann. Ég
bara neita að trúa öðru en þau finni
einhverja íbúð fyrir mig í Reykjavík,“
segir Ragna.
Óvissan verst
Hún segir eitt það versta við húsnæðis-
leysið vera óvissuna. „Ég ætla að reyna
að taka á þessu þegar ég kem til baka.
Ég er búin að tala við félagsráðgjafann
minn og hún sagði að það væri ekkert í
boði. Það er ekki mikil von þar. Bara því-
lík óvissa. Hvað getur maður gert? Þetta
er ótrúlega óþægilegt,“ segir Ragna.
„Harður heimur“
Ragna sagði í samtali við DV á
fimmtudag að hún væri búin að leita
að íbúð á almennum leigumarkaði. Að
hennar sögn er það ómöguleg staða
fyrir sig þar sem hún sé gjaldþrota eftir
lækniskostnað og hún fái hvorki lán
né bankatryggingu. „Þegar það eru tíu
manns á undan manni með banka-
tryggingu á ég ekki von. Þannig að þetta
er frekar harður heimur, mér fallast bara
hendur og ég veit ekki hvað ég á að gera.
En ég veit að ég er ekki sú eina sem er í
þessari aðstöðu og mér finnst bara mjög
leiðinlegt hvað þetta sé að gerast fyrir
marga,“ sagði Ragna þá.
Mannréttindi
að hafa húsnæði
Ragna segir að húsnæðisvandinn á
höfuðborgarsvæðinu sé aðkallandi
og Reykjavíkurborg verði að bregðast
við. „Borgin þarf bara að fara að kaupa
meira húsnæði fyrir allt þetta fólk sem
á hvergi samastað. Enda stendur það
í stjórnarskránni, og eru grunnmann-
réttindi, að fólk verður að hafa húsnæði.
Það er sérstaklega mikilvægt ef um er
að ræða börn. Það er ekkert verið að út-
hluta nýjum íbúðum. Það er ekkert flæði
á þessu. Þeir kaupa ekki fleiri íbúðir og
þær íbúðir sem þau hafa eru fullsettar.
Það þarf að gera eitthvað í því. Það eru
margir í mínum aðstæðum og það er
ekki hægt hjálpa þeim,“ segir hún.
„Við erum örugg hér“
Einstæð móðir fluttist út á land með börn sín þegar íbúðarleit bar engan árangur
Rúmlega þrítug einstæð móðir þurfti að
flytja á milli landshluta vegna þess að hún
réð ekki við leiguverðið í bænum og var
heimilislaus með tvö börn. „Ég bjó í Reykja-
vík en missti húsnæðið sem ég var að leigja í
Grafarvoginum. Þar var ég mjög heppin með
leigusala því ég fékk íbúðina á sanngjörnu
verði og gat verið þar í mörg ár. Hann bjó er-
lendis en svo kom að því að hann vildi selja
íbúðina. Nýi eigandinn ætlaði fyrst að flytja
sjálfur inn en hætti við og bauð mér áfram-
haldandi leigusamning, nema hvað hann
ætlaði að hækka leiguna um 40 þúsund.
Hann vildi meina að annars gæti hann ekki
staðið undir afborgunum. Þannig að þegar
samningurinn rann út fluttum við út.“
Við tók löng og ströng leit að nýju
húsnæði. „Ég leitaði úti um allt. Ég hef verið
að vinna og haft nægjar tekjur – eða mátu-
legar fyrir okkur. En ég er einstæð og börnin
eru tvö. Það veldur því að ég get ekki leigt
mjög dýrar íbúðir. Ég vildi bara sanngjarnt
leiguverð.“ Konan er menntaður kennari
sem nú starfar á leikskóla. Hún hefur unnið
sem kennari í rúman áratug en hefur verið
einstæð frá árinu 2007.
Íbúðarleitin tók hálft ár. Eftir fjóra
mánuði viðruðu aldraðir foreldrar hennar
það við hana hvort hún vildi ef til vill flytja
með börnin milli landshluta til þeirra. Þar
væri íbúð í kjallara og þau væru meira en
velkomin þangað.
„Ég athugaði með vinnu á svæðinu. Þegar
ég sá fram á að standa í þessum slag þarna
í borginni þá bara flutti ég,“ útskýrir hún.
„Ég fékk trygginguna til baka. Ég lagði
hana fram rétt fyrir hrun og þá var hún
100 þúsund krónur. Núna vildi fólk fá frá
300 þúsundum og allt að hálfri milljón í
tryggingu fyrir íbúðum. Mér fannst þetta
allt of hátt en átti heldur ekki fyrir útborgun
í íbúð og fékk ekki greiðslumat til þess að
kaupa,“ segir hún.
Síðastliðið haust flutti hún til foreldra
sinna með börnin. „Ég var mjög lengi reið.
Mér finnst þetta ömurlegar aðstæður. Það
tengist ekki staðnum sem ég bý á núna, sem
er góður staður og allt það. Okkur líður vel
og við erum örugg hér. Krakkarnir eru búnir
að aðlagast. Ég flutti héðan til þess að fara
í menntaskóla og vildi búa í Reykjavík – það
var heimili barnanna minna. En vesenið sem
ég sá fram á að þurfa að bjóða krökkunum
upp á, það var bara allt of mikið.“
„Við erum sem sagt heimilislaus“
„Við erum heimilislaus,“ segir Dagbjört
Norðfjörð en hún flutti út úr leiguhúsnæði
við Vitastíg í Reykjavík um helgina með
níu ára son sinn. „Ég frétti í gegnum þriðja
aðila að það ætti að selja húsið, ekki frá
leigusalanum mínum. Við ákváðum að fara
fyrr vegna þess að í íbúðinni er mikill myglu-
sveppur. Við urðum bara að fara,“ segir
Dagbjört. „Ég hef þurft að henda stórum
hluta af eigum okkar, meðal annars dóti
sonar míns, bókum og öðru.“ Íbúðina hafði
hún í þrjú ár. Í fyrra var reynt að komast fyrir
myglusvepp í íbúðinni án árangurs.
Hún hefur ekkert húsnæði fast í hendi
og eru eigur hennar komnar í geymslu. Á
meðan hún er að finna sér samastað fær
hún inni hjá systur sinni. „Við erum sem sagt
heimilislaus. Ég trúi þessu varla,“ útskýrir
hún og er mjög ósátt.
Dagbjört hefur að undanförnu verið
að leita sér að húsnæði auk þess sem hún
hefur verið í sambandi við félagsþjónustu
Reykjavíkur. Enn hefur leitin ekki skilað
árangri. Hún segist hafa haft samband út af
um fjörutíu íbúðum, en hefur aðeins fengið
að sjá fjórar. Íbúðirnar hverfi í rauninni
jafnóðum.
„Ég vil vera hérna í miðborginni því ég
vil að sonur minn geti haldið áfram í sama
skóla og búið í sama hverfi og áður. Ég er
þess vegna frek,“ segir hún en bætir því við
að þótt það sé hennar fyrsti kostur skoði
hún vissulega aðra möguleika. Hún starfar
í miðborg Reykjavíkur á veitingastaðnum
Kryddlegin hjörtu.
„Ástandið er bara mjög slæmt og mark-
aðurinn skrýtinn,“ segir hún. Hún telur að
staða hennar sé langt í frá einstök.
Hér má sjá nokkur dæmi um leiguverð á húsnæði
Hraunbær , Reykjavík
Póstnr: 110
Verð: 145.000 kr.
Stærð: 60 fermetrar
(Skammtímaleiga)
Skerjafjörður
Póstnr: 101
Verð: 190.000 kr.
Stærð: 90 fermetrar
Háaleitisbraut
Póstnr: 108
Verð: 135.000 kr.
Stærð: 60 fermetrar
(skammtímaleiga)
Brekkubær
Póstnr: 110
Verð: 150.000 kr.
Stærð: 80 fermetrar
Ásgarður
Póstnr: 108
Verð: 120.000 kr.
Stærð: 65 fermetrar
Ragna Erlendsdóttir
Aldur: 34 ára
Fjölskyldustaða: Einhleyp
Starf: Heimavinnandi
Aldur: 35 ára
Fjölskyldustaða:
Einhleyp, tvö börn
Starf: Grunnskóla-
kennaramenntuð.
Starfar á leikskóla
*Upplýsingar fengnar þann
30.6. 2014 af vef Leigulistans
Dagbjört Norðfjörð
Aldur: 39 ára
Fjölskyldustaða: Einhleyp, níu ára sonur
Starf: Starfsmaður á veitingahúsi