Dagblaðið Vísir - DV - 13.09.2013, Side 35
Menning 35Helgarblað 13.–15. september 2013
Listin gefur lífinu merkingu
á myndlistarsýningar. Það var líka
ómetanlegt að fá að kynnast þessum
dularfullu listamönnum sem hann
umgekkst, Gunnlaugur Scheving
var til að mynda tíður gestur á heim-
ili okkar, kom vikulega í mat eins og
fleiri listamenn.“
Foreldrar Tinnu eru báðir látnir.
Gunnlaugur árið 1998 en Herdís í
fyrra. Herdís hafði numið leiklist í
London og var leikkona við Þjóðleik-
húsið allan sinn feril. Hennar síð-
asta hlutverk var í leikritinu Karma
fyrir fugla sem sýnt var í Þjóðleikhús-
inu á síðasta leikári. Rétt fyrir síðustu
sýninguna bankaði dauðinn að dyr-
um og það kom í hlut Tinnu að fara
í búning móður sinnar og ljúka síð-
ustu sýningunni.
Kvaddi mömmu gegnum listina
„Það var auðvitað afar sárt að missa
hana,“ segir Tinna og heldur svo
áfram. „En hún var búin að skila sínu
og kvaddi með glæsibrag. Hún var
í raun í fullu fjöri á leiksviðinu, allt
fram á sinn síðasta dag. Ég hafði lof-
að henni þegar hún tók við hlutverk-
inu að leysa hana af ef eitthvað kæmi
upp á. Hún vissi auðvitað að sinn
tími væri að renna út. Það var heiður
og sérstök upplifun að ganga í henn-
ar fótspor þarna í annað sinn á ferl-
inum, þó tilefnið væri annað og öllu
sorglegra. Mér fannst ég eiginlega
ekki vera á staðnum.“
Herdís var mikil baráttukona
og hennar helsta hugðarefni var
ágangur sauðfjár á gróðurlendi á
hálendinu. Eitt af hennar síðustu
verkum var heimildamyndin Fjall-
konan hrópar á vægð sem sýnd var í
Ríkissjónvarpinu á síðasta leikári.
„Pabbi var áræðinn og hugrakkur
maður, stundum svolítið fljótfær.
Mamma var alltaf varkárari en ótrú-
lega staðföst og dugleg og mikil hug-
sjónamanneskja. Ég var heppinn að
eiga þau bæði að. Og alla mína stóru
fjölskyldu,“ segir Tinna og talið berst
að bræðrum föður hennar og Þórði
Sveinssyni afa Tinnu, sem starfaði
sem yfirlæknir á Kleppi. „Þeir voru
mjög sérstakir þessir Kleppsbræð-
ur allir, fæddir og aldir upp í næsta
nágrenni við geðsjúkrahúsið. Pabbi
var víðsýnn og sagði alltaf að það
hefði mótað sig fyrir lífstíð að kynn-
ast því snemma hvað lífið gat verið
brogað. Hann var mikill húmanisti
og virkur í mannúðarmálum og sem
lögfræðingur beitti hann sér alla tíð
í þágu þeirra sem minna máttu sín í
samfélaginu.“
Geðveiki í öllum ættum
Í leikritinu Englar alheimsins, sem
nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu, er varpað
upp heldur óhuggulegri mynd af
Kleppi „fyrir daga lyfjanna“ þegar afi
hennar var við störf. Tinna segir auð-
velt að horfa með gagnrýnisaugum
til þess tíma en ekki megi gleyma því
hve fá úrræði voru í raun til staðar.
„Ég veit þetta var ekki einfalt, en ég
veit líka að afi lagði sig allan fram og
var óþreytandi í að leita lausna. Hann
stundaði ýmsar óhefðbundnar lækn-
ingar, svo sem vatnslækningar, þar
sem sjúklingar í „agil“ ástandi eins
og það var kallað, voru settir til skipt-
is í heit og köld böð. Þó það hafi sjálf-
sagt ekki verið þægilegt, þetta hef-
ur verið eins konar sjokkmeðferð, en
hún virkað oft til að koma fólki út úr
þráhyggjuástandi. Hann reyndi líka
að virkja sjúklingana til vinnu,
einfaldrar vinnu, til að koma
reglu á huga þeirra, eins
og hann orðaði það,
svokallaðrar Klepps-
vinnu. Ég held að
þessi rússíbanareið
sem fólk fer í gegn-
um á sýningu á
Englum alheims-
ins, þessi sýn inn í
heim geðveikinnar,
snerti djúpt, það á
að minnsta kosti við
um mig sjálfa. Þetta
er erfiður og flókinn
sjúkdómur sem stend-
ur okkur nærri. „Það er
geðveiki í öllum ættum“,
eins og segir í bókinni og
við erum í raun öll mislangt frá
normalfráviki.“
En hvenær kviknaði draumurinn
um að verða þjóðleikhússtjóri?
„Ég var lengi virk í félagsmál-
um, var í forsvari fyrir Leikarafé-
lag Íslands, sat í þjóðleikhúsráði um
árabil fyrir leikara og það höfðaði til
mín að koma að málum og láta til
mín taka. Svo kom sá tímapunktur
á mínum ferli að ég fór að hugsa um
framtíðina. Mér fannst ég hafa verið
heppin, ég hafði átt farsælan feril í
leiksviðinu en langaði til að takast
á við nýja ögrun. Ég fór MBA-nám í
stjórnun samhliða vinnu og sótti um
stöðu þjóðleikhússtjóra eins og um
20 aðrir umsækjendur. Ég gerði mér
engar sérstakar vonir um að fá stöð-
una en ég fann að ég var tilbúin að
taka við því. Maður má heldur ekki
verða of þaulsetinn í starfi. Ég hafði
fengið mín tækifæri sem leikkona en
leikkona sem stendur á fimmtugu
veit að þeim tækifærum á bara eftir
að fækka og ég var ekki tilbúin til að
minnka við mig.“
Leiklistin er mjög karllæg stétt …
„… sérstaklega þegar kemur að
leikstjórn. Þar hafa karlmenn verið
ráðandi. Þetta var þeirra svið. Vissu-
lega eru þeir enn í meirihluta í stétt
leikstjóra en það eru alltaf að koma
fram fleiri konur sem hafa sýnt það
áræði að stíga inn á þennan vettvang.“
Hvaða stefnu komstu með inn í
þetta starf? Og hefur sú stefna geng-
ið upp?
„Það var mín löngun að efla ný-
sköpun, kalla eftir fleiri íslenskum
leikritum og leita leiða til að stuðla
að þróun þeirra. Mig langaði að kalla
eftir verkum sem ættu erindi og gætu
stofnað til samtals við áhorfendur.
Ég einsetti mér að stefna að því að
helmingur verka á leiksviðum Þjóð-
leikhússins á hverju leikári væru ný
og eldri innlend og það hefur gengið
eftir. Um það má lesa í ársskýrslum
Þjóðleikhússins sem eru aðgengilegar
á vef leikhússins. Auðvitað eru þetta
ekki allt ný frumsamin leikrit, en af
þessum árangri er ég stolt. Svo lang-
aði mig að efla barnastarf og leiklistar-
uppeldi. Við stofnuðum nýtt svið, Kúl-
una, fyrir smærri barnasýningar árið
2006 og þar höfum við sýnt mikið af
frumsömdum verkum, til dæmis verk
eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og
þrjú verk eftir Áslaugu Jónsdóttur. Og
nú erum við að opna brúðuleikhús
á leikhúsloftinu í aðalbyggingunni
í samstarfi við Bernd Ogridnik og
Brúðuheima. Ég er mjög stolt af því
að í vetur bjóðum við upp á samtals
tíu barnasýningar á ólíkum sviðum í
húsinu. Að síðustu langaði mig til að
efla hlut kvenna í íslensku leiklistarlífi
og leita leiða til að veðja á konur sem
höfunda og leikstjóra.“
Er pólitískt valið í embætti
þjóðleikhússtjóra?
„Ég get í raun ekkert sagt til um
það. Ég hlýt að trúa því að ég hafi
verið metin að verðleikum. Svo spil-
aði eflaust inn í að það var tími kom-
inn á að kona tæki við stöðu
þjóðleikhússtjóra,“ segir
Tinna sem varð fyrsta
konan til að gegna
þessu starfi.
Pólitísk umræða
En það eru ekki
bara ráðningar sem
verða pólitísk bit-
bein. Umræðan
um menningu og
listir er hápóli-
tísk og snýst að
stórum hluta um
krónur og aura. Eru
listamannalaun rétt-
lætanleg? Má skera nið-
ur kvikmyndasjóð um
helming? Þurfum við yfir-
höfuð Þjóðleikhús? Það hef-
ur margt breyst síðan hugsjónamenn
byrjuðu að safna fyrir Þjóðleikhúsi
upp úr 1920 og þjóðin gladdist yfir
því að eiga loksins alvöru leikhús. Ætli
spurningin í dag sé ekki hve mörgum
mannslífum hægt er að bjarga fyrir
það fé sem rennur til Þjóðleikhússins?
„Auðvitað er öllu til fórnandi til
að bjarga mannslífum en umræðan
má ekki fara niður á þetta plan, þá
getum við sett nánast hvað sem er á
vogarskálarnar og alltaf fengið sömu
niðurstöðuna. Við ættum heldur að
spyrja hvers virði er lífið ef það fær
hvorki lit né merkingu og gengur út á
það eitt að vinna, borða og sofa,“ segir
Tinna. „Þannig var það lengst af hér í
þessu harðbýla og menningarsnauða
landi, fólk beit á jaxlinn og harkaði af
sér, við eigum fleygar setningar í mál-
inu sem segja þetta; „bókavitið verð-
ur ekki í askana látið“ og þetta með
að „skemmta skrattanum“. Þeir örfáu
sem stunduðu listir voru helst litnir
hornauga, voru eins og „skepnur
frá öðru tímabili jarðsögunnar sem
kallaðar eru fornfygli“ eins og Hall-
dór Laxness lýsir listamönnum svo
skemmtilega í Alþýðubókinni sem
kom út á þriðja áratug síðustu aldar.“
Spurning um forgangsröðun
Tinna heldur áfram: „Frá þeim tíma
eða réttara sagt frá því að stríðinu
lauk og við hlutum sjálfstæði sem
þjóð höfum við í raun tekið heljar-
stökk í menningarlegu tilliti. Sama ár
og Þjóðleikhúsið var opnað var Sin-
fóníuhljómsveit Íslands einnig stofn-
uð og við áttum í fyrsta sinn stétt at-
vinnulistamanna. Og báðar þessar
stofnanir hafa verið í stöðugri fram-
þróun síðan, að ég tali nú ekki um allt
annað sem hefur dafnað og þroskast.
Og hvað á svo núna, ofan á þrengingar
og niðurskurð síðustu ára, sem vissu-
lega hefur verið mikill og höggvið
nærri starfsemi Þjóðleikhússins, á þá
að ganga enn lengra og kannski bara
slá þetta allt saman af? Ég get ekki
trúað á slíka forheimskun. Hvað sem
öðru líður, þá er þetta alltaf spurning
um forgangsröðun. Viljum við búa í
menningarsamfélagi þar sem velferð
þegnanna snýr ekki aðeins að því að
lifa af á skurðarborðinu, heldur líka að
því að lifa innihaldsríku lífi.“
Milljarðar afskrifaðir
Tinna tekur sem dæmi fréttir af af-
skriftum stórfyrirtækja og skuldir
fyrrverandi útrásarvíkinga sem að
öllum líkindum verða afskrifaðar.
Hún segir nær að horfa á þær fjár-
hæðir, sem lendi á endanum á skatt-
greiðendum, en fjárframlag til lista
sem skili sér margfalt til baka.
„Hvort er betra; opinber stuðn-
ingur sem er uppi á borðinu, sem má
lesa í fjárlögum hvers árs, sem skil-
ar sér margfalt til baka til samfélags-
ins, beint og óbeint, eða sá opinberi
stuðningur sem er þvingaður fram,
er afleiðing rangrar stefnumörkun-
ar og áhættusækni einstaka manna
eða fyrirtækja, eða hvað eru þessar
endalausu afskriftir annað en þving-
aður opinber stuðningur? Sparisjóð-
ur hér, fjárfestingafélag eða banki og
þetta hleypur á tölum sem eru marg-
falt hærri en allur opinber stuðning-
ur til listalífsins frá lýðveldisstofn-
un. Einn einstakur banki telur sig
hafa orðið fyrir tilteknu tjóni vegna
stjórnarhátta eins stjórnanda og
slitastjórnin höfðar mál til að krefja
viðkomandi um endurgreiðslu. En
það er eiginlega blásið á það af hálfu
verjanda viðkomandi bankastjóra,
það taki því ekki, það fáist ekkert upp
í kröfuna og þó svo eitthvað fengist,
færi það bara í lögfræðikostnað. En
þetta eina mál, þessi tiltekna upp-
hæð sem hér um ræðir, jafngildir
opinberum stuðningi til Þjóðleik-
hússins í allt að eitt hundrað ár. Og
hvar erum við þá stödd í umræðunni,
hvað er á vogarskálunum?
Við megum heldur ekki gleyma
því að alls staðar í heiminum eru það
skapandi greinar sem koma best út
og mestar vonir eru bundnar við til
framtíðar. Listir og menning skapa
líka atvinnu á erfiðum tímum og auka
efnahagsvöxt. Við getum svo sannar-
lega litið okkur nær í þessu samhengi
og verið stolt af því sem við eigum og
okkur hefur tekist að skapa. Ég hlýt að
ætla að stjórnmálamenn séu skyn-
samir upp til hópa og þessi umræða
sé eins konar stormur í vatnsglasi.“
Breytingar framundan
Tíu ár sem þjóðleikhússtjóri er langur
tími. Næsta leikár verður það síðasta
sem Tinna gegnir embættinu. Hvað
tekur við?
„Já, nú fer að líða að því að minn
tími renni út. Ég á bara eftir að skipu-
leggja eitt leikár í viðbót og mig langar
að velja vel inn á það. Ætli það sé ekki
það sem ég hugsa mest um þessa dag-
ana. Að klára þau verkefni sem mig
dreymdi um að ná að framkvæma
þegar ég tók við þessu starfi. Hvað
býður mín svo er óráðið en ég er nán-
ast til í hvað sem er. Þessi reynsla sem
leikhússtjóri hefur verið mér dýrmæt,
mikil áskorun, bæði listrænt séð og
líka hvað varðar að standa í fæturna í
þessum ólgusjó sem við höfum siglt í
gegnum. Og ég hef alla trú á að ég geti
skilað leikhúsinu stolt af mér til þess
sem tekur svo við.“
Hefur þetta embætti breytt þér á
einhvern hátt?
„Ég kem af gólfinu. Ég var leikkona
hér við húsið og nú er maður hin-
um megin við borðið. Í svona stjórn-
unarstöðu hefur maður í raun örlög
og starfsframa margra í höndum sér.
Starfið felur ekki aðeins í sér að koma
hugmyndum í framkvæmd heldur er
líka stór hluti af starfinu að hafna hug-
myndum og þá um leið fólki. Það tek-
ur á og ég veit að ég er ekki alltaf vin-
sælasta manneskjan á svæðinu, en hjá
því verður ekki komist, ég hef sætt mig
við það. Þjóðleikhúsið er eign okkar
allra, við sem hér störfum erum í þjón-
ustuhlutverki við listina, okkur er falið
að viðhalda eldinum og verja það starf
sem hér er unnið. Ég hef reynt að axla
þá ábyrgð og gera mitt besta.“ n
Fríður hópur Tinna ásamt systkinum sínum Hrafni Gunnlaugssyni kvikmyndagerðar-
manni, Þorvaldi Gunnlaugssyni stærðfræðingi og Snædísi Gunnlaugsdóttur lögfræðingi.
„Mér fannst ég
eiginlega ekki
vera á staðnum
Þórður Sveinsson
Afi Tinnu Gunnlaugs-
dóttur var yfirlæknir á
Kleppi.