Dagblaðið Vísir - DV - 21.12.2012, Qupperneq 42
42 Menning 21.–27. desember 2012 Jólablað
F
jölskyldusögur eru orsaka- og
afleiðingasögur,“ segir Krist-
ín. Ég hitti hana í húsi við
Bárugötu sem hún deilir með
kærasta sínum, rithöfundinum
Steinari Braga, og kettinum Muggi.
Við erum á leið inn í vinnuherberg-
ið hennar, með kúffullar kaffikrúsir af
heimalöguðu latté, og áður en ég veit
af eru samræðurnar hafnar.
„Maður horfir inn í fortíð for-
eldra sem gera eitthvað hræðilegt við
börnin sín og það er alltaf verið að
leita að sökudólgi. En þetta er í raun-
inni fjölskyldumynstur og þá langaði
mig til þess að reyna að leita ekki að
sökudólgi heldur horfa á mynstrið,
þessa lærðu hegðun.“
Hvítfeld fjallar um hina lyga-
sjúku Jennu Hvítfeld sem uppgötv-
ar smám saman að ekkert er eins
og hún heldur. Sagan fjallar um fjöl-
skyldu Jennu, um lygar á lygar ofan,
en líka um möguleika skáldskapar-
ins til þess að bregða ljósi á sannleik-
ann (með lygum?).
Allir fórnarlömb og gerendur
„Mannkynið er svo gott. Við erum
svo góð sko. Við erum eina dýrið
sem er með lækna,“ segir Kristín og
hlær þegar við höfum fengið okk-
ur sæti hvort á móti öðru við skrif-
borðið hennar. „Og við erum með
eitthvað svona dómskerfi þar sem
við erum að reyna að vera RÉTTLÁT
og við viljum að allir séu jafnir í lýð-
ræðinu og við viljum að allir fái að tjá
sig. Það er rosalega margt gott og það
besta við okkur er að við getum sett
okkur í spor annarra. Við lítum ekki
bara á hinn köttinn sem óvinveittan
eða vinveittan eða bráð eða predator,
heldur getum við sett okkur í spor
meðbræðra okkar og systra.“
Þessi eiginleiki mannsins er mjög
mikilvægur að mati Kristínar. „Og
þess vegna langar mig að horfa á
mynstrið frekar en að reyna að finna
sökudólga. Það eru allir einhvers
staðar rosaleg fórnarlömb. Þetta er
svo flókið. Það eru allir fórnarlömb
og allir gerendur. Maður er fórnar-
lamb þangað til maður eignast sjálf-
ur barn og fer að beita sama ofbeldi
og maður var beittur sjálfur.“
Sannleikurinn of marghliða
Kristínu er lygin hugleikin og þá sér-
staklega hvernig best sé að takast á
við hana í skáldskap sem er í sjálfu
sér alltaf viss lygi. „Við erum svo mik-
ill skáldskapur. Tvær manneskjur
upplifa heiminn á algjörlega ólíkan
hátt. Góð skáldsaga gengur út á að
sannfæra lesandann um að allt sé
satt svo honum standi ekki á sama.
Hún gengur út á það að ljúga. Samt
er skáldskapur ótrúlega merkingar-
bær. Ég sá einhvern tímann rann-
sókn um lygar sem hafði verið gerð í
Bandaríkjunum. Niðurstaðan var sú
að 76 prósent af því sem við segjum
við ókunnuga er lygi. Það má nánast
gera ráð fyrir því að hin 24 prósentin
séu staðreyndir. Þú veist, hvar er
Eiffel-turninn, hann er þarna,“ segir
Kristín, bendir út í loftið og hlær.
Niðurstaðan er þá kannski sú
að eina vonin gagnvart þessu öllu
saman sé skáldskapurinn eða goð-
sögnin? „Já, sannleikurinn á allavega
ekki eftir að bjarga okkur. Það er al-
veg á hreinu. Vegna þess að hann
er bara of marghliða til þess að geta
verið sannleikur. Við erum alltaf að
grípa í tómt ef við ætlum að fara að
segja satt, en við getum skáldað upp
alveg fullkomlega heiðarleg svör.“
Goðsögn daglega lífsins
Kristín segist meðal annars hafa ver-
ið að skoða það í Hvítfeld hvernig við
búum til goðsagnir um okkur sjálf.
„Ég ákvað að skrifa um persónu sem
er öfgakennd að því leyti að hún er
meiri lygari heldur en tíðkast og mjög
gróf í sínum lygum, sjálfsblekkingu
og afneitun. Ég held samt að allir geti
speglað sig í henni og það er kannski
það sem er það óþægilegasta við
hana. Við búum öll til goðsagnir um
okkur. Maður sér bara hvernig mað-
ur hugsar sína eigin mótunarsögu,
hún er alltaf svolítið í stíl við það sem
maður vill vera núna. Við klippum út
mjög mikilvæg atriði en einblínum
á einhver önnur vegna þess að það
hentar betur við þá ímynd sem mað-
ur er með núna eða sjálfsmynd.“
Hún tekur dæmi um goðsögn
sem verður til í kringum öll ástar-
sambönd. „Öll pör eiga sér goðsögn,
söguna af því hvernig þau byrjuðu
saman, sem verður skýrari og tær-
ari og á endanum lygi, þegar búið er
að bæta einu inn og taka annað út.“
Þetta sé fullkomlega eðlilegt enda sé
minnið okkar gloppótt. „Í hvert skipti
sem við rifjum eitthvað upp þá breyt-
ist það smávegis. Litur sem maður
sér meðan maður er að rifja eitthvað
upp bætist inn í minninguna. Minnið
er skáldskapur að mjög miklu leyti og
ofsalega óáreiðanlegt. Miklu óáreið-
anlegra heldur en við gerum okkur
grein fyrir.“
En þó að minnið sé óáreiðanlegt
þá vill Kristín ekki meina að það sé
merkingarlaust. „Það er ofboðslega
merkingarbært og segir ofsalega
mikið. Goðsagan geymir svo rosa-
legan sannleika. Þegar saga er orðin
margþvegin, tær, skýr og ofsalega
langt frá sannleikanum, þá býr hún
samt yfir mjög sannri sálfræði þessa
pars eða þessarar þjóðar eða hvað
sem það er.“
Frumöskur ljóðsins
Kristín sem er fædd árið 1981 var
einn meðlima í Nýhil-skáldahópn-
um sem starfaði á árunum 2001–
2011. „Nýhil samanstóð af fólki sem
var með mjög ólíkar skoðanir á ljóð-
inu. Það voru mjög líflegar rökræð-
ur og samræður í Nýhil vegna þess
að það var engin stefnuskrá og fólk
var með mjög ólíkan smekk og ólíkar
skoðanir. Það eina sem tengdi okk-
ur saman var að vera innan við þrí-
tugt og yrkja ljóð. Þetta var fyrir daga
ritlistarinnar upp í háskóla og mað-
ur þurfti bara að læra að fá leiðsögn
og lesa yfir fyrir aðra og við notuðum
hvert annað til þess.“
Aðspurð hvað hún telji hafa mót-
að hennar kynslóð rithöfunda hvað
mest segist hún telja að flestir séu
markeraðir af hruninu. „Maður sér
það alveg í bókmenntunum. Okkar
kynslóð var alin upp í uppgangi. Við
þekktum eiginlega ekkert nema upp-
sveiflu og í allri orðræðu var geng-
ið út frá því að hér væri allt gott. Hér
væru allir á grænni grein sama hvað.
Það ríkti ákveðin öryggiskennd sem
síðan reyndist vera blekking og ég
hugsa að þetta muni hafa djúpstæð-
ustu áhrifin á okkar kynslóð.“
Hvítfeld er fyrsta skáldsaga Krist-
ínar sem áður hefur gefið út þrjár
ljóðabækur og smásagnasafnið Dor-
is deyr. Hún segist alltaf líta á ljóðið
sem einskonar „frumöskur.“ Ljóða-
bækur ungskálda eru mjög mikil-
vægar að hennar mati. „Þetta er yfir-
leitt sjálfsútgáfa og bækurnar gefnar
út í mjög fáum eintökum. Þetta er
eitthvað sem ég vona að ég missi
ekki tengslin við vegna þess að þarna
fæðist nýjungin. Þarna eru frumöskr-
in, hjá ungskáldunum. Það er hægt
að líta í þessar bækur og finnast þær
vera lélegar eða góðar eða fleygja
þeim frá sér en þær eru svo mikil-
vægar. Þetta tengist æskunni held ég,
að vera alltaf að reyna að gera eitt-
hvað nýtt. Og það er alveg sama þó
það takist ekki, það er samt eitthvað
nýtt. Það er ekki hægt að mistakast.
En svo verður maður þrítugur og
fær áhuga á fjölskyldusögum og ein-
hverri svona íhaldssemi.“
Vanskapningur úr sálinni
En hvað varð til að hún fór yfir í
skáldsöguna? „Þegar ég byrjaði að
skrifa þessa bók þá vissi ég ekkert
endilega hvað hún yrði. Ég skrif-
aði hana að miklu leyti á Tælandi en
var allt í einu kominn í Vesturbæ-
inn og farin að skrifa um einhverjar
persónur sem mér fór að þykja mjög
vænt um. Ég gekk út frá því að allar
persónurnar væru óheiðarlegar, hver
á sinn háttinn.“
Hún segir skriftir vera svolítið eins
og sálfræðivinna: „Það er rosalega
skrýtið hvernig þetta gerist, hvernig
svona þykjustuheimur verður til, það
er ofsalega dulvitað. Maður heldur
að maður sé að ímynda sér sig ein-
hvers staðar lengst í burtu frá sjálf-
um sér á meðan maður er á kafi í sér.
Maður er alltaf að díla við sjálfan sig
í svona bókum held ég. Ég get alla
vega ekki litið á efnið mitt sem eitt-
hvað alveg utan mín.“
Hún segir að það sé ekki fyrr en
hún sé kominn með mikinn massa
af efni sem hún getur farið að móta
söguna af alvöru. „Í fyrstu koma bara
einhverjar persónur til manns sem
eru með einhver vandamál,“ seg-
ir Kristín og tekur fram að hún hafi
aldrei búist við því að henni færi
að þykja vænt um aðalpersónuna,
hana Jennu Hvítfeld. „Fyrst þegar
hún birtist, þá hugsaði ég bara, guð
minn góður, hvaða vanskapning hef
ég dregið upp úr sálinni á mér núna?
Hver er þetta? Ðökk!“ Segir Kristín og
skellir uppúr.
Með fordóma fyrir Jennu
Hún segist í kjölfarið hafa reynt að
skilja hvaðan hin lítt geðþekka og
lygasjúka Jenna kæmi, af hverju hún
stigi fram á sviðið með þessum hætti
og hvaða erindi hún ætti við sig. Krist-
ín segir að henni finnist mikilvægt að
fjalla um manngerðir sem hún hefur
sjálf fordóma gagnvart. „Mér finnst
umburðarlyndi fólks hafa minnkað
að undanförnu og aukin harka færst í
umræðuna.“
Hún nefnir athugasemdir við frétt-
ir sem dæmi og minnist þess þegar
heimilislausri konu var úthúðað fyrir
það eitt að reykja. „Þess vegna finnst
mér mikilvægt, þegar ég fer að skrifa
svona sögu, að taka líka fólk sem ég
er með einhverja fordóma gagnvart.
Mig langar ekki til að afskrifa fólk. Mig
langar til þess að reyna að skilja það
sem er ólíkt mér eða það sem ég vil að
sé ólíkt mér. Og skilja líka að það býr
svo margt innra með okkur.“
Kristín verður eins og aðrir vör við
rosalega heift í samfélaginu. Hún seg-
ir ljóst að hún komi ekki úr einhverju
tómi. „Sérstaklega ekki svona heift,
og svona miklar öfgar. Það er alltaf
verið að akta út eitthvað. Það er alltaf
verið að bregðast við einhverju. Það
er eitthvað rosalega skakkt þar. Það er
einhver mikill harmur þar. Við þurf-
um að horfast í augu við það, skilja og
byrja upp á nýtt.“
Hún viðurkennir að þó að þær
Jenna séu mjög ólíkar á yfirborðinu
eigi þær kannski ýmislegt sameigin-
legt. „Ég held að það sé rosalega mik-
il sjálfsbjargarviðleitni hjá Jennu að
horfast aldrei í augu við sjálfa sig. Og
hvað gerist í sálarlífinu þegar að fólk
feisar aldrei niðurlæginguna?“ Spyr
Kristín.
„Kötturinn minn veit alveg
hver hann er“
Án þess að fara of djúpt í söguþráð
bókarinnar má segja að Jenna Hvít-
feld eigi nokkrar útgáfur af sögunni
um sjálfa sig. Kristín tekur undir
þetta og segir hana varpa mismun-
andi myndum af sjálfri sér allt eftir
því hvað hentar henni hverju sinni.
„Þegar ég var að skrifa þessa bók
var ég alltaf að elta það sem hentaði
Jennu. Hvernig Jenna vill að mað-
ur sjái hana vegna þess að hún tikk-
ar þannig. Þannig tikkum við svolítið
öll, eða mörg okkar, og það er ekkert
heiðarlegt við það.“
Kristín segir Jennu kljást við sjálfs-
myndarleysi. „Það er alveg hrylli-
lega sársaukafullt ástand og ekkert
endilega tengt því að vera lygari eða
narsissískur eða með persónuleika-
röskun heldur líka bara að vera með-
virkur eða hlýða öllum reglum án
þess að geta fundið hvað mann raun-
verulega langar.“
Hún segir að það sé ótrúlega
margt sem geti valdið því að fólk hef-
ur enga sjálfsmynd. „Ég er ekki að
tala um það þannig að allir eigi að
finna sjálfan sig. Ég er að tala um
það svona svolítið eins og kötturinn
minn veit alveg hver hann er, finnst
mér, hann er bara svona náttúra, en
það er svo fálmkennt að vera mann-
eskja núna. Öllum er uppálagt að
vera stjörnur, öllum er uppálagt að
vera svo mikill einstaklingur, svo sér-
stakur. Og með smá niðurbroti ofan á
þetta þá er komin eitthvað svo skrít-
in sálfræði.“
Britney-goðsögnin
Þetta leiðir okkur að tali um ofur-
stjörnur eins og Britney Spears en
hún er einmitt til umfjöllunar í Hvít-
feld og Jenna speglar sig svolítið í
henni. Kristín minnist á grein sem
hún las um Britney þegar hún var að
dæma í X-Factor. „Það kom grein um
hana þar sem henni var lýst sem al-
gjörlega síkópatískri tík. Hún fór inn í
eitthvað moll og neitaði að vera með
stílista en það var einmitt sett fram
sem eitthvað ofboðslega klikkað. Að
henni skyldi detta í hug að neita að
vera með stílista.“
Kristín lýsir því síðan hvern-
ig Britn ey á að hafa verið öskrandi
og gargandi inni í einhverri „teen-
boppera búð“ þar sem hún keypti sér
bleika magaboli og henti sjeik fram-
an í fólk. „Þetta er lýsing á einhverri
mjög goðsagnakenndri ófreskju,
og ég fór að hugsa hvað goðsögn-
in Britn ey hlýtur að vera ofboðslega
merkingarbær fyrir okkar kynslóð.“
„Mér finnst ennþá að peningar stjórni öllu,“ segir
rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir. Hún er höf-
undur skáldsögunnar Hvítfeld, sem tilnefnd er til
Fjöruverðlaunanna í hópi fagurbókmennta í ár.
Bókin fjallar um Jennu Hvítfeld, fjölskyldu hennar og
lygarnar sem hvíslast um líf þeirra allra. Hún fjallar
um fjölskyldumynstur Hvítfeld-fjölskyldunnar og
setur slíkt mynstur í samfélagslegt samhengi. Jón
Bjarki Magnússon ræddi við Kristínu um skáld-
skapinn sem leið til að varpa ljósi á sannleikann. Um
hið persónulega hrun en líka það pólitíska og hvernig
íslenskt samfélag hefur neitað að horfast í augu við
eigin niðurlægingu. Um bakgrunn hennar sjálfrar, en
Kristín þekkir óheiðarleika og afneitun af eigin raun
og að horfast ekki í augu við eigin bresti.
Jón Bjarki Magnússon
jonbjarki@dv.is
Viðtal
Fálmkennt að
vera manneskja
„Við getum skáldað
upp alveg fullkom-
lega heiðarleg svör.