Öldrun - 01.05.2004, Síða 4
4 www.oldrun.net ÖLDRUN – 22. árg. 1. tbl. 2004
Cíceró ritaði sitt víðfræga rit Um ellina
handa vini sínum á sjötugs aldri.
Ritið glímir við nokkrar fullyrðingar
um ellina og Cíceró svarar þeim með
bjartsýni og tengir við hamingjuna.
Ellin getur verið jafn hamingjuríkt
skeið og hvert annað.
Hér verður fjallað um hamingjuna og
rök færð fyrir því að sennilega eigi hún
helst heima hjá elstu kynslóðinni.
I. Orðin og gátan
Einu sinni skrifaði ég grein í Morgunblaðið um elstu
kynslóðina í landinu og notaði orðin gamall, gömul og
gamla fólkið. Stuttu síðar fékk ég þá gagnrýni hjá
fræðimanni að orðin væru niðurlægjandi fyrir þessa
kynslóð, ég hefði átt að notað orðið aldraðir. Þetta kom
mér í opna skjöldu, því mér fannst felast virðing í
þessum orðum og þannig áttu þau að virka. Orðið
aldraður merkir gamall, svo að það er tíðarandinn sem
gefur orðunum virðingu. Elli er einnig alþekkt orð yfir
það að vera orðinn gamall. Það er sama hvaða orð verða
notuð í þessari grein um ellina, þau eiga öll að fela í sér
virðingu.
Ungur heyrði ég gátu: Hvað er það sem allir vilja
verða en enginn vill vera? Svarið fannst mér athyglis-
vert: Gamall. Marcús Túllíus Cícero orðar þetta keim-
líkt í bók sinni Um ellina sem fyrst kom út í Rómaborg
44 árum fyrir kristið tímatal, og ef til vill er gátan samin
upp úr orðum hans: „Ellina sem allir þrá að höndla, en
fárast svo yfir þegar hennar verður vart” (1).
II. Ellin og hamingjan
Ég hef alltaf tengt saman elli og hamingju, og
skrifaði í heimspekirit sem ég gaf út: „Hámark
hamingjunnar er svo að vera öldungur í ruggustól og
líta í rólegheitunum yfir farinn veg. Sál hans er feit eins
og selur og spikið er hamur hans og hús. Hann sér líf
sitt sem sögu, sögu sem er um eitthvað og að lokum
grunar hann um hvað sagan er. Öldungur sem rær í
hamingjuspikinu og lifir ævilokin” (2).
Kenningin sem ég setti fram er byggð á kenningu
Aristótelesar um hamingjuna í Siðfræði Nikómakkosar
(3). Kenningin er spunnin út frá spurningunni um
hvaða líferni er eftirsóknarverðast? Svarið er: Það líf-
erni sem leiðir til hamingju. En hvers vegna hamingja?
Því ef við erum hamingjusöm, þurfum við ekki á neinu
öðru að halda. Hamingjan er fullnægjandi, aðeins þarf
að keppa að henni, og allir stefna leynt eða ljóst að
hamingju.
Að njóta þess
sem liðið er
Gunnar Hersveinn
heimspekingur og blaðamaður
á Morgunblaðinu