Öldrun - 01.05.2004, Qupperneq 20
20 www.oldrun.net ÖLDRUN – 22. árg. 1. tbl. 2004
Ellin hefur ekki eingöngu í för með sér
líkamlega hrörnun og öldrunar-
sjúkdóma. Andleg afturför og geðrænir
sjúkdómar eru kannski ekki eins
áberandi, en örugglega jafn alvarlegir.
Í greininni verður sagt frá meðferðar-
vinnu sem hófst í Seljahlíð árið 2000.
Sama ár var gerð tilraun með
hópvinnu/meðferð og einstaklingsviðtöl.
Hér verður fjallað um hópvinnuna.
Hjúkrunarfræðingur var ráðinn í 40%
vinnu, einnig læknir sem kom einu
sinni í viku til að vera með. Fengin var
handleiðsla hjá reyndum sálfræðingi.
Inngangur
Þunglyndi meðal aldraðra er algengt vandamál.
Til eru rannsóknir sem segja að þunglyndi meðal
aldraðra á stofnunum sé meira en hjá þeim sem búa
sjálfstætt.
Samkvæmt RAI-mati árið 2000 var þunglyndi
algengt á hjúkrunardeild Seljahlíðar.
Utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á þunglyndi
aldraða. Sjúkdómar og andlát höggva skarð í vina- og
ættingjahópinn.
Hinn aldraði er e.t.v. orðinn heilsulítill sjálfur og upp
á aðra kominn, getur ekki lifað eins og hann langar til
eða ætlaði sér. Því upplifir hann oft einmanaleika og
sorg og getur verið illa í stakk búinn til að takast á við
þess konar vandamál.
Einkenni þunglyndis eru margvísleg og getur verið
erfitt að greina þau hjá öldruðum þar sem líkamleg
einkenni s.s. þreyta, slappleiki, svefntruflanir, lystar-
leysi o.fl. eru algeng hjá öldruðum án þess að um
þunglyndi sé að ræða. Þessi líkamlegu einkenni eru
einnig oft einkenni þunglyndis.
Tilfinningaleg einkenni þunglyndis þar sem hinn
aldraði upplifir kvíða, einmanaleika og ótta getur brotist
út í reiði, mikilli vanlíðan og depurð, auk annarra
líkamlegra einkenna.
Á vitsmunalega sviðinu hægir á hugsun, eðlilegir
hlutir verða að vandamálum sem einstaklingur getur
ekki leyst og ranghugmyndir geta komið í ljós t.d.
ofsóknarhugmyndir, einnig einbeitingartruflanir og
sljóleiki.
Virkni hjá einstaklingnum minnkar, hann verður
áhugalaus og getur haft löngun til þess að deyja.
Þunglyndi fylgir oftast kvíði, spenna, sektarkennd,
þráhyggja og stundum sjálfsvígshugsanir.
Hópvinna/viðtöl
á öldrunarstofnunum
Soffía Snorradóttir
hjúkrunarfræðingur, Seljahlíð