Málfregnir - 01.11.1992, Blaðsíða 17
háttinn að þeim íslenska, á yfirleitt ekki
við endranær, og leiddi ofnotkun hennar
til þeirrar „andhælislegu djöflaþýzku,
sem þeir [læknamir] kalla íslenzkt lækna-
mál og engum öðrum en læknum er ætl-
andi að grynna nokkuð í“ [3].
Málhreinsun og aðlögun orða
Málhreinsunina má sjá í læknisfræði-
heitum Guðmundar Hannessonar [8].
Þar eru um 3000 erlend uppflettiorð og
tökuorð sárafá: alkóhól (einnig atrópín,
kínín, morfín, nikótín, sjá lýtingar),
baklería (og níu samsett orð), basi (en
jafnframt lútarefni), bómull (en jafn-
framt baðmull), eósín, insúlín, joð (og
tvö samsett orð), kím (og þrjú samsett
orð), kísil(lungu), kokkar (en jafn-
framt hnettlur), kólesterín, kristall-
ur (og fjögur samsett orð), maltsykur,
millímíkron, míkron, móðursýki (en
jafnframt sefasýki), ópíum, pest, plást-
ur, spíritus (en jafnframt vínandi),
vítamín (en jafnframt fjörvi). Geri aðrir
betur!
Þá er, auk efnaheitanna, undantekn-
ing þegar um sumar bakteríur er að
ræða, svo sem salmónellusýking fyrir
salmonellosis. Hins vegar höfum við
blóðsótt fyrir shigellosis.
í völdum tilvikum má beita hljóðlík-
ingu, og er eyðni fyrir AIDS [= acquired
immune deficiency syndrome] ágætt
dæmi um það. Merkingin er heilkenni
ákomins ónæmisbrests og hefir verið
nefnt ónæmistæring, en þýðingarnar
skortir þann einfaldleika sem orðið
eyðni hefir, til dæmis í samsetningun-
um eyðnisýking og eyðniveira. Hér
nýtir höfundur heitisins, Páll Berg-
þórsson veðurstofustjóri, sér hljóð-
líkinguna við erlendu skammstöfunina.
Þetta er eitt þeirra tilvika þar sem vel á
við „að líkja frjálslega eftir hljómnum í
hinu erlenda heiti, en sú orðmyndunar-
aðferð hefur fyrr og síðar gefið góða
raun“ [6].
Nýyrðasmíði einstakra lækna
og útgáfur orðasafna
Guðmundur Hannesson prófessor þýddi
alþjóðlegt kerfi líffæraheita fyrir rétt
rúmri hálfri öld [2]. Jón Steffensen pró-
fessor gaf það út í endurskoðaðri útgáfu
árið 1956 [8]. Guðmundur lét eftir sig
drög að handriti til orðasafns með læknis-
fræðiheitum, og var Sigurjóni Jónssyni
lækni falin útgáfa þess. Kom það út árið
1954 [9].
Landlæknarnir Guðmundur Björnsson
og Vilmundur Jónsson voru frjóir ný-
yrðasmiðir og reyndar ekki aðeins í
fræðigrein sinni heldur einnig utan
hennar.
Nýyrði Guðmundar Björnssonar er
meðal annars að finna í Gjaldskrá hér-
aðslœkna og Leiðbeiningum um dánar-
vottorð og dánarskýrslur. í síðarnefnda
ritinu voru 150 sjúkdómsheiti, og hafði
Guðmundur leitað sum þeirra uppi í
gömlum ritum, einkum hjá Sveini Páls-
syni, en önnur hafði hann myndað sjálf-
ur.
Nýyrði Vilmundar er einkum að finna
í Heilbrigðisskýrslum, sem landlæknir
gefur út, og svo í Mannslátabók II. Par
er að finna þýðingu Vilmundar á Alþjóð-
legu sjúkdóma- og dánarmeinaskránni,
sem gildi tók á íslandi 1. janúar 1951.
Auk þessa eru mörg orð frá honum í
læknisfræðiorðasafni Guðmundar Hann-
essonar [9]. Áttunda endurskoðun skrár-
innar (ICD-8) kom út 1971, og sáu Bene-
dikt Tómasson skólayfirlæknir og Júlíus
Sigurjónsson prófessor um hana, en
Benedikt sá um útgáfu níundu endur-
skoðunarinnar (ICD-9) sem út kom
1982. Er ekki grunlaust um að Benedikt
hafi átt hlutdeild í fleiri orðsmíðum en
ritaðar heimildir herma [10].
íðorðasafn lækna
Skipulegt íðorðastarf hófst á vegum
læknafélaganna fyrir rúmum áratug.
17