Málfregnir - 01.11.1992, Page 25
Ritfregnir
eftir Baldur Jónsson
Málkrókar. Þættir um íslensku - am-
bögur, orðfimi og dagleg álitamál. Eftir
Mörð Árnason. íslenski kiljuklúbbur-
inn. Reykjavík 1991. 240 bls.
Þessi bók kynnir sig allrækilega sjálf. Á
kápubaki segir útgefandi meðal annars:
Málkrókar er fyrst og fremst skemmtileg og
fróðleg lesning öllum þeim sem hafa gaman
af íslenskri tungu, en nýtist einnig sem hand-
bók fyrir þá sem vilja vanda móðurmál sitt
og forðast klisjur og ambögur. Atriðisorða-
skrá í lok bókarinnar auðveldar mönnum að
nota hana til uppsláttar. Mörður Árnason
málfræðingur hefur í tæp tvö ár haft umsjón
með þættinum Daglegt mál í útvarpi og hafa
pistlar hans þar vakið athygli fyrir fjörugan
og skemmtilegan stíl.
Sjálfur gerir hann grein fyrir verki sínu
í „Svolitlum formála". Fyrri hluti hans
er á þessa leið (bls. 5-6):
I þessu riti er ýmisiegt spjall um íslensku frá
ýmsum sjónarhornum, komið á einn stað til
skemmtunar eða fróðleiks eða hvorstveggja
eftir því sem hverjum líst, sprottið af hug-
leiðingum um daglegt mál í útvarpi rúma tvo
vetur.
Þetta er ekki kennslurit og ekki handbók
um málnotkun, ekki prédikanir og ekki
dómasafn. Þessvegna er ekki stefnt sérstak-
lega að samræmdri áherslu á þá margvíslega
grein sem gerð er fyrir tungumáli í fræðum,
og svipað má segja um niðurröðun efnis, —
sennilega er best að láta geðþótta ráða
lesröð. Þetta er heldur ekki málvillusyrpa
eða afglapa í tali og texta þótt slíkt hafi sam-
kvæmt eðli máls orðið kveikja margra pistl-
anna. Einkum er hér lítið talað um þær mál-
myndir sem hafa orðið allrahelstir ásteyt-
ingssteinar hin síðari árin, meðal annars
vegna þess að aðrir hafa þegar skrifað langt
mál og nægilegt um flest af því dóti.
Hér er hvergi talað í samfellu um það sem
kallað er málstefna, málrækt eða málpólitík.
Slíkar samfellur eru oftast heldur þumbalda-
legur texti og helst læsar og skrifandi því
fólki sem hefur atvinnu af einhverskonar
málstjórn. Þarf þó vænti ég ekki að lesa langt
til að sjá að helst er í þeim efnum fylgt því
sem kalla mætti frjálslynda ábyrgðarstefnu.
Heilbrigð íhaldssemi er hollt einkenni á mál-
félagi og fráleitt að ryðja burtu mati og
smekk vegna einhverskonar vísindahlut-
leysis eða fyrir frjálshyggju á skökkum stað.
Hins vegar lifir ekkert mál fullu lífi án stöð-
ugrar forvitni mælendanna um allar lengdar-
gráður og breiddar, án þess að þeir séu til-
búnir að tefla á tvær hættur við að leita
ævintýra og nema ný lönd. En um þetta eru
menn loksins að verða sammála eftir allt
skakið. Við höfnum bæði stöðnun og laus-
ung en viljum að hvorttveggja í senn ein-
kenni nútímaíslensku, festa og sköpun.
Kaflar hér í bókinni kunna að reynast mis-
jafnir undir tönn. Stundum er farið hratt yfir
sögu til að komast fyrr að góðgæti, nokkrum
sinnum lögð stund á einskonar örvísindi,
hugdettu hleypt að hömlulítið og ekki alltaf
gætt varúðar í fræðiritastíl. Bókarhlutarnir
eru þó allir samdir fyrir áhugafólk án sér-
legrar þekkingar á málfræði eða málsögu, og
framsetning við það miðuð.
Með nokkrum hætti eru allir íslendingar
jafngildir úrskurðarmenn um álitamál í
íslensku, og langflestir hafa rótgróinn áhuga
á tungumáli sínu, hvort sem það kemur
okkur fyrir sjónir sem beinn og breiður
vegur eða misfærar krókaleiðir á tæpu vaði.
Þetta kver dregur nafn af síðarnefndum
slóðum, en það nafn ber þó ekki að skilja
einungis neikvæðum skilningi. Oft er betri
krókur en kelda.
25