Morgunblaðið - 21.07.2015, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 21.07.2015, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. JÚLÍ 2015 Elsku amma mín. Þegar ég sit hér og fer í huganum yfir samband okkar þá er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir svo margt. Þú varst mér svo mikið. Þú gafst þér alltaf tíma til þess að kenna mér og nenntir að hlusta á það sem ég hafði að segja. Ég man þegar ég byrjaði að læra að hjóla í Akraselinu hjá ykkur afa og Huldu. Ég á margar góðar minningar úr því yndislega húsi, þar sem ég og Ingi byrj- uðum að búa í litlu fallegu íbúð- inni á neðri hæðinni. Mér er minnisstætt þegar ég kynnti þig fyrir Inga og þú spurðir eins og þér einni var lag- ið: Og hverra manna ert þú? Og þegar Ingi svaraði, þá hrópaðir þú upp: Guð! Þið eruð náskyld! Og mér brá svo að ég lokaði mig inni í búri, vildi ekki trúa því að loksins þegar ég kynntist draumaprinsinum þá værum við skyld. En það liðu ekki margar mínútur þangað til þú bankaðir á hurðina og sagðir: Fjóla mín, þetta er allt í lagi. Þið eruð ekki náskyld, þið eruð fimmmenning- ar. Við Ingi fluttum svo á neðri hæðina hjá mömmu og pabba og þangað fluttir þú til þeirra á með- an þú varst að bíða eftir nýju íbúðinni á Sléttuveginum. Og ein- mitt á þeim tíma kom Sigurður Bergvin í heiminn, langt fyrir settan tíma. Ég var að eignast mitt fyrsta barn og þá var gott að hafa þig og mömmu á efri hæð- inni. Þú tókst svo mikinn þátt í fyrstu mánuðum hans. Enda átt- uð þið eitt sérstakasta og falleg- asta samband sem ég hef orðið vitni að. Ég veit að honum Sigga Begga, eins og þú kallaðir hann Fjóla Helgadóttir ✝ Fjóla Helga-dóttir fæddist 4. september 1930. Hún lést 1. júlí 2015. Útför Fjólu fór fram 20. júlí 2015. alltaf, finnst þetta rosalega erfitt. Þú ert amman sem skildi hann svo vel, þú ert amman sem hrósaði honum allt- af og þú lést hann alltaf finna hversu yndislegur hann er, en ert nú farin. Þú kenndir honum að biðja bænirnar og í tvö ár, 7-9 ára gam- all, hringdi hann í þig nánast á hverju kvöldi og fór með bæn- irnar með þér. Það er eitt það fallegasta sem ég hef kynnst. Ég lofa því að taka þetta hlutverk að mér, ég mun halda áfram að fara með bænirnar með honum og um leið munum við alltaf hugsa um þig, elsku amma mín. Þú kenndir mér svo margt og oft hringdirðu í mig bara til þess að segja mér hvað þér fannst ég geta gert betur. Ég tók því ekki alltaf jafn vel en veit að það sem þú talaðir um var alveg rétt hjá þér. Ég sakna þín svo mikið, við töluðum svo oft saman í símann og hittumst líka mjög oft. Stund- um var nú ekkert merkilegt að segja eða gerast en það var alltaf svo gott að hafa þig nálægt. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma með þér á líknardeildinni. Hann var erf- iður en samt svo góður því þú átt- ir marga góða daga og þá gátum við spjallað um svo margt, eins og um 85 ára afmælið þitt sem þú varst ákveðin í að halda heima hjá mér. Ég sagði þér nokkrum mínútum áður en þú kvaddir þennan heim að ég myndi halda upp á afmælið eins og þú baðst mig um og það verður sko veisla eins og þú myndir vilja hafa hana. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en eitt veit ég að lífið verður mun litlausara því þú varst svo mikill karakter. Elsku amma mín, ég kveð þig með tárum og miklum söknuði. Ég elska þig svo mikið. Þín nafna, Fjóla. Fjóla Helgadóttir, mágkona mín, var sterk kona og dugleg. Björn Ólafur Þorfinnsson, maður hennar, var aflasæll skipstjóri og sterk stoð fjölskyldunnar en upp úr fimmtugu veiktist hann og varð óvinnufær. Þá reyndi á styrk og dugnað Fjólu og hún tók að sér þrif, m.a. hjá Háskóla Íslands, þar sem Björn gat verið með henni. Hann þurfti mikla umönn- un og var heima í mörg ár, þar til Fjólu þraut krafta til að hugsa um hann. Þá fluttist hann á Hrafnistu í Hafnarfirði, þangað sem Fjóla heimsótti hann á hverjum einasta degi þar til yfir lauk. Á sama tíma glímdi hún við illvígan sjúkdóm sem tók sig upp, reyndar á margra ára fresti, og náði sjúk- dómurinn að lokum yfirhöndinni eftir langa og stranga baráttu. Fjóla var sú fyrsta í fjölskyld- unni sem Ingi kynnti mig fyrir. Þau þrjú, Fjóla, Hulda og Ingi voru yngstu systkinin og síðust til að yfirgefa æskuheimilið á Hverf- isgötu 100b. Ingi var sex árum eldri en systurnar og litu þær mjög til hans um flesta hluti og með þeim var mikil samstaða. Samband okkar Fjólu var gott og við Ingi ferðuðumst með henni og Birni ásamt Huldu og Pálma Sig- urðssyni, manni hennar, um land- ið meðan allir höfðu heilsu til. Þegar ég hugsa til Fjólu kemur Hulda alltaf upp í hugann, því svo samrýmdar voru þær, eineggja tvíburarnir. Við Ingi urðum einu sinni vitni að því þegar Fjóla varð allt í einu yfir sig þreytt án sýni- legrar ástæðu. Næsta dag hittum við Huldu sem hafði þá verið á einstaklega erfiðu ferðalagi í London daginn áður. Eins gerðist það eitt sinn að þær systur fóru í bæinn sín í hvoru lagi til að kaupa sér kápu og mikil var kátínan þegar þær komu heim með ná- kvæmlega eins kápur, bara sinn litinn hvor! Hulda var gift flugstjóra og Fjóla skipstjóra. Þær voru því oft einar heima en aldrei langt hvor frá annarri. Á þeim tíma fengust ekki tvíbýlishúsalóðir í Reykjavík en á hornlóð í Akraseli fékkst byggt hús með tveimur íbúðum sem voru spegilmynd hvor ann- arrar. Þar undu þær systur glað- ar við sitt. Björn og Fjóla eignuðust eina dóttur, Ernu. Erna hefur staðið eins og klettur við hlið móður sinnar í öllum veikindunum og erfiðleikunum og hún á mikið hrós skilið, sem og börn hennar og eiginmaður. Á kveðjustund vil ég þakka Fjólu fyrir samfylgdina og bera kveðju frá börnum okkar Inga og fjölskyldum þeirra og frá Stein- unni dóttur minni og Stefáni sem voru svo dugleg að heimsækja hana á líknardeildina. Ragna M. Þorsteins. Fallin er frá góð og traust vin- kona, Fjóla Helgadóttir. Það er alltaf erfitt að kveðja, jafnvel þó að vitað hafi verið að hverju stefndi. Fjóla var búin að berjast við krabbamein í langan tíma og það var ótrúlegt hvað oft hún hafði vinninginn í þeirri baráttu. Ósjaldan var maður búinn að kveðja hana í huganum, en hún reis upp aftur og aftur og var bara hress í þónokkurn tíma. Hún var baráttujaxl fram í and- látið. Hún hafði mikla lífslöngun og var dugleg að drífa sig í fé- lagsskap eins og spilamennsku, bæði bridds og félagsvist. Eins var hún dugleg að fara á tónleika og í leikhús. Fjóla mætti í öll boð hjá sínu fólki og alltaf passaði hún upp á að fara í hárlagningu og fór svo í sparifötin. Hún var alltaf flott og fín eins og drottn- ing. Það var aðdáunarvert hvað Erna, einkabarn Fjólu og Björns, var natin og umhyggjusöm við móður sína og að sama skapi voru þrjú börn Ernu og Sigga og þeirra fjölskyldur dugleg að sinna henni í veikindunum. Ég vona að nú hafi Fjóla hitt Huldu tvíburasystur sína sem lést fyrir 20 árum úr sama sjúk- dómi og eins vona ég að Björn hafi beðið með útbreiddan faðm- inn og hafi tekið á móti sinni elsku. Fjóla mín, ég kveð þig nú að sinni. Takk fyrir vináttu þína og góðvild í minn garð í þrjátíu ár. Blessuð sé minning þín. Þín vinkona, Sigurhanna. ✝ Katrín Tóm-asdóttir kenn- ari fæddist í Reykjavík 23 júlí 1958. Hún lést 12. júlí 2015 á Land- spítalanum við Hringbraut. Foreldrar henn- ar eru hjónin Tóm- as Lárusson og Hrafnhildur Ágústsdóttir. Eiginmaður Katrínar er Páll Kristjánsson. Börn þeirra eru Fannar Pálsson og Bylgja Páls- dóttir. Fannar er kvæntur Agnesi Ágústsdóttur, saman eiga þau tvo syni, Dag Fannarsson og Sindra Fannarsson. Sambýlismaður Bylgju er Sæmund- ur Örn Kjærnested. Barn þeirra er Lilja Marín Kjærnested. Börn Sæmundar eru Aníta Ósk Kjærnested og Óð- inn Örn Kjærne- sted. Bróðir Katr- ínar er Ágúst Tómasson, kvæn- tur Elísabetu Ingvarsdóttur. Útför Katrínar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. júlí 2015, kl. 15. Kvöldmaturinn er alveg að verða tilbúinn. Lítil, falleg, ljós- hærð stelpa skottast um í jarð- arberjapöllunum hjá ömmu og afa í Tröllagili. Setur hundasúr- ur á disk og bíður eftir að bóndinn komi heim. Koss á kinn. Fljótlega er farið að sofa. Nóttin er stutt, aðeins nokkur andartök. Kallinn kysstur áður en hann fer til vinnu. Vinni, vinni, vinn sagði hann og kom heim. Dagur að kveldi kominn. Margir dýrðardagar með þér, elsku Kata frænka og ekki leiddist systkinum og frænd- systkinum okkar að njósna um okkur þegar við lékum saman. Minningarnar brjótast fram. Oft sátum við í holunni við snúrurnar hennar ömmu Krist- ínar og fórum í ferðalög út í heim. Leikið í gömlu ónýtu bíl- unum sem voru í nágrenni Tröllagils. Veiðiferð í Skamma- dalslækinn, komið heim með nokkrar lækjarlontur sem Hadda mamma þín eldaði fyrir okkur. Í einni veiðiferðinni sem við fórum upp að Hafravatni braut ég veiðistöngina þína. Það fannst þér nú ekki vera neitt mál. Útilega fjölskyldna okkar. Ég fékk að sitja hjá þér í blöðruskódanum hans Tomma frænda. Þú kenndir mér að flétta þar sem við sátum hlið við hlið í skódanum. Aldrei bar skugga á vináttu okkar, hvorki fyrr né síðar. Endalaus vin- skapur og væntumþykja. Alla grunnskólagönguna fylgdumst við að. Sveitaböll, Hlégarður, Félagsgarður, Festi. Söngur – Lónlí blú bojs – Bronco ’66. Palli! Kata og Palli. Lífið ynd- islegt. Litli guli og hvíti bústaður- inn, Vík, varð ykkar heimili og minnisstætt er það þegar ég heimsótti ykkur þangað eftir að Fannar fæddist og það voru kornungir og stoltir foreldrar sem tóku á móti mér það kvöld- ið. Minningar og tár sem erfitt er að eiga við þegar ég hugsa til þín, frænka mín. Elsku Palli, Fannar, Bylgja og allir ættingjar og vinir, frá mínum hjartarótum votta ég ykkur mína dýpstu samúð við fráfall minnar elskulega frænku, Katrínar Tómasdóttur. Steinar Tómasson. Elskuleg frænka okkar og ættarmótsnefndarmeðlimur Brúarlandsfólksins, Katrín Tómasdóttir, er látin, svo allt of snemma og langt fyrir aldur fram. Þrátt fyrir náinn frændskap okkar allra voru kynni okkar ekki náin enda af stórri fjöl- skyldu komin. Þurfti ekkert okkar að hugsa sig tvisvar um þegar við vorum beðin um að taka við keflinu í ættarmóts- nefndinni. Kærkomið tækifæri til að hitta frændfólkið, hitta fjölskyldur hvert annars, heyra af börnum og jafnvel barna- börnum. Okkur var uppálagt að skipuleggja ættarmót 2011. Veturinn 2010- 2011 hittumst við nokkrum sinnum. Áttum ómetanlegar stundir saman. Kata var stútfull af hugmynd- um og algjör driffjöður í und- irbúningnum og ekki var Palli, hennar elskulegi eiginmaður, minna áhugasamur. Þau voru yndisleg heim að sækja. Mótið, sem var haldið að Varmalandi í Borgarfirði, heppnaðist vel og allt skipulag til fyrirmyndar. Næsta mót var ákveðið að fjórum árum liðnum eða núna í sumar en í millitíð- inni átti að vera eitt kaffimót. Kaffimótið var haldið í Fé- lagsgarði í Kjós sumarið 2013. Eins og áður vel heppnað og vel sótt. Þarna voru Kata og Palli enn og aftur drifkraftur- inn, í næsta nágrenni áttu þau sumarhús og var Kjósin þeirra annað heimili til margra ára. Í byrjun þessa árs reyndum við að ná saman til að undirbúa mótið í ár, einhverra hluta vegna náðum við ekki saman… kannski sem betur fór, mótið hefði átt að vera nýliðna helgi. Við hugsum til elsku Palla, Fannars og Bylgju og þeirra fjölskyldna, og Höddu og ekki síst til Tomma, frænda okkar allra, sem hefur látið velferð okkar allra sig varða. Tommi hefur tengst okkur frændsystk- inunum öllum sterkum bönd- um. Einstakt í svona stórum hópi. En það gerði Kata líka eins langt og hennar heilsa leyfði. Við hugsum líka til Bútta frænda, Ágústs, og hans fjölskyldu, sem eins og Tommi, hefur látið velferð okkar allra sig varða. Okkar innilegustu samúðar- kveðjur, elsku frændfólk, frá ættarmótsnefndinni, Karl Tómasson, Halldór Sighvatsson, Halldór Stefánsson, Guðbjörg Magnúsdóttir og Lárus Halldórsson. Katrín Tómasdóttir Elsku besta systir okkar, mágkona og frænka, SVANHILDUR ALBERTSDÓTTIR, Álfheimum 36, lést á Landspítalanum við Hringbraut fimmtudaginn 16. júlí. Útförin verður auglýst síðar. . Anna Margrét Albertsdóttir, Guðrún Albertsdóttir, Páll Björnsson, Elísabet Hildiþórsdóttir, María Hildiþórsdóttir, Birkir Pálsson, Hildur Pálsdóttir og fjölskyldur. Okkar ástkæra eiginkona, móðir, tengdamóðir og amma, ESTHER HELGA PÁLSDÓTTIR, Tómasarhaga 36, lést á Landspítalanum í Fossvogi föstudaginn 17. júlí. Esther verður jarðsungin frá Útskálakirkju, Garði, mánudaginn 27. júlí kl. 13. . Friðrik Friðriksson, Hanna Rut Friðriksdóttir, Eiríkur Þórðarson, Hanna Sveinsdóttir og barnabörn. Elskulegur faðir okkar, INGVAR SIGURJÓNSSON, lést á heimili sínu í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 15. júlí. Útförin fer fram frá Landakirkju laugardaginn 25. júlí kl. 14. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Kvenfélag Landakirkju. . Hólmfríður, Sigþór, Sigurlín Guðný, Sigurjón og fjölskyldur. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og amma, GERÐUR HAUKSDÓTTIR, Geldingaholti, Skagafirði, sem lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks föstudaginn 17. júlí, verður jarðsungin frá Sauðárkrókskirkju fimmtudaginn 23. júlí kl. 14. Aðstandendur þakka samúð og vinarhug. . Sigurlaug Dóra Ingimundard., Jóhann Gunnlaugsson, Eva Dögg Bergþórsd., Kristín Björg Emanúelsd., Ísak Hrafn Jóhannsson, Björk Diljá Jóhannsd. Okkar ástkæra og yndislega dóttir, stjúpdóttir, systir, unnusta og barnabarn, HANNA LÍSA, Strandgötu 8, Skagaströnd, varð bráðkvödd þann 13. júlí. Útför hennar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd föstudaginn 24. júlí kl. 14. Fyrir hönd aðstandenda, . Þorgerður Þóra Hlynsdóttir. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir og amma, MARGRÉT BJÖRNSDÓTTIR, Mýrargötu 18, Neskaupstað, andaðist á sjúkrahúsinu í Neskaupstað mánudaginn 13. júlí. Útförin fer fram frá Norðfjarðarkirkju föstudaginn 24. júlí kl. 14. . Már Sveinsson, Ingvar Másson, Kim McDonnell, Sigurður Másson, Arnfríður Ragnarsdóttir, Sveina María Másdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.