Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Síða 15
eru um að texti Stjórnar III hafi á sínum tíma einnig náð yfir fyrsta hluta
Mósebókanna, semsé þann hluta sem textinn í Stjórn I spannar.
Um þetta er margt gott að segja, en ef til vill hefur þó þessi sókn eftir
einni heildarskýringu á tilurð og þróun norrænna biblíuþýðinga á miðöld-
um bundið sjónarhorn okkar of mikið við uppruna textanna - minna hefur
verið hugað að dreifingu þeirra og viðtökum. Hverjum voru þessir textar
ætlaðir og hverjir brúkuðu þá? I annan stað má vera að heildarskýring ýti
of mikið undir þá hugmynd að biblíuþýðendur miðalda hafi haft svipaðar
hugmyndir um textaheild og við. Okkur nútímamönnum er tamt að líta á
biblíuna sem fasta stærð (jafnvel þótt við höfum kynnt okkur það hvernig
kanón hennar varð til) og hugsanlegt er að það liti um of sýn okkar á mið-
aldaþýðingarnar.
Biblíutextar á ýmsum bókum
Þegar hugað er að biblíuhandritum miðalda, hvort sem er á latínu eða þjóð-
tungum, kemur í ljós að þau geyma ekki endilega allar bækur biblíunnar.
Hlutabiblíur voru algengar, til dæmis handrit með Mósebókum eða handrit
með spámannabókunum, ýmist meiri spámennirnir, minni spámennirnir
eða hvorutveggja.11 Þegar horft er yfir handrit norrænna biblíutexta frá
því fyrir siðbreytingu, bæði Stjórnartexta og annarra, virðist hið sama vera
uppi á teningnum. Reyndar hamlar það yfirsýn að varðveislan er stundum
brotakennd, og ekki gott að segja hvaða textar gætu hafa staðið á þeim
bókum sem við höfum nú e.t.v. einungis blað eða blöð úr. Það kemur
engu að síður í ljós, að fyrir utan Stjórnarhandritin finnst efni úr Genesis í
brotinu AM 238 fol. XIX og brotið Stock. Perg. fol. 12 IV geymir texta úr
Exodus (4.19-7.16). I AM 764 4to er svo texti sem greinilega er byggður á
svipuðu efni. Um önnur Fimmbókarit er Stjórn ein til frásagnar. Af þessu
má draga þá varfærnislegu ályktun að meiri eftirspurn hafi hugsanlega
verið eftir frásögnum fyrstu Mósebókar og upphafs annarrar en öðru
efni Fimmbókaritanna. Hinar sögulegu bækur Gamla testamentisins eru
11 Hlutabiblíurnar voru í smærra broti en handritin sem höfðu alla ritninguna að geyma. Sjá um
þetta t.d. Richard Marsden, „The Old Testament in late Anglo-Saxon England: preliminary
observations on the textual evidence,“ The Early Medieval Bible. Its production, decoration and
use, ritstj. Richard Gameson (Cambridge: Cambridge University Press, 1994), 101-124.
13