Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Qupperneq 16
uppistaðan í Stjórn III en brot úr þeim er líka að finna í öðrum handritum.
Mesta útbreiðslu hafa þó Makkabeabækurnar fengið í lílci hinnar vinsælu
Gyðinga sögu sem varðveitt er í 21 handriti, þar af fimm skinnbókum
frá miðöldum.12 Ian Kirby gefur í riti sínu, Bible translation in Old Norsc
yfirlit yfir öll þekkt handrit sem geyma biblíutexta og sýnir vel brotakennda
varðveislu þessa efnis.13 En slíkt yfirlit dregur líka fram þá staðreynd, að
stóru skinnbækurnar 226 og 227 og afrit þeirra eru einu handritin þar sem
mögulegt er að sjá viðleitni til þess að mynda stór söfn með biblíutextum
- og þá þarf jafnframt að hafa í huga að fyrsti hluti þess safns, Stjórn I, getur
varla kallast eiginleg biblíuþýðing. I framhaldi af þessu þarf að vekja máls
á annarri staðreynd, sem er sú, að biblíutextarnir (ef við leyfum okkur að
nota orðið frjálslega) eru ekki endilega eina efnið á þessum bókum. Og þar
er komið að mjög áhugaverðu athugunarefni, nefnilega því samhengi sem
textarnir standa í í handritum. Tökum eitt aðalhandrit Stjórnar, AM 226
fol., sem dæmi. Það er eina handritið sem geymir alla þrjá hluta Stjórnar og
þess vegna mætti segja að 226 endurspegli betur en nokkurt annað handrit
Stjórnarútgáfu Ungers. Það er samt villandi að setja slíkt samasemmerki
milli prentuðu útgáfunnar og þessa handrits vegna þess að 226 geymir líka
aðra texta sem koma ekkert við sögu í útgáfunni. Þetta eru Alexanders saga,
Gyðinga saga og Rómverja saga. (Gyðinga saga er í rauninni að hálfu leyti
biblíuþýðing vegna þess að fyrsti hluti hennar er í stórum dráttum þýðing á
fyrri Makkabeabók.) Stjórnartextinn í 226 er þannig einungis hluti af stærri
heild sem er greinilega ætlað að segja veraldarsögu.14 Og vinsældir þessarar
tilteknu samsetningar má ráða af handritageymdinni, samkvæmt skrá Ians
Kirby eru enn til að minnsta kosti fimm handrit komin frá 226 þar sem
Stjórn er skrifuð upp ásamt einhverjum eða öllum hinna textanna.15
Veraldarsaga var líka á dagskrá hjá þeim skrifurum sem í kringum 1370
12 Kirsten Wolf (útg.), Gyíinga saga (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1995), xiii-xiv.
13 Biblíuefnið í AM 764 4to (Reynistaðarbók) hafði ekki verið dregið fram í dagsljósið þegar Kirby
vann sína rannsókn svo það vantar í yfirlit hans.
14 Á þetta hefur bent m.a. Stefanie Wúrth, Der „Antikenroman“ in der islandischen Literatur des
Mittelalters. Eine Untersuchung zur Obersetzung und Rezeption lateinischer Literatur im Norden.
Beitrage zur nordischen Philologie 26. (Basel und Frankfurt am Main: Helbing und Lichterhahn
Verlag, 1998), 139-148.
15 BL Add. 11238, MS Borealis 141, Adv. MS 21.2.6, TCD L.2.11, Lbs 371-373 4to, sbr. Kirby,
Bible translation in Old Norse, 124-125.
14
j